Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1999/ Sjómannadagurinn 1998
Undirbúningur fyrir daginn byrjaði óvenju snemma þetta árið. Um miðjan janúar 1998 var haldinn aðalfundur Sjómannadagsráðs og undirbúningur fyrir daginn hófst.
Ráðin var hljómsveit og lagt á ráðin um að halda stóra skemmtun í Týsheimilinu. Svo liðu þorri og góa með nokkrum fundum æðstu manna, ráðnir voru skemmtikraftar og almennur undirbúningur hófst, aðallega með bréfaskriftum og símtölum.
Líður nú nær stóra deginum. Í lok mars vorum við búnir að tryggja okkur Týsheimilið. Þá voru umtalsverðar byggingarframkvæmdir í gangi þar og átti þeim að vera lokið um miðjan maí. Auk Týsheimilisins var Alþýðuhúsið inni í myndinni eins og vanalega. Það eru margir sem halda tryggð við Allann og vilja hvergi annars staðar vera. Samið var við Grím Gísla í Veisluþjónustunni um að sjá um matinn.
Þegar leið á maímánuð fóru að renna tvær grímur á menn. Týsheimilið yrði kannski ekki tilbúið fyrir sjómannadag! Nú voru góð ráð dýr! En það var einn maður sem sagði alltaf að allt yrði klárt fyrir sjómannadag, þetta yrði ekkert mál. Það var Steini stóri framkvæmdastjóri ÍBV og hann stóð við það með hjálp góðra manna. Það var skondin sjón að sjá Steina og Kára Þorleifs skúra út nýju klósettin og ganginn, þremur tímum áður en dagskrá átti að hefjast í húsinu.
Vikuna fyrir sjómannadag er formaður ráðsins í fullri vinnu við að undirbúa daginn. Á fimmtudegi hittast menn og skipuleggja vinnuna um helgina. Það þarf að keyra út fánastöngum, undirbúa sviðið í Friðarhöfn, betla hitt og þetta smálegt og hafa samband við fjölda manns sem kom nálægt dagskránni.
Föstudagur fer í framkvæmdir og á laugardagsmorgni kl. 10 fer flöggunarnefndin á stúfana og flaggar í Friðarhöfn. Bátagengið tekur kappróðrabátana upp og þrífur og allt er gert klárt í Friðarhöfn. Á föstudeginum fór fram hin geysivinsæla knattspyrnukeppni milli áhafna og er liðunum alltaf að fjölga. Sumar áhafnir eru meira að segja farnar að láta sauma á sig búninga, eru komnar með styrktaraðila og setja verð á einstaka leikmenn. Voru nokkrir "njósnarar" erlendra stórliða viðstaddir keppnina en þótti leikmenn fullfrekir til ákveðins vökva. Sigurvegari keppninnar var áhöfnin á Guðmundi. En allt var þetta til gamans gert og allir fóru sáttir frá leik.
Laugardagur
Dagskráin byrjaði í Friðarhöfn kl. 13.30 með hinum sígilda kappróðrí og alltaf virðist þátttakan verða dræmari. Það er kominn tími til að hressa aðeins upp á kappróðurinn og eru ákveðnar hugmyndir þar um innan Sjómannadagsráðs. Uppljóstra má að hugmyndin er að kaupa nýja báta sem eru léttari og hraðskreiðari en þeir eru dýrir og verður líklega að fara betliferð til að kría út aura til þess. Áhöfnin á Gjafar sigraði í flokki skipa. Í félagaflokknum sigruðu Verðandimenn og í flokki landmanna sigruðu Glussatjakkar.
Á eftir kappróðrinum var keppni í netabætingum og pokahnýtingu, og varði Guðjón Mattíasson á Smáey titilinn, frá árinu áður, með glæsibrag.
Síðan var keppt í reiptogi og til gamans má geta þess að reipið kom frá Jóel Andersen og var partur af reknetakapli af Júlíu. Reiptogið unnu Verðandimenn, enda þeirra lið um hálfu tonni þyngra en önnur.
Var haft á orði að holdafar skipstjórnarmanna í Eyjum væri óvenju gott þetta árið, enda góðæri og góðir kokkar í Eyjaflotanum. Þar með lauk dagskrá í Friðarhöfn og harðsnúinn flokkur kom dótinu þaðan í geymslu og fór létt með.
