Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2003/ Havfruin, Páll Aðalsteinsson og King Sol

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Friðrik Ásmundsson


Havfruin, Páll Aðalsteinsson og King Sol


Eins og kemur fram annars staðar í þessu blaði, lentu fjórar færeyskar skútur í kröppum dansi hér við suðurströndina hinn 4. mars 1938. Þær leituðu skjóls hér í Eyjum illa farnar eftir brotsjói og með

Havfruin VN 220. Byggð 1931 - 1932 hjá Ring Andersen í Fredreksten í Svendborg Danmörku, 151,25 tonn með135 ha Tuxham vél

slasaða menn. Fimmta skútan, Fossanesið, fórst hér rétt við bæjardyrnar þennan sama dag með 19 manna áhöfn. Níu árum síðar, 1947, var færeysku skútunni Havfruin bjargað hingað eftir mikla erfiðleika. Enn og aftur voru Eyjarnar skjól fyrir hrakta sjómenn eins og hér verður sagt frá. Siglingu sína endaði Havfruin, árið 1949, þar sem hún strandaði við Almenningsnöf, vestan Siglufjarðar.

Hinn 13. apríl 1947 bjargaði breski togarinn King Sol færeyska kútternum Havfruin VN 220, sem var í nauðum staddur út af Vestmannaeyjum. Voru skilyrði við björgun þessa hin erfiðustu.
King Sol var að veiðum 24 sjómílur vestur af Smáeyjum við Vestmannaeyjar er færeyska skipið Velfare kom til togarans og gaf honum til kynna að vestur af honum væri skip sem þarfnaðist aðstoðar. Hætti King Sol þegar veiðum og hélt á staðinn en skipið sem reyndist vera í nauðum statt var Havfruin frá Færeyjum sem hafði verið þarna á handfærum. Vél kúttersins hafði bilað og héldu skipverjar honum í horfinu með seglum. Þegar togarinn kom að skútunni, var veður orðið fremur slæmt. hvassviðri af suðvestri og þungur sjór. Heppnaðist þó vel að koma dráttartaug milli skipanna og hélt King Sol síðan áleiðis til Vestmannaeyja með kútterinn í eftirdragi.
Skömmu eftir að lagt var af stað í land slitnaði dráttartaugin og tók nokkra stund að koma henni í lag aftur en á meðan færðist veðrið í aukana. King Sol komst þó heilu og höldnu til Vestmannaeyja með hið bilaða skip en þegar togarinn kom með það upp undir Eiðið festist önnur dráttartaugin í botni og lentu skipin saman með þeim afleiðingum að Havfruin brotnaði lítið eitt ofansjávar. Er skipverjar á King Sol höfðu losað dráttartaugina úr botnfestu, var haldið austur fyrir Heimaey og inn á Víkina þar sem lagst var fyrir legufærum. Mörg skip lágu á Víkinni en þrjú þeirra færðu sig til þannig að King Sol og Havfruin gátu komist innar. Eftir að skipin voru lögst, versnaði veður til muna og fór togarinn þá að draga legufærin en við það færðist kútterinn allnærri Klettsnefinu (á Ystakletti) sem veðrið stóð beint upp á. Gat farið þannig að kútterinn ræki þar upp og ástandið því orðið mjög alvarlegt. Í þessu kom á staðinn færeyski kútterinn Columbus og var ætlun skipverja hans að gera tilraun til þess að draga Havfruin til hafnar en dráttartaugin milli kútteranna slitnaði áður en búið var að sleppa dráttartauginni frá King Sol. Þegar þetta gerðist var hafnsögubátur Vestmannaeyjahafnar, Léttir, einnig kominn til aðstoðar. Skv. frásögn Jóns Guðmundssonar í Sjólyst, sem var með Létti í þessari ferð vegna veikinda Ólafs Ólafssonar skipstjóra, voru með í för lóðsarnir Eyvindur Þórarinsson og Jón I. Sigurðsson. Eyvindur fór um borð í Columbus og skömmu síðar var Létti lagt að síðu Havfruarinnar. Var skipshöfn hennar flutt í tveimur ferðum í land. Skipstjórinn á kútternum varð þó eftir í hafnsögubátnum og var síðan komið um borð í King Sol. Eftir að áhöfnin hafði yfirgefið Havfrunna, dró King Sol upp legufæri sín og flutti sig á öruggari stað þar sem aftur var lagst fyrir akkerum. Veður fór stöðugt versnandi og gerði suðvestan stórviðri með miklu brimi. Varð stöðugt að keyra togarann upp í til þess að hann ræki ekki og var þannig andæft og legið frá því um klukkan sjö um kvöldið og fram yfir miðjan næsta dag en þá var veðrið gengið svo niður að ekki þurfti að nota vélarafl til þess að halda í horfinu. Ekki var þó unnt að draga kútterinn til hafnar fyrr en daginn eftir. Var vélbáturinn Snæfugl fenginn til þess að draga Havfrunna í höfn er veðrinu slotaði og tókst með ágætum. Hafði King Sol verið með kútterinn í togi í 55 klukkustundir samfellt. Þóttu skipverjar á tog-aranum sýna mikla þrautseigju við þessa björgun en skipstjóri á King Sol var íslendingur, , og einnig var 1. stýrimaður íslendingur, Karl Sigurðsson frá Hafnarfirði.
Að mestu skv. Þrautgóðum á raunastund, 3. bindi, í samantekt Steinars J. Lúðvíkssonar

