Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1998/ Á vertíð fyrir 74 árum

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Bjarni M. Jónsson

Á vertíð fyrir 74 árum

Höfundur greinarinnar, Bjarni M. Jónsson er fæddur 23. júní 1905 og dvelst nú á Hrafnistu í Hafnarfirði. Hann er Skagfirðingur að ætt, fæddur á Hrauni í Sléttuhlíð, en ólst upp á Mýrum í sötnu sveit. Bjarni var sjómaður um tíma. Eftir að hann kom í land var hann lengi fangavörður í Reykjavík.
Grein þessi var skrifuð fyrir röskum tuttugu árum, en birtist hér nokkuð stytt.

Það var veturinn 1924, þann 4. desember, að við bræðurnir, Anton Jónsson og höfundur, lögðum land undir fót frá Mýrum í Sléttuhlíð á leið til Vestmannaeyja á vertíð. Ég hafði aldrei komist lengra í suðurátt en til Sauðárkróks, en Anton var búinn að róa tvær vertíðir í Eyjum og því mörgum leiðum kunnugur og enn fremur níu árum eldri, svo sjálfsagt var að hann réði fyrir báða. Aðeins einu sinni hitnaði í kolunum á milli okkar, en það var við ráðningu mína þegar til Eyja kom, sem síðar verður frá sagt.
Í býtið þann morgun öxluðum við pjönkur okkar og fórum á stiklum postulanna fyrsta daginn að Hofi við Hofsós. Þar urðum við veðurtepptir í tvo daga. Ekki var í kot vísað á bænum hjá Jóni Jónssyni frá Eyhildarholti og konu hans, Sigurlínu Björnsdóttur, frænku okkar. Bæði þau hjón voru virðingarmanneskjur í allri framgöngu og höfðingjar svo af bar. Eftir þessa tveggja daga töf kom Skafti Stefánsson frá Nöf á báti sínum, Úlfi Uggasyni, frá Siglufirði og flutti okkur ásamt fleirum vestur á Krók. Þótt leiðin sé ekki löng fengum við versta veður svo að mörgum leið illa, einkum kvenfólki. Eftir áætlun átti Goðafoss að vera á Sauðárkróki að kveldi þessa dags, en auðvitað hafði hann tafist líka vegna veðurs á Austfjörðum. Með honum fórum við til Reykjavíkur og fengum skjóta ferð þrátt fyrir miklar umhleypingar.

Það var notaleg tilfinning að sigla inn Sundin í lognkyrru veðri og sjá höfuðstaðinn móka í ljóshafi og hvelfingu himinsins bragandi af stjörnum og norðurljósum. Við lögðumst að hafnargarðinum klukkan tólf á miðnætti, og voru þá flestir bæjarbúar komnir í værð, enda nokkurt frost og andaði köldu af Esjunni. Áreiðanlega voru bílarnir í meirihluta miðað við fólkið. Þeir voru alls staðar á hreyftngu, öskrandi, eins og allt umhverfið stæði í björtu báli.
Allir farþegarnir fengu að halda til um borð það sem eftir var nætur, nema þeir sem sóttir voru af vinum og vandamönnum, og vorum við bræður með þeim fyrrtöldu.
Þegar við höfðum komið okkur fyrir í borginni og farið í betri fötin varð okkur fyrst fyrir að grennslast eftir hjá skipaafgreiðslunni um fyrstu ferð til Eyja. Vorum við ekki einir um það því að fjöldinn var á höttunum eftir farkosti í sömu átt. Niðurstaðan var sú að eftir þrjá daga átti Nova bergenska félagsins að leggja af stað í hringferð austur um land og með henni keyptum við farmiða. Sú ferð varð tíðindalaus, gott veður, en hörku frost. Þann 16. desember komum við til Vestmannaeyja og lögðumst undir Eiðið sem svo er kallað. Höfðum við þá verið tólf sólarhringa að komast á leiðarenda.

