Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2001/ Eftirminnileg sjóferð
Ef við kynnum okkur þær breytingar sem orðið hafa síðustu 60 árin sjáum við að á flestum sviðum hafa þær orðið mjög miklar. Hér í Eyjum var það nær eingöngu sjósókn og vinnsla aflans sem voru uppistaða alls athafnalífsins.
Þar hafa framfarir orðið stórtækar. Rétt um það leyti skall á síðari heimstyrjöldin sem olli gagngerri breytingu á öllu hér á landi. Fljótlega gætti hennar á mörgum sviðum. Þar á meðal á útflutningi á fiski frá Íslandi, ekki síst frá Vestmannaeyjum, til Englands. Það var ekki eins og nú að ftskurinn væri unninn í neytendaumbúðir. Nei, hann var ísaður, með haus og hala, án allra umbúða, beint í lest skipsins. Í þessum ferðum var fjöldi íslenskra skipa, ég held allur togarafloti landsins og fjöldi af færeyiskum skútum. Eitt þessara skipa var Helgi VE 333. Það yrði of langt mál að segja alla sögu Helga sem áreiðanleg er litrík á köflum. Enda kunna aðrir þá sögu betur en ég. Í stað þess verður reynt að segja, aðallega, frá einni ferð sem Helgi fór áleiðis til Englands. En vegna óhapps endaði ferðin aftur heima í Eyjum án þess að komast til áfangastaðar sem var Fleetwood í Englandi.
M.s. Helgi var um 115 smálestir að stærð. Byggður í Vestmannaeyjum 1939.
Eigandi Helgi Benediktsson, útgerðarmaður og kaupmaður. Helgi var gjarnan á síldveiðum fyrir Norðurlandi á sumrin. Mikið í vöruflutningum milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur. Svo í flutningum fyrir herliðið þegar það var hér á landi á stríðsárunum. Það sem eftirminnilegast er af sjóferðasögu Helga, held ég megi segja séu fiskútflutningar hans til Englands og með vörur aftur heim, á styrjaldarárunum. Helgi Ben var drífandi maður. Hann átti þó nokkra báta sem gerðir voru út frá Eyjum. Var það mikli lyftistöng fyrir atvinnulífið hér. Hann átti Skaftfelling, sem á merka sögu að baki.
Hann var líka í þessum fiskútflutningum til Englands. Frásögn af einni frægðarför hans hefur birtst á prenti. Þegar Helgi kom af síldveiðum þetta haust, 1941, fór hann í vöruflutninga milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur. En þann 20. okt. var tekið á móti fiski í Helga til útflutnings á England. I þessari ferð var skipstjóri Ásmundur Friðriksson frá Löndum. Stýrimaður Hallgrímur Júlíusson. Aðrir í skipshöfn voru: Eðvald Valdórsson 1. vélstjóri, Ágúst Ólafsson 2. vélstjóri, Hjörtur Gunnlaugsson matsveinn, Brynjólfur Guðlaugsson háseti og Jón Gunnlaugsson háseti. Vegna óljósra gagna um nöfn annarra en skipstjóra og stýrimanns, er birtingin án ábyrgðar.
Þessi ferð sem farin var til Fleetwood, gekk að óskum. að öðru leyti en því að eftir rúmlega sólarhrings ferð, gerði suðaustan hvassan vind, mótvind, með þeim afleiðingum að tvær rúður í stýrishúsi brotnuðu. Maðurinn. sem við stýrið stóð, skarst lítillega á andliti af glerbrotum. Eftir að neglt hafði verið fyrir gluggana, var ferðinni haldið áfram, með góðum endi í Fleetwood.
Úr þessari ferð var komið 2. nóv. í þessari ferð voru vörur fluttar heim, einkum sement í lest og kol á dekki. Eitt skiptið var skipið svo sigið þó inni í höfn væri að sjór flaut inn á dekk svo að vandræði urðu við að taka olíu, sem tekin var um op á dekki. Það var því ekki mikið borð fyrir báru, frekar en oft áður.
Það sem eftir var ársins var ekki tekið á móti fiski í Helga enda lítið um róðra á þessum árstíma.