PÁLL AÐALSTEINSSON

Páll Aðalsteinsson

Páll Aðalsteinsson var fæddur í Reykjavík 29. júlí 1916. Foreldrar hans voru Aðalsteinn Pálsson togaraskipstjóri og útgerðarmaður (sjá bls 10) og Sigríður Pálsdóttir bæði frá Hnífsdal. Hann fór snemma á sjóinn með föður sínum á togaranum Belgaum að sumrinu til og 14 ára var hann orðinn fullgildur háseti. Sextán ára fór hann í verslunarám til Hull í Englandi. Sagt hefur verið að enginn einstaklingur hafi þá fylgst eins vel með gengi togaraflotans á Humbersvæðinu og Páll. Vissi hvar þau flest voru að veiðum. Hvað mikið þau fiskuðu og hvað þau fengu fyrir aflann. Þetta sýnir hvar hugurinn hefur verið. . Hann var ekki lengi í náminu því ári seinna er hann kominn á sjó á enska togarann Vin hjá Ted Little, miklum aflamanni í Grimsby. Little fiskaði mikið á Eyjamiðum og var talinn flestum kunnugri hér og víðar við Ísland. Frá þeim tíma átti Páll heima í Grimsby að undanskildum árunum 1934 og 1935 þegar hann var 2 vertíðir hjá pabba sínum á Belgaum. Á Vininum voru þeir Páll og faðir minn, Ásmundur Friðriksson á Löndum, hásetar saman og miklir vinir frá þeim tíma. Höfðu mikið samband á sjónum þegar báðir voru orðnir skipstjórar. Þegar ég var smástrákur fékk ég að fara um borð í Vininn þegar hann lá í vari hér á ytri höfninni. Pabbi var þá að heimsækja gömlu skipsfélagana. Ég man líka eftir Páli og Little heima á Löndum í heimsókn þegar legið var hér vegna veðurs. Þeir voru með þetta líka glæsilega sælgæti handa okkur systkinunum. Sennilega man ég þetta vegna þess. Í minningunni voru þetta vinalegir, góðir menn. Little lést háaldraður í Ástralíu þar sem hann átti heima hjá dóttur sinni, þá orðinn blindur. Ekki er ótrúlegt að velmektardagarnir á Eyjamiðum hafi komið upp í huga gamla mannsins þarna hinumegin á hnettinum. Hver veit?

