Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2007/Skipstjórnarmenn
Æviskrár og sögulegt efni um íslenska skipstjórnarmenn
Í desember sl. kom út 1. bindið af ritverkinu Skipstjómarmenn. Æviskrár og sögulegt efni um íslenska skipstjórnarmenn Samtals verða bækurnar 6 og mun 2. bindið koma út núna í þessum mánuði. Þau fjögur sem þá verða óútkomin, koma síðan út með 6 mánaða millibili. Í ritverkinu verða æviskrár rúmlega 7000 íslenskra skipstjórnarmanna frá dögum þilskipaútgerðar til ársins 2006.
Í 1. bindinu, sem er 640 blaðsíður, eru nöfn manna frá Adólfi til Egils og það prýða 2800 ljósmyndir. Eins og kemur fram í heiti bókarinnar, eru þetta ekki bara æviskrár, heldur að auki sögulegt efni um íslenska skipstjórnarmenn. Um leið og ævi skipstjórnarmannanna er sögð, er mikill fróðleikur um fiskveiðar og útgerð í heila öld á Íslandsmiðum. Auk mynda af skipstjórnarmönnunum er þarna fjöldi mynda af skipum sem þeir hafa verið á.Einnig myndir teknar um borð við hinar ýmsu veiðar fyrr og síðar.
Það er samdóma álit þeirra sem séð hafa þetta verk að þarna sé um einstakt stórvirki að ræða þar sem íslenskum skipstjórnarmönnum og íslenskum sjávarútvegi sé mikill sómi sýndur.
Ritstjóri verksins er Þorsteinn Jónsson og hefur hann unnið að útgáfunni sl. 10 ár. Má segja að þar sé um mikið afrek að ræða.
Í inngangi segir hann m.a.: „Mikið átak hefur verið gert til að safna saman ljósmyndum sem tengjast lífi og starfi skipstjórnarmanna. Sérstaklega hefur verið leitað eftir myndum af skipunum sem þeir stýrðu, vinnu um borð, karlinum í brúnni, áhafnarmyndum svo eitthvað sé nefnt sem tengist stéttinni. Þegar 1. bindi þessa ritverks er fylgt úr hlaði, hafa tæplega tvö hundruð þúsund ljósmyndir verið skannaðar á tölvutækt form og skráðar.
Leitað hefur verið til fjölda ljósmyndara um samvinnu við þessa gagnaöflun og hafa allflestir gengið til liðs við útgáfuna, eða um sextíu ljósmyndarar. Flestar myndirnar hafa verið unnar eftir frumfilmum til að tryggja sem mest gæði. En sem betur fer, hafa skipstjórar og aðstandendur þeirra ekki látið sitt eftir liggja og lagt til verulegt magn af ljósmyndakópíum. Sumir skipstjórnarmenn hafa sjálfir tekið myndir á sjónum, sem í mörgum tilfellum hafa reynst hinir mestu gullmolar.
Söfnunar - skönnunar - og skráningarferlið var býsna tímafrekt og tók um tvö ár að undirbúa efnið svo að hægt væri að tengja það við æviskrárnar. Margir heimildarmenn hafa lagt myndskráningunni lið og eiga þeir allir bestu þakkir skyldar. Einn er þó sá maður sem öðrum fremur hefúr verið þaulsetinn við skráninguna og leyst þar ótrúlegustu gátur, en það er Gísli Eyjólfsson, stýrimaður úr Vestmannaeyjum. Eftir að hafa setið daglangt og rýnt í myndir, tók hann gjarnan óleyst skráningar vandamál með sér heim að kvöldi og jafnan hafði hann leyst þau að morgni. Gísla og öðrum heimildarmönnum á ég skuld að gjalda.“
Og síðar. „Prófarkir hafa Þorkell Örn Ólason og Guðjón Ármann Eyjólfsson lesið af mikilli kostgæfni. Skipstjórarnir Hilmar Snorrason og Þorsteinn Gíslason svo og vinur minn, rithöfundurinn, Ólafur Haukur Símonarson hafa bent á ýmislegt í ritinu sem betur mátti fara og færi ég þeim bestu þakkir.“
Héðan frá Eyjum hefur útgáfan fengið mikið magn ljósmynda. Ljósmyndararnir Sigurgeir Jónasson og Heiðar Marteinsson, stýrimaður, búsettur hér í mörg ár og stundaði þá sjó, hafa lagt til mikinn fjölda mynda. Tryggvi, heitinn, Gunnarsson, vélstjóri, og sonarsonur hans Tryggvi Sigurðsson, vélstjóri og líkanasmiður, hafa líka lagt útgáfunni til fjölda mynda. Samtals hafa þessir fjórir menn lagt til um sextíu þúsund myndir. Sameiginlegt þeim öllum er að þeir hafa notað góðar filmur svo að myndirnar þeirra koma vel út skannaðar. Þeir hafa líka allir haft næmt auga fyrir myndefninu hverju sinni svo flest fer saman til þess að góður árangur hefur náðst. Það er mikilsvert að fá myndir þessara manna í verkið Skipstjórnarmenn. Þannig njóta þeirra sem flestir og þær verða almenningseign í þessu stórglæsilega ritverki.