Vilborg Andrésdóttir (Snæfelli)

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Vilborg Ingibjörg Andrésdóttir.

Vilborg Ingibjörg Andrésdóttir frá Snotrunesi á Borgarfirði eystra, húsfreyja fæddist þar 4. september 1924 og lést 13. ágúst 2009 í Hraunbúðum.
Foreldrar hennar voru Andrés Bjarni Björnsson bóndi á Nesi á Borgarfirði eystra, f. 10. september 1893 í Ássókn í Fellum, S.-Múl., d. 20. apríl 1974, og kona hans Valgerður Jónsdóttir frá Jökulsá á Borgarfirði eystra, húsfreyja, f. 29. október 1890, d. 18. júní 1967.

Vilborg var með foreldrum sínum.
Hún nam í Húsmæðraskólanum á Hallormsstað.
Vilborg tók þátt í öllum sveitarstörfum og var virk í félags- og íþróttamálum. Hún fór snemma að heiman og vann ýmis störf, m.a. á saumastofu og var stofustúlka hjá sr. Sveini Víkingi.
Þau Sigurvin giftu sig 1949, eignuðust þrjú börn. Þau bjuggu í Reykjavík, bjuggu á Borg í Bakkagerði á Borgarfirði eystra við skírn Andrésar 1949, en hann fæddist í Snotrunesi þar, og voru enn á Borg þar við fæðingu Ólafs Þórs 1951.
Þau fluttu til Eyja 1953, bjuggu á Hjalteyri við Vesturveg 13B við skírn Ásgeirs 1955, en á Snæfelli við Hvítingaveg 8 við Gos 1973. Síðar bjuggu þau við Foldahraun.
Vilborg vann af og til við fiskiðnað, vann afgreiðslustörf, en á síðari hluta starfsævi sinnar var hún matráðskona hjá Fiskiðjunni og hjá Sjúkrahúsinu.
Hún starfaði með Slysavarnafélaginu í Eyjum, var einn af stofnendum Austfirðingafélagsins í Eyjum, var gjaldkeri þess og heiðursfélagi frá 1991.
Vilborg fylgdist vel með sonum sínum, í fótboltanum frá morgni til kvölds á ýmsum sparkvöllum Eyjanna, í Lautinni, í Löngulág og á Spítalatúninu. Þarna hófst knattspyrnusaga yngri sonanna Ólafs Þórs og Ásgeirs, sem síðar urðu landsliðs- og atvinnumenn í knattspyrnu.
Hún dvaldi síðast í Hraunbúðum.
Sigurvin lést 1973 í Eyjum og Vilborg 2009.

I. Maður Vilborgar, (10. maí 1949), var Sigurvin Þorkelsson frá Skálholti í Ingjaldshólssókn á Snæfellsnesi, sjómaður, verkamaður, f. 21. desember 1922 á Hellissandi þar, d. 29. desember 1973.
Börn þeirra:
1. Andrés Bjarni Sigurvinsson kennari, bæjarfulltrúi, leikstjóri, framkvæmdastjóri, f. 17. júní 1949 í Snotrunesi í Borgarfirði eystra. Fyrrum kona hans Lovísa Matthíasdóttir. Kona hans Rebekka Sigríður Friðgeirsdóttir.
2. Ólafur Þór Sigurvinsson knattspyrnumaður, f. 8. apríl 1951 í Snotrunesi. Kona hans Margrét Þóra Guðmundsdóttir.
3. Ásgeir Sigurvinsson knattspyrnumaður, f. 8. maí 1955 í Eyjum. Kona hans Ásta Vilhelmína Guðmundsdóttir.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.