Snemma morguns 13. júlí 1949 kom Páll með Rinovia fulla af góðum fiski til Grimsby. Prins Philip hertogi af Edinborg var í opinberri heimsókn þar og var honum boðið að skoða skipið
Um borð í Vinunum á Eyjamiðum 1933. Til vinstri Einar Olgeirsson stýrimaður og Páll háseti. Þegar Páll kom til Grimsby hófust löng og góð samskipti þeirra Einars, bæði á sjó og landi. Í Grimsby áttu þeir heima hjá Bjarna Ebernesarsyni sem bjó þar ásamt danskri konu sinni. Einar átti Vininn hálfan á móti Little skipstjóra. Eins og Little flutti hann síðar til Ástralíu þar sem hann lést

Árið 1938 lauk Páll stýrimannsprófi í Grimsby og varð strax stýrimaður þar. Hann var þá búinn að gegna bátsmannsstöðu. Ári seinna lauk hann svo skipstjóraprófi og varð skipstjóri á enskum togurum frá 1940 tíl 1962. Átti hann glæsilegan skipstjóraferil hjá Rinovia útgerðarfélaginu öll þessi ár. Oft var hann aflakóngur á stærstu og best búnu skipum þess félags. Fyrsta skipið sem hann stjórnaði var Empire Fisher. Fiskaði hann á þessu skipi við Ísland öll stríðsárin. Á því varð hann sá gæfumaður að bjarga 17 manna áhöfn annars bresks togara í Norðursjónum. Björgun Havfrúarinnar og áhafnar hennar hér við Eyjar sem sagt er frá hér áður var því ekki fyrsta björgunin sem hann stóð að með áhöfnum sínum. Það var í apríl 1941 þegar Páll var að verða 25 ára að þeir á Empire Fisher voni á siglingu í skipalest í Norðursjónum. Þýsk orustuflugvél gerði árás á hann svo hann laskaðist og leki kom að honum. Annar enskur togari varð einnig fyrir árás flugvélarinnar sem leiddi til þess að hann sökk síðar. Flutningaskip sem var nálægt honum setti strax út björgunarbát til þess að freista þess að bjarga áhöfninni en vegna þess að veðrið var vont, töluverður vindur og slæmur sjór, tókst það ekki og flutningaskipið varð frá að hverfa. Þá ákvað Páll að reyna björgun áhafnarinnar sem var í neyð. Sagt hefur verið að þegar hann varð var við smáandstöðu sér eldri manna um borð, hafi hann sagt: „Ég ætla að bjarga þessum mönnum.“ Það tókst. Öllum 17 í áhöfn togarans var bjargað um borð í Empire Fisher skömmu áður en skipið hvarf í djúpið. Þetta þótti mikið afrek við erfiðar og hættulegar aðstæður, storm og vondan sjó. Þá voru gúmmíbátar ekki komnir til sögunnar. Páll sagði síðar að aldrei hefði hann unnið erfiðara verk. Sérstaklega að taka þá áhættu að leggja áhöfn sína og skip í mikla hættu. Fyrir þetta björgunarafrek var hann sæmdur MBE orðunni bresku, Member of the British Empire.
Eftir stríðið tók Páll við skipstjórn á King Sol. King Sol var tekinn í stríðsreksturinn meðan á síðari heimsstyrjöldinni stóð. Breska flotamálaráðuneytið tók stærstu og bestu togarana í þann rekstur. Eftir King Sol var hann með Rinoviu og síðast með Andanes. Undir hans stjórn voru þetta topp skip í afla og sölum. Rinovia mun hafa verið fyrsti enski togarinn sem var með radar. Þannig var þetta, hann var með stærstu og best búnu skipin hjá Rinoviu. Páll fiskaði á þau í Hvítahafinu, við Spitsbergen, Bjarnarey og á Íslandsmiðum. Árið 1962 hætti Páll skipstjórn eftir 22 ár og samtals um 30 ár á sjó. Hann varð einn af forstjórum Boston Deep Sea Fisheries Ltd. (BDSF) sem eftir sameiningu við önnur útgerðarfélög varð stærsta útgerðarfélag í Englandi og með þeim stærstu í heimi. Auk Grimsby var það með aðsetur í Hull, Aberdeen og víðar. Hann eignaðist hálfan togara á móti BDSF. Hann fékk nafnið Belgaum en var áður Prince Philip í eigu Rinoviu.
Margir íslenskir sjó- og útgerðarmenn kynntust Páli þarna hjá BDSF því félagið var umboðsaðili margra íslenskra útgerða og sá Páll um það. Margir bátar héðan úr Eyjum sigldu með afla til Grimsby á sjöunda áratug síðustu aldar og kynntust margir Eyjasjómenn þá Páli. Í september 1967 þegar undirritaður var með Sindra, var fiskað í og siglt til Grimsby. Páll sá þá um allt hjá okkur af kostgæfni. Hann bauð mér heim til sín í Humberstone avenue New Waltham skammt utan við Grimsby. Konan hans Svanhildur Valdimarsdóttir fra Bíldudal, glæsileg og indæl, tók vel á móti mér. Þau áttu tvö börn Sigríði og Aðalstein Einar. Heimili þeirra var fallegt og látlaust og því fylgdi umtalsverð landareign. Fljótt eftir að ég kom inn á heimili þeirra hjóna sýndi Páll mér miðabókina sína. Og það verð ég að segja að snyrtilegri og betur gerðar bækur hef ég ekki séð. Fremst voru fiskimiðin í kringum Vestmannaeyjar. Allt miðað við þriggja mílna landhelgina. Vel teiknaðar skýringarmyndir af fjöllum og eyjum. Fallega skrifaðar skýringar, á íslensku auðvitað, fylgdu. Hann kallaði Álsey því nafni þótt Englendingarnir kölluðu hana Square island, Þrídranga því nafni þótt Englendingarnir kölluðu þá Fingerrocks o.s.frv. Þegar ég spurði Pál hvaðan hann hefði þessar upplýsingar, sagði hann að Vestmannaeyjasvæðið væri að mestu frá Little komið þegar hann var stýrimaður hjá honum. Önnur svæði við Ísland og víðar, sem komu aftar í bókinni, voru frá honum sjálfum og pabba hans. Þessa bók átti hann til spari heima, aðra sams konar var hann með á sjónum.
Eftir dvöl á heimili þeirra hjóna buðu þau til kvöldverðar í klúbbi þar sem Páll var meðlimur. Það vakti athygli mína hvað Páll naut mikillar virðingar félaga sinna. Það fór ekki milli mála að þessi yfirlætislausi hægláti maður var þar mikils metinn. Sama var á fiskimarkaðnum morguninn eftir. Þar naut hann trausts og aðdáunar. Það mátti vel greina. Þetta var í síðasta skiptið sem ég sá hann. Talaði seinna við hann í síma því hann vildi heyra frá aflabrögðum og útgerð hérna. Hinn 22. nóvember 1970 lést hann í bílslysi skammt frá heimili sínu aðeins 54 ára. Fyrirsögn á forsíðu Grymsby Telegraph 23. nóvember 1970 var: “Top Grimsby trowling expert dies in crash.“ Hann var alla tíð mikill hófsmaður á vín og þekktur sem slíkur. í viðtali við blaðið þennan dag sagði Mr. Parkers aðalforstjóri BDSF: „Ég get ekki með orðum lýst hversu mikið áfall andlát hans er fyrir okkur. Þekking hans á starfseminni var alhliða. Hann naut virðingar allra sem störfuðu hjá útgerðinni. Mest munu skipstjórar og stýrimenn okkar sakna hans sem persónu og ráðgjafa um fiskveiðar. Hann skildi þá svo vel.“ Andlátsfregn Páls var strax send öllum flota BDSF.
Þetta er í fáum orðum lífshlaup íslenska sjómannsins sem fór til Englands 16 ára að læra verslunarfræði en varð um árabil meðal fremstu skipstjóra þar og eftir að í land var komið einn af forstjórum stærsta útgerðarfélags Englands.
Skráð eftir skrif - og munnlegum heímildum, Össurar Aðalsteinssonar, fyrrverandi kaupmanns í Reykjavík, bróður Páls, og minningum undirritaðs.

