Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2005/Kyndarablókin

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
STEFÁN STEFÁNSSON


Kyndarablókin


Stefán Stefánsson

Þegar ég lít til baka, kemur sumarið 1951 oft upp í huga minn. Ég hafði lokið prófum frá Verslunarskólanum og 30. apríl stóð ég með prófskírteinið í höndunum. Tveim dögum seinna var ég svo kominn heim til Eyja.
Húsið Gerði, þar sem ég var fæddur og uppalinn, stóð uppi undir hlíðum Helgafells og var húsaskipun svo háttað að á jarðhæð voru búr, eldhús og borðstofa sem snéru að götunni norðan við húsið. Í eldhúsinu var fast borð með skápum við gluggavegginn. Ekki voru neinir stólar hafðir í eldhúsinu og var því ákaflega vinsælt að tylla sér á eldhúsborðið. Lét móðir mín það afskiptalaust ef hún var ekki að vinna við það.
Morguninn eftir heimkomuna var ég snemma á fótum. Veðrið gat ekki verið betra, blankalogn og sólskin. Þegar ég kom niður í eldhús, beið mín nýlagað kaffi.Ég settist með kaffibollann upp á eldhúsborðið og leit út um gluggann. Það var fagurt útsýni frá Gerði og auðvelt að gleyma sér yfir þeirri fegurð. Ég starði hugfanginn á alla þessa dýrð sem ég hafði þó svo oft séð áður en hrökk upp úr draumum mínum þegar ég heyrði móður mína segja: „Þarna kemur Guðlaugur.“ Ég leit niður götuna og það var ekki um að villast, Gulli bróðir kom þar arkandi. Hann var forstjóri Bæjarútgerðarinnar á þeim tíma. Það var drjúg ferð á honum og göngulag Gerðisættarinnar leyndi sér ekki. Þetta sérstaka göngulag er þannig að þegar vinstri fóturinn vísar í SSA þá snýr sá hægri í SV og þegar við fáum okkur í glas, breytum við þessu á þann veg að við færum vinstri fótinn aðeins meira í bakborða. Þetta göngulag er mjög öruggt, sérstaklega þegar maður er búinn að drekka hálfa flösku eða meira. Var þá sagt að maður væri búinn að fá sér aðeins í „vinstri“ fótinn.

KYNDARI Á BJARNAREY VE 11
Ekki gafst frekara tækifæri til að hugleiða þetta göngulag að sinni.
Gulli snaraðist inn í eldhús og um leið hvarf öll fegurð úr fjöllunum. Hann leit á mig og sagði: „Mig vantar mann á Bjarnarey og þú ferð, geturðu ekki haft fötin hans til, þeir fara út í kvöld,“ spurði hann og snéri sér að móður okkar.
„Þú ert vitlaus,“ sagði ég. „Það getur verið en þú ferð samt.“ Ég reyndi að klóra í bakkann. „Heldurðu virkilega að þú getir gert úr mér einhvern togarajaxl?“ Hann reyndi að vera alvarlegur á svip þegar hann leit á mig og sagði: „Aldrei hvarflað að mér, þú verður kyndarablók.“ Ég horfði á foreldra mína í örvæntingu en þar var enga hjálp að fá. Einhvern glampa þóttist ég sjá í augum föður míns og ég er ekki grunlaus um að hann hafi „hlegið innan í sér“ eins og hann sagði stundum.
Um kvöldið hélt ég því frá Eyjum sem kyndari á togaranum Bjarnarey VE 11. Við áttum að fara fyrst til Reykjavíkur að taka ís.
Bassi á Laugalandi var á vaktinni á móti mér og þar var ég heppinn. Hann var frábær kennari og ég held að það hafi bjargað mér frá því að verða vitlaus.
Mér var ekki nokkur leið að sofa báðar frívaktirnar og sat þá uppi í borðsal að spjalla við kokkinn en þó fór meiri tími í spjall uppi í brú. Það var alveg sama hvort Einar skipstjóri var á vakt eða Pálmi fyrsti stýrimaður. Aldrei var amast við mér þar jafnvel þó að ég þyrfti að spyrja margs. Snemma í öðrum „túrnum“ heyrðum við að skipstjórinn væri búinn að segja upp starfinu og vildi helst hætta þegar við kæmum í land.

