Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1998/ Bergur VE 44 sekkur 6. des. 1962
Bergur VE 44 sekkur 6. desember 1962
Það var í nóvember 1962 að ég réð mig til síldveiða á mb. Berg VE 44. Um borð var einvala lið með Kristinn Pálsson skipstjóra og útgerðarmann í forsvari. Aðrir í áhöf voru Guðjón Pétursson stýrimaður, Vigfús Waagfjörð 1. vélstjóri, Þórhallur Þórarinsson 2. vélstjóri, Árni Stefánsson matsveinn og hásetarnir Gísli Steingrímsson, Gísli Einarsson, Högni Magnússon, Elías Baldvinsson, Gunnar Jónsson og Vigfús Ingólfsson.
Veður hafði verið skaplegt en veiði frekar dræm. Þó höfðum við landað slöttum nokkrum sinnum og í þau skipti fór Addi Bald (grínisti) einatt að pæla í því hvort hann ætti að fara í bláu fötin eða brúnu í löndunina.
Síðdegis 6. desember var ég á vakt með Kristni og vorum við þá staddir um 10 mílur út af Snæfellsnesi þegar við rákumst á dágóða síldarlóðningu. Kristinn sagði mér að kalla í mannskapinn og gera klárt til að kasta. Ég hljóp fram eftir dekkinu, en það var austan kaldi og dálítill veltingur. Þegar ég kom fram að bakborðsvantinum greip ég í hann til að verjast falli. Þa skutlaðist giftingarhringurinn (sem var heldur víður) af fingrinum og út í sjó. Ég kallaði: „Klárir strákar!" niður í lúkar og hraðaði mér svo til baka að nótinni.
Skömmu síðar var kastað, snurpað og nótin dregin. Alltaf er jafnspennandi að sjá síldina vaða í nótinni þegar þrengja að henni. Þetta reyndist ágætiskast, um 800 tunnur. Þegar þurrkað hafði verið að síldinni var byrjað að háfa (ekki var til síldardæla í þá daga) og lestin fyllt, nema steisinn, restin var sett í stíur á dekkinu og segl breytt yfir.
Á meðan við vorum að innbyrða síldina hafði bætt í vind, komin 6 til 7 vindstig. Var nú lagt af stað til löndunar í Reykjavík. Ég var uppi í brú og Kristinn skipstjóri bað mig að taka við stýrinu á meðan hann meldaði sig í land. Báturinn var rosalega þungur og vakur og slagaði eins og ofdrukkinn maður þó að ég legði mig allan fram við að halda strikinu. Hann lagðist borð í borð og krussaði. Stuttu seinna tók Kristinn við stýrinu og sagði mér að fara að borða. Hinir strákarnir voru um það bil að klára að borða saltfisk, kartöflur og smjör þegar ég kom niður í matinn. Kokkurinn var að vaska upp og vélstjórarnir brugðu sér niður í káetu um lúgu sem var á eldhúsgólfinu.
Um það leyti sem vélstjórarnir voru að fara niður lagðist báturinn óþægilega mikið á stjórnborðshliðina. Ég greip vatnskönnu sem rann til á borðinu og hnífaparaskúffan rann út úr innréttingunni og skall með miklum hávaða á gólfið ásamt diskum og öðru leirtaui. Báturinn hélt áfram að hallast meira í stað þess að rétta sig við og mér varð að orði: „Ég held að honum sé að hvolfa!"
Kokkurinn og ég rukum út á dekk og ég sá að Fúsi, 1. vélstjóri, var að koma upp úr lúgunni þegar ég fór fram hjá. Við fórum fram bakborðsganginn og upp á bátadekk. Þar sáum við að nótin hafði færst til við hallann og hluti af henni kominn í sjóinn. Einn gúmmíbjörgunarbátur var uppi á stýrishúsi og að honum fórum við allir. Þegar báturinn lagðist á hliðina hafði sjór flætt um lúkarskappann sem var stjórnborðsmegin undir hvalbak og fyllt lúkarinn af sjó. Sem betur fer var enginn maður þar niðri. Ég efast um að nokkur hefði komist þaðan upp.
