Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1998/ Teknir og færðir til Bodö

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Snorri Páll Snorrason

Teknir og færðir til Bodö

Það var í hæglætisveðri við síldarleit, fimmtudaginn 6. júní 1997. 100 sjómílur aust-suðaustur af Jan Mayen að skipstjórinn á Sigurði VE, Kristbjöm Árnason, frétti af þvi að nokkur íslensk skip væru að athuga að fara inn í lögsöguna við Jan Mayen og kanna aðstæður. Voru uppi vangaveltur um hvort það væri nokkuð meira að sjá þar en þar sem við vorum. Voru óljósar fréttir af takmörkuðum veiðum suður við færeysku lögsöguna, um 240 sjómílum sunnar en þar sem við vorum við veiðar.
Kristbjörn ákvað að kíkja inn í Jan Mayen-lögsöguna og yrði ekkert þar að sjá væri lítið annað að gera en að fara suður eftir, eins og það er orðað þarna á miðunum. Við vorum búnir að setja stefnuna og farnir að keyra þegar menn tóku eftir punkti á radarnum sem var talsvert austan við okkur þar sem við vorum að veiða áður en við lögðum af stað. Menn fóru að velta þessu fyrir sér smástund hver þetta gæti verið. Það hafði ekkert frést af neinum austan við okkur og við vissum ekki betur en að við værum austastir á bleyðunni.
Það fannst engin skýring á þessu og fljótlega hættu menn að velta þessu fyrir sér. Menn sáu þó punktinn nálgast óðfluga en töldu hann bara vera fragtara. Það var svo ekki fyrr en upp úr kl. 8 7. júní að menn sjá að þetta var norskt varðskip á leið til okkar. Það vakti strax furðu hjá skipstjóranum þegar varðskipsmennirnir á „Nordkapp" komu og sögðust vera í eftirlitsferð að yfirmaður þeirra væri með inniskó með sér. Honum fannst það furðulegt af manni sem einungis var kominn í eftirlitsferð um borð í skipið.

Þegar farið hafði verið yfir öll skjöl þóttust þeir sjá að veiðidagbókin væri ekki rétt færð. „Það hafði gleymst að leggja saman aflann úr köstunum yfir daginn!" Það vantaði afrit af skeytum sem send höfðu verið til Noregs, þ.e. þegar farið var inn í Jan Mayen landhelgina og út aftur. Skipstjórinn hafði hins vegar reglugerðarblað frá Fiskistofu þar sem segir nakvæmlega hvernig færa skuli fiskidagbókina og hvernig senda skuli skeyti inn og út (active og passive) og var þetta feitletrað aftan á blaðinu þannig að þetta færi nú alls ekki á milli mála hvernig þetta skyldi framkvæmt!
Það vöknuðu strax spurningar um trúverðugleika þeirra samninga sem gerðir voru milli Íslands og Noregs um að norska sjávarútvegsráðuneytið hefði samþykkt íslensku fiskveiðidagbókina, fullgilda, og hún skyldi færð eins og gert væri á Íslandi. Einnig vildi strandgæslan norska meina að færa ætti dagsetningu og tíma skeytisins í veiðidagbók þó að tölvan gæfi afrit um þetta tvennt þegar hún sendir frá sér.
Þegar þeir svo tilkynntu skipstjóranum að skipið yrði tekið fyrir meintar ólöglegar veiðar og að það yrði fært til hafnar í Bodö hafði hann strax samband við útgerðina. Hann var beðinn um að hægja ferð meðan verið væri að athuga málið. Fljótlega tókst að koma skilaboðum til utanríkis- og sjávarútvegsráðuneytisins. Þeir fóru að vinna í málinu ásamt lögfræðingi útgerðarinnar og útgerðinni. Meðan á þessu stóð var skipið statt innan Jan Mayen landhelginnar.

