Sjómannadagurinn 1947/ Guðjón á Heiði

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search


Guðjón á Heiði


Sjómannadagurinn heiðrar hetjuna


Guðjón Jónsson á Heiði

Sú hefir verið venja að velja heiðursgesti á sjómannadaginn í Eyjum. Heiðursgestur úr hópi formanna í ár er Guðjón Jónsson á Heiði. Hann er elzti formaðurinn, bæði að árum og vertíðum, sem hér stýrði skipi síðastliðna vertíð.
Guðjón er fæddur í Indriðakoti í Vestur-Eyjafjallahreppi 18. mai 1882 og því réttra 65 ára nú.
Fyrstu ferð sína í verið fór hann 14 ára, var þá sendur með fjárrekstrarmönnum um haust og var ferðinni heitið suður á Miðnes, en þar átti Guðjón að vera matvinnungur. Tíð var stirð um haustið og voru 4 eða 5 róðrar. Fannst Guðjóni, að tæplega mundi hann vinna fyrir matnum og tóku þeir sig saman, hann og annar piltur rúmu ári eldri, um að leggja land undir fót og löbbuðu þeir austur undir Eyjafjöll um jólaleytið. Árið 1897 réri Guðjón í Grindavík, en árið eftir réri hann með Friðrik í Gröf hér í Eyjum og var hann með honum í þrjár vertíðir.
Árið 1906 eignaðist Guðjón ¹/5 hluta í vélbátnum Portland og var þar háseti til 1910, en tók þá við formennsku á þeim bát. Guðjóni líkaði ekki, hvernig gekk hjá sér þessa vertíð og sleppti formennsku á bátnum og ætlaði sér aldrei framar að stjórna fiskibát. Næstu tvær vertíðir var hann með Friðriki á Löndum, en 1913 tók hann, þrátt fyrir allt við formennsku á Friðþjófi af Friðrik á Löndum og hefir verið formaður síðan í þrjátíu og fimm ár. Ekki gerir Guðjón mikið úr því, að hann hafi komizt í hann krappann, helzt ætti það þá að hafa verið einu sinni í heyflutningum, er bátur sökk undir þeim og einn maður drukknaði, en Guðjón hrakti á rekaldinu fullu af sjó í hart nær 2 tíma, unz honum var bjargað, en ekki var meira af karli dregið en svo, að í heyútskipunina fór hann aftur, en vænt segir hann, að sér hafi þótt um brennivínslöggina frá Sigga á Lögbergi í þetta sinn.
Aldrei hefir Guðjón misst mann alla sína formannstíð og engin teljandi óhöpp hent, en hitt vita allir, að svalksamt hefir oft verið hjá honum, bæði í útilegum hér við Eyjar og á ferðum fyrir Norður- og Vesturlandi að haustlagi í sambandi við reknetjaveiðar, en Guðjón kallar ekki allt ömmu sína. Kempulegri mann á velli en Guðjón getur ekki og finnst mörgum hann minna á hugmyndir sínar um fornmenn. Harður í horn að taka er karlinn þegar við á, en barngóður með afbrigðum og talar það sínu máli.


ctr
Frá Vestmannaeyjahöfn
Daginn, sem myndin var tekin á vertíðinni 1947, voru 55 aðkomuskip í höfninni.


{Sjómannadagsblað Vestmannaeyja}}