Ekki man ég hvaðan Gullfoss kom, en hann lá fyrir festum á þessum stað þegar við komum. Nú er það kunnara en frá verður sagt hvað kom fyrir í Vestmannaeyjum þennan dag þegar árabátur fórst með sjö mönnum svo að segja í fjöruborðinu eða nokkra metra frá landi, án þess að nokkuð væri hægt að gera til bjargar. Ætlunin var að flytja Halldór Gunnlaugsson lækni út í Gullfoss til sjúkravitjunar þegar þessi hörmulegi sorgaratburður gerðist. Læknirinn náðist á floti og var fluttur um borð í Gullfoss og gerðar á honum lífgunartilraunir án árangurs. Fimm lík fundust um daginn og nóttina, en eitt þeirra fannst aldrei.
Ég var, eins og áður segir, öllum ókunnugur í Eyjum og því ekki eins skyggn á viðbrögð fólksins og þeir sem kunnugir voru, en það lék ekki á tveim tungum hversu harmþrungnir eyjaskeggjar voru að hafa misst sinn ástsæla héraðslækni og sex unga og vaska sjómenn á svona sviplegan hátt. Hinn landskunni læknir og gáfumaður, Páll Kolka, sem þá var læknir í Eyjum og lengi síðar, tjáði mér eitt sinn að hann hefði aldrei tekið nær sér en þetta kvöld að fara heim til ekkju og barna Halldórs, sem voru heimilisvinir hans, og segja þeim umbúðalaust hvað orðið var.
Ekki þurftum við lengi lags að bíða til að komast í land því að margir bátar, smáir og stórir, komu hléborða við Novu og óskuðu eftir farþegum til flutnings. Það kostaði 50 aura fyrir manninn og gilti einu hvort farangur væri meiri eða minni. Þrátt fyrir stóran storm og bratta öldu var farið milli Heimakletts og Faxaskers sem leið liggur inn að bryggju. Já, nú höfðum við þessar langþráðu Vestmannaeyjar undir fótum með alla sína reisn og hin miklu nátturuundur. Þessi pílagrímsför var á enda.

Við bræðurnir fórum beinustu leið til Árna Sigfússonar útgerðarmanns því að þar var Anton ráðinn og hafði verið þar áður. Elín, tengdamóðir Árna, var ráðskona, og tók hún á móti okkur eins og værum við synir hennar. Auðvitað naut ég bróður míns. Það voru allir vermenn komnir að þessu úthaldi Árna svo að ekki horfði vænlega með minn hag. Annars fylgdist ég vel með því sem talað var um ráðningu manna um lögboðið fastakaup, sem var 450 krónur fyrir yfir vertíðina, og síðan 5 krónu premía af hverjum þúsund fiskum sem á skip komu þar til að aflast höfðu fimmtán þúsund þorskar, þá 8 krónur á hvert þúsund. Fæði, húsnæði og þjónusta voru innifalin í þessari krónutölu.
Ekki vissi ég til þess að nokkur fulltrúi frá hendi sjómanna fylgdist með tölu aflans nema formaðurinn sem oftast var hluthafi í útgerðinni og hefur að sjálfsögðu haft sjálfan sig efst í huga þegar skipt var á bryggjunni. Ef sjómanni datt í hug að fjasa út af einhverju sem honum fannst miður fara var honum hent í land og annar tekinn í staðinn. Þannig höfðu útgerðarmenn hreiðrað um sig í sínu eigin bæli án þess að nokkru væri hægt að þoka fyrir okkar hönd. Þekktir dugnaðarmenn voru yfirboðnir með 700-800 krónur auk premíu sem áður segir.
Anton, bróðir minn, trúði mér fyrir því að hann hefði í huga að koma mér fyrir hja Ólafi Auðunssyni, útgerðarmanni í Þinghól, þekktum ágætismanni, sem stæði við öll sín loforð og var heimili hans rómað fyrir myndarbrag. Þangað lögðum við leið okkar um kvöldið. Ekki höfðu þeir lengi spjallað þegar það vitnaðist að einn mann vantaði á Tjaldinn sem Ólafur átti ásamt formanninum, Hannesi Hanssyni frá Hvoli. Ólafur sagði: „Mér líst vel á strákinn, ég skal taka hann, en kaupið er þetta 450 krónur auk premíu og allt frítt."
Þessu neitaði ég harðlega, sagðist ekki ráða mig fyrir minna kaup en Antoni væri boðið. Um þetta var þjarkað fram og aftur og Ólafur hafði síðasta orðið. Með það fórum við eftir að hafa drukkið kaffi. Á leiðinni í svefnstað hundskammaði Anton mig, sagðist ekkert skipta sér af mér, hvorki til eða frá, fyrst ég sýndi þessa ósvífni.

