Sjómannadgsblað Vestmannaeyja 1978/ Verðlaunagripir
Í júnímánuði 1976 barst sjómannadagsráði bréf frá þeim hjónum, Sigríði Sigurðardóttur frá Skuld og Ingólfi Theódórssyni, netagerðarmeistara, þar sem þau tilkynna, að þau hafi ákveðið að gefa verðlaunagripi, eins og fram kemur í bréfi þeirra, sem hér fer á eftir. Bréfið er svohljóðandi:
Vestmannaeyjum 12. júní 1976.
Sjómannadagsráð Vestmannaeyja, Vestmannaeyjum.
Við undirrituð höfum ákveðið að gefa Sjómannadagsráði verðlaunagrip til verðlaunaveitinga handa bát að stærðinni upp að 150 tonnum, sem aflar sinn afla að mestum hluta í troll. Ennfremur annað handa þeim, sem eru yfir 150 tonn.
Miðað verður við aflaverðmæti og fyrst afhent á Sjómannadegi 1977.
Nánar í reglugerð, sem mun fylgja.
Samkvæmt bréfi þessu er um ný verðlaun að ræða, sem hafa ekki verið veitt áður, og er Sjómannadagsráð þakklátt þeim hjónum fyrir þetta viðvik.
Því miður tókst ekki að veita umrædd verðlaun á Sjómannadegi 1977, eins og gert er ráð fyrir í bréfi gefenda, en verðlaunaveitingin mun fara fram á Sjómannadegi 1978 í fyrsta sinn. Hefur reglugerð nú verið samin og gripir fengnir. Birtist hún hér í blaðinu og er í tvennu lagi, annars vegar fyrir afla báta yfir 200 lestir, hinsvegar báta allt að 200 lestum. Í gjafabréfinu er að vísu gert ráð fyrir stærðarmörkunum 150 tonn, en því hefur verið breytt í reglugerðinni, sem fer hér á eftir.
Reglugerð fyrir skip 200 lesta og meira.
Þessi líking af vita skal vera farandverðlaunastykki handa skipi yfir 200 lestir, sem er skráð í Vestmannaeyjum og fær mesta heildaraflaverðmæti í togveiðarfæri síðastliðins árs, þ.e. frá 1/1 til 31/12.
Skipstjóri skipsins skal eiga lögheimili í Vestmannaeyjum það ár, sem verðlaun eru veitt fyrir.
Vestmannaeyjum 11/5 1978
Sigríður Sigurðardóttir, Ingólfur Theódórsson.
Reglugerð fyrir togskip að 200 brúttólestum.
Þessi líking af radar á að vera farandverðlaunastykki handa báti; skráðum í Vestmannaeyjum, allt að 200 lesta, sem er með mesta heildaraflaverðmæti síðastliðins árs, þ.e. frá 1/1 til 31/12. Af því skal minnst 75% vera fengið í togveiðarfæri.
Skipstjóri bátsins skal eiga lögheimili í Vestmannaeyjum á því ári, sem verðlaunin eru veitt fyrir.
Vestmannaeyjum 11/5 1978
Sigríður Sigurðardóttir, Ingólfur Theódórsson.