„Sjómannadagurinn 1947/ Kappróður í gamla daga“: Munur á milli breytinga
m (Viglundur færði Sjómaðurinn 1947/ Kappróður í gamla daga á Sjómannadagurinn 1947/ Kappróður í gamla daga) |
Ekkert breytingarágrip |
||
Lína 28: | Lína 28: | ||
Ég hét því þennan dag, að svona brjálæði skyldi ég aldrei oftar taka þátt í, ef ég mætti ráða, og það efndi ég, enda fór nú óðum að styttast til þess tíma, að vélarnar léttu þessu erfiði af mönnum. | Ég hét því þennan dag, að svona brjálæði skyldi ég aldrei oftar taka þátt í, ef ég mætti ráða, og það efndi ég, enda fór nú óðum að styttast til þess tíma, að vélarnar léttu þessu erfiði af mönnum. | ||
::::::::::::::::::''Þorst. Jónsson, Laufási | ::::::::::::::::::''Þorst. Jónsson, Laufási | ||
<center>[[Mynd:Höfnin úr lofti.JPG|ctr|500px]]</center> | |||
<center>Vestmannaeyjahöfn og umhverfi séð úr lofti. </center> | |||
{{Sjómannadagsblað Vestmannaeyja}} | {{Sjómannadagsblað Vestmannaeyja}} |
Núverandi breyting frá og með 13. janúar 2018 kl. 13:43
Eftir að farið var að nota lóð hér í Eyjum 1897, var kappið svo mikið að komast á beztu miðin, að farið var strax í vertíðarbyrjun að róa svo snemma að nærri stappaði kvöldróðrum, og geta víst flestir skilið, að það hefir verið erfitt og ónæðissamt að stunda hér róðra þá, paufast við þetta ljóslausir, (oftast þó lögð lóðin við kertalugt á næturna) í misjöfnu veðri á misjöfnum fleytum og misjafna skipshöfn, og þar sem menn þá eins og nú sóttu sjóinn af mismiklu kappi, hliðruðu margir sér við að róa fyrr en undir dögun og lentu svo með sínar lóðir ofan í hina, sem fyrr höfðu róið, og hlauzt af þessu hið mesta tjón, óvild á milli manna og margskonar glundroði, sem of langt yrði hér upp að telja.
Það var því árið 1901, að Eyjamenn sýndu þann þroska, á undan flestum öðrum hér á landi, að setja þau ákvæði inn í fiskveiðasamþykktina, að allir skyldu, að viðlögðum sektum, róa á sama tíma.
Þessi breyting, sem var alveg nauðsynleg, var í rauninni dauðadómur á hin gömlu og traustu vertíðarskip, sem hér höfðu verið í notkun í aldaraðir, vegna þess, hve erfið þau voru flest, undir árum, því nú var það hraðinn, sem gilti. Sá, sem var á undan, náði venjulega bezta staðnum, og var því lögð mikil áherzla á, að skipin gengju vel, en til þess þurfti góða ræðara.
Á handfæraskipunum var það álitinn bezti kostur sjómannsins að vera vel fiskinn, en nú var þetta breytt. Nú var sá mest eftirsóttur, sem fljótur var að leggja lóðina og þolinn og góður að róa.
Vegna þessara breyttu aðstæðna, sem hér hefir verið drepið lauslega á, voru menn nú sem óðast um þessar mundir, um og upp úr aldamótunum, að breyta skipum sínum, láta smíða stóra báta með færeysku lagi, og reið á vaðið með það hinn mikli sjósóknari og dugnaðarmaður Magnús Þórðarson í Sjólyst. Hann lét smíða sér vertíðarskip áttróið, sem hét ,,Fálki,“ að mig minnir aldamótaárið.
Svo það eru færeysku bátarnir, sem útrýma gömlu Eyjaskipunum að mestu, og svo vélbátarnir Færeyingunum algjörlega, og þessar byltingar eiga sér aðallega stað á 8—10 árum.
Þar sem kappróðrar eru það atriðið, sem mesta athygli vekur á sjómannadaginn, ætla ég að segja frá kappróðri, sem háður var vertíðina 1904 á milli skipshafna á „Ísafoldinni“, formaður með hana var hinn alkunni aflamaður Friðrik heitinn Svipmundsson, og ,,Fálkans“, formaður áðurgreindur Magnús Þórðarson í Sjólyst og „Ísaak“, formaður Þorsteinn Jónsson; tvö fyrnefndu skipin voru með færeysku lagi, en „Ísaak“ var smíðaður árið 1836, endurbyggður í sama lagi 1897. Af þessum skipum var „Ísafoldin“ stærst, og var hún stærsta skipið, sem smíðað var með færeysku lagi hér í Eyjum; hún var upphaflega tíróin, en nú var búið að setja á hana skutróður líka, þegar þessi kappróður átti sér stað, en það man ég, að hún þótti erfið, bæði á sjó og landi. Hve margir menn voru á henni man ég ekki, en að líkindum 18, á Ísaak vorum við 14 og á Fálkanum 15 menn. Á bæði þessi skip hafði verið settur skutróður, þó þau bæði væru upphaflega áttróin, en til þess að ná meiri hraða, var einnig róið í skutnum. Þó var ekki róið þar, nema þegar mikið þótti við liggja. Skutárarnar voru heldur styttri og grennri en hinar, þar sem skipin voru breiðari, enda skutræðarar aldrei eða sjaldan hvíldir. Þeir, sem réru í skutnum á Ísaak 1904, voru síðar hinn mikli formaður, Magnús heitinn Þórðarson frá Dal og Þorsteinn Johnson nú kaupmaður. Hann var yngstur háseti á Ísaak, en ekki eftirbátur hinna.