Um kvöldið sóttu á mig miklar áhyggjur, mér fannst allar bölhríðir hvíla á herðum mér. Það var ekki tilhlökkunarefni að vakna til þess að ganga á milli manna og bjóða mig eins og tros fyrir hálfvirði. Ég komst að þeirri niðurstöðu að frestur væri á illu bestur og sjá hvað morgundagurinn bæri í skauti sínu. Það var engin hreyfing í húsinu þegar ég gekk um hurðir. Ég labbaði niður Kirkjuveg með fram sjóbúðunum og ofan á bryggju. Á leiðinni þangað geng ég eftir þröngri götu þar sem sjóhús stóðu beggja megin. En af því að kalt var og ég ekki skjóllega búinn stansaði ég við eitt þessara húsa og beið þess í skjóli sem verða vildi. Menn voru að koma og fara, en hvert vissi ég ekki. Þegar ég hafði skolfið mér til hita sé ég mann koma eftir götunni og hefur stefnu á það húsið sem ég stóð við.
Manninn þekkti ég fljótlega. Það var enginn annar en Ólafur Auðunsson, útgerðarmaður í Þinghól, sem við heimsóttum kvöldið áður. Ég sýni á mér fararsnið, en hann þekkir mig líka og heilsar með þessum orðum: „Það spáir góðu þegar ungir menn geta ekki sofið fyrir áhuga. Ertu búinn að ráða þig?" Ég svara því neitandi. Þá segir þessi heiðursmaður: „Ég skil nú ekki í að það séu vandræði að koma þér í pláss. Ráddu þig ekki í dag, en komdu til mín í kvöld, ég get kannski komið þér á sporið."
Ég varð fegnari en frá verður sagt að þurfa ekki að hafa áhyggjur af sjálfum mér til kvöldsins. Þegar ég kom í verbúð Árna Sigfússonar réð ég mér varla fyrir kæti að hafa hitt þennan mann sem mark var á takandi. Þegar ég kem til Ólafs umgetið kvöld segir hann: Jæja Bjarni, þú segist vera þaulvanur sjómaður og reglan eftir því. Ég skal taka þig á Tjaldinn. Það er góður bátur, eikarsmíðaður, 16 tonn og gengur 9 mílur. Honum stýrir Hannes Hansson á Hvoli og borga ég þér 700 krónur í fastakaup auk annarra fríðinda sem sjómönnum er borgað ef Hannes segir að þú eigir það. Við látum reynsluna skera úr um þetta." Mér fannst það sanngjarnt og gekk að tilboðinu orðalaust.
Margrét, kona Ólafs, segir mér, að nú skuli ég sækja það sem ég hafi meðferðis. Síðan fylgir hún mér fram í forstofuherbergi og segir að ég eigi að sofa í þessu rúmi hjá honum Jörundi. Þetta voru fyrstu jólin sem ég var að heiman, en ekki fann ég til óyndis á þessu glaðværa og góða heimili. Strax eftir nýár var farið að dútla við veiðarfæri sem ég kunni lítil skil á en það kom fljótt með æfingunni.

Einhvern tíma á þessu tímabili hitti ég Hannes formann niður í fiskhúsi ásamt fleirum og heilsaði honum og sagði hver ég væri. Hann tók kveðju minni þurrlega án viðtals. Þessi formaður hafði orð á sér fyrir djarfa sókn, dugnað og aflasæld, enda urðum við þriðju hæstir á þessari vertíð. Þegar ég fór að segja kunningjum frá þessu rómaða skipsrúmi og með hvaða kjörum ég væri ráðinn höfðu þeir gaman af. Einn þeirra sagði:
„Blessaður vertu, ef Hannes fleygir þér ekki strax fyrir borð í fyrsta róðri þá í þeim næsta."
Guðmundur Gunnarsson hét vélstjórinn okkar, eldri maður, stórgreindur og völundur til allra verka, en fauti í skapi og þá ekki alltaf vandur að meðulum þegar því var að skipta. Sú saga flaug um borð að Gvendur Stjórnmál, eins og hann var kallaður, hefði reiðst við Hannes formann og elt hann um dekkið með skaröxi. og hefði þá formaðurinn átt fótum sínum fjör að launa. Það fylgdi sögunni að Gvendur væri eini maðurinn sem Hannes hefði ótta af. Í landi vann Guðmundur við seglasaum í kjallaranum á Þinghól. Þar var ég öllum stundum sem ég gat við komið áður en róðrar byrjuðu og spurði ég hann um allt sem laut að vinnunni um borð. Gamli maðurinn vissi hvorum megin sneiðin var smurð og sagði að ég yrði látinn stoppa hjá lagningsmanni, draga strengina, vefja á belgina og blóðga. „Ég skal segja þér til verka þegar þar að kemur."

