Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1998/ Hugleiðing um starf sjómannadagsráðs
Óðinn Kristjánsson og Valmundur Valmundason
Hugleiðingar um starf sjómannadagsráðs
Það er skemmtilegt að vinna við sjómannadaginn ef vel tekst til en það er erfitt og leiðinlegt ef ekkert gengur upp og enginn má vera að þessu.
Vinnan við sjómannadaginn hefst upp úr áramótum og þá er byrjað að skipa í stjórn og skipta með sér verkum. Stjórnin er skipuð til tveggja ára og skiptast félögin þ.e. Skipstjórafélag Verðandi, Vélstjórafélag Vestmannaeyja og Sjómannafélagið Jötunn, á að fara með formennsku í ráðinu, tvö ár í senn. Núverandi formaður sjómannadagsráðs er Óðinn Kristjánsson frá Vélstjórafélaginu og er hann á seinna árinu. Næsti formaður kemur frá Jötni.
Þegar líða fer á veturinn fjölgar fundum ráðsins. Fundirnir eru ekki fastmótaðir því að margir sjómenn eru í ráðinu og eins og gefur að skilja er oft erfitt að kalla saman starfhæfan fund. Það er því nauðsynlegt að einhver úr stjórninni sé í landi, annaðhvort formaðurinn eða gjaldkerinn, til að halda utanum störf ráðsins.
Mörg undanfarin ár hefur sjómannadagsráð verið rekið með tapi eða rétt á núllinu. en síðasta ár virðist hafa verið réttu megin við núllið, sem betur fer, því alltaf er gott að þurfa ekki að byrja störf ársins með betliferð í bankann til að eiga fyrir komandi útgjöldum.
Sjómannadagsblað Vestmannaeyja er og verður stærsti kostnaðarliðurinn í hátíðarhöldum sjómannadagsins. Margir góðir menn hafa unnið við blaðið, bæði sem ritstjórar og hér áður fyrr verið í ritnefnd. Þá má ekki gleyma þeim fjölmörgu sem hafa séð um auglýsingaöflun og innheimtu á þeim auglýsingum. Í dag er blaðið í góðum höndum með Sigmar Þór Sveinbjörnsson ritstjóra í fararbroddi. Kunnum við Sigmari hinar bestu þakkir fyrir erfitt og oft á tíðum fórnfúst starf í okkar þágu.
Mjög stór kostnaðarliður við daginn er að þurfa að halda dansleiki á tveimur og stundum þremur stöðum en við það margfaldast kostnaðurinn, þ.e. tvær eða þrjár hljómsveitir. Okkur í sjómannadagsráði dreymir um að ná öllum sjómönnum saman á einn stað og höfum við augastað á Týsheimilinu í því sambandi ef það varður stækkað og hreinlætismálunum komið í viðunandi horf.
Á sjómannadaginn, sem reyndar eru orðnir tveir (laugardagur og sunnudagur), eru ýmis skemmtiatriði á laugardeginum í Friðarhöfn, sum hver orðin hefð, s.s. kappróðurinn og fleiri atriði þar sem menn reyna með sér að góðra Íslendinga sið. Er ætlan okkar að brydda upp á nýjungum og rífa upp stemmninguna á bryggjunni. Um kvöldið klæða sjómenn og þeirra betri helmingur sig upp, borða saman og dansa fram á rauðan morgun. Á sunnudeginum er sjómannaguðsþjónusta í Landakirkju og á eftir er athöfn við minnismerki drukknaðra og hrapaðra undir skeleggri stjórn Snorra í Betel þar sem látinna félaga okkar er minnst. Á Stakkó eftir hádegi er síðan hátíðardagskrá þar sem aldraðir sjómenn eru heiðraðir, ræða dagsins er flutt og þeir sem bjargað hafa mannslífum eru einnig heiðraðir. Ekki má gleyma Eykyndilskonum sem eru með kaffisölu í Alþýðuhúsinu á sjómannadaginn og svigna þar borð undan hnallþórum þeirra og fleira góðgæti.
Hér á árum áður var sjómannadansleikurinn haldinn á sunnudeginum með skemmtidagskrá og ýmsum viðurkenningum tengdum aflabrögðum en þessar viðurkenningar lögðust af með tilkomu kvótakerfisins, því miður, en kannski ætti að keppa í kvótaeign nú til dags?
Á þessari upptalningu sést að handtökin við sjómannadaginn eru æði mörg og þakka ber þeim fjölmörgu sem lagt hafa hönd á plóg til að gera daginn sem glæsilegastan og eftirminnilegastan.
Hefur nú verið stiklað á stóru í starfsemi sjómannadagsráðs og vonum við að lesendur séu einhverju nær um starfsemi ráðsins.
Með sjómannakveðju.
Óðinn Kristjánsson formaður, Valmundur Valmundsson varaformaður.