Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1997/ „Migið í saltan sjó“: Fiskifræði sjómanna
Stundum er sagt um fólk sem þekkir ekki af eigin raun hversdagsleg störf og verkefni að það hafi „ekki migið í saltan sjó.“ Hvers vegna skyldi það skipta máli að hafa komist í beina snertingu við þann veruleika sem um er að ræða hverju sinni og hvað er átt við með „beinni snertingu“ Dugar ekki bókvitið eitt og sér? Hér verður rætt um spurningar af þessu tagi í tengslum við skipstjórnarnám, en undanfarin tvö ár eða svo höfum við unnið að rannsókn á námi og þekkingu skipstjórnarmanna í Vestmannaeyjum. Við rannsóknina höfum við notið fyrirgreiðslu ýmissa aðila, ekki síst fjölmargra viðmælenda okkar í Eyjum í röðum sjómanna, Rannsóknaseturs Háskóla Íslands og Vestmannaeyjabæjar.
Verið í Vestmannaeyjum á sér engin skýr landfræðileg mörk sem sést best á því að rannsókn okkar leiddi okkur inn á mörg heimili í Vestmannaeyjum og raunar fór annar okkar alla leið norður að Jan Mayen. Fjöldi fólks tekur þátt í fiskveiðum með beinum eða óbeinum hætti – sjómenn, makar, veiðarfærasalar, vigtarmenn, vörubílstjórar, fiskvinnslufólk, útgerðarstjórar, opinberir starfsmenn og svo mætti lengi telja. Með breyttum útgerðaháttum í kjölfar kvótkerfisins hefur þungamiðja umræðunnar um hafið og nýtingu þess hins vegar í vaxandi mæli verið að færast upp á land ef svo má segja; frá sjómönnum til viðskiptafólks. Breytingar undanfarinna ára hafa þó ekki grafið undan ímynd skipstjórans með öllu. Hér fara á eftir nokkur brot úr samræðum okkar við sjómenn í Eyjum. Áhersla er lögð á að skýra frá sjónarhorni skipstjóra.
Raddir úr verinu.
Oft er látið að því liggja að þekking og leikni í fiskiveiðum sé náðargáfa sem mönnum sé í blóð borin. Vera má að nokkuð sé hæft í því, en viðtöl okkar við sjómenn benda hinsvegar til að starfið verði með tíð og tíma greypt í líkama þeirra. Leiðir manna að skipstjórasætinu eru eins ólíkar og þeir eru margir, en flest skipstjórnarefni eiga það sameiginlegt að koma úr sjómannsfjölskyldu. Margir komast svo að orði að það hafi „legið beinast“ við að komast sem fyrst á sjó:
Ég var byrjaður að fara með strákana mína með mér um leið og þeir fóru að ganga.
Maður byrjaði svona sem strákur á bryggjurápinu. Þetta var eins og íþróttakeppni. Maður fór milli bátanna og skrifaði hjá sér hvað þeir voru að koma með.
Fyrstu sjóferðirnar geta reynt á menn þegar þeir þurfa skyndilega að finna sig í framandi umhverfi og laga sig að nýjum vinnubrögðum og hreyfingum. Þá skiptir öllu máli að hafa rétt hugarfar og fylgjast vel með því sem fram fer og reyna að læra af öðrum.
Þetta var nú ábyggilega ímyndunarveiki því maður var ælandi allan tímann á meðan maður var að vinna, en sjóveikin batnaði um leið og haldið var í land. Þetta hefur ábyggilega tengst eitthverjum leiða við að fara á sjó, en ég held að þetta hafi batnað eftir að ég fór að hætta að hugsa um það að fara á sjó.
Þegar þú kemur um borð og ert óvanur þá skiptir það miklu máli að um borð séu reyndir menn sem geta sýnt þér undirstöðuatriðin. Þú ert miklu fljótari að verða að fullgildum manni eftir það.