HAVFRUIN STRANDAR
Að kvöldi 16. nóvember 1949 hringdi Landsímastöðin á Siglufirði í Þórarinn Dúason, formann slysavarnadeildarinnar á staðnum, og tilkynnti að neyðarkall hefði heyrst frá færeyska fiskiskipinu Havfruin og væri það strandað við Siglufjörð. Skipstjóri skipsins sagði að hjálp yrði að berast strax þar sem skipið væri að fyllast af sjó og stöðugt bryti yfir það. Ekki var vitað nákvæmlega um strandstaðinn en hann talinn vera vestan Siglufjarðar. Mikið dimmviðri var og sagði skipstjórinn að ekkert sæist frá skipinu annað en upp í kletta í fjöru. Slysavarnadeildarformaðurinn hafði samband við Sauðanes, Siglunes og Hraun og voru menn beðnir að fara til leitar. Sveinn okkar Jónsson, hér á Hásteinsvegi 31, sem er alinn upp í Sauðanesvita, fór ásamt tveimur öðrum þaðan. Leituðu þeir vestan megin en Siglunesmenn austan megin fjarðarins. Einnig voru 5 bátar, sem voru í Siglufjarðarhöfn, sendir til leitar. Þrír þeirra voru færeyskir. Síðast, þegar haft var samband við færeyska skipstjórann, sagði hann að mikill sjór væri kominn í skipið og öll ljós farin. Var hann þá beðinn að kynda bál vegna leitarinnar. Kl. 0125 tilkynnti einn leitarbátanna, Bjarmi frá Dalvík, að bál sæist innanvert við Almenningsnöf. Þá hélt 30 manna leitarflokkur Siglufjarðarsveitarinnar, undir stjórn Sveins Ásmundssonar, af stað. Farið var á jeppa - og vörubifreiðum. Skömmu síðar fóru tveir bílar í viðbót með lækni, mat, teppi o.fl. Aðstæður á strandstað voru mjög erfiðar. Skipið hafði strandað undir snarbröttum og háum bökkum sem erfitt var að fara niður. Skipbrotsmönnum tókst að láta belg með línu reka í land. Gekk greiðlega að koma björgunartækjum um borð í skipið og átján menn voru dregnir í land. Tók það um 40 mínútur. Samt áttu björgunarmenn í miklum erfiðleikum þar sem ekki var hægt að festa björgunarlínuna í landi og urðu þeir að halda í hana þar sem þeir stóðu í skriðu meðan mennirnir voru dregnir í land. Skipbrotsmennirnir voru flestir vel á sig komnir. Gátu þeir komist upp skriðuna á handvaði og þegar upp kom fengu þeir hressingu. Kl. 0900 var haldið til Siglufjarðar, tæpum hálfum sólarhring eftir að neyðarkallið barst. Þar dvöldu Færeyingarnir á Hótel Hvanneyri. Við komu þeirra til Reykjavíkur hélt stjórn Slysavarnafélags Íslands þeim kaffisamsæti. Hinn 9. september árið eftir, voru björgunarmenn heiðraðir af tryggingafélagi Havfruarinnar. Sendiherra Dana á Íslandi færði björgunarsveitinni gjöf sem Guðbjartur Olafsson forseti Slysavarnafélags Íslands tók á móti. Var það áletraður silfurskjöldur og 5 þúsund færeyskar krónur og Slysavarnafélagið heiðraði björgunarmenn með skrautrituðum þakkarávörpum fyrir frækilega björgun.
Skráð skv. heimildum úr Þrautgóðum á raunastund, 4. bindi, í samantekt Steinars J. Lúðvíkssonar.