Við fórum okkar fyrsta róður 13. janúar og vorum vaktir klukkan hálf tvö um nóttina. Bjóðin voru tekin fullbeitt upp í beitingarskúr og hjólað á bryggju, síðan handlönguð ofan í stóran og þungan pramma sem notaður var bæði við fram- og uppskipun á aflanum
Tjaldur lá við festar í höfninni eins og aðrir bátar, smærri og stærri. Fáir reru þennan dag, enda ljótt útlit. Annars var aldrei litið til veðurs, aldrei talað um að baromet stæði betur eða verr, engin veðurspá, bara göslast þangað sem fiskjar var von. Þegar út á miðin kom setur formaðurinn vélina á hálfa ferð og argar: „Klárir að leggja." Jörundur lagningsmaður og rekkjunautur minn tvíhendir stjóranum og ætlar að snara honum í hafið. Þá kemur Gvendur vélstjóri að vörmu spori og segir „Augnablik." Síðan leiðir hann mig að einum línustampinum, grípur tvöfaldan ásinn milli öngla og segir: „Svona áttu að fara að. Ef þú lítur nokkurn tímann af þessu verki eru önglarnir komnir í þig og þú dauður."
Það er farin hálf ferð. Jörundur leggur með berum höndum. Þá voru engar lagningsrennur til komnar, og ég stoppa. Allt gengur slysalaust. Það er legið yfir í tvo tíma og síðan farið að draga. Jörundur afgoggar, Ársæll og Hilmar hringa línuna til skiptis, og ég dreg strengina, vef á belgina og blóðga. Við fengum sáralítið þennan fyrsta dag.
Þær samþykktir voru gildandi að einn bátur gæfi ljósmerki öllum flotanum þegar klukkan var hálftvö til tvö að nóttu, og þá var um að gera að vera nógu fljótur að sleppa lausu til þess að komast sem allra fyrstir á miðin. Við höfðum þá aðferð að vefja bólstrengnum einn vafning um stefni bátsins, og með því vorum við lausir eins og hendi væri veifað þegar blússið var gefið. Það var mitt starf að halda um endann. Var ekki laust við að ég fyndi nokkuð til mín að hafa þessa ábyrgðarstöðu. En karlarnir voru ekki á sama máli, sögðu að liðléttingar á flotanum gerðu þetta ævinlega.
Á línuvertíðinni var oftast komið að klukkan fjögur til fimm á daginn og við vorum oftast lausir frá störfum klukkan sex til sjö. Var þá ævinlega borðaður mikill og góður matur. Annars höfðum við með okkur á sjóinn nokkrar samlokur af brauði, en kaffi var hitað um borð. Þetta varð að duga, hversu lengi sem við vorum.

Ekki minnist ég þess að ég færi út að skemmta mér á meðan á vertíð stóð, af hræðslu við að eitthvert óhapp kæmi fyrir og þá fengi Hannes átyllu til þess að reka mig. Í þá daga notaði ég ekki tóbak og því síður sterkar veigar. Þegar formaðurinn þrammaði upp tröppurnar í Þinghól til að vekja var ég ævinlega vaknaður. Ekki vissi ég hvernig á því stóð. En í þau fáu skipti sem ekki var róið svaf ég fram á dag án þess að rumska.