Orðatiltækið „að sjóast“ er í almennu máli notað um það að öðlast nýja reynslu og þekkingu og ná tökum á nýjum aðstæðum. Í róðrum lærir viðvaningurinn að stíga ölduna og temja sér rétt vinnubrögð og smám saman dregst hann inn í hringiðu starfsins:
Þú byrjar sem háseti og í lestinni og vinnur þig alltaf einhverstaðar upp, þú ert næturkokkur og losnar undan því þegar þú ert orðinn vanari en menn sem eru að koma um borð. Eins á dekkinu, þá voru þeir sem voru óvanir látnir hlaupa með gilsana aftur og þeir sem voru aðeins vanari fengu að vera á spilunum.
Eftir nokkur ár til sjós kemur að því að sumir fara að velta því fyrir sér hvort þeir vilja bæta stöðu sína og læra til stýrimanns. Fyrir suma er námið fyrst og fremst lykill að auknum tekjum en aðrir hafa alltaf verið staðráðnir í að fara „alla leið í skipstjórann.“
Fyrstu árin sem maður var að byrja á þessu þá pældi maður ekkert í þessu, en svo þegar maðar fór að hugsa hvort maður ætlaði að vera í þessu þá dreif maður sig í skólann.
Það er ekkert nám sem eykur tekjur manna eins mikið og stýrimannsnámið, frá háseta upp í skipstjórahlut er 100% , það munar um minna.
Það getur verið erfitt að setjast á skólabekk eftir langa fjarveru frá námi, en reynsla af hásetastarfi kemur sér vel og auðveldar mörgum að öðlast dýpri skilning á því sem fram fer í skólanum, eins og lesa má af orðum eins kennara og fyrrverandi nemanda í Stýrimannaskólanum:
(Nemendur) eru miklu móttækilegri (ef þeir hafa verið til sjós) fyrir því sem við erum að kenna þeim um stöðuleika, siglingafræði og annað. Ég held að eitt ár til sjós sé alveg á við eitt ár í Stýrimannaskólanum.
Reynslan nýttist manni í siglingafræði og sjómennsku. Maður kunni náttúrulega undirstöðuatriðin í siglingfræði, kunni á kompás og hafði séð karlana sem maður var búinn að vera með stinga út í kort og svoleiðis. Þeir sem höfðu áhuga reyndu yfirleitt að læra af þeim.
Námið í skólanum er fyrst og fremst fólgið í bóklegum fögum og tækjakennslu. Almennt er samkomulag um að námið vegi ekki mjög þungt í sjálfum veiðskapnum, þótt það sé nauðsynlegt til að öðlast skilning á öllu sem varðar siglingu, lög og undirstöðuatriði varðandi tæki.
Það er ekki hægt að sjá fyrir fram hverjir koma til með að skara fram úr í veiðunum, það getur komið hjá góðum skólamönnum sem öðrum. Það að veiða verður aldrei lært af bók, það þarf hver að finna fyrir sig.
Ég held að skólaþekkingin komi ekki að miklu gagni í daglegri vinnu. Ég er búinn að vera skipstjóri í 30 ár, maður hefur einhvern veginn þvælst í gegnum þetta. Maður verður bara hluti af þessu öllu saman.
Að afloknu námi í Stýrimannaskólanum hefst hið eiginlega nám í fiskveiðum. Eins og einn skipstjóri komast að orði: „námið er rétt að byrja þegar maður er búinn í skólanum.“ Miklu máli skiptir að gott sambandi myndist á milli skipstjóra og stýrimanns. Stýrimaðurinn er í óformlegu læri hjá skipstjóra sínum, reynir að læra með því að fylgjast með, spyrja, horfa á og prófa sig áfram.
Maður finnur þetta nokkuð fljótt á stýrimönnum sem maður er með hvort þeim er treystandi eða ekki. Menn verða að sýna áhuga, það sýnir sig ansi fljótt hvort menn hafa áhuga á þessu. Það er ekki alveg sama hver er uppi í brú, menn eru svo misjafnir.
Maður lærði bæði um miðin sem maður var á og hvernig maður átti að hegða sér gagnvart öðrum og allt það, það var góður skóli. Þeir sögðu manni hvernig maður átti að fara að og maður spurði svona upp og ofan.