Þegar ég kom upp á stýrishús var hallinn á bátnum orðin 70-80 gráður. Ekki leyndi sér lengur að hverju stefndi. Ljósin slokknuðu því að sjálfsagt var sjór farinn að flæða í vélarrúm. Við vorum þarna í kolsvartamyrkri og kulda að basla við að ná gúmmíbátnum upp úr trékistu sem hann var geymdur í en hann var þar fastskorðaður. Eftir að mér og tveim öðrum hafði mistekist að ná gúmmíbátnum úr kassanum bar að Elías Baldvinsson sem kippti einn upp bátnum. Við hinir lágum á rekkverkinu eða héngum á radarfætinum, allir nema Kristinn skipstjóri sem var að senda út neyðarkall.
Þegar hann kom upp á stýrishús var gúmmíbáturinn að blása sig upp. Kristinn lagði sig á rekkverkið og þá lét það undan svo að hann skutlaðist í sjóinn. Við hinir héngum í brakinu og fórum að reyna að koma okkur í björgunarbátinn, ofan á þakið sem ekki hafði enn náð að blása sig upp. Við komumst allir um borð og drógum Kristinn úr sjónum.
Rétt á eftir lagðist Bergur alveg á hliðina og munaði ekki nema 10-20 sentimetrum að afturmastrið lenti á gúmmíbátnum. Það hafði, góðu heilli, brotnað á annan metra ofan af því við löndunarkrana á Siglufirði sumarið áður. Annars hefði mastrið allt eins getað sprengt bátinn og sökkt honum.
Við fórum nú að skríða inn um opið og inn undir þakið, einn í einu, en báturinn var hálffullur af ísköldum sjó og mjög dimmt því að ekkert ljós var inni í bátnum, aðeins ein tíra ofan á þaki hans. Ekkert ljós hafði heldur verið við kassann sem báturinn var í á stýrishúsinu. Nú var farið að telja mannskapinn og virtist vanta einn. En þá var tekið nafnakall og reyndust þá allir hafa komist um borð, en einn hafði setið í miðjum bátnum með sjó upp á axlir á meðan við hinir sátum uppi á pulsunni.
Eftir að við höfðum komið okkur fyrir var kveikt á neyðarblysi. Þegar það var næstum brunnið var því fleygt í sjóinn og kveikt á öðru. Fyrra blysið, sem fleygt hafði verið, skreið hins vegar hraðbyri í átt að bátnum, knúið af eldinum sem enn var í því og virkaði eins og flugeldur. Mér stóð ekki á sama, hræddur um að það kynni að brenna gat á bátinn, en það brann út rétt áður en að til þess kom.
Vistin um borð var köld, en neyðarkallið hafði borið árangur því fljótlega sáum við eina tíu báta sem fylkt höfðu sér, hver við annars hlið, með 100-200 metra millibili, sigla í áttina til okkar. Halkion VE var fyrstur til að ná til okkar og vorum við dregnir þar um borð. Lánaði áhöfnin okkur þurr föt og dældi í okkur heitu kaffi.
Mér fannst tíminn í gúmmíbátnum vera óralangur, en líklega hefur það verið innan við ein klukkustund. Móttökurnar á Halkion voru frábærar og léttirinn við björgunina ógleymanlegur. Var nú siglt til Reykjavíkur og fengum við inni á Hótel Vík þar sem blaðamenn tóku á móti okkur. Morguninn eftir fórum við í búðir til að kaupa fatnað í stað þess sem við höfðum misst og skiluðum því sem við höfðum fengið lánað.
Þegar þetta slys varð átti ég eiginkonu og fjögur börn, og var þeim auðvitað mjög brugðið er þau fréttu af þessu. Eins var Bragi bróðir minn á öðrum síldarbát, Mars VE, og frétti hann af atburðinum og leitinni í gegnum talstöðina. Fatatrygging var 8500 kr., sama og á landróðrarbáti. Þessi upphæð rétt dugði fyrir sparifötum. Aflinn um borð var tryggður og fengum við því okkar skiptahlut úr honum.
Útgerðin gaf okkur rafmagnsrakvél í jólagjöf og bauð okkur auk þess í góða veislu eftir að heim var komið, og raunar aftur 30 árum síðar!
Þegar ég hugsaði um þennan atburð eftir á fannst mér þetta svo óraunverulegt, það hafði skeð svo hratt. Ekki liðu meira en 3-5 mínútur frá því Bergur lagðist á hliðina þangað til hann hvarf í djúpið. Þá var aðalvélin enn í gangi og Fúsi sagði: „Flott vél!"
Í ein tvö ár eftir þennan atburð gekk mér illa að sofa til sjós. Ekki af hræðslu, heldur virtist líkami og sál bregðast ósjálfrátt við skipshalla ef hann var óvenjumikill eða snöggur.
Gísli Steingrímsson.