KING SOL STRANDAR
Í september 1936 lauk hjá Cochranes skipa-smíðastöðinni í Selby í Englandi smíði togarans King Sol GY 338 fyrir Rinovia útgerðarfélagið í Grimsby. Hann var 486 tonn, 166,2 fet á lengd og 27,6 á breidd. Í skipið fór gufuvél um 600 hestöfl. Þórarinn Olgeirsson, síðar ræðismaður okkar í Grimsby, togaraskipstjóri og útgerðarmaður, átti hlut í skipinu. Hann sá um byggingu þess og var skipstjóri þar fyrstu þrjú árin þar til skipið var tekið til herþjónustu af breska flotamálaráðuneytinu í upphafi síðari heimsstyrjaldarinnar. Bretarnir tóku stærstu og bestu togarana í stríðsaðgerðirnar til slæðingar tundurdufla og að granda kafbátum. King Sol var stærsti og fullkomnasti togari breska flotans þegar hann hóf veiðar. Mikið var talað um vandaðan og fullkominn frágang og kostnaðinn við smíðina en fullbúið kostaði skipið 23 þúsund sterlingspund. Þórarinn fiskaði við Bjarnarey, Ísland og Spitsbergen. Árin sem hann var með skipið var hann aflahæstur í Grimsby og þegar hann lét af stjórn og King Sol fór í stríðsreksturinn hafði hann meira en borgað sig. Að styrjöldinni lokinni, 1945, var King Sol snúið til fyrra hlutverks og tók þá Páll Aðalsteinsson við skipinu og var með það næstu árin. Var King Sol áfram aflahæstur í Grimsby, flest árin sem Páll var með hann og mikil gæfa fylgdi þeim eins og björgun Havfruarinnar hér að framan sýnir. Á eftir Páli tóku við skipinu breskir skipstjórar og í ársbyrjun 1955, tók við því Philip Farmery. Hann var reyndur skipstjórnarmaður sem hafði orð á sér fyrir mikla aflasæld.