NÝR SKIPSTJÓRI
Þegar við komum til Eyja, fréttum við að búið væri að ráða nýjan skipstjóra sem yrði með skipið næstu tvo túra. Það væri Jón Björn Elíasson, frægur aflamaður í togaraflotanum. Jón Björn var fæddur 14. jan. 1890 að Bæjum í Snæfjallahreppi við Ísafjarðardjúp. Útræði var þá allmikið af Snæfjallaströnd og byrjaði Jón Björn ungur að stunda sjóróðra. Hann mun fljótlega hafa vakið á sér eftirtekt fyrir dugnað og hæfileika því að aðeins 17 ára gamall er hann orðinn formaður á árabáti. Næstu árin var hann formaður ýmist á árabátum frá verstöðvum við Ísafjarðardjúp eða vélbátum frá Ísafirði. En hugurinn stefndi hærra og fór hann því í Stýrimannaskólann í Reykjavík og útskrifaðist 1919 og ári seinna er hann orðinn háseti á togaranum Austra og síðan stýrimaður.

Margar sögur voru sagðar af honum en sagan um hattinn var ábyggilega frægust. Ekki veit ég um sannleiksgildi á þeim sögum sem ég hef heyrt. Þær höfðu gengið á togaraflotanum í áratugi og áreiðanlega brenglast eitthvað en ég læt þær samt fljóta hérna með. Jón Björn byrjaði sem skipstjóri árið 1925 á togaranum Austra GK 238 sem var í eigu Kárafélagsins í Viðey. Aflabrögðin höfðu gengið frekar illa fyrstu tvo túrana. En þegar hann var að fara út með skipið í þriðja túrinn, kom strákur hlaupandi niður á bryggju og sagði að hann ætti að bíða. Jón Björn vildi vita af hverju en strákur sagðist ekki vita það, sagði að eigendurnir væru á fundi. Jón Björn var fljótur að átta sig á því að nú ætti að reka hann og um leið og strákur var horfinn, skipaði hann körlunum að „sleppa“ og sigldi út úr höfninni. Það var sagt á eftir að hann hefði „stolið skipinu“. En nú brá svo við að hann mokfiskaði og var kominn aftur með fullt skip eftir örfáa daga og engum togaraeiganda hefði dottið í hug að reka hann eftir þann túr. Jón Björn þakkaði þetta hattinum sem hann var með í túrnum og svo fötunum sem hann var í.

Bjarnarey VE 11

Hann hafði svo mikla trú á hattinum að eitt sinn á síldveiðum fyrir Norðurlandi, ætlaði hann að fara að kasta á stóra síldartorfu þegar hatturinn fauk af honum og út í sjó. Hann lét samstundis snúa nótabátunum og tók að elta hattinn og náði honum. En á meðan þeir voru að eltast við hattinn, kom annað skip og kastaði á torfuna og fékk mjög stórt kast. Sumir sögðu að það hefði verið stærsta kast sem fékkst á sumrinu. Eftir þetta sögðu menn að Jón Björn ætti dýrasta hatt á Íslandi. Jón Björn var skipstjóri hjá Kárafélaginu til 1931 en þá hætti félagið starfsemi. Sama ár réðst hann til Einars Þorgilssonar & Co í Hafnarfirði sem skipstjóri á b.v. Surprise GK 4 (síðar Helgafell VE 32) og er með hann til ársins 1946. Árið 1947 sigldi hann til landsins einum af „nýsköpunartogurunum“, sem einnig hlaut nafnið Surprise GK 4 og var skipstjóri á honum fyrstu 2 árin en þá hætti hann skipstjórn vegna vanheilsu. Eftir það fór hann nokkrar veiðiferðir sem skipstjóri á ýmsum hinna nýju skipa og fiskaði alltaf vel.

AFLAFÖT SKIPSTJÓRANS

Við áttum að fara út seinnipart dags og mætti ég tímanlega til skips. Þegar ég kom niður á bryggju, stóð Gulli þar og var að tala við mann sem ég þekkti ekki. Maður þessi var í lægra meðallagi, þrekvaxinn og virðulegur. En það, sem ég tók fyrst eftir, var hvað maðurinn var sérstaklega vel klæddur með forstjórahatt á höfði og í flottum frakka, vel pressuðum buxum og gljáburstuðum skóm. Þarna var þá kominn skipstjórinn, Jón Björn Elíasson. Ég mætti snemma í kvöldmat vegna þess að nú stóð ég kvöld- og morgunvakt. Ég hafði nefnilega orðið fyrsti kyndari eftir annan túrinn. Eftir matinn fór ég út í stjórnborðsganginn