Við höfðum aflað vel á Ísaak, við Súlnaskersklakkinn í tvo daga, náðum bezta staðnum meðfram og innan við klakkinn og höfðum fullan hug á að ná lögninni einnig nú, en það höfðu einnig fleiri, eins og brátt kom í ljós.
Eins og vant var þá, og löngu síðar, var mikil þröng að komast út Leiðina, því skipin voru mörg og allir vildu vera fyrstir, og öllum reyndist þungur eftirróðurinn, en er út á Víkina kom, fóru skipin að dreifast, og er komið var dálítið suður með Urðum, voru skipin þrjú, sem á undan voru, og voru öll um það bil samhliða; þótt dimmt væri þekktust hin skipin fljótt, og voru þetta Fálkinn og Ísafoldin, mátti nú glöggt heyra ögrunar- og eggjunaróp, bæði á milli skipshafna
innbyrðis, og einnig kallaðar storkandi kveðjur milli skipa, því hljóðbært var í næturkyrrðinni.
Það hefur víst verið sama hugsunin, sem fyrir öllum vakti, að komast strax á undan, svo hinir gugnuðu; en þetta reyndist erfitt, því enginn vildi láta í minni pokann.
Alla leiðina var gangur skipanna svo jafn, að ekki mátti á milli sjá, þó mjökuðust þau á víxl 1—2 skipslengdir, hvert fram úr öðru, en þá hertu þeir sig, sem aftur úr drógust. Öll þau hvatningarorð sem íslenzkan er þó auðug af, voru notuð og svo mátti heyra: „Hertu þig, það gránar ekki á árinni hjá þér“, með viðeigandi áherzluorðum, Menn reittu af sér fötin, og vatnsílátið var alltaf á ferðinni, og það orðið ískyggilega létt, en ekkert dugði, skipin alltaf með sama millibili.
Svona gekk þetta þangað til komið var suður fyrir Hellisey, eða þangað sem við áður höfðum byrjað að leggja lóðina. Þá sagði ég, að nú yrðum við að fara að leggja, en þá kölluðu margir: „Ekkert að leggja lóðina, bara fram úr þeim.“
Ég sem formaður átti nú úr vöndu að ráða, annarsvegar aflavonin, ef við legðum lóðina þarna, en hins vegar bleyðiorð það, sem skipshöfn og hið góða skip mundi fá, ef við gæfumst fyrstir upp, og bar mér ekki sem formanni að halda heiðri okkar uppi? Jú, vissulega. Eins og nærri má geta, var nú orðið mjög af mönnum dregið. Menn voru nú ekki eins háværir og sigurreifir og þeir höfðu verið.
Það fór nú óðum að birta, og var það heldur ömurleg sjón, sem blasti við, grábleik andlit, og úttaugaðir líkamar, svo ég ákvað að hætta þessari vitleysu, þrátt fyrir ámæli það, sem ég bjóst við; því var það, er ég kom undir stýrið, þegar við vorum komnir suður fyrir Súlnasker, að ég beygði meira á stjórnborða (Ísaak var alltaf vestastur) og sagði hásetunum að hætta og var því samstundis hlýtt. Þá var eins og létti yfir öllum, þeir hinir voru einnig hættir, og aðstaða skipanna svipuð og hún hafði alltaf verið, svo árangurinn varð sá, að enginn sigraði og enginn tapaði, eða réttara sagt allir.
Eftir að menn höfðu svolítið jafnað sig og klætt sig í fötin, var farið að leggja, þótt aflavon væri þarna lítil. Það var ekki hátt risið á okkur fram eftir deginum; en það er svo með róðurinn, að hann reynir jafnar á allan líkamann, en öll önnur áreynsla, enda menn ótrúlega fljótir að jafna sig eftir erfiðan róður.
Þessu, sem hér er lýst, á við Ísaak og skipshöfn hans, en ég þykist vita, að það eigi einnig við hin skipin og skipshafnir þeirra.
Vegna þess að ég man ekki með vissu, hve langt við vorum komnir suður fyrir Súlnasker, þegar róðrinum var hætt, er ekki hægt að mæla með nákvæmni, hve langur spretturinn var, en hann er þó aldrei undir 18 kílómetrum. Suður að Súlnaskeri var þriggja stunda róður í logni, svo að ætla má, að á þriðja klukkutíma hafi þessi kappróður staðið.
Ég á ennþá róðratal frá þessum tíma og sýnir það, að 16. febrúar 1904 höfum við fengið 29 í hlut af þorski og löngu þann 17. 3. og þann 18. eða kappróðrardaginn 7 í hlut, ýsa ekki talin með, naumast álitinn fiskur þá, skipt var í 17 staði; lóðin var 7 bjóð og 6 strengir í bjóði, önglafjöldi rúm tvö þúsund.
Ég hét því þennan dag, að svona brjálæði skyldi ég aldrei oftar taka þátt í, ef ég mætti ráða, og það efndi ég, enda fór nú óðum að styttast til þess tíma, að vélarnar léttu þessu erfiði af mönnum.
- Þorst. Jónsson, Laufási