Þegar ég byrjaði að toga sat hann yfir mér í hálftíma að segja manni til og ef eitthvað kom upp á kallaði maður bara í hann. Og ef eitthvað bjátaði á sem maður treysti sér ekki til að leysa, svo sem slæmar festur og svoleiðis, þá kom hann upp og leysti þessa hluti.
Það er alveg eftirtektarvert að sumir skipstjórar hafa skólað upp alveg fjöldann allan af góðum skipstjórum og aflamönnum. Ólafur Sigurðsson frá Skuld var alltaf að kenna manni og margir sem voru með honum urðu síðar góðir skipstjórar.
Þegar í skipstjórastólinn er komið þarf að halda áfram að viða að sér þekkingu. Fiskileitartæki, fyrri reynsla og samskiptin við aðra skipstjóra eru sá grunnur sem allt byggist á, en alla tíð þurfa menn að bæta við þennan grunn og endurmeta það sem fyrir er í ljósi reynslunnar.
Þátttakendur og fræðimenn.
Samstarf fræðimanna og sjómanna hefur alls ekki verið á einn veg í gegnum tíðina. Bjarni Sæmundsson fiskifræðingur lagði ríka áherslu á samstarf við starfandi sjómenn, enda væri reynsluþekking þeirra ekki minna virði en bókvit fræðimanna. Hann var í senn lærlingur og kennari sjómanna, eins og lesa má af skrifum hans í Ægi þar sem honum er tíðrætt um mikilvægi þess „að fara um landið og hitta fiskimenn að máli, fá hjá þeim upplýsingar um lífshætti nytjafiska vorra og ýmislegt það, sem snertir veiðarnar, heyra af gömlum og minnugum mönnum um breytingar á ýmsu því viðríkjandi og hins vegar fræða, þar sem ég þóttist fróðari en þeir“ (Ægir 1921:115).
Bjarni fór í veiðiferðir með vönum skipstjórum. Í flestum stærri útgerðarstöðum landsins aflaði hann sér upplýsinga um aflabrögð og önnur mál sem honum voru hugleikin en á móti sendi hann mönnum niðurstöður rannsókna sinna. Í Vestmannaeyjum átti hann m.a. samskipti við Þorstein í Laufási, Gísla í Stakkagerði og Magnús á Vesturhúsum, en þeir voru frammámenn í útgerð í Eyjum auk þess að vera dugmiklir fiskimenn. Þeir héldu ítarleg róðratöl þar sem fram komu upplýsingar um veiðislóðir og samsetningu afla og telja má líklegt að Bjarni hafi notið góðs af þeim fjársjóði sem þar var geymdur. Í bréfi sínu til Þorsteins biður Bjarni hann fyrir kveðju til þessara manna og fer svo þessum orðum um tilraunir þeirra beggja með þorskanet: „Þér eftir áeggjan minni, lögðuð fyrstur manna þorskanet í Vestmannaeyja sjó og sýnduð þar með, að vert væri að gera slíka tilraun með þetta, enda þótt vísindamaður, með enga reynslu stingi upp á því. ... Þarna er eitt ánægjulegasta dæmi (um samvinnu) . . . á milli vísinda og praxís, milli vísindamannsins og hins praktíska og hleypidómalausa fiskimanns, og megum við vera glaðir yfir þeirri samvinnu." (Úr bréfasafni Þorsteins Jónssonar, Skjalasafn Vestmannaeyja).