Jón Björn Elíasson, skipstjóri

og virti fyrir mér fjallasýnina. Það var fagurt að líta til lands og sjórinn eins og spegill. Þannig hafði veðrið verið fyrstu tvo túrana og átti ekki eftir að breytast á meðan ég var á þessu skipi en ég hætti í endaðan júlí. Ég rölti fram ganginn og upp í brú, opnaði dyrnar en lengra komst ég ekki. Ég stóð alveg lamaður í dyragættinni. A brúargólfinu gekk skipstjórinn fram og aftur. Nú voru það ekki forstjórafötin sem blöstu við mér heldur hinn rómaði aflagalli.
Á höfðinu var hatturinn frægi, allur götóttur og alveg ómögulegt að átta sig á hver litur hans hafði verið í upphafi. Hann var í grádoppóttri bandpeysu, margbættri á olnbogunum og náðu ermarnar góðlega niður á miðjan framhandlegg og smávegis vantaði á að peysan næði niður að buxnastreng. Buxurnar voru þykkar trollarabuxur og var þar bót við bót. Skálmarnar náðu dálítið niður fyrir miðja fótleggi en þar tóku við ljósgráir ullarsokkar og klossar sem ég man ekki vel hvernig litu út. Allt var þetta hreint og nýpressað. Ég snéri mér við og lokaði dyrunum, það var betra að hugsa um þessa upplifun í næði. Þeir, sem voru þarna um borð, virtust bera mikla virðingu fyrir fötunum sem „karlinn“ var í og enginn vogaði sér að hæðast að þeim. Mörgum árum seinna þegar ég var sjálfur orðinn skipstjóri, sá ég þetta í allt öðru ljósi. Ég hafði þá heyrt um nokkra skipstjóra sem höfðu mikla trú á ýmsum hlutum. Einn síldarskipstjóri var alltaf með sama teppið í kojunni sinni og fiskaði mikið. Annar geymdi hatt, sem hann átti, í bekknum í skipstjóraherberginu. Hatturinn var orðinn svo ljótur að hann kunni ekki við að vera með hann á höfðinu. Sjálfur fékk ég að reyna þetta þegar ég tók einu sinni með mér prjónahúfu sem einn sonur minn átti og Auðbjörg föðursystir mín hafði prjónað. Þetta var haustið eftir Eyjagosið og var báturinn gerður út frá Eyjum en ég átti heima í Reykjavík. Við höfðum fiskað ágætlega en ekki setti ég það í neitt samhengi við húfuna. Einu sinni þegar við tókum okkur frí, fór ég með húfuna heim og bað konuna mína að þvo hana. Ekki tókst betur til hjá mér en svo, að ég gleymdi húfunni þegar ég fór um borð aftur. Við lögðum netin á svipuðum slóðum austur í kanti en nú brá svo við að við fengum ekki „bein úr sjó“. Ég hafði ekki mikla trú á þessu í fyrstu en strákarnir fóru strax að spyrja um húfuna. Ég hló að þeim en þegar við vorum búnir að reyna í öllum djúpkantinum frá Dyrhólaey og vestur að Eyjum, fór mér ekki að standa á sama. Ég hringdi því í konuna og bað hana að senda mér húfuna. Við komum til Eyja daginn eftir og lönduðum þessu lítilræði sem við höfðum fengið. Við fórum fljótlega út aftur og enginn vissi að húfan væri komin um borð. Ég hélt austur á Kötlugrunn og við lögðum netin á SA horn hraunsins seint um kvöldið. Þegar við vorum að leggja aðra trossuna, heyrði ég að einn hásetinn kallaði: „Strákar þetta verður allt í lagi, karlinn er kominn með húfuna.“ Hann reyndist sannspár. Við fengum þarna ágætis afla og húfuna var ég með um borð þangað til við seldum bátinn.