Um áramótin tekur við skipstjórn Ásgeir Ásgeirsson og stýrímaður Páll Þorbjörnsson. Þann 5. janúar 1942 var tekið á móti fiski í Helga, og átti að fara með fiskinn til Englands. Heldur gekk vel að fylla lestina. Við það var ekki látið sitja, heldur var fiskur ísaður í trékassa, þeim komið fyrir á hekkið og í ganga til hliðar við stýrishús. Ekki var hætt við svo búið því í lúkarinn var einnig ísaður fiskur. Helgi var því vel lestaður þegar úr höfn var látið. Þann 9. janúar voru landfestar leystar og haldið áleiðis til Fleetwood í Englandi. Í tvo sólarhringa, í góðu veðri, brunaði Helgi kunna leið í suðaustur átt. En þá, án sýnilegrar ástæðu, hætti skipið snögglega að láta að stjórn. Einhver bilun í stýrisbúnaði líklegust.
Til að komast að stýrisleiðslunum varð að forfæra fiskikassa bæði á hekki og í göngum. Ekkert óeðlilegt var þar að sjá. Bilunin hlaut því að vera neðansjávar. Yfirmenn báru nú saman bækur sínar um til hvaða bragðs skyldi gripið. Á þessum slóðum og við þessar aðstæður var talstöð ekki notuð, nema í ítrustu neyð. Þegar sýnt þótti að hjálp væri ekki á næstu grösum, var gripið til þess ráðs að útbúa neyðarstýri í von um að komast áleiðis heim.
Um borð var dálítið af tógi sem átti að selja í Englandi. Úr tóginu var gerður nokkuð stór köggull. Hann var settur í sjóinn aftur af skipinu. Tveir taumar frá honum hvor sínu megin á skipinu og inn á spil. Böggulinn átti að færa til þeirrar hliðar sem beygja átti skipinu. Þetta reyndist ónothæft.
Skipið rak því áfram stjórnlaust fyrir vindi og sjó. Um nóttina kom upp að síðu Helga ensk freigáta. Með ljóskösturum lýstu þeir Helga upp. Haft var samband við freigátumenn og þeim tilkynnt að stýri skipsins væri bilað og þyrftum við aðstoð. Ekki sinntu þeir okkur á neinn hátt. Aftur réði dimman ríkjum og hvarf freigátan út í sortann. Nú þótti ástæða til að reyna að ná sambandi við Vestmannaeyjar. en ekkert svar kom. Ekki voni ljós höfð ofandekks. Því var ekki hægt um hönd að vinna úti á dekki í skammdegismyrkri sem var meirihluta sólarhringsins á þessum árstíma. Þrátt fyrir það var unnið að annarri tilraun með annars konar neyðarstýri. Nú var notuð bóma.
Til þess að halda henni þversum í sjónum var hafður „hanafótur" á henni.
Þessu komið fyrir í taug nokkru aftan við skipið. Taumum í það og inn á spil, svo sem í fyrri tilraun. Þetta reyndist einnig ónothæft. Nú var sjór tekinn að ýfast nokkuð. Þegar verið var að taka bómuna inn á hekkið, kom sjór á skipið með því óhappi að stýrimaðurinn. Páll Þorbjörnsson, varð fyrir höggi af bómunni og slasaðist. Já, oft er talað um að ekki sé ein báran stök. Veðrið versnaði allmjög. svo skipið lá undir áföllum. Vegna þess hvað veðrið var orðið slæmt, var útbúið drifakkeri til að milda sjóinn. Í drifakkerið var notaður seglpoki. Í hann var sett töluvert af tvisti og öðru dóti. Í þetta var hellt olíu. Þessu var slakað út með taug um mitt skip, vindmegin, spölkorn frá skipi. Við þetta varð sjórinn ekki eins harður. Í þessu veðri reyndi ansi mikið á skipið. Því var í annað sinn reynt að hafa samband við land í gegnum Reykjavik, því árangurslaust virtist að ná sambandi við Vestmannaeyjar. Að lokum náðist samband við Reykjavík og einnig við togarann Rán. Litlu síðar kom samband við Vestmannaeyjar.
