Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1997/Jón í Hlíð og m.b. Kapítóla

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Haraldur Guðnason


JÓN Í HLÍÐ OG M.B. KAPÍTÓLA

Jón sá ljós þessa heims 21. okt. 1878 í Borgarhól í Austur-Landeyjum. Foreldrar hans voru Jón Pétursson frá Hólmahjáleigu og Guðný Eiríksdóttir frá Tumastöðum í Fljótshlíð. Börn þeirra tíu og náðu fimm fullorðinsaldri.
Í sóknarlýsingu Landeyjaþinga 1872-73 skrifar klerkur um Kúfhól: „Nú sem stendur er húsmaður í kofa, er hefur verið byggður úr svokölluðum Borgarhól, er áður voru fjárhús frá Kúfhóli, en bæjarmynd þessi er ekki ennþá lögbýli, og getur því ekki tekist í bæjatölu.“
Borgarhóll varð aldrei lögbýli en þar var Jón Pétursson talinn „húsmaður“ 1870-1888. Hann var landlaus, hefur fengið slægjubletti hjá þeim betur stæðu. Reyndar lifðu Landeyingar meira á sjónum en landinu. Ef útræði brást, sem var sjaldan, var vá fyrir dyrum. Fátækt algjör. Vorið 1888 fá Jón og Guðný ábúð á Oddakoti. Jón er þá 62 ára og Guðný 55 ára. Þar eru og börn þeirra þrjú: Magnús 23 ára, Ólöf 14 ára og Jón, sem síðar segir frá, 10 ára, „les vel, kann fræðin vel,“ skrifar prestur. Oddakot var lögbýli en afar rýrt kot. Þar bjó Jón í fjögur ár.
Árið 1892 tók Magnús, sonur Jóns, við búi í Oddakoti, 27 ára. Kona hans var Steinunn Sigurðardóttir frá Kúfhól, 25 ára. Annað heimilisfólk: Foreldrar Magnúsar og systkini hans tvö, Ólöf og Jón.
Á vertíð 1893 var Magnús ráðinn hjá Jóni Brandssyni, alkunnum sjósóknara. Jón og skipverjar hans drukknuðu í róðri frá Eyjum 25. mars 1893. Steinunn, ekkja Magnúsar, bjó í Oddakoti til næsta vors. Þau áttu eitt barn.
Guðný andaðist 2. febrúar 1908. Jón var fæddur í Hólmahjáleigu 1827 og bjó þar 1860-70. Hann dó á þeim sama bæ 9. október 1912.
Árið 1893 voru sex börn Jóns og Guðnýjar látin, hin fjögur voru: Eirný (1861-1937), bjó í Reykjavík, Sesselja (1868-1914), húsfreyja Spanish Fork, Ólöf (1875-1963), gift Antoníusi Baldvinssyni í Vestmannaeyjum og Jón í Hlíð. Dóttir Jóns Péturssonar og Dýrfinnu Kolbeinsdóttur frá Krýsuvík: Ólöf (f. 1853), húsfreyja í Flóa.
Ólöf yngri fluttist til Eyja 1896, ráðin hjá Jóhanni Bjarnasen faktor í Garði og Margréti, frú hans, Þorsteinsdóttur héraðslæknis.
Ólöf segir frá í Gamalt og nýtt 1949:
„Það voru mikil viðbrigði fyrir mig að koma úr sveitinni, fásinninu og fátæktinni, og á þetta eitt mesta fyrirmyndarheimil í Vestmannaeyjum.“
Jón réðst vikadrengur að Selshjáleigu. Hannes frá Hvoli, sonur hjónanna þar, var samtíða Jóni í hjáleigunni. Hann sagði að Jón hafi þá verið farinn að láta fjúka á kviðlingum, gáskafullur nokkuð og smástríðinn, glaðsinna og skemmtilegur unglingur.
Eitt sinn um haust var heitt slátur á borðum. Jón þakkar fyrir sig með vísu:

Sæmilega saddur er,
svoddan heyri dróttir.
Guði sé lof og þakkir þér,
Þórunn Guðmundsdóttir.

