Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2007/Slysið á ytri höfninni 26. janúar 1923
Eftirfarandi frásögn er skráð fyrir gos eftir handriti Alfreðs Þorgrímssonar, sonar Þorgríms Guðmundssonar og sýnir hverjir erfiðleikar og vos fylgdu oft upp- og útskipunum í skip sem lágu fyrir akkeri úti á Vík eða undir Eiðinu. - GAE
Árið 1923 að morgni 26. janúar var Þorgrímur Guðmundsson í Húsadal á upp skipunarbát ásamt tveim vinnufélögum sínum, þeim Gústafi Pálssyni í Breiðholti og Sigurði Þorleifssyni í Hruna við afgreiðslu á s/s Siríusi, skipi Bergenska gufuskipafélagsins sem lá við festar á Víkinni. Gott veður var, hæglætis austan kaldi og fremur lítill sjór.
Þeir félagar voru í bátnum við skipshliðina og var verið að setja í hann fullar kjöttunnur. Nokkrum tómum tunnum var að síðustu bætt ofan á er búið var að ferma bátinn.
Þannig stóð á að dráttarbáturinn var staddur inni við bryggju og mun hafa verið um það bil að leggja af stað út með tóman uppskipunarbát.
Venjan var sú í þessari skipavinnu að beðið var við skipshliðina eftir dráttarbátnum en hvort tveggja var, að báturinn var allhlaðinn og þungur og var því ekki gott að hann stuðaði um of við skipshliðina og svo var hitt að veðrið var allgott. Var því sú ákvörðun tekin af bátsverjum að róa áleiðis til hafnar á móti dráttarbátnum. Er sleppa skyldi bátnum kom farþegi sem var með skipinu og óskaði eftir að fá far með bátnum í land og var það auðsótt mál. Maður þessi mun hafa heitið Maron.
Þegar þeir voru komnir góðan kipp frá skipinu urðu bátsverjar varir við óeðlilegan mikinn leka á bátnum og ágerðist hann svo ört að við ekkert var ráðið, þótt ausið væri með fötum í báðum endum bátsins og sökk hann þarna á örfáum mínútum.
Um það bil er báturinn var að hverfa í djúpið hafði Þorgrímur orð á því við félaga sína, að ráðlegt væri að þeir tækju sér tómar tunnur til þess að fleyta sér á og var það gert. En vegna sogsins er myndaðist þegar báturinn sökk munu allir nema Sigurður hafa misst af tunnunum. Fljótlega náði Þorgrímur í árabrot og hélt sér uppi á því þar til hjálp barst.
Frá skipinu sást slysið og sendu skipverjar með eimflautunni neyðarboð í land. Á þeirri stundu var dráttarbáturinn á leið út úr höfninni með uppskipunarbát í togi. Er bátsverjar á dráttarbátnum heyrðu neyðarmerki frá Siríusi slepptu þeir bátnum og flýttu för sinni er mest þeir máttu út á Víkina. Er á slysstaðinn kom sáust aðeins tveir menn á floti. Lagt var fyrst að Þorgrími, hann var annar þeirra sem sást á floti. Er verið var að innbyrða hann var gripið fast um fætur Þorgríms, var þar kominn farþeginn Maron.
[[Mynd:Síríus skip Bergenska Sdbl. 2007.jpg|miðja|thumb|450x450dp|SIRIUS, skip Bergenska gufuskipafélagsins
Norska skipafélagið „Det Bergenske Dampskipbsselskab“ í Björgvin (Bergen) í Noregi hóf áœtlunarsiglingar til Íslands i júli árið 1919. Skipafélagið var aldrei kallað annað en Bergenska og var umboðsmaður þess Nicolai Bjarnason í Reykjavík. Bergenska hóf Íslandsferðir með skipi sem hét Kora.
Árið 1921 setti Bergenska Sírius sem var stærra skip i Íslandssiglingarnar. Skip Bergenska fluttu í fyrstu að mestu vörur en þó alltaf einhverja farþega. Árið 1922 hóf félagið markaðsátak og tilkynnti lægri fargjöld en önnur skipafélög í Íslandssiglingum buðu. Farið á mili Björgvinjar og Reykjavíkur kostaði 150 krónur á fyrsta farrrými og 100 krónur á 2. farrými. Árið 1925 tók Bergenska i notkun tvö ný skip, Lyru og Novu, sem voru að góðu þekkt hér um allt land fram í seinni heimsstyrjöldina, en Noregur var hernuminn 9. apríl 1940. Lyra var farþegaskip og heldur stærra en gamli Gullfoss, en Nova var flutningaskip. Lyra fór frá Björgvin annan hvern fimmtudag kl. tíu að kvöldi, hafði viðkomu í Fœreyjum og Vestmannaeyjum og var komin til Reykjavíkur á þriájudagsmorgni eftir fjóran og hálfan sólarhring frá Björgvin. Lyra fór frá Reykjavík kl. sex að kvöldi fimmtudags og átti að koma til Björgvinjar siðdegis á mánudegi. Á útleið kom Lyra einnig við i Vestmannaeyjum og Fœreyjum. Nova fór hins vegar frá Osló um Björgvin til Fáskrúðsfjarðar og þaðan norður um land til Reykjavikur og sömu leið til baka. Kom skipið við á fjölda hafna á þessari leið. - (Heimild: Heimir Þorleifsson: Póstsaga Íslands 1873-1935. útg. íslandspóstur 2004).
Strax er búið var að innbyrða þá Þorgrím og Maron var lagt að Sigurði og hann einnig innbyrtur. Hann hafði haldið sér á tunnunni allan tímann, en fjórði maðurinn Gústaf fannst ekki þrátt fyrir mikla og langa leit á slysstaðnum.