Skipstjórinn var beðinn um að reyna að ná samkomulagi við skipherra Nordkapp og var verið að þýða skeyti til skiptis á norsku og íslensku og senda á milli skipa og lands. Þannig var hægt að tefja tökuna um nokkra klukkutíma. Þegar fór að hylla undir að þetta gengi ekki þar sem skipherrann á Nordkapp gaf sig ekki og ítrekaði að við værum teknir fyrir ólöglegar veiðar spurði ég hvort ekki væri rétt að kanna við þá í landi hvort ekki væri sterkari staða hjá okkur að drepa á vélunum þegar komið væri inn á alþjóðlegt hafsvæði og neita að setja í gang aðalvélar þar sem þeir þyrftu þá að taka skipið með valdi. Að taka skip með valdi á alþjólegu hafsvæði er alvarlegra en að taka skip í norskri landhelgi. Fyrirspurnin var send og kom svarið nánast strax, að við skyldum drepa á aðalvélum um leið og komið væri á alþjóðlegt hafsvæði. Þetta var framkvæmt og virtist sem það kæmi svolítið á varðmennina um borð við það. Við vorum svo margspurðir hvort við ætluðum ekki að gangsetja vélarnar en því var tafarlaust neitað. Fór síðan, smátt og smátt, að hitna í kolunum og höfðu menn ekki undan að senda skeyti. Var reynt að finna skeytin sem við vorum sakaðir um að hafa ekki sent. Lesnir voru bæklingar yfir tölvuna, blaða á milli, en allt kom fyrir ekki.
Það kom hins vegar í ljós að íslenski bæklingurinn sagði að skjáminnið væri ekki nema 12 skeyti að stærð og hætta væri á að ef það fylltist yrði tölvan óvirk. Síðan var bent á að eyða skeytum jafnóðum og þau væru send til þess að koma í veg fyrir svona lagað. Það stóð hins vegar í enska bæklingnum að harði diskurinn ætti að geta geymt 100 skeyti og að það væri sjálfvirk uppfærsla, þannig að elstu skeytin eyddust jafnóðum og ný kæmu í staðinn. Þetta hafði enginn hugmynd um að væri hægt, ekki einu sinni umbinn.

Það leið a.m.k. ein klst. áður en kerfisfræðingar í landi fundu skipunina til að opna þennan möguleika, og reyndist diskurinn tómur eins og menn grunaði. Einnig kom í ljós að trúlega hefðu skeytin í Noregi ekki verið móttekin þar sem blaðinu frá Fiskistofu hafði verið fylgt fullkomlega. Þar stóð að setja ætti 00 fyrir framan símanúmer skeytisins sem tölvan átti að hringja í en þar var hængur á því að móttakarinn í gervihenttinum les ekki 00. Við fengum þessar upplýsingar meðan dautt var á vélum. Þá fengum við loks tækifæri til að ákveða hvort við vildum setja í gang því að skipherrann var búinn að taka ákvörðun um að við skyldum færðir til hafnar, hvort sem okkur líkaði betur eða verr. Okkur voru gefnar fimm mínútur til umhugsunar áður en þeir tækju okkur í tog. Sent var skeyti í land og óskað eftir svari og kom það um hæl: „Ekki setja í gang." Því næst vorum við dregnir til Bodö.

Komið til Bodo
Varðskipið dró okkur alla leið til Bodö. Þegar við komum þangað tók dráttarbátur við okkur og dró okkur seinustu míluna upp að bryggju. Þegar við komum þangað voru staddir þar Sigurður Einarsson, forstjóri Ísfélagsins, Friðrik J. Arngrímsson lögfræðingur ásamt norskum lögmanni, Helgi Ágústsson, ráðuneytisstjóri í utanríkisráðuneytinu, Árni Kolbeinsson, ráðuneytisstjóri í sjávarútvegsráðuneytinu, og Jón Ólafsson, starfsmaður Geisla og sérfræðingur í þeim tækjum sem við notum til að senda skeytin með.
Þarna voru líka staddir fjölmargir blaðamenn, bæði íslenskir og norskir, en mál þetta hafði vakið mikla athygli á Íslandi og í Noregi.
Þegar við komum til Bodö kom fulltrúi lögreglustjóra um borð í skipið og tók skýrslu og jafnframt lagði skipherra strandgæsluskipsins fram sína skýrslu. Skipstjóri okkar var kallaður fyrir um kvöldið og yfirheyrður á lögreglustöð og daginn eftir var réttað í málinu.

