Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1999/ Sjóferð til Reykjavíkur 1946
Ég ætla að gamni mínu að rifja upp sjóferð til Reykjavíkur og heim aftur fyrir hálfri öld. Fólk hefur kannski gaman af, að bera saman samgöngurnar þá og nú.
Það var seint í desember 1946 að ég fór eina ferð með gömlu góðu Sjöstjörnunni VE 92, sem var 54 tonn og með 150 hestafla June Munktell vél, til Reykjavíkur. Farmurinn var tómar bensín- og steinolíutunnur. Þá var öll steinolía og bensín flutt á stáltunnum með tveim öflugum gjörðum á belgnum. Til baka fluttum við svo fullar tunnur.
Við fengum gott ferðaveður, austan storm og platt lens fyrir Reykjanes. Þegar kom fyrir Garðskaga kom hann á móti og það var ekki besta hlið Sjöstjörnunnar að sigla á móti. Hún gekk í mesta lagi 7 mílur í logni. Frá Garðskaga vorum við eina 7 tíma. Ég hafði farið nokkrar svona ferðir áður, en þessi er minnisstæðust. Þessar ferðir voru alltaf farnar að haustinu og þeim var alltaf lokið fyrir hátíðir. Tómas í Höfn, umboðsmaður Skeljungs hf. í Eyjum, átti Sjöstjörnuna með öðrum og nýtti sér farkostinn.
Í áhöfn voru: Arnoddur Gunnlaugsson frá Gjábakka skipstjóri, Gísli Gíslason stýrimaður frá Drangey við Kirkjuveg, Alfreð Einarsson 1. vélstjóri, sem lengi var verkstjóri í Lifrasamlaginu. Undirritaður var 2. vélstjóri. Háseti var Jón Gunnlaugsson frá Gjábakka. Líklega voru ekki fleiri í áhöfn.
Við komum til Reykjavíkur í bítið og gekk vel að skipa upp tómu tunnunum. Eins gekk vel að ferma aftur. Var lestin fyllt með steinolíutunnum og allt vel skorðað og lúgur skálkaðar. Á dekkið var bensíntunnunum raðað upp á endann, tunna við tunnu frá hádekki aftur að hekki og á lúguna líka. Allt var vel skorðað og súrrað niður. Maður frá slökkviliðinu eða brunaeftirlitinu stóð á bryggjunni meðan á fermingu stóð.
Þegar allt var að verða klárt, komu menn frá flugmálastjórn, að biðja okkur að taka nokkra pakka til Eyja. Þar var verið að gera flugvöll og var þetta dínamít og hvellhettur, sem ekki hafði tekist að fá flutt þangað, enda skipaferðir strjálar. Nú var gengið frá sprengiefninu í tveimur kojum í lúkamum og hvellhettunum aftur í vélarhúsi. Ekki þótti þorandi að hafa þetta í sömu sæng. Sannarlega var þetta orðinn eldfimur farmur, enda vorum við reknir frá bryggju með það sama. Máttum við liggja við dufl úti á höfn, því við urðum að bíða veðurs.
Veðrabrigði voru mjög hörð og snögg um þetta leyti í svartasta skammdeginu. Var nú hlustað vel á veðurspána. Það var mjög kröpp lægð suðvestur af Reykjanesi og önnur í kjölfari hennar. Var spáð vaxandi austanátt og síðan suðvestan stormi áður en seinni lægðin færi að hafa áhrif. Eldsnemma um morguninn var lagt af stað í austan stormi og gekk vel í fyrstu, enda næstum plattlens. Þegar við nálguðumst Garðskaga, er hann byrjaður að snúa sér á áttinni og kominn á suðvestan þegar við komum fyrir Skagann. Hafrót var og stöðugt óx útsynningurinn. Við vorum enn með síldarborðin á lunningunni, mannhæðar há. Það gefur auga leið, að Sjöstjarnan var mikið hlaðin. þegar ólögin riðu yfir hvert af öðru. Hún var eins og kafbátur, allt var á bóla kafi. Það varð að slá af og láta okkur fara niður á dekk og opna lensportin.
Svo var haldið í hann á ný og átti að freista þess að komast yfir röstina og fyrir Nes. Það fór á annan veg því þegar við nálguðumst röstina, var sjórinn eins og í grautarpotti og blessuð gamla Sjöstjarnan ætlaði ekki að hafa það, að rífa sig upp. Loks kom lag og hægt var að sla undan. Varlega mátti sigla á lensinu og var stundum kúplað frá, því hún sigldi svo vel á brúnni. Aldrei hef ég vitað jafn snögg veðrabrigði, sem þarna, því þegar við vorum almennilega komnir fyrir Garðskaga. datt suð-vestan stormurinn niður og fór hann brátt að blása af austri og óx stormur stöðugt og var komið öskurok fyrr en varði. Það er ekki að orðlengja það, að þegar við komum að duflinu okkar aftur, voru liðnir 18 tímar frá brottför. Þar var svo legið í sólarhring.
Við höfðum litla gaflskektu aftur á hekki og var hún nú sett á flot og fórum við í land, til að fá okkur í svanginn. Ekki hafði verið mögulegt að elda eða hita kaffi allan tímann. Á veitingastaðnum ,,Heitt og kalt” í Hafnarstræti fengum við góðan kvöldverð og snerum til skips sælir og glaðir. Enn var sami stormurinn og færðist heldur í aukana. Skiptum við vöktum um nóttina, en í birtingu kom í ljós að skektan hafði slitnað aftan úr. Var nú Munktellinn settur í gang og siglt að bryggju í trássi við brunalögin. Fundum við skektuna undir trébryggjunum við Granda, svo til óskemmda og árarnar skammt frá. Rérum við nú að bátnum og hífðum skekktuna upp á hekk og bundum rækilega upp á endann við mastrið. Komið var fram undir hádegi þegar hér var komið og var maginn heldur betur farinn að láta í sér heyra. Var því ákveðið að fá sér ærlega að borða á ,,Heitu og Köldu" eina ferðina enn, áður en við legðumst við duflið aftur.
Eftir matinn var marsérað niður á bryggju og sáum við þá tvo menn vera að sniglast við bátinn. Fyrst héldum við að þetta væru mennirnir sem ráku okkur frá bryggjunni í fyrradag. Þegar nær kom sáum við að þetta voru kunnugleg andlit úr Eyjum. Annar var Marinó Guðmundsson, seinna kunnur húsgagnasali hér, en hef ég gleymt hver hinn var. Þeir voru komnir í jólafrí frá Stýrimannaskólanum og vantaði far heim. Var það auðsótt mál. Lagt var að duflinu aftur og fylgst grannt með spánni fram eftir kvöldi. Eitthvað fannst okkur spáin um miðnætti bjartari. Ákveðið var að fara og stefna að því að vera við Reykjanes um birtingu.
Lögðum við af stað kl. 04 í blasandi byr og í þetta sinn komumst við fyrir Reykjanesið áfallalaust. Ekki var samt sopið kálið úr ausunni, því ekki dró úr storminum. Hávaða rok og haugasjór hélst alla leið til Eyja. Oft mátti slá af og sigla hálfa ferð tímum saman. Loks eftir þrjátíu og þriggja tíma stím vorum við komnir inn á höfn í Eyjum. Í góðu vorum við 17-18 tíma og tók þá túrinn í mesta lagi tvo sólarhringa, en nú vorum við fimm sólarhringa. Það mátti ekki tæpara standa, því við komum í höfn um miðjan Þorláksmessudag.
Hilmir Högnason frá Vatnsdal