Nú verð ég að segja frá því þegar formaðurinn kom til að ræsa. Þá kallaði hann ætíð á Jöra, sem hann nefndi svo, en ekki á mig. Það ótrúlega skeði að þegar Jörundur lá á spítala í þrjár vikur, og ég var einn í herberginu, kallaði hann í hvert skipti á Jöra en ekki Bjarna. Húsbændurnir hlógu dátt þegar ég sagði þeim þennan brandara við kvöldborðið. Mig langaði til að segja manninum þær fréttir að nú skuli hann fara á sjúkrahúsið og kalla á Bjarna því að þar hlyti hann að vera af því að hann var ekki finnanlegur heima hjá sér. Ekki var ég nú svo stór í sniðum að þora það.
Í endaða línuvertíð vorum við einskipa á sjónum og lögðum línuna í versta veðri sem ágerðist því meir sem birti af degi. Við lágum ekkert yfir heldur byrjuðum línudráttinn strax og búið var að henda baujunni. Það gekk æði böxulega því að við rifum og slitum þar til séð var að ekki réðist við neitt svo að öllum drætti var sjálfhætt, enda hávaðarok og hafsjór. Allan daginn vorum við að berja heim undir Eyjar. En vel stýrði Hannes því að ekki fengum við brot á allri leiðinni sem heitið gat. Það var komið á ytri höfnina í rökkurbyrjun, og sýnilegt var að flaggið á skansinum sýndi ófært inn á leguna. Ekki brá Hannesi við það heldur sló af ferðinni og lét einn öldufald fleygja okkur inn fyrir garðana án þess að neinn sakaði. Einhver sekt var við þessu lögbroti. Mig minnir 1.000 krónur sem gengu til hafnarsjóðs. Guðmundur Gunnarsson vélstjóri var mikill vinur minn því að hann vildi mér vel í öllu og ég trúði á hann í smáu og stóru. Ég vissi líka að hann gat ráðið ferð okkar á sjónum og þess utan ef svo bar við. Enginn réð við Gvend stjórnmál ef í það fór.

Nú var það eitt sinn að Hannes kom til að vekja Jöra þó að hann vissi af honum á spítala og mig einan í herberginu. Ég hafði lítið sofið það kvöld vegna mikillar tannpínu í jaxli og var því illa fyrir kallaður að fara á sjóinn í misjöfnu veðri en þorði ekki að neita kalli. Ég klæði mig í skyndi og hleyp niður Kirkjuveg, næ Gvendi stjórnmál og segi honum raunir mínar. Hann segir mér að ég skuli bara snúa við því að ég hafi lögleg forföll og að hann skuli tala máli mínu við formanninn svo að hann skilji. Ekki var ég ánægður með þau málalok og held áfram að strögla og bið hann að taka þennan bikar frá mér á annan hátt. Þá segir Gvendur: „Heyrðu, þá skulum við bara heita á heilagan Þorlák að ekki verði róið í nótt." Við höldum ferð okkar áfram niður að fiskhúsi þar sem Hannes stendur tygjaður fyrir dyrum úti ásamt mönnum sinum. Gvendur kastar kveðju á karlana og spyr hvort eigi að róa í þessu útliti. „Við skoðum hann," segir Hannes. „Jæja, þá verður þú að útvega vélstjóra í minn stað. Ég er illa fyrir kallaður með tannpínu og hef ekkert sofið, fer ekki á sjó í dag," segir Gvendur og gengur snúðugt á leið heim.
Svo mörg voru þau orð sem verkuðu á Hannes eins og raflost. Þvi næst segir formaðurinn með miklum þjósti: „Tjaldinum verður ekki róið með árum, farið heim í bælin." Daginn eftir dró Páll Kolka læknir jaxl úr Bjarna en ekki Gvendi.

Hinn 8. mars hentum við öngladraslinu í land og bjuggum okkur út á þorskanetaveiðar sem og allir gerðu um þær mundir er útveg höfðu. Það var virkilegur fagnaðardagur fyrir mig og að vísu alla sem tóku þátt í þessu næturgaufi og myrkraverkum á línuvertíðinni. Við vorum fullan dag að bjástra í netunum og því sem þeim fylgdi. Þá gátum við. sem sjaldan skeði, borðað miðdag með heimafólki. Áður en staðið var upp frá borðum spurði húsbóndi hvort Hannes hafi ekki talað um hvaða kaup ég ætti að fá. Frú Margrét blessunin tók af mér ómakið og sagði: „Ætli Bjarni fái ekki það kaup sem honum hefur verið lofað."
Nú. sem bátar voru almennt að skipta um veiðarfæri og ekki var vaknað fyrr en klukkan fimm til sex á morgnanna, gerðu sjómenn sér dagamun, fóru á bíó, dansleik, eða jafnvel þynntu blóðið með Spánarvíni. Sannleikurinn var sá að blóðið mun hafa verið orðið æði korgað í félögum mínum nema einum þeirra sem hafði alltaf gát á sínum æðarslætti hvað það snerti og blótaði ekki Bakkusi það sinn. Þetta kvöld fór ég á vit tröllana inn í Herjólfsdal ásamt tveimur strákum sem voru hlaðnir alls konar „slikkeríi". Ég hafði ekki komið þar áður og fannst æði mikið til koma.
Það var á föstudeginum langa, píningardag frelsarans, sem við fengum okkar besta afla. Við höfðum kvöldið áður lagt þrjár trossur mjög grunnt upp undir Landeyjarsandi og byrjuðum að draga klukkan átta þennan morgun. Þá dreginn var stjórinn úr botni flaut öll trossan enda í milli af rígaþorski. Sílið var vellandi úr hverju kjaftviki, mávagerið í hundraða tali í hörku áflogum við matborðið og páskasólin lagði blessun sína yfir þetta æsandi blóðbað sem í hönd fór. Við þessa veiði var það mitt starf að draga netateinana eftir spilskífunni en það var ærið þungt þegar fiskur var svo að segja í hverjum möskva.
Berlega var það nokkrum vanda bundið hjá okkur að komast heilir í höfn með það sem við höfðum fangað þennan blessaða dag. Formanni var því næst fyrir að láta fleygja öllu aukfiski og þannig skriðum við heim sökkhlaðnir með það sem tvær trossur gáfu og skildum við þá þriðju eftir, sem við sóttum síðar um kvöldið. Þennan dag var ekki gengið til rekkju fyrr en urn miðnætti. Laugardaginn fyrir páska fengu allir góðan afla. Á páskadag var ekki róið.

