Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2001/ Nýtt veiðarfæri á Íslandsmiðum

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Nýtt veiðarfæri á Íslandsmiðum Upphaf veiða með skötuselsnetum


Í byrjun árs 2000 óskuðu þeir Hallgrímur Pétursson, skipstjóri og Ragnar Guðmundsson, vélstjóri eftir að fá gamla Glófaxa, sem þá hét orðið Sæfaxi VE 30, leigðan til skötuselsveiða. Þeir höfðu kynnst þessum veiðiskap í Færeyjum. Niðurstaðan varð sú að Bergvin Oddsson, skipstjóri og útgerðarmaður bátsins gerði hann út, en Hallgrímur var skipstjóri og Ragnar vélstjóri. Í febrúar fóru þeir á bátnum til Færeyja, tóku þar veiðarfæri og búnað, að öllu leyti eins og Færeyingarnir nota. Byrjað var fljótlega eftir heimkomuna og voru netin lögð á Kötlugrunnið. Þar var verið með þau allan tímann meðan Hallgrímur og Ragnar voru um borð. Upphafið lofaði góðu að öðru leyti en því, að þarna var um tilraunaveiðar að ræða og gekk því illa að ráða og halda mannskap.
Þeir voru með lítið af veiðarfærum í sjó, 400 til 500 net, en fiskuðu vel fyrstu tvo mánuðina, um 30 tonn af aðgerðum skötusel.
Nýir menn keyptu þá Sæfaxa og fóru strax á þennan veiðiskap. Það var í júní í fyrra og voru þeir á þessum veiðum eingöngu til síðustu áramóta.
Um miðjan september s.l. fór Bergvin á báti sínum Glófaxa VE 300 á skötuselsnet. Síðar bættust við Guðrún VE, hún var einnig með þorskanet samtímis skötuselsnetunum, Bjarni, Byr og Lilja, allir frá Vestmannaeyjum. Hafnarröst frá Þorlákshöfn fór líka á þessar veiðar og e.t.v. fleiri.
Allir vou þeir að til áramóta nema Hafnarröstin sem var að fram að verkfallinu núna í mars sl. en með litlum árangri frá áramótum. Lítill afli var hjá þeim öllum milli jóla og nýárs.
Veiðisvæðið var á Kötlugrunni, Síðugrunni, Holtshrauni og Öræfagrunni. Á þessum svæðum var hann uppi á grunnunum, en lítið niðri í köntunum. Talið er að hann fari í janúarbyrjun niður í dýpin til að hrygna. Annars er lítið vitað um þennan fisk og margt ókannað um atferli hans. Stofnstærð og útbreiðsla óþekkt en talið er að hann verði kynþroska 3 ára.
Netin. slöngurnar, eru með 12 til 14 tommu möskvastærð, 0,7 mm. að ummáli.
Neðri teinninn er 16 mm. blýteinn, og sá efri er úr filmuefni 14 mm. án flots. Slöngurnar eru saumaðar á teinana með sérstakri saumavél. María Friðriksdóttir, eiginkona Bergvins, hefur saumað öll netin á Glófaxa. Hvert net, uppsett, er 15 faðma langt, dýptin tæpir 2 faðmar og höfð eru 80 net í trossu. Þeir á Glófaxa voru með 19 trossur í sjó, samtals 1520 net. Ef trossurnar væru lagðar endakast hver af annarri, næðu þær meira en 20 sjómílur.
Fljótt kom í ljós að netin þurftu að liggja í sjó að minnsta kosti í 4 til 5 daga og það verði fiskinum ekkert þótt þau lægju í 6 til 7 daga. Ásættanlegt var að draga 7 trossur á dag og tók drátturinn um 12 klukkustundir.
Aflinn hefur aðallega farið ísaður í gámum til Englands, Danmerkur og Færeyja, einnig á Fiskmarkað Vestmannaeyja, enda herramannsmatur. Fiskiðjan Bylgja í Ólafsvík hefur keypt töluvert af honum þaðan. Þar var hann flakaður, frystur og seldur til Belgíu.
Veiðarfærið tekur mikið svæði í sjónum eins og kom áður fram. Þeir sem hafa stundað þennan veiðiskap segja að náið samstarf þurfi að hafa á sjónum svo árekstrar verði ekki á slóðinn hverju sinni. Það þurfi því skipulagningar við gagnvart öðrum veiðarfærum.
Eins og áður kom fram er stofnstærð og útbreiðsla skötuselsins óþekkt. Þess vegna telja menn óráðlegt að leyfa fleiri en nú eru á þessum veiðum að hefja veiði.
Lágmarkskostnaður í byrjun er 10 til 12 miljónir.
Fyrir nokkrum árum hófu Norðmenn skötuselsveiðar og hleyptu ótakmörkuðum flota á veiðarnar með slæmum afleiðingum. Miklir árekstrar við hin ýmsu veiðarfæri voru á miðunum og stofninn veiddist upp á 2 til 3 árum.
Vonandi verður skynsamlega að þessum veiðiskap staðið hér, sátt ríki á miðunum og stofninn verði ekki veiddur upp á fáum árum.