Af þeim samtölum sem ég átti við skipverja Nordkapp fékk ég þær upplýsingar að það væri ekki venja að norska ríkið skipti sér af því hvað strandgæslan aðhefðist; ef þeir tækju einhvem væru þeir að gera rétt og norska ríkinu kæmi það ekki við. Það var í alla staði óeðlilegt að þeirra mati. Hvernig ættum við að taka því ef við tækjum einhvern og ríkið kæmi svo og segði: „Fyrirgefið, þetta voru mistök'"? Það væri ekki hægt. Ég spurði líka hvernig þeir héldu að með þetta mál yrði farið og sögðu þeir þá að sýslumaðurinn í Bodö myndi taka við málsgögnum og að þeir teldu að það myndi ekki skipta máli þó að við kæmum eftir á með einhverja pappíra um að hlutirnir væru í lagi eða að íslenska ríkið myndi senda einhverja fulltrúa til Noregs sem þeir voru hissa á og skildu ekki þetta uppistand á Íslandi, það myndi engu máli breyta, eins og síðan reyndist rétt.
Þetta vakti hjá manni spurningar. Erum við ekki að glíma við allt annað viðhorf. þ.e. að landhelgisgæslan á Íslandi er lögregla en strandgæslan (kystvagten) í Noregi er her og starfar eftir herlögum þar í landi. Maður tók strax eftir því að mennirnir voru mjög agaðir og báru öll tjáskipti þess merki. Við stóðum frammi fyrir því að trúlega væri það rétt, ef út í það er hugsað sem sagt var hér, að það gengi ekki að norska ríkið væri að skipta sér af öllum „smámálum" hersins, t.d. ef hann telur að skip séu brotleg í norskri landhelgi. Maður sá líka að skipið var vígbúið, eins og um óvin væri að ræða en ekki lögbrjót sem við erum vanir heima. Landhelgisgæslan hér er með segl yfir sinni litlu byssu framan á en þeir eru með tveggja hlaupa fallbyssur að framan og aftan, einnig með stórar fjögurra hlaupa 70 mm, loftvarna- og árásar byssur á báðum vængjum í sérstökum byrgjum. Og það voru engin segl yfir þeim meðan takan fór fram enda hefði það endað með ósköpum ef við hefðum reynt einhverjar rósir. Okkur var líka bent á það strax í upphafi að reyna ekkert slíkt ella yrði valdi beitt, hvað sem það þýddi.

Norðmenn eru búnir að reyna í áratug að bola okkur út af svæðinu við Jan Mayen og Smugunni.
Þegar fór að draga úr veiði í Barentshafi og Eyrarsund mengaðist og veiði þar lagðist af sáu þeir að það væri hægt að veiða í Smugunni og við Jan Mayen og vildu að sjálfsögðu eiga það einir, hvort sem við værum með veiðirétt vegna samnýtingar á þessum svæðum. Þó að samningur hefði legið fyrir milli þjóðanna um þessar veiðar hefur norska hernum ekki verið tilkynnt um þá né heldur strandgæslunni því að þeir höfðu enga hugmynd um hvað við vorum að tala um þegar við sögðum að það væru ekki okkur hagsmunir að vera inni í Jan Mayen lögsögunni, við værum ekkert að hagnast meira á því en annars. Við vorum þá að vitna til skoskra skipa sem tekin höfðu verið fyrir ólöglegar veiðar með öllu, þ.e. höfðu ekki einu sinni rétt til að veiða við Noreg. Þeir virtust samt setja okkur í samhengi við skoska málið sem sýnir að þeir höfðu enga hugmynd um þessa samninga og alveg greinilegt að skipherrann á varðskipinu var ekki í „sambandi" við neinn úr norsku ríkisstjórninni, heldur bara við herinn. Ákvarðanir hans voru svo gjörsamlega á skjön við allt sé þessi umræddi samningur hafður í huga. Getur það verið að Norðmenn ofmetnist af olíuvinnslunni og yfirgangurinn sé svo mikill af því að þeir ætli sér að eignast stóran hluta af Norður-Atlantshafi, af ótta við að einhver annar en þeir finni olíu. Nýjasta útspil þeirra er að færa landhelgi sína út í 250 sjómílur. Þetta sýnir, svo ekki verður um villst, að þeim er fúlasta alvara og við verðum að fara að sýna þeim klærnar og taka upp gamla víkingadótið (skildina og sverðin) ef við ætlum að standa uppi í hárinu á þeim! Þeir eru ekkert hættir þó að ráðamenn brosi út í annað og segi: „Þeir geta þetta nú ekki." Íslenska ríkið má sín lítils gegn þessari uppákomu og verður að beita öllum þeim brögðum sem finnast til að halda velli í baráttunni gegn því að þeir færi út landhelgi sína í 250 mílur.