Um kvöldið kom að hátíðardagskrá í Týsheimili og Alþýðuhúsi. Hátíðin hófst með borðhaldi og voru um 300 manns í Týsheimili og rúmlega 100 manns í Alþýðuhúsinu. Ég held að óhætt sé að segja að enginn hafi verið svikinn af veislumatnum hjá Grími. Að borðhaldi loknu voru veittar viðurkenningar: Sjómannadagsráð heiðraði Sigmar Þór Sveinbjörnsson fyrir fórnfúst og frábært starf við Sjómannadagsblað Vestmannaeyja, en blaðið 1998 var síðasta blaðið sem Sigmar ritstýrði og ítrekum við þakkir okkar til hans. Eykyndilskonur voru heiðraðar fyrir þeirra óeigingjarna starf í þágu öryggismála sjómanna og Óli Már Sigmundsson fékk viðurkenningu fyrir snyrtilega umgengni um bát sinn.
Síðan tóku við hin ýmsu skemmtiatriði. Þar á meðal var Smári Harðarson kraftakarl sem gerði nokkrar léttar æfingar. Tók meðal annars þann ófeimna útgerðarmann Kristján Óskarsson á Emmu, á bakið og gerði 30 armbeygjur. Eftir það fór Stjáni úr að ofan, hnyklaði vöðvana og sagði: „Smári Harðar hvað." Bjarki Guðnason, Ólafssonar á Gjafar töfraði menn úr fötum og lét hluti hverfa, vaxandi galdrakarl enda menntaður í fræðunum hjá Ása galdró. Gríndúóið Radíusbræður lagði salinn og stelpur og ein karlkyns fyrirsæta eróbikkuðust fyrir gesti. Árni "Pálsvinur" Johnsen kom öllum í gott söngstuð og fór létt með að venju. Síðan tók við dúndrandi dansleikur við undirleik hljómsveitarinnar með geðþekka nafninu, Skítamórall og dansaði fólk fram á rauðan morgun. Í Alþýðuhúsinu voru að mestu heimatilbúin skemmtiatriði, enda nóg af skemmtilegu fólki í sjómannastétt í Eyjum. Rakarinn hugljúfi, Viktor og hans menn, dönsuðu á rósum fram eftir nóttu og fóru margir dansþreyttir þaðan að sögn.
Þessi tilraun okkar með Týsheimilið tókst ágætlega nema hvað loftræstikerfið í húsinu bilaði og hitinn fór upp úr öllu valdi. Margir þoldu illa sér í lagi eldra fólk sem tíndi tölunni fyrr en ella. Afskaplega leitt tilvik sem ekki kemur fyrir aftur.
Sunnudagurinn rann upp bjartur og fagur. Messa kl 13.00 að venju. Snorri í Betel fór með sína tölu við minnismerki drukknaðra og hrapaðra, eftir messu, við lúðrablástur Eyjaflotans en öll skip á Íslandi þeyttu lúðra sína í tilefni af ári hafsins.
Síðan lá leiðin á Stakkó en hefðbundin hátíðardagskrá fór þar fram. Ræðumaður dagsins var Lúðvík Bergvinsson, alþingismaður. Veitt voru verðlaun til stýrimannaskólanema fyrir góðan árangur og þyrlubjörgunarsveit LHG var veitt viðurkenning fyrir að bjarga Jóel Andersen og Halldóri syni hans er bátur þeirra, Mardís sökk á Selvogsbanka. Heiðursskildi Sjómannadagsráðs fengu: Þórarinn Ö. Eiríksson og Hilmar Rósmundsson frá S.s. Verðandi, Þórhallur Þórarinsson frá Vélstjórafélagi Vestmannaeyja og Magnús Stefánsson frá Sjómannafélaginu Jötni. Lúðrasveitin spilaði og skemmtikraftar komu fram og að síðustu spilaði „Skítamórall" nokkur lög fyrir viðstadda.
Að endingu skal minnst á skipslíkanasýningu sem opin var í Ásgarði alla helgina. Tryggvi Sigurðsson vélstjóri og líkanasmiður átti allan heiðurinn af þeirri sýningu sem þótti takast með afburðum vel og komu vel á þriðja þúsund gestir á sýninguna. Mátti heyra á mæli gesta að þessi sýning væri þarft framtak og með ólíkindum hve mikið væri til af fallegum líkönum og hagleiksmönnum hér í Eyjum. Vil ég nota tækifærið og þakka öllum þeim sem lánuðu okkur muni á sýninguna og að hún varð eins glæsileg og raun bar vitni.
Gert á nýársdag (eftir hádegi) 1999.
Valmundur Valmundsson
formaður Sjómannadagsráðs