„Sögur og sagnir úr Vestmannaeyjum/Beri maðurinn í Vestmannaeyjum“: Munur á milli breytinga

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
m (Verndaði „Beri maðurinn í Vestmannaeyjum“ [edit=sysop:move=sysop])
 
(Enginn munur)

Núverandi breyting frá og með 8. júní 2012 kl. 16:50


Beri maðurinn í Vestmannaeyjum.


(Eftir sögn Guðmundar læknis Scheving)


Þorsteinn bóndi Jónsson bjó í Nýjabæ í Vestmannaeyjum. Hann var vel metinn maður og þingmaður þeirra eyjaskeggja langa lengi. Þorsteinn bóndi var trúmaður mikill og laus við hjátrú og myrkfælni lengst ævinnar, en seinna gekk hann þó úr skugga um, að eitthvað óhreint væri til, og er sú saga til þess, sem nú skal greina.
Í túnjaðrinum í Nýjabæ var kofi, sem hafður var fyrir hesthús. Krakkar, sem gengu fram hjá kofanum um kvöldtíma, þóttust stundum hafa séð allsnakinn mann í kofadyrunum, eða kringum hann, en orðum þeirra var enginn gaumur gefinn. Þó gekk sú saga, að einhvern tíma fyrir langa löngu hefði maður fyrirfarið sér í kofa þessum.
Þorsteinn var afbragðs skytta, og átti tvíhleypu, sem þótti mesta þing. Kvöld eitt í nóvember gekk hann austur á Urðir, sem svo eru nefndar. Þar liggja selir oft uppi í austanátt, og hugsaði Þorsteinn þeim þegjandi þörfina. Leið hans lá fram hjá kofanum. Það var glaða tunglskin. Þorsteinn sér, hvar ber maður gengur inn í kofann. Honum verður það fyrst að halda, að einhver þar í Eyjunum sé orðinn vitlaus og gengur inn í kofann. Það var albjart í kofanum af tunglsljósinu, en Þorsteinn sér samt engan. Allt í einu sér Þorsteinn, hvar handleggur kemur úr kofaveggnum og tifar framan í hann. Handleggurinn er dreginn inn að vörmu spori, en fótur kemur út úr veggnum. Fóturinn hverfur jafnskjótt aftur, en höfuð kemur út úr veggnum. Það var stórt nokkuð og nábleikt, hárið var stinnt og stóð í allar áttir. Augun ætluðu alveg út úr tóftunum, og bar mjög mikið á því hvíta. En það, sem Þorsteini þótti einna einkennilegast við andlitið, var munnurinn, því hann náði alveg út undir kjálkabörð. Og þarna gríndi þessi náungi framan í Þorstein, alveg eins og Þorsteinn væri eitthvert furðuverk. Þorsteini leizt ekki á blikuna en hélt samt enn, að hann væri einhverjum brögðum beittur. Hann skoraði á þessa veru að gefa sig fram, því annars myndi hann skjóta á hana. Honum er engu svarað, og Þorsteinn skýtur á andlitið. Þegar mesti púðurreykurinn er rokinn burt, sér Þorsteinn, að veggbúinn er kominn út úr veggnum niður fyrir herðar, og grínir nú hálfu meira en áður. Þorsteinn skýtur úr hinu hlaupinu, en þegar reykurinn minnkar, sér hann, að veggbúinn er kominn út úr veggnum niður að mitti. Hann baðar höndunum framan í Þorstein, og grínir nú hvað mest. Þorsteinn þykist nú vita, að þetta sé djöfullinn sjálfur, eða einhver af árum hans, en hugsar á þá leið, að ef guð sé með sér, þá komist djöfullinn ekkert með öll sín vélabrögð. Hann gengur rólega út úr kofanum og heim til sín, en þegar þar er komið, líður yfir hann hvað eftir annað.
Sögumaður minn segir, að Þorsteinn hafi sjálfur sagt sér sögu þessa, og hafi hann sérstaklega tekið fram, hvað draugurinn eða árinn hafi brosað djöfullega.
Ég hefi borið sögu þessa undir Gísla lækni Brynjólfsson og Lárus stúdent Árnason, sem báðir eru ættaðir úr Vestmannaeyjum. Gísli kannaðist alls ekki við söguna. Lárus sagði aftur, að Árni nokkur, bóndi þar í Eyjunum, hefði séð beran mann hjá kofa þessum, en ekki hafði hann heyrt söguna eins ýtarlega og Scheving sagði mér hana.
(Ólafur Davíðsson: Íslenzkar þjóðsögur, bls. 56—58).