Dómsmeðferð í Bodö
Við réttarhöldin í Bodö voru yfirmenn á varðskipinu kallaðir fyrir og þeir gáfu skýrslu um málavexti. Þeir héldu því fram að við hefðum ekki sent þau skeyti sem þurfti að senda og værum brotlegir við þær reglur sem skipið ætti að fara eftir.
Okkar menn voru kallaðir fyrir og þegar þarna var komið sögu voru þeir búnir að komast að því að við hefðum reynt að senda skeytin en þau ekki borist til Noregs vegna þess að notað hefði verið vitlaust númer. Þegar það kom í ljós sögðu skipstjóri okkar og stýrimenn frá því og voru málavextir alveg skýrir hvað varðar þessar skeytasendingar. Okkur var líka gefið að sök að hafa fært rangt í veiðidagbókina en skipstjóri okkar hafði útfyllt veiðidagbókina skv. íslenskum reglum en hann var með bréf frá Fiskistofu um það að þannig bæri að gera þetta.
Þessi dómsmeðferð, sem við sættum þarna, var svokölluð minni meðferð eða meðferð hjá lögreglustjóra og í framhaldi af því var skipstjóra og útgerð boðin lögreglustjórasátt um að skipstjóri greiddi 300.000 kr. íslenskar og útgerðin um 3,5 milljón kr. Skipstjóri og útgerð höfnuðu þessari sátt og kröfðust þess að málið yrði lagt fyrir dómstóla. Þessu lauk á mánudeginum en við komum til Bodö seinni partinn á sunnudegi.
Þegar þessi niðurstaða lá fyrir voru settar tryggingar fyrir hugsanlegum sektum og málskostnaði og skipið fékk að sigla frá Bodö á mánudagskvöldi.

Framhald málsins í Noregi
Í september var síðan réttað í málinu í héraðsrétti í Bodö og fóru þá skipstjóri okkar, stýrimaður, Jón Ólafsson rafeindavirki og Sigurður Einarsson útgerðarmaður, ásamt Friðrik Arngrímssyni lögfræðingi okkar, til að vera viðstaddir réttarhöldin í Bodö. Dómurinn var fjölskipaður og var dómsforseti löglærður en tveir skipstjórnarlærðir meðdómendur. Skipverjar á strandgæsluskipinu lögðu fram skýrslu og jafnframt lögðu okkar menn fram sín gögn. Síðan var kallaður fyrir sérfróður maður í réttinum, sérfræðingur í sendingartækjum eins og við höfum notað.
Þarna var kveðinn upp dómur þar sem sáttin var staðfest, 300.000 kr sekt skipstjóra og 3,5 milljón kr. á útgerð skipsins. Hinn löglærði meðdómandi vildi sýkna útgerðina og eingöngu dæma skipstjórann. Í framhaldi af þessum dómi var málinu áfrýjað til yfirréttar á Hálogalandi og kemur málið þar fyrir á árinu 1998.