Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2006/Kojuvaktin

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Kojuvaktin




Í blaðinu Ísafold frá 1905 er eftirfarandi frétt frá Vestmannaeyjum:

Vestmannaeyjum 4. október.
Mestur hiti í júlímán. var 5. 17,5°, minnstur aðfararnótt 29. 3,8°. En í ágústm. var mestur hiti 8. 16,9°, minnstur aðfaranótt 19. 2,6 °. Loks í sept-ember mestur hiti 9. 13,5 °, minnstur aðfararnótt 12. 2,0 °. Úrkoma í þessum mánuðum var 80, 33 og 163 millimetrar.
Síðari hluti júlím. og allur ágústm. var mjög þurrviðrasamur en í september lítið um þerridaga. Yfir höfuð var sumarið hér fremur heitt og góðviðrasamt í júlí og ágúst. Heyannir gengu því vel og engin tugga hraktist. Fuglatekja bæði af lunda og fýlunga var með besta móti. Uppskera úr matjurtagörðum var hjá flestum í betra lagi. Fiskafli er ekki teljandi enda sjósókn lítið stunduð sakir annarra starfa. Heilbrigði mjög góð.

Og í Ísafold eftirfarandi 24. mars 1906:

Í Vestmannaeyjum um daginn ritar tíðindamaður Ísafoldar 18. þ.m.
Hinn 12. þ. mán. reri meirihluti skipa hér í norðaustan stormi og 10° frosti. Sumir lögðu ekki lóðir, aðrir misstu meira og minna af lóðum. Fáeinir bátar fóru suður úr beint undan storminum, var þar talin mest fiskivon. Síðari hluta dags vantaði 2-3 skip að sunnan, vindur lítt drægur, en ef menn þreyttu beitisiglingu til að ná lendingu sinni, eða yrðu að liggja úti undir eyjum í þeim gaddi, mátti búast við að þá mundi kala til stórskemmda.
Botnvörpungur, að nafni Helios, skipstjóri James Byrenes, frá Grimsby, lá hér á Víkinni, hinn sami, maður sem bjargaði skipshöfn hér 5. apríl 1904. Hann var beðinn um að líta eftir skipunum sem vantaði. Hann varð fúslega við þeim tilmælum. Tveir ísl. menn voru sendir með honum, annar sem túlkur. Hér langt suður með landi mætti hann skipinu Fálka, form. Magnús Þórðarson í Sjólyst, nær hlöðnu af fiski og klaka, og bauð aðstoð sína, sem var þegin. Var svo festi látin í skipið. Skipstjóri hafði viljað taka nokkuð af fiskinum upp á þilfar, þar sem honum mun hafa virst ísl. skipið of þungað en hinir héldu að öllu væri óhætt, var skipið því ekki létt. Var svo haldið með hægri ferð heim með og fór allt vel í fyrstu en svo komu 3 stórar vindkvikur, sem allar óðu yfir skipið og sökk það þá og hvolfdi. Tókst Englendingunum með dugnaði að bjarga 6 mönnum, sem hengu á festinni, 3 af kili en einum af siglutrjánum, alls 10 en 4 drukknuðu.
Þeir sem drukknuðu voru Högni Amas, frá Görðum í Mýrdal, Ísleifur Jónsson frá Skálholti, efnismenn um tvítugt. Ólafur Helgason frá Norðfirði eystri á fertugsaldri og Sigurður Sigurðsson lausamaður frá Túni hér á Eyju á fimmtugsaldri.
Englendingar hjúkruðu mönnunum, sem þeir höfðu bjargað, eftir bestu föngum og skipstjóri hafði tekið sér þetta sorglega slys mjög nærri og sagt að hann skyldi eigi framar draga skip á eftir sér nema að fólkið færi fyrst upp á þilfar.
Annar botnvörpungur fann íslenska skipið daginn eftir og kom með það að morgni þess 14. lítið skemmt. Auðvitað voru lóðir, segl, árar og flest lauslegt týnt úr því.
[[Þorsteinn Jónsson| í Laufási minnist á þetta slys í bók sinni Formannsævi í Eyjum á bls. 122: „Ég þekkti skipstjórann á þessum togara. Hann dáðist mikið að framkomu Friðriks Benónýssonar frá Gröf við þetta tækifæri. Hann átti þess kost að verða bjargað með þeim fyrstu, en sagði: „Bjargið hinum á undan mér.“ Var Friðrik þó annað veifið í kafi í sjónum. Sagði enski skipstjórinn, að svona framkomu héldi hann að enginn Englendingur hefði sýnt undir slíkum atvikum.“

