Vilmundur Kristjánsson (Eyjarhólum)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Vilmundur Kristjánsson.

Vilmundur Bernharð Kristjánsson frá Stóru-Brekku í Fljótum í Skagafirði, sjómaður, vélstjóri, útgerðarmaður, síðar bóndi fæddist 6. mars 1901 á Einarsstöðum í Eyjafirði og lést 6. júní 1964 í Hafnarfirði.
Foreldrar hans voru Kristján Bjarnason bóndi á Stóru-Brekku, f. 11. júní 1869, d. 7. mars 1934, og kona hans Ása Ágústa Friðbjarnardóttir húsfreyja, f. 27. ágúst 1865, d. 24. ágúst 1945.

Vilmundur var með foreldrum sínum í æsku, á Einarsstöðum og flutti með þeim að Stóru-Brekku 1919.
Hann var vinnumaður hjá þeim 1920.
Vilmundur flutti til Eyja 1925, tók hið minna vélstjórapróf 1926 og mun einnig hafa tekið pungapróf. Hann eignaðist fjórðungshlut í v.b. Friðþjófi. Hann var vélstjóri eða stýrimaður á ýmsum bátum.
Einnig ráku þau Ingigerður nokkurn búskap á Eyjarhólum með kúm og hænsnum.
Vilmundur dvaldi í Færeyjum 1936-1937 og að sögn var hann að kenna Færeyingum netaveiðar.
Þau Ingigerður fluttu norður á Stóru-Brekku 1940 og ráku þar búskap ásamt tveim systkinum Vilmundar til 1943, en þá fluttu þau að Illugastöðum í sömu sveit og bjuggu þar til 1955.
Þau fluttu til Hafnarfjarðar. Vilmundur starfaði í Slippnum í Hafnarfirði til æviloka.
Þau Ingigerður kynntust í Eyjum, giftu sig 1927, eignuðust fjögur börn. Þau bjuggu í Ráðagerði við Skólaveg 19, á Hvoli við Heimagötu, Höfða við Hásteinsveg 21, en síðast á Eyjarhólum við Hásteinsveg 20.
Vilmundur lést 1964 og Ingigerður 1988.

I. Kona Vilmundar, (15. maí 1927 á Stóra-Hrauni í Árn.), var Ingigerður Guðnadóttir húsfreyja frá Sauðagerði í Stokkseyrarsókn, f. 6. janúar 1901, d. 31. október 1988 á Borgarspítalanum.
Börn þeirra:
1. Guðni Vilmundarson starfsmaður hjá Íslenska álfélaginu í Straumsvík, f. 16. desember 1926 í Ráðagerði. Kona hans Svava Gísladóttir.
2. Kristján Vilmundarson bifreiðastjóri í Reykjavík, f. 9. júní 1930 á Hvoli. Kona hans Erla Skagfjörð Jósefsdóttir.
3. Ásta Guðríður Vilmundardóttir húsfreyja í Hafnarfirði, f. 25. júlí 1931 á Eyjarhólum, d. 14. september 2006 á Landspítalanum. Maður hennar Guðmundur Guðmundsson, látinn.
4. Bernharð Guðjón Vilmundarson hjólbarðaviðgerðarmaður í Hafnarfirði, f. 23. september 1936 á Eyjarhólum, d. 21. nóvember 1978. Fyrrum kona hans Helga Haraldsdóttir. Kona hans Guðný Baldursdóttir.


Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Íslendingabók.is.
  • Prestþjónustubækur.
  • Skagfirskar æviskrár- Tímabilið 1910-1950. Umsjón og ritstjórn Hjalti Pálsson frá Hofi. Sögufélag Skagfirðinga, Sauðárkróki 2009.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.