VEIÐARNAR
Jón Björn hafði verið beðinn um að útvega þrjá háseta en árangurinn var aðeins einn furðufugl. Sá hét eitthvað einkennilegu nafni sem þegar var dæmt ónothæft svo að þeir kölluðu hann bara „Glóa“. Glói átti heldur lítið af veraldlegum gæðum svo að strákarnir lánuðu honum gamlan sjóstakk og stígvél, ekki mikið götótt.
Þegar við nálguðumst miðin, var 1. vélstjóri kallaður upp í brú. Fékk hann fyrirmæli skipstjóra um snúningshraða á vél þegar trollinu væri kastað og meðan það væri að setjast í botn og að lokum hraðann á toginu. Var lögð rík áhersla á þetta við vélstjórana.
Hófust nú veiðarnar. Átta pokar af karfa voru í fyrsta holinu eða um 20 tonn og karlarnir heldur kampakátir.
Ég hélt uppteknum hætti að labba upp í brú að lokinni morgunvaktinni. Það var furðulegt að sjá til „karlsins“. Hann sat helst aldrei í stólnum enda þótt fæturnir væru farnir að bila heldur gekk fram og aftur, þvert yfir brúargólfið. Neftóbaksdós var skorðuð stjórnborðsmegin í brúnni og önnur bakborðsmegin. Flestir gluggar voru opnir enda veður gott. „Karlinn“ tók töluvert í vörina, gekk annað kastið að einhverjum glugganum og spýtti út. Þeir, sem stóðu vakt við trollspilið (trollvakt) eða voru við að „hífa“, urðu alltaf að vera í stakk og með sjóhatt vegna þess að þeir urðu óspart fyrir „sendingum“ frá honum. Aldrei bölvaði Jón Björn, hvað sem á gekk og það ljótasta, sem ég heyrði hann segja var, „ansans“. Þórunn dóttir hans kannaðist við þetta og sagði mér að fjórtán ára gamall hefði hann farið ásamt mörgum öðrum á áraskipi frá Snæfjallaströnd til Ísafjarðar til að kaupa nauðsynjar handa heimilunum fyrir veturinn. Á heimleiðinni fóru þeir að bragða á vínföngunum sem þeir höfðu keypt og sennilega gert heldur mikið af því og ekki verið eins varkárir í lendingu og vera skyldi. Bátinn fyllti í lendingunni og eyðilagðist þar mest allur mjölmatur og eitthvað meira. Mönnum rann í skap við þetta og fóru að bölva svo óskaplega að Jóni Birni blöskraði. Hann hét því þá að hann skyldi aldrei í lífinu byrja að drekka vín eða bölva og það heit hélt hann. Eitt sinn, þegar trollið kom upp, var enginn afli í því, pokahnúturinn hafði losnað. Jón Björn varð meira sár en reiður. Hann þaut út í glugga og kallaði: „Tu tu og svo þykist þú vera vanur pokamaður.“ Sá, sem tékk þessar kveðjur, var Bjarnhéðinn Elíasson. Hann horfði undrandi á karlinn og sagði ekki orð. Settist bara á lestarlúguna og fékk algert hláturskast. Það er stundum stutt í hláturinn þegar menn eru búnir að vaka sig hálfvitlausa. Bjarnhéðinn var búinn að vera lengi í þessu starfi um borð og það er aldrei hægt að fullyrða hver orsökin er þegar þetta kemur fyrir en pokamaðurinn fær samt alltaf skammirnar.

Ekki var „karlinn“ mjög málglaður við mig en sýndi mér þó enga óvild. Ég held helst að hann hafi verið svo niðursokkinn í starf sitt enda fór ekkert fram hjá honum. Eitt sinn var hann að horfa á togara sem var að toga dálítið frá okkur og þá heyrði ég hann segja: „Hann á ekki að toga svona. Hann fær engan afla þarna.“ Við vorum búnir að vera á veiðum í tvo sólahringa þegar við fengum einu sinni fjóra poka. Jón Björn skipaði þeim að taka trollið inn. „Tu-tu,“ sagði hann „allt búið hér.“ „Nú er helvítis „karlinn“ orðinn vitlaus,“ sagði einn hásetinn. En annað átti eftir að koma í ljós. Það var siglt á fullri ferð eitthvað SV-eftir og eftir um fjóra tíma var kastað aftur. Við vorum einir á svæðinu. Þegar híft var og hlerarnir varla komnir upp í gálga, sáum við pokann á trollinu koma upp með látum og síðan kom allur belgurinn. Í fyrsta holinu voru 14 pokar sem gera um 35 tonn. Við vorum einir á svæðinu þangað til loftskeytamaðurinn þurfti að senda út réttar aflatölur. Ég held að aflinn hjá okkur hafi aldrei farið niður fyrir 10 poka á meðan við vorum þarna einir en minnkaði eitthvað eftir að allur flotinn var kominn á svæðið.