Laust fyrir miðnætti sunnudagsins 27. febrúar 1955 var Henry Hálfdánarson skrifstofustjóri Slysavarnafélagsins ræstur. Loftskeytastöðin í Reykjavík tilkynnti að borist hefði frá Vestmannaeyjaradíói. að neyðarskeyti hefði heyrst frá King Sol þar sem greint var frá að hann væri strandaður í nánd við Dyrhólaey. Formaður björgunarsveitarinnar í Vík, Ragnar Þorsteinsson, var ræstur og í framhaldi af því fór björgunarsveit hans til leitar. Skömmu síðar hafði Valdimar Lárusson á Kirkjubæjarklaustri samband við Henry og skýrði frá að Magnús Sigurðsson formaður Slysavarnadeildarinnar Happasæls í Meðallandi hefði haft samband við sig og beðið sig að greina frá því að fólk í Meðallandi hefði talið sig verða vart við skip sem væri í nauðum statt og hefði björgunarsveitin verið kölluð út. Valdimar náði samband við King Sol og fékkst þá úr því skorið að hann væri strandaður á Meðallandsfjörum. Þá var hjálparbeiðnin við björgunarsveitina í Vík afturkölluð. Þessa nótt gerði hið versta veður eystra þannig að óvíst var um afdrif skipbrotsmanna. Gat því oltið á miklu að björgunarsveitin yrði skjót á staðinn. Var því haldið þegar af stað. Slíkur var veðurofsinn að ófært reyndist fyrir björgunarsveitarmenn að vera á opinni vörubifreið og fengu þeir lánaðan jeppa. Var því ekki hægt að taka með líflínu. Þeir sem bjuggu austan Eldvatns komu á yfirbyggðri vörubifreið. Þegar þeir komu niður í sandinn fór veðurofsinn að segja verulega til sín. Sandurinn rauk eins og mjöll og skyggni því afleitt. Ferðin sóttist samt vel og reyndist strandstaðurinn vera 6 km. fyrir vestan skýlið á Meðallandssandi á Skálárfjöru. Fjarlægð til bæja var um 25 km. King Sol var um 200 m. frá landi og braut stöðugt yfir hann enda að verða háflóð. Töldu heimamenn því hyggilegra og bíða fjöru. Magnús sendi 2 menn til bæja í jeppa og bað um að orðsendingu, gegnum talstöðvarsamband, yrði komið um borð um að skipshöfnin biði þar uns fjaraði. Kl. 0630 h. 28. skutu skipverjar línu í land. Þá var mikið brim en veður fór batnandi. Þegar línunni varð náð. voru send út í skipið björgunartaug og björgunarstóll. Skipverjar virtust lítt kunna notkun björgunartækjanna. Settu þeir mann í björgunarstólinn án þess að binda hann. Var ekki um annað að gera en draga upp á líf og dauða. Maðurinn losnaði fljótt úr stólnum og fór í sjóinn. Þar sem hann bar að landi stukku tveir björgun-arsveitarmenn út í brimið og tókst að ná honum.