Þegar þær aðstæður skapast að maður stendur frammi fyrir að náttúruöflin svona hve mikinn mátt þau eiga til ef svo ber undir þá finnur maðurinn hve lítils hann má sín gagnvart þeim. Það gerist því óafvitandi að hugurinn hvarlar til þess sem þennan mikla mátt hefur látið verða til. Hugsunin til hans endar því með bæn. Þegar þessu veðri slotaði, var enn tekist á við að útbúa neyðarstýri. Þá aðferð má nefna rófustýri. Aftur var fyrrnefnd bóma notuð. Annar endi hennar boltaður lauslega við hekkið. Á hinn endann, sem í sjó fer, er festur hleri og hann þyngdur með járni. Taumar frá neðri enda hlerans lágu hvoru sínu megin og inn a spil sem maður var við að stýra. Ekki hefði verið eftirsóknarvert að vera þar í mikilli ágjöf. Já allt er þá þrennt er. Þessi þriðja tilraun heppnaðist það vel að skipið lét þokkalega að stjórn. Það er ekki að ástæðulausu, þegar sagt er: „Neyðin kenni naktri konu að spinna."
Í góðum byr og á leikandi léttum ránardætrum var stefnt í áttina heim. Sjá mátti á brosmildum svip manna að vondeyfð hafði breytst í vongleði. Eftir fjögurra sólarhringa hrakning birtist tilefni til að anda léttar því í augsýn var land fyrir stafni. Það reyndist vera Hjörleifshöfði. Haldið var vestur með landi til Eyja. Haft var samband við Eyjar og tilkynnt um komutíma, svo og að bátur kæmi til móts við Helga að draga hann inn í höfnina. M.b. Muggur tók Helga í tog.
Þrátt fyrir allt sem á undan er gengið er ekki hægt að segja annað, en að lánið hafi fylgt okkur, þegar til baka er litið. Það er afrek skipshafnar að takast að yfirstíga lítt þekktan vanda eftir að óhappið reið yfir og undir svona kringumstæðum. Vandinn fólst einnig í því að aðstæður voru mjög erfiðar. Ekki var það síður mikið lán að vera komnir í höfn þetta snemma.
Því nokkru eftir að við komum heim, skall á vont veður með miklum óróa í höfninni. Flutningaskip, sem í höfninni var, sleit landfestar sínar og bátar urðu fyrir skemmdum í höfninni. Að vera í óveðri í hafi úti með ófullnægan stýrisútbúnað sem þoldi auðvitað takmarkað hnjask, hefði auðvitað getað brugðið til beggja vona. Daginn eftir að í höfn var komið, var skipshöfninni boðið heim til þeirra hjóna Helga og Guðrúnar sem veittu af rausn. Beðið var þar til sogadrátturinn af völdum veðursins minnkaði í höfninni.
Kafarar úr Reykjavík voru tilbúnir að hefja vinnu við viðgerð á stýrinu. Hún gekk að óskum. Ekki var beðið boðanna því daginn eftir var látið úr höfn, í annað sinn, með sama farminn. Páll Þorbjörnsson varð eftir vegna meiðslanna og við tók Bernódus Benediktsson. Stefnan sett sem fyrr á Fleetwood. Eins og fyrr var sagt, var fiskur í kössum á dekki, hann reyndist ónýtur.
Eftir þetta fór Helgi margar ferðir til Englands með fisk. Eins og æfinlega þegar siglt er um Norður-Atlantshaf, einkum að vetri til, getur atburðarrásin orðið með ýmsu móti eins og sagt var frá í Ríkisútvarpinu í desember 2000. Þar var sagt frá ferð sem Helgi fór til Englands árið 1943. I þeirri ferð hreppti Helgi eitt óveðrið, sýnilega enn verra en árinu áður. I stríði leynast hættur víða. Í einni ferðinni, að degi til, sást kafbátur nokkuð nálægt. Ekki var vitað hverrar þjóðar hann var. Sem betur fór hvarf hann sjónum okkar nokkuð fljótt. Var það í eina skiptið sem þeim mönnum sem á frívakt voru, var sagt að afklæða sig ekki. þó í koju færu. í annað skipti var eitthvað óvenjulegt á ferðinni. Í dimmunni sást ljósafár mikið á himni, allt var á ferð og flugi. Ekki virtist þetta í mikilli fjarlægð að sjá, líklega var þetta flugvélahópur á ferðinni. Ekki treystum við okkur til að spá hvað um var að vera.
Hér er rétt að setja punkt en þó má segja: „Svona lor um sjóferð þá."