Sveinlaug H. Sveinsdóttir (Kalmanstjörn)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Sveinlaug Halldóra Sveinsdóttir frá Kalmanstjörn, húsfreyja í Sandgerði fæddist 8. mars 1918 á Seyðisfirði og lést 29. janúar 1992.
Foreldrar hennar voru Þórunn Sigurðardóttir húsfreyja, f. 14. janúar 1889 í Jónshúsi, d. 22. nóvember 1948, og sambýlismaður hennar Sveinn Ottó Sigurðsson bátsformaður frá Seyðisfirði, f. 18. október 1891, drukknaði 31. júlí 1925.

Börn Þórunnar og Guðmundar Guðmundssonar Vestmanns:
1. Ólafur Guðmundsson Vestmann sjómaður, f. 25. desember 1906 á Strönd, d. 15. apríl 1970.
2. Ottó Guðmundsson Vestmann sjómaður á Fáskrúðsfirði, f. 10. október 1908 í London, d. 16. júní 1991.

Börn Þórunnar og Ottós Sveins Sigurðssonar á Seyðisfirði:
3. Sigurður Sveinsson, f. 25. janúar 1914, d. 27. nóvember 1914.
4. Sveinlaug Halldóra Sveinsdóttir húsfreyja í Sandgerði, f. 8. mars 1918, d. 29. janúar 1992.
5. Karólína Ágústa Sveinsdóttir húsfreyja á Kalmanstjörn, f. 19. nóvember 1919, d. 26. júní 1984.
6. Sveinbarn, f. 12. október 1921, d. 16. október 1921.

Sveinlaug var sjö ára er faðir hennar lést.
Hún fluttist með móður sinni og Ágústu systur sinni til Eyja 1927 og bjó með þeim í Byggðarholti á því ári, á Kalmanstjörn 1930.
Sveinlaug var með móður sinni bústýru hjá Vilhjálmi Guðmundssyni sjómanni, vélstjóra í Sigtúni 1934, en hann var leigjandi á Kalmanstjörn hjá Þórunni 1930.
Sveinlaug var í vist í Reykjavík, fluttist til Sandgerðis um tvítugt, var þar ráðskona í verbúð.
Þau Pétur Hafsteinn stofnuðu til hjúskapar, eignuðust sex börn, en eitt þeirra dó í fæðingunni.
Þau reistu hús að Suðurgötu 26 í Sandgerði og bjuggu þar um árabil, en fluttu síðar að Hjallagötu 4, þar sem þau bjuggu meðan bæði lifðu.
Þegar um hægðist vann Sveinlaug utan heimilis. Hún var matráðskona á ýmsum stöðum, m.a. í sumarbúðum þjóðkirkjunnar í Reykjakoti við Hveragerði í 10 sumur, einnig vann hún við fiskvinnslu.
Sveinlaug starfaði einnig mikið að félagsmálum, einkum í slysavarnadeildinni Sigurvon, en mest þó í kvenfélaginu Hvöt, en hún var einn af stofnfélögum félagsins árið 1945. Í Hvöt beitti hún sér mjög fyrir stofnun minningarsjóðs um Finnbjörgu Sigurðardóttur frá Felli í Sandgerði, sem komið var á fót 1953. Annaðist Sveinlaug fjárreiður sjóðsins til dauðadags. Sjóðurinn hefur gefið sjúkrahúsinu í Keflavík margar gjafir.
Sveinlaugu var ýmiss sómi sýndur, m.a. var hún sæmd heiðursorðu sjómannadagsins árið 1975. Henni var falið að afhjúpa minnisvarðann Álög, sem reistur var við þjóðveginn þar sem ekið er inn í Sandgerði. Minnisvarðinn var reistur í tilefni af 100 ára afmæli Miðneshrepps.
Sveinlaug Halldóra lést 1992.

I. Maður Sveinlaugar var Pétur Hafsteinn Björnsson frá Tjarnarkoti í Hvalsnessókn, vélstjóri, f. 21. júlí 1918 í Laufási í Sandgerði, d. 28. janúar 2009.
Börn þeirra:
1. Guðbjörg Birna Hafsteins Pétursdóttir húsfreyja, talsímavörður á Stöðvarfirði, f. 24. desember 1940, d. 16. mars 1992. Maður hennar Björn Kristjánsson.
2. Sveindís Þórunn Hafsteins Pétursdóttir húsfreyja, f. 1. janúar 1942. Maður hennar Ágúst G. Einarsson.
3. Sigurður Rósant Pétursson, f. 28. maí 1944. Kona hans Guðný Edda Magnúsdóttir.
4. Jóhanna Sigurrós Hafsteins Pétursdóttir húsfreyja, f. 8. nóvember 1948. Maður hennar Níels Karlsson.
5. Anna Marý Hafsteins Pétursdóttir, f. 4. desember 1955. Maður hennar Guðmundur Jens Knútsson.
6. Barn, sem dó í fæðingunni.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.