Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2004/ Sókningsferð í Elliðaey

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Sókningsferð í Elliðaey



Frá 1968 hefur Ólafur Jónsson, Óli í Laufási, að mestu leyti, séð um að sækja lunda í úteyjar Vestmannaeyja á veiðitímanum, frá 1. júlí tíl

Sautján kippurnar komnar um borð
Lubban á leiðaustur Faxasund í brælu
Bergur Guðnason húkkar inn lundahala
Bergur aðstoðar fólk um borð af steðjanum

15. ágúst, ár hvert. Eyjarnar sem hann sækir í eru: Elliðaey, stundum Bjarnarey, Álsey og Suðurey. Gömlu sóknardagarnir voru á þriðjudögum og föstudögum. Óli reynir að halda því að sækja þá en auðvitað ræðst sóknin að mestu af veðri og veiði. Þessu fylgir að fara út með vistir, mannskap fram og til baka, o.fl.
Aukaferðir, með efni hvers konar vegna smíði nýrra veiðihúsa í eyjunum hafa verið farnar á undanförnum árum. Núna er nýjasta bylgjan að koma upp saunaklefum í eyjunum og hafa ýmsir snúningar í þær bæst við vegna þeirra. Núna eru slíkir klefar í Álsey og austureyjunum, Bjarnarey og Elliðaey. Óli hefur líka lent í því að sækja slasaðan mann í Suðurey og annan í Litlahöfða.

Ólafur Jónsson í Laufási

Einnig hefur hann verið í ýmsu snatti fyrir kindakarlana vor og haust og hrútaferðir í Álsey, Suðurey og Bjarnarey í desember. Það hafa oft verið slarkferðir. Fyrstu árin í þessum ferðum átti Óli 1,5 tonna plasttrillu sem hét Lubba VE 27. Næst á eftir henni trillu (trébát), sem bar sama nafn, Lubba VE 27 en var kallaður Ungverjabáturinn. Hann sökk hér í höfninni eftir árekstur 1981. Þá var keyptur enskur plastbátur sem var seldur 1988. Það var líka Lubba VE 27. Þá var Skúmurinn VE 34 keyptur, frambyggður trébátur 6 tonn að stærð. Núverandi Lubba VE 27 var keypt 1995. Hún hét áður Linda Kristín VE og síðar Bára VE. Upphaflega var hún á varðskipinu Óðni.

Lubba er hentugur úteyjabátur, frambyggð, mjög sterk, úr glerfiber, en böndin úr eik. Vélin er Ford 220 hestöfl og stærðin er 6 tonn. Í lok síðasta lundaveiðitímabils fór undirritaður með Óla síðustu sóknina í Elliðaey. Venjulega fara aðstoðarmenn með í þessar ferðir til þess að húkka lundann úr sjónum í bátinn. Það er nóg að gera hjá Óla í brælum við að stjórna bátnum rétt upp við björgin. Zóphónías Pálsson hefur lengst verið með honum, en upp á síðkastið, Guðjón Ólafsson, Gaui í Gíslholti. Báðir mjög góðir segir Óli. Nú var enginn slíkur með en byrjað var á að fara að steðjanum við Pálsnef og taka um borð þá Berg Guðnason og Marinó Sigursteinsson til þess að innbyrða fuglinn. Fuglinn er bundinn í svokallaða hala, tíu stykki í hverjum, og er honum hent þannig í sjóinn. Byrjað var að henda af Pálsnefinu, síðan af Lauphausum og síðast við Skoruna. Þeir Bergur og Mari húkkuðu halana um borð úr sjónum, annar með rúllugogg og hinn með haka. Allt gekk það ljómandi vel. Eftirtekjan var 17 kippur (100 fuglar í kippu). Að síðustu var farið að steðjanum að austanverðu á eyjunni og mannskapur tekinn. Komu allir í land þar sem veiðitíminn var búinn. Dræm veiði var framan af sumri en glæddist undir lokin að sögn veiðimanna.
Oft geta þetta verið slarkferðir. Daginn áður fór Óli í Álsey í suðvestan rudda. Með honum voru feðgarnir Sveinn Rúnar Valgeirsson og sonur hans Leó Snær. Ferðin út tók 2 tíma, en venjulega er þetta 45 mínútna sigling. Á mótstíminu brotnaði rúða í stýrishúsinu, svo eitthvað hefur gengið á. Stærsta sóknin hjá Óla var í Álsey miðvikudaginn fyrir þjóðhátíð 2002, 45 kippur.
Stærstum hluta sóknarinnar var hent í sjóinn af suðureynni úr Stjánagontu og Sveltinu. Þetta var mikil veiði eftir aðeins þrjá daga. Fyrir sókn í Álsey og Suðurey er borguð ein og hálf kippa en ein kippa í austureyjarnar. Þetta er gamalt verðlag. Aðstæður við Suðurey leyfa ekki að lundanum sé hent í sjóinn og er honum oftast slakað niður í pokum á Vatni. Fugli sem á að reyta, er ekki hent í sjóinn, hann verður að koma þurr um borð og til þeirra sem reyta hann en sá sem er hamflettur má blotna.
Auðvitað hafa skemmtileg og minnisstæð atvik orðið í þessum ferðum. Árið 1976 fóru þeir Garðstaðabræður, Jón G. Ólafsson, Leifi útgerðarmaður á Gullberginu, faðir Óla, og Óskar, lengi skipstjóri og útgerðarmaður á Sigurfaranum með Óla í bræluskít í Elliðaey. Þá var lundanum slakað í sjóinn í pokum, 70 stykkjum í hverjum. Þeir bræður, sjóslarkinu vanir, innbyrtu pokana, snöggir og ákveðnir, og allt virtist ætla að fara vel. Einhvern tímann meðan á þessu stóð, tókst illa til, Óskar hrasaði og meiddi sig á hendi. Þeir héldu að fingur hefði farið úr liði og auðvitað kipptí Leifi honum í liðinn aftur. Um kvöldið fór þetta verr en búist var við, puttinn bólgnaði og Óskar fékk miklar kvalir í hann. Læknis var leitað og gaf hann það út að umræddur putti væri brotinn og úr liði. Oft er búið að gantast með það síðan innan fjölskyldunnar, að Leifi hafi bæði brotið og tekið puttann úr liði við skyndihjálparstörfin þarna úti við Elliðaey í umræddri ferð.
Það var gaman að fara þessa ferð á Lubbunni með Óla. Elliðaeyingunum bar saman um að Lubban væri mjög góður sóknarbátur og stjórnandinn frábær. Oft getur þetta verið varasamt og erfitt en góður bátur, klár og kunnugur stjórnandi væri það sem skipti sköpum.

Friðrik Ásmundsson