Fiskifræðin var lengi framan af nátengd veiðiskapnum og sáu margir sjómenn í henni bandamann sem kæmi til með að verða þeim að liði. Fiskifélag Íslands hafði raunar frumkvæðið að fyrstu skipulögðu rannsóknunum á lífríki sjávar þegar það réð til sín Árna Friðriksson. Skilin á milli fræðimanna og þátttakenda voru ekki skýr. Þessi sýn kemur m.a. fram í skrifum Baldurs Johnsens héraðslæknis þar sem hann hvetur til þess að stofnuð verði staða fiskifræðings í Vestmannaeyjum:
„Þá fengist lifandi samband við sjómennina, og yrði það áreiðanlega mikill styrkur fyrir rannsóknirnar og myndi flýta fyrir árangri og ég er viss um, að sjómenn myndu ekki telja eftir sér dálitla aukafyrirhöfn í sambandi við söfnun sýnishorna ef þeir hefðu í landi daglegt samband við fiskifræðing, sem leiðbeindi þeim og hvetti til þátttöku í vísindastarfi.“ (Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1956).
Ástæða er til að ætla að samstarf Hafrannsóknastofnunarinnar og sjómanna undanfarin ár hafi ekki verið eins og best verður á kosið. Sjómenn telja að ekki hafi verið nógu mikið gert af því að hlusta á ráðleggingar þeirra og hugmyndir og margra ára reynsluþekking fái ekki nokkurn hljómgrunn hjá bóklærðum fiskifræðingum. Samskiptaerfiðleikarnir eiga að hluta til rætur að rekja til þess að rannsóknir fiskifræðinga eru nátengdar stjórn veiðanna. Þátttaka fiskifræðinga í baráttunni fyrir útfærslu landhelginnar setti mark sitt á allt samstarf við sjómenn. Rannsóknirnar voru ekki stundaðar í jafn nánu samstarfi við sjómenn og áður og við tók pólitísk ráðgjöf um stjórn fiskveiðanna. Sjómenn voru ekki lengur í jafnræðissambandi við fræðimenn.
Á síðari árum hefur Hafrannsóknastofnunin hins vegar lagt sig fram við að bæta samskiptin við sjómenn með ýmsum hætti. Stofnuð hafa verið útibú á nokkrum stöðu á landinu, m.a. í Vestmannaeyjum, auk þess sem stofnað hefur verið til sameiginlegra rannsóknaverkefna. Eitt þessara samstarfsverkefna er svonefnt „togarall“ sem er áhugaverð tilraun til að virkja sjómenn með beinum hætti inn í rannsóknir. Margir viðmælendur okkar töldu að „togararallið“ væri góðra gjalda vert, en hins vegar væri nauðsynlegt að laga það betur að veruleika fiskveiðanna. Deilur um „rallið“ endurspegla að einhverju leyti ólík sjónarhorn fræðimanna og sjómanna hvað varðar lífríki sjávar. Þeir fyrrnefndu reyna að draga upp heildarmynd af ástandi fiskstofnanna hverju sinni, en missa með því sjónar á svæðis- og tímabundnum sveiflum. Fyrir skipstjórann skiptir það hins vegar meginmáli að fylgjast með lífríkinu frá degi til dags. Sú vitneskja, sem þannig aflast, er sífellt endurskoðuð í ljósi nýrrar reynslu.
Ef menn ætla sér að öðlast ítarlegan skilning á ástandi fiskstofna er nauðsynlegt að fylgjast með lífríkinu frá degi til dags og huga að sveiflum með meiri nákvæmni en yfirleitt hefur verið gert. Þetta gerir þátttöku sjómanna nauðsynlega og opnar jafnframt möguleika á beinni stjórn og eftirliti heimamanna með fiskimiðunum.
Þegar sagt er um mann að hann „hafi aldrei migið í saltan sjó“ er það vanalega í fremur niðrandi merkingu, enda eru þessi orð gjarna notuð þegar dekurbörn og skýjaglópar eru annars vegar. Reynslan af hagnýtum verkefnum er afar mikilvægt veganesti í skóla lífsins og vissulega hefur hún verið stórlega vanmetin undanfarin ár, ekki síst í umræðum um sjávarútvegsmál. Hitt má þó ekki gleymast að bóknám og fræðileg þekking eru óhugsandi án reynsluþekkingar. Það verður enginn fiskifræðingur af lestri einum saman og þegar grannt er skoðað er lestur virk athöfn rétt eins og það að draga fisk úr sjó.