Surprise sem Jón Björn var lengi á, síðar Helgafell VE, Einar Guðmundsson í Málmey, skipstjóri, sem smíðaði þetta líkan

Þegar lestarnar voru orðnar fullar, var útbúinn veggur úr dekkplönkum við formastrið upp í lunningarhæð. Var nú farið að setja karfann á dekkið. Eftir vaktina um kvöldið fór ég upp í brú. Ég vissi að Pálmi stýrimaður var tekinn við af „karlinum“ og mundi vera uppi þar til líða tæki á morguninn. Við vorum ekki búnir að tala lengi saman þegar hann sagði mér að honum stæði ekki orðið á sama um Jón Björn og fullyrti að „karlinn“ hefðí ekkert sofið síðan við fórum frá Eyjum. Ég var vantrúaður á þetta og fór því úr skónum og læddist niður stigann að skipstjóraherberginu. Hurðin var ekki lokuð heldur fest með króki svo að ég sá vel inn í herbergið. Jón Björn lá á hliðinni í kojunni og snéri til veggjar. Stóð ég þarna dágóða stund og gat ekki séð að hann hreyfði sig. Taldi ég nú víst að þetta væri tóm vitleysa en þá snéri hann sér og lá nú á bakinu, dæsti við og horfði upp í loftið.
Ég læddist upp í brú og sagði Pálma frá þessu. Hann sagði að þetta kæmi sér ekki á óvart. Þeir væru búnir að læðast niður síðustu nætur en aldrei komið að honum sofandi.
Það gekk fljótt að fylla dekkið, alveg aftur að spili og á miðdekkinu náði karfahrúgan hátt yfir lunninguna. Veðurspá var góð og sjórinn eins og „heiðartjörn“. Þegar trollið var tekið inn í síðasta sinn, kallaði Jón Björn á stýrimanninn og sagði honum að taka við stjórninni. Hann sagðist ætla að leggja sig og það ætti ekki að vekja sig í mat eða kaffi. Og nú sofnaði blessaður „karlinn“. Hann rumskaði ekki alla leiðina til Eyja en við Þrídranga vöktu þeir hann eins og hann hafði beðið um. Það var um 20 tíma stím af miðunum til Eyja. Ég ætlaði aldrei að verða sjómaður en ef til vill hafa kynni mín af þessum manni breytt því. Ég var kominn í Stýrimannaskólann tveimur árum seinna. Ég kom upp í brú þegar við vorum nýlagðir af stað heim. Ég leit út um einn gluggann og sá hvar Glói sat uppi á karfahrúgunni á miðdekkinu og söng.

KYNDARASTARFINU LÝKUR

Það var létt yfir mannskapnum á heimleiðinni. Við sátum nokkrir aftur í borðsal og spjölluðum saman. Þeir spurðu Glóa hvað hann ætlaði að gera við alla þessa peninga sem hann fengi í hlut. „Fá mér flösku af góðu víni,“ svaraði Glói. „Ætlarðu að kaupa wiskey eða koníak?“ spurði einhver. „Helvítis fífl getið þið verið,“ sagði Glói. „Ég ætla að fá mér brennivín.“

Eykyndilskonur undirbúa kaffisölu á Sjómannadegi

Það voru liðnir tæpir sjö sólahringar frá því að við fórum frá Eyjum þegar við lögðumst þar að bryggju með um 400 tonn af karfa, að mig minnir. Jón Björn fór ekki með skipið aftur. Hann treysti sér ekki til þess. Einhverja bót hefur hann sennilega fengið seinna á þessu svefnleysi vegna þess að 1953 eða 1954 fer hann nokkra „túra“ með b.v. Mars RE 261 og fiskaði mjög vel.
Pálmi á Skjaldbreið tók nú við sem skipstjóri. Þegar við fórum út, sáum við Glóa sitjandi í brekkunni norðan í Skansinum. Honum hafði ekkert legið á að fara úr bænum og nú kvaddi hann okkur með því að veifa flöskunni sinni. Honum leið bersýnilega mjög vel.
Ég hélt áfram á skipinu fram að Þjóðhátíð en þá hætti ég vegna þess að skipið átti að fara í slipp. Þegar ég labbaði með sjópokann minn í land, hét ég því að fara aldrei aftur á togara og það heit hef ég haldið. Ég hitti vini mína fljótlega eftir heimkomuna og fór að hjálpa þeim með undirbúning fyrir þjóðhátíðina og nú kom reynslan úr kyndarastarfinu að góðum notum.
Október 2004

Stefán Stefánsson frá Gerði.


Heimildir: Jón Björnsson, Íslensk skip.
Ólafur T. Einarsson, Morgunblaðið, minningargrein 7.
april 1959.
Þórunn R. Jónsdóttir.