Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1998/ Minnisstæð sigling á Sindra VE 203 haustið 1963
Pálmi Sigurðsson frá Skjaldbreið
Minnisstæð sigling á Sindra VE 203 haustið 1963
Ritstjóri blaðsins hafði á orði við mig að ég festi á blað minnigar frá liðnum árum. Frá fyrstu ferð minni á mb. Helga VE 333 árið 1939 og til síðustu ferðar yfir hafið með Náttfara RE 75 árið 1987 held ég að sigling með Sindra VE 203, sem var þá í eigu Fiskiðjunnar hf., sé mér minnisstæðust, þótt siglingar í stríðinu hafi stundum verið mjög spennuþrungnar.
Farið var haustið 1963 frá Vestmannaeyjum til Aberdeen í Skotlandi með ísvarinn fisk. Skipverjar á Sindra voru eftirtaldir menn: Grétar Þorgilsson skipstjóri, Sigurður Georgsson stýrimaður, Guðni Þorsteinsson vélstjóri, Hannes Haraldsson, Sveinn Ingi Pétursson, Birgir Bernódusson, Guðmundur Pálsson og undirritaður sem var siglingaskipstjóri.
Þegar þessi ferð var farin var ekki kominn hvalbakur á Sindra, en hann var settur á skipið síðar.
Við fórum frá Vestmannaeyjum miðvikudaginn 11. september kl. 20.30 og stefna sett á Pentlandsfjörð. Liggur leiðin yfir Færeyjabanka vestanverðan. Veður suðaustan gola, léttskýjað. Miðvikudaginn 12. september bar lítið til tíðinda, haldin var sama stefna og suðlægar áttir ríkjandi, vindur 4-6 stig.
Föstudaginn 13. sept. um kl. 12 sýndi vegmælir 288 sjómílur, veður vest-suðvestan 7 vindstig og fór veður vaxandi, við nálguðumst nú Færeyjabankann.
Færeyjabanki er neðansjávarfjallgarður sem liggur frá suðvestri til norðausturs og er grynnstur 55 faðmar, 10 til 15 sjómílna breiður og eru mjög brattir kantar niður á 400 - 600 faðma dýpi. Sjólag getur því verið mjög slæmt þarna í vondum veðrum. Klukkan 14 áttum við eftir 10 sjómílur í Færeyjabakkann. Kl 15 var vindur kominn í 8 vindstig og skipið komið að norðurhalla Færeyjabanka. Dýptarmælir sýndi 100 faðma. Við fengum nú veðurspá frá BBC um væntanlegt fárviðri á þessum slóðum og vissum að erfitt yrði að verjast áföllum þar sem ekki var hvalbakur á Sindra eins og áður segir.
Við fórum því að búa bátinn undir átökin sem vænta mátti og festum allt lauslegt.
Í dagbók skipsins er eftirfarandi skráð af undirrituðum:
„Kl. 16.00: Stefna SA1/2S, vegmælir sýnir 318 sjómílur, veður 8 vindstig, skýjað, á Færeyjabanka dýpið 80 til 90 faðmar.
Kl. 17 mældist dýpið 100 faðmar, vegmælir 322 sjómflur í suðurhalla Færeyjabanka og vorum því komnir yfir bankann.
Kl. 17.45: Vegmælir tekinn inn, haldið með hægri ferð upp í sjó og vind, veður vest-suðvestan 10 vindstig, stórsjór.
Kl. 18.30: Fengum nokkra þunga sjói á skipið. Þar sem myrkur fór í hönd og miklir erfiðleikar að verjast áföllum var fylltur strigapoki af tvisti og hann rennbleyttur með olíu. Enn fremur var ein kojudýna olíubleytt. Þessu tvennu var komið fyrir sitt hvorum megin framan á bóginn á skipinu. Einnig var sett gat á eina olíutunnu á dekkinu sem er framan við brúna."
Kl. 19.30 var kominn suðvestan stormur og stórsjór, þá vorum við eins og áður segir komnir yfir Færeyjabankann. Haldið var á hægri ferð upp í vind og stórsjó.
Það gekk nokkuð vel að verjast áföllum, helsta vandamálið var að brotsjóirnir þrykktu bátnum niður að aftan þannig að snurvoðartóg, sem voru á hekkinu, losnuðu og var því hætta á að fá þau í skrúfuna.
Það gerðist svo um kl. 21 að það kom þungt brot á bátinn er færði allt í kaf þrátt fyrir að hann væri alveg réttur upp í sjó og vind. Í þessum brotsjó fór margt úr skorðum. Hluti af tógunum, sem voru súrruð niður á hekkið, höfðu farið fyrir borð, og hluti af þeim hékk yfir hekkbogann, einnig brotnaði klæðningin á hekkinu og partur af hekkboganum þannig að stunnunar stóðu einar eftir. Grindur fóru fyrir borð og bjarghringur brotnaði.