King Sol á Íslandsmiðum. Ljósm.: Snorri Snorrason

Eftir þetta voru tveir björgunarmenn vaðbundnir og biðu í fjöruborðinu. Skeyti var fest á björgunarstólinn og sent út í skipið þar sem beðið var um sterkari vír eða tóg í land. Annað skeyti var útbúið og sent um borð og teiknaðar á það skýringar. Þrátt fyrir annmarka og kunnáttuleysi skipverja tókst að draga þá hvern af öðrum í land. Lentu bæði skipbrots - og björgunarmenn í miklu volki. Nokkru eftir að björgun hófst, komu menn, sem sendir höfðu verið til bæja, með Ulf Ragnarsson lækni, prímus og kaffi. Kl. 1100 hafði 17 af 20 manna áhöfn skipsins verið bjargað. Skipstjóri, stýrimaður og loftskeytamaður voru um kyrrt um borð. Jafnóðum og mennirnir komu í land, hinir hressustu voru þeir fluttir í skipbrotsmannaskýlið. Um hádegið var loftskeytamaðurinn dreginn í land, síðar stýrimaðurinn og skipstjórinn. Töluvert basl var með skipstjórann. Fætur hans flæktust í línu. Þurftu björgunarmenn að sýna mikið snarræði og vaða langt út í sjó til þess að ná honum. Allir voru komnir til bæja kl. 3 síðdegis og var Englendingunum komið fyrir á bæjunum Lágu-Kotey, Bakkakotsbæjum og Langholti. Björgunin var hin erfiðasta sökum veðurofsans en tókst slysalaust. Daginn eftir var komið betra veður. Við skoðun kom í ljós að King Sol var kjölréttur, enginn sjór var í honum og skemmdir ekki sjáanlegar og þann dag fór áhöfnin til Reykjavíkur.
Hinn 2. mars bauð Slysavarnafélag íslands, Kvennadeildin í Reykjavík og Sjómannastofan þar til kaffidrykkju. Skipstjórinn á King Sol sagði þá í ræðu að hann og skipshöfn hans ættu engin orð til þess að lýsa þakklæti sínu í garð Slysavarnafélags Íslands, björgunarsveitarmanna og fólksins sem þeir gistu hjá í Meðallandi. Í ræðu Guðbjarts Ólafssonar forseta Slysavarnafélagsins kom fram að aldrei hefði tapast maður í björgunarsveitum félagsins við björgunarstörf. Oft hefðu þó margir hætt lífi sínu við þau.
Það var hinn 23. mai að King Sol náðist á flot með eigin vélarafli og átaki frá breska eftirlitsskipinu Mariner. Hamar, vélsmiðja í Reykjavík, vann að undirbúningi þess. Þar sem stýri togarans hafði laskast, dró Mariner hann til Reykjavíkur. Við skoðun í slipp reyndust skemmdir vera frekar litlar, aðrar en á stýri. Breski dráttarbáturinn Englishman kom litlu síðar og dró King Sol til Englands. Björgun áhafnarinnar vakti mikla athygli þar. Borgarstjóri Grimsby minntist hennar með þakklæti á næsta fundi eftir að fréttir bárust og blöð sögðu frá. Seinna um sumarið komu fulltrúar tryggingafélags skipsins og eigenda þess til Íslands og héldu austur í Meðalland ásamt stjórn Slysavarnafélags Íslands og breska sendiherranum. Héldu þeir Meðallendingum samsæti 8. ágúst þar sem frækileg björgun var þökkuð og heiðursskjöl afhent.
Skv. heimildum úr Þrautgóðum á raunastund í samantekt Steinars J. Lúðvíkssonar.
Þegar fyrsta landhelgisstríðið hófst með færslu landhelginnar út í 12 sjómílur 1. september 1958, var King Sol þar til staðar. í Landhelgisbók Gunnars M. Magnúss kemur m.a. fram: „Nú var það að breski togarinn King Sol var að ólöglegum veiðum út af Vestfjörðum hinn 9. september er varðskipið Óðinn kom á vettvang og ætlaði að taka togarann vegna landhelgisbrots. Þegar Óðinn nálgaðist King Sol, tók togarinn allt í einu skrið aftur á bak svo að skipin snertu hvort annað og skrapaðist eitt borð í byrðingi Óðins. Þetta var í annað sinn sem skipstjóri King Sol hafði slíkan leik í frammi.“
Síðasta sigling King Sol var til Belgíu 1961. Þangað kom hann 4. febrúar það ár og var seldur í brotajárn.

Sölubörn Sjómannadagsblaðsins 2002 fyrir utan Bása