Og í Ísafold 24. mars 1906 var einnig eftirfarandi:
Vestmannaeyjum 20. mars; mestur hiti í janúarm. 2. 8,3 °; minnstur aðfararnótt hins 27. 5,3°. Febrúar; mestur hiti 5. 7°, minnstur aðfaranótt hins 9. -13°. Úrkoma í janúar 216, í febrúar 132 millimetrar. Veðráttan var í báðum mánuðunum ákaflega storma - og umhleypingasöm, snjókoma aldrei þó mikil. Hörð frost voru frá 7. til 13. febrúar. Einnig hafa verið nær einlæg frost það sem af þessum mánuði mest aðfararnótt 13. -12°.
Þessi vertíð hefur það sem af er, verið einhver hin bágbornasta sakir gæftaleysis. Heldur hefur enn engin fiskgengd komið. Fyrir fáum dögum kom mikið loðnuhlaup undir Sandi (Landeyjarsandi) og talsverður fiskur með en slík hlaup eru oft horfin daginn eftir því loðnan er á ferð og flugi. Hlutir eru hér almennt á 2. hundrað, 1 - 2 yfir 2 hundruð. Og einnig í þessari frétt
Heilbrigði hefur verið fremur góð. Lungnabólga hefur þó stungið sér niður. Hafa dáið úr henni 2 konur, giftar, Ingibjörg Sigurðardóttir í Batavíu á sextugsaldri og Elín Sigurðardóttir í Ólafshúsum, fertug myndarkona, frá 4 börnum. Nú eru öll áhöld komin í nýja spítalann svo ekki vantar annað en fólk til hans svo farið verði að nota hann að fullu. Tveir sjúklingar, annar frakkneskur, eru nú í honum.

Þetta var Franski spítalinnsem Frakkar byggðu hér í Eyjum 1906 vegna franskra sjómanna á Íslandsmiðum. Þetta hús, númer 20 við Kirkjuveg, hefur lengst af verið kallað Gamli spítalinn, frá því að sjúkrahúsið í Stakkagerðistúninu var vígt í árslok 1927. Það er nú ráðhús Vestmannaeyja.

Í þjóðsögunum okkar eru margar perlur og gott að kíkja í þær á milli bóka. Þar eru sögur af stórlygurum, hrekkjalómum ofl. Þar er m.a. eftirfarandi saga Jóns tófusprengs úr íslenskum þjóðsögum Ólafs Davíðssonar, 1. bindi.

ÁRAFÖRIN
Einu sinni rérum við í blíðalogni af Suðurnesjum en þegar degi hallaði gerði landsynning svo mikinn að ekki hafði annar eins komið í manna minnum. Húsin fuku til og frá eins og hey en alla báta rak til hafs. Ekkert skip náði lendingu nema það sem ég var á en fast urðum við að taka á meðan við vorum að berja í land. Daginn eftir var logn og rérum við sömu leið fram og við höfðum komið um kvöldið; þótti þá bregða undarlega við því að áraförin frá því kvöldinu áður sáust enn á sjónum og mátti rekja þau alla leið fram á Svið. Það voru hraustir drengir í þá daga.

Og hér kemur ein frá Guðmundi Magnússyni á Hafrafelli.

ÁLFTAVEIÐIN
Einu sinni fórum við á álftaveiðar. Okkur gekk illa að ná álftunum því tjarnirnar voru of djúpar en álftirnar styggar. Þá tók ég það til bragðs að vaða niðri í vatninu og seilast neðan í lappirnar á álftunum. Það vöruðust þær ekki og náðum við þeim öllum með þessu móti.

Likan Tryggva Sigurðssonar af Jóni Stefúnssyni VE 49. Smíðaður í Skipasmíðastöð Vestmannaeyjum 1947. Eigandi Björgvin Jónsson, seldur 31. des. 1966 Einari Sigurðssyni í Reykjavik og hét þá Bjarnarey RE 46. seldur 29. des. 1970 Hraðfrystistöð Vm. og hét þá Bjarnarey VE 17, seldur 1. des. 1971 Herði Sigurvinssyni í Ólafsvík og hét þá Sigurvin SH 107. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 15. ágúst 1979