Tómas Klog

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Tómas Klog landlæknir að Nesi við Seltjörn fæddist 15. apríl 1768 í Eyjum og lézt 31. janúar 1824 í Nykjöbing á Falstri í Danmörku.
Foreldrar hans voru Hans Jensen Klog kaupmaður í Eyjum, síðar í Danmörku og kona hans Abelone Klog, fædd Holm, húsfreyja.

Börn Abelone og Hans Klogs hér:
1. Ingeborg Klog húsfreyja, f. 1766, d. 6. maí 1843 i Goslunde í Danmörku. Maður hennar Jorgen Borch.
2. Tómas Klog, sem varð landlæknir að Nesi við Seltjörn, fæddur 15. apríl 1768 í Eyjum og lézt 31. janúar 1824 í Nyköbing á Falstri. Hann var skipaður landlæknir 25. maí 1804 og veitt lausn 23. júní 1815. Kona hans Magdalene Sophie Klog, f. Jensen.
3. Karen Klog, f. 1769 í Eyjum. Maður hennar Soren Jorgensen Hee.
4. Jens verzlunarstjóri í Eyjum (1801), f. um 1778, d. 1811.
5. Anna Soffía, f. um 1778, á lífi 1860.


Tómas Klog útskrifaðist úr heimaskóla í Skálholti af Hannesi biskup Finnssyni. Hann var skráður í stúdentatölu í Hafnarháskóla 1785, útskrifaður með læknapróf þaðan 1804.
Tómas var yfirlæknir í sjóliði Dana 1794, var kandidat við hinn konunglega Friðriksspítala, varð skipslæknir 1795-1796.
Landlæknir á Íslandi var hann skipaður 25. maí 1804 og sat í Reykjavík til haustsins 1807, er hann fluttist að Nesi við Seltjörn. Hann hélt uppi læknakennslu.
Tómas Klog fékk lausn frá embætti 23. júní 1815 og var veitt embætti sem stiftslæknir á Lálandi og í Nýkjöbing í Danmörku og gegndi því starfi til dd. 1824.

Kona hans var Magdalene Sophie Klog, fædd Jensen, húsfreyja, skírð 23. febrúar 1779, d. 23. júlí 1854.
(Að mestu skráð eftir ritinu Læknar á Íslandi útg. 2000).


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.