Síðustu daga fyrir lokin fórum við með netatrossurnar vestur á Eldeyjarbanka og lágum yfir. Höfðum við fullt í fangi með að verja þær áföllum fyrir ágangi togara, einkum franskra skipa, sem okkur fannst vera aðsópsmest. Það endaði með því að einn slíkur dró eina trossuna í kaf og sáum við hana ekki meir. Ekkert höfðum við upp úr þessu krafsi nema ómak og erfiði.
Hinn 9. maí drógum við í land og hættum veiðum, enda sjálfhætt því að Hannes fór að kveldi þessa sama dags með Íslandinu til Reykjavíkur. Erindið var að ganga undir uppskurð í annað sinn. Síðar var mér sagt af kunnugum að Hannes hafi verið orðinn svo mikið þjáður seinni part þessarar vertíðar að kona hans, Margrét Friðriksdóttir frá Gröf í Vestmannaeyjum, hafði orðið að klæða bónda sinn úr og í. Ég verð að segja það í fyllstu alvöru að hann var harður og óvæginn sjálfum sér og öðrum. En það er mín skoðun að Hannes Hansson formaður hafi verið þarfur maður landi og þjóð.
Við vorum staddir á bryggjunni þegar Hannes kom að kveðja. Auðvitað geymdi hann það besta þar til síðast, tók þá í hönd mína og togaði mig afsíðis og hvíslaði því að mér að ef ég kæmi suður næsta vetur gæti ég talað við sig.
Ekki stóð á heiðursmanninum Ólafi Auðunssyni að standa við orð sín og gefið loforð hvað kaup mitt snerti þó að enginn stafur væri skrifaður um það. Hann taldi 840 krónur á borðið en 200 krónur var ég búinn að taka fyrir föt.

Áður en ég skil við Eyjar langar mig til að geta um atvik sem gerðist átján árum síðar. Það var á stríðsárunum þegar ég var í siglingum á Súlunni frá Akureyri og við komum frá Englandi með kolafarm sem Ólafur Auðunsson útgerðarmaður keypti. Mér var falið að sjá um vigtina fyrir okkar hönd. Þá rifjaðist ýmislegt upp okkar í milli frá gamalli tíð sem annars hefði fallið í gleymsku. Að liðnum degi bauð Ólafur mér heim til sín og þar tafði ég við höfðinglegar viðtökur fram yfir vökulok hjá þeim hjónum og dóttur þeirra Solveigu. Ólafur fylgdi mér til skips og á þeirri leið talaðist okkur svo til að ég keypti í Englandi Ulsterfrakka af vönduðustu gerð handa húsbóndanum og að hann greiddi það í íslenskum peningum við móttöku. Mér fannst ánægjulegt að geta gert þessum sómavelgjörðamanni og vini mínum þennan greiða. En oft fer öðruvísi en ætlað er, og svo varð að þessu sinni. Nokkrum sólarhringum síðar, á leið yfir hafið, heyri ég í gegnum ljósvakann að Ólafur Auðunsson er allur. Ég geymi hlýjar minningar um þessi góðu hjón sem þá byggðu Þinghól í Vestmannaeyjum, og börn þeirra Kjartan og Solveigu.

Bjarni M. Jónsson