Þórunn húsfreyja var systir Jennýjar á Mosfelli hér og bróðurdóttir Þórðar Diðrikssonar biskups í Utah.
Jóni leist vel á að freista gæfunnar í Eyjum, fluttist þangað um tvítugt, 1898. Gerðist vinnumaður hjá Jóhanni Bjarnasen í Garðinum, en síðan hjá Ingimundi Jónssyni á Gjábakka. Var svo lausamaður í þrjú ár, þá háseti á opnum skipum á vertíðum. Á sumrin var hann formaður á Austfjörðum.
Útgerðarsaga Jóns hefst með vélbátaöld. Það var honum til happs að kynnast Sigurði Sigurfinnssyni hreppstjóra sem var þá einskonar „Eyjajarl“ eftir Þorstein lækni sem oft var nefndur svo. Sigurður átti tíæring, Skeiðina VE 78. Haustið 1906 var skipi þessu breytt nokkuð og sett í það 8 hestafla Hoffmansvél. Var Sigurður formaður næstu þrjár vertíðir. Hann átti þriðjapart í Skeiðinni, en jafnan hlut áttu þeir Högni í Vatnsdal, hálfbróðir Sigurðar, og Jón í Hlíð (síðar).
Förland norski, sem kom til landsins með Sigurði á Knerri 1905, var formaður á Skeið 1913 og hóf veiðar í þorskanet með góðum árangri og fyrstur manna. Eftir þá vertíð er lítið vitað um Skeið.
Þá hefst Kapítóluþáttur.
Vertíðina 1908 hefja þeir Jón og Sigurður útgerð á tæplega 8 tonna vélbát með 10 hestafla Gídeonsvél. Bátinn smíðuðu þeir Ástgeir í Litlabæ og Sigurður Sigurfinnsson úr eik og furu. Áttu þeir Jón og Sigurður bátinn að hálfu hvor. Báturinn hlaut nafnið Kapítóla VE 128. Nafninu hefur Jón ráðið. Elsta barn Jóns og Þórunnar Snorradóttur konu hans hét Þuríður Kapítóla.
Á þessum tíma voru Íslendingasögur, Biblía og riddarasögur afar vinsælar og börn fengu nöfn söguhetja. Skáldsagan Kapítóla útg. 1905, hlaut ómældar vinsældir hér á landi.
Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir segir frá Guddu vinnukonu: „Bóklestur var í hennar augum alger tímasóun. En hún átti til að segja okkur krökkunum heilu skáldsögurnar. Hún kunni þær og lék allar persónurnar svo þær urðu ljóslifandi fyrir börnunum. Ógleymanlegust var Kapítóla, aðalhetja í reyfara sem náði feikivinsældum á þessum árum.“
Jón var formaður með Kapítólu tvær fyrstu vertíðirnar, en hætti þá af heilsufarsástæðum.
Sigurður í Skuld var formaður á bátnum vertíðarnar 1910 og 1911. Milli Hlíðar og Skuldar lágu gagnvegir og urðu þeir Jón og Sigurður meðeigendur í útgerð.
Fyrsta áfallið í útgerð Jóns var þá er Kapítóla fórst 21. mars 1913. Var á heimleið úr róðri. Vélin bilaði og voru þá sett upp segl og átti að ná til lands á þeim. Suðaustan hvassviðri var á, þó ekki svo að báturinn ætti að vera í hættu. Eftir skamma siglingu kastaðist báturinn á hliðina og hvolfdi. Skipverjar voru fjórir, náðu taki á duflum á floti og héldu sér upp á þeim. Enskur togari, kallaður Danski-Pétur, var nærstaddur. Hann bjargaði þrem mannanna, mjög köldum og hrökktum. Einn skipverja drukknaði, Tryggvi Bjarnason frá Ísafirði. Formaður var Sigfús Scheving.
Þorsteinn í Laufási áleit bátinn verulega gallaðan. „Báturinn þannig byggður, að hann gat helst ekki tollað á réttum kjöl.“ (Ritg. um slys á sjó við Vestmannaeyjar, Árbók Slysavarnafél. Íslands 1930.)
Talið var að eignarhluti Jóns hafi ekki verið tryggður. Þar við bættist að skuldir Jóns fóru vaxandi og aflatregða.
Á þessum tíma átti Jón þriðjung í vélbátnum Baldri VE 155. Baldur var tíu og hálft tonn með 12 hestafla Gídeonsvél, smíðaður í Danmörku. Meðeigendur Arinbjörn Ólafsson skrifstofumaður og Sigurður Oddsson í Skuld. Sigurður var formaður með bátinn í 13 ár. Baldur var keyptur 1912 og var síðast haldið út 1928.
Á vertíð 1914 eignaðist Jón part í mótorbát, Trausta VE 175. Meðeigendur voru: Þorbjörn Arnbjörnsson, Einar Runólfsson og Guðmundur Helgason, átti hver fjórðungshlut. Trausti var tæp 9 tonn, smíðaður úr eik og furu, smiður Jens Andersen. Guðmundur Helgason, síðar formaður Sjómannafélagsins Jötuns, var formaður fyrstu vertíðina. Eftir það úthald þurfti að skipta um vél í bátnum. Fremur mun hafa verið tap en gróði á útgerð Trausta. Í vertíðarlok 1919 var báturinn seldur.
Árið 1924 hefst annað tímabil í útgerðarsögu Jóns í Hlíð. Hann festi kaup á 27 tonna vélbát frá Noregi, smíðaður þar árið 1919, með 50 hestafla Hansavél. Var þá með stærstu bátum í flotanum. Nú var ekki haldið Kapítóla-nafninu heldur stytt í Kap, fyrsta Kap í Eyjaflotanum. Jón var eini eigandi bátsins. Kap var fyrst á vertíð 1925.
Þorsteinn í Laufási í Aldahvörfum í Eyjum: „Árin 1925 og 1926 voru með mestu veltiárum sem komið hafa í Vestmannaeyjum.“ Þá var gengi krónu hækkað sem nam helmingi og olli miklu tapi hjá mörgum útgerðarmönnum. Þá kom kreppan og þá fóru margir á hausinn. Jón átti um tíma hálfan gufubát, Hafbjörn. Ekki auðgaðist hann á þeirri útgerð, nema síður væri.
Þröngt var í höfninni og bátar allir tréskip; þurftu því oft viðgerðar. Eitt sinn er Kap var í slipp kom Jón þar að líta á bát sinn, hitti Jón á Enda sem var smiður. Jón á Enda heilsaði nafna sínum með hálfri vísu:

Kap er orðin viðamát
veldur elli og krepputíð.

Jón í Hlíð botnar að bragði:

Strandað hafa betri bát
betri menn en Jón í Hlíð.

Jón tók mikinn þátt í félagsmálum. Í stjórn Bátaábyrgðarfélagsins 1919-1928 (ritari). Einn stofnandi Kf. Fram og í stjórn um tíma. Bæjarfulltrúi eitt kjörtímabil.
Um aldamótin lék Jón nokkur hlutverk í Guttó. „Hann hafði góða framsögn, söng mjög laglega og lék í fjölda hlutverka hér í Eyjum. Hann var lágur vexti, vel þrekinn og hreyfingar utan sviðs og innan léttar og óþvingaðar.“
Skáldsagan Fólk eftir Jón kom út 1946. Jón andaðist 23. september 1954.
Haraldur Guðnason