Nú var ákveðið að losa okkur sem allra fyrst við tógið sem eftir var. Þetta var erfitt verk og mjög hættulegt því þegar hér var komið sögu var veðurhæðin komin í fárviðri og sjór eftir því.
Við Grétar vorum í brúnni en Sigurður og Sveinn fóru í að losa okkur við snurvoðartógin. Þetta gekk allt vel þannig að nú vorum við lausir við þá hættu að hafa tógin á hekkinu.
En ekki var allt búið enn. Við tókum eftir því að frammastrið var orðið laust. Baula, sem vantar eru festir við að ofan, gekk niður þannig að það slakn¬aði á vöntunum. Gekk þess vegna mastrið til í sitt hvort borðið eftir því sem skipið valt. Varð því að setja menn í að lagfæra það. Til að festa mastrið var strengt tóg á milli vantana og snúið upp á tógið með stórum planka (snarvöndull) þar til mastrið hætti að slást til á veltunni.
Það var allt löðrandi í olíubrák úr dýnunni og pokanum á bógnum og olíutunnunni á dekkinu. Virtist olían verja bátinn fyrir mestu áföllunum.
Kl. 22.30 var sett gat á fleiri olíutunnur og ákveðið að halda undan sjó og stormi á hægustu ferð þannig að hægt væri að halda stefnu. En ferðin var samt mikil á bátnum. Þannig var haldið alla nóttina og olía látin renna úr tunnunum. Við fengum ekki á okkur brot, ef undan er skilið eitt sem féll á bátinn, en engar skemmdir urðu af því. Þakka ég olíubrákinni það að við komumst frá þessari nótt stórslysalaust.
KI. 5.30 vorum við komnir 40-50 sjómílur austar, og var þá komið betra veður þó að enn væri hvasst. Stefnan var sett á N-Ronaldsey. Þegar Guðni vélstjóri kom upp í brú um morguninn taldi hann að málning hefði sprungið frá þilinu í keisnum. Við nánari skoðun kom það í ljós að þilin í keisnum höfðu gengið inn. Það sýnir hinn mikla þrýsting sem keisinn varð fyrir í veðrinu. Keisinn og brúin eru úr þykkum álplötum.
Laugardaginn 14. september kl. 8 voru vest-suðvestan 9 vindstig og þungur sjór. Það kom í ljós á þessum tíma að radar og miðunarstöð voru óvirk.
Það var svo um hádegisbilið sem veðrið var alveg gengið niður. Gekk ferðin vel þennan sólarhringinn.
Sunnudaginn 15. september var haldið áfram til Aberdeen og bar lítið til tíðinda nema einu sinni þurfti Guðni vélstjóri að stoppa aðalvél í 40 mínútur til að gera við smábilun. Kl. 22 var komið til Aberdeen og haldið inn í fiskdokk.
Mánudaginn 16. september kl. 7.30 hófst löndun og komu upp úr skipi 356 kassar, og fengum við góða sölu á aflanum (pund: 1672-12-9, skráð í dagbók).
Áður en haldið var úr fiskdokk var tekið vatn og olía og síðan var skipið fært í flutningadokkina. Gert var við radar og smáabilun í vél. Fyrir utan tjón á bátnum, sem nefnt hefur verið, kom í ljós við nánari skoðun eftirfarandi: Vélarreisn var gengin inn milli bita um eina og hálfa tommu, bæði á stjórnborða og bakborða. Það hafði orðið vart við leka með vélarreisn og á báðum bogum. Lensportlúgur að framan voru brotnar. Upphækkun á stjórnborða lagðist inn. Útvarpið brotnaði og ýmislegt fleira.
Stoppað var í Aberdeen í nokkra daga meðan gert var við það sem aflaga hafði farið. Fimmtudaginn 19. september var tekinn kostur og 6,5 tonn af hvítsementi. Síðan var skipið búið til heimferðar og haldið úr höfn kl. 15.
Ég man að heimferðin var mjög þreytandi, suðvestan átt og þungur sjór. Voru flestir búnir að fá nóg þó að menn væru ýmsu vanir. Við komum svo til Vestmannaeyja 22. september og var lagst að Nausthamarsbryggju eftir tollskoðun kl. 21.
Það skal tekið fram að ég sótti Sindra til Svíþjóðar árið 1956, þá nýtt skip, en Júlíus bróðir minn átt að vera með hann. Guðni vélstjóri var einnig með í þeirri ferð.
Ég óska sjómönnum til hamingju með daginn.
Pálmi Sigurðsson.