Steindór Sigurðsson (prentari)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Páll Steindór Sigurðsson frá Kýrholti í Viðvíkursveit í Skagafirði, prentari, rithöfundur fæddist þar 30. nóvember 1901 og lést 21. janúar 1949 í Reykjavík.
Foreldrar hans voru Sigurður Jónsson vinnumaður á Melum í Svarfaðardal, Eyj., f. 22. júní 1861, d. 23. nóvember 1938, og Sigfríður Sigurðardóttir, f. 10. mars 1868, d. 30. október 1924.

Steindór var með föður sínum, í Sviðningi í Hólasókn í Skagafirði 1910.
Hann hóf prentnám á Siglufirði 1916, fluttist til Akureyrar um haustið og hélt áfram námi í Prentsmiðju Björns Jónssonar. Hann réðst til Félagsprentsmiðjunnar í Reykjavík haustið 1919. Steindór hélt til Kaupmannahafnar að óloknu námi, vann þar í prentsmiðju Carls Bryrups 1921 og fram í október 1922. Hann fór heim, vann á Seyðisfirði frá hausti 1922 fram í júní 1923. Steindór vann svo ekki við prentstörf fyrr en hjá Hallgrími Benediktssyni á Bergstaðastræti 19 um tíma haustið 1928.
Hann flutti til Eyja og rak þar prentsmiðju 1928-1930, leigði hana fyrst, en eignaðist hana og rak 1929-1930. Hann fékkst síðan ekki við prentstörf fyrr en hann vann hjá Víkingsprenti í 1-2 mánuði 1936.
Steindór fékkst síðan við ritstörf.
Eftir hann liggja bækur og blaðaskrif, t.d.
1. Dranginn. (ævintýri í ljóðum), 1919.
2. Ungar vonir (ljóð), 1919.
3. Rökkurljóð, 1922.
4. Hugrún, tímarit (með Kristmanni Guðmundssyni), 1923.
5. Skóhljóð, í Eyjum 1930.
6. Undirheimar Reykjavíkur og eftir miðnætti á Hótel Borg, 1930.
7. Háborg Íslenskrar menningar, 1935.
8. Söngvar og kvæði (handritsútgáfa), 1937.
9. Við lifum eitt sumar (ljóð), 1941.
10. Meðal manna og dýra (sögur), 1943.
11. Opið bréf, 1944.
12. Mansöngur og minningar (ljóð), 1945.
13. Einn helsingi I (ritgerðasafn), 1946.
14. Ég elska þig (óbundið ljóðmál), 1947.
15. Eitt og annað um menn og kynni (æviannáll), 1948.
16. Leyndardómur Reykjavíkur I-II, 1932-1934 (skálsaga undir dulnefninu Valentínus).
Auk þess ýmsar þýðingar og ritgerðir í blöðum og tímaritum. Þau Helga giftu sig 1929, eignuðust eitt barn saman, en Helga átti barn áður, ófeðrað. Þau bjuggu í Arnarholti við Vestmannabraut 24.
Helga lést 1931.
Steindór lést 1949 á Kristneshæli.

I. Kona Steindórs, (5. október 1929), var Helga Sigurðardóttir frá Arnarholti, húsfreyja, f. 17. júní 1907, d. 12. júlí 1931.
Barn þeirra:
1. Sigurður Sigurðsson skósmíðameistari í Hafnarfirði, f. 17. desember 1930, d. 19. júlí 1999. Kona hans Guðbjörg Kristjánsdóttir sjúkraliði, f. 27. júní 1933 á Siglufirði.
Barn Helgu:
2. Dóra Sigurðar húsfreyja, ræstingastjóri, f. 12. nóvember 1925. Hún bjó í Ohio í Bandaríkjunum. Maður hennar var Wilbur Fulton jarðýtustjóri, f. 13. september 1919.


Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Bókagerðarmenn frá upphafi prentlistar á Íslandi. Svanur Jóhannesson, Ari Gíslason, Sverrir Marinósson. Bókbindarafélag Íslands, Hið íslenska prentarafélag, Grafíska sveinafélagið, 1976.
  • Íslendingabók.
  • Manntöl.
  • Prestþjónustubækur.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.