Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1996/ Ljóð

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
LJÓÐ EFTIR BENEDIKT SÆMUNDSSON

Í Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja 1995 voru birt ljóð eftir Benedikt Sæmundsson. Í sama blaði var maðurinn kynntur með fáeinum orðum.

Arnoddur Gunnlaugsson skipstjóri Minning

Hryggð er nú í huga mér,
hann ég kveð, sem dáinn er.
Góður drengur fallinn frá,
frestur enginn veitist þá.


Þegar sorgin sárust er
sýnist dimmt í heimi hér.
Eins og sólar birtan blóð
breytist þá í frost og hríð.


Addi kom mér oft í hug
átti kraft og hetjudug.
Engan sá ég eins og hann,
ágætari heiðursmann.


Ættaður úr Eyjum var,
átti jafnan heima þar.
Alinn upp við storm og strit,
stælti það hans afl og vit.


Fljótt hann hóf að sækja sjó,
sjómanns snilld í honum bjó.
Ungur lærði Ægi við
örnefni og fiskimið.


Fögur var hans formanns braut,
fiskisæld og heiður hlaut.
Ótal kosti yftrmanns
allir sáu í starfi hans.


Suðurey var sómaskip,
sigldi glæst, með tignarsvip.
Arnoddur og útgerð hans
öll bar merki heiðursmanns.


Segja má, til sjós og lands,
sólskin ríkti í lífi hans.
Heimilið var höfnin best,
hjartkær konan, gæfan mest.


Lífið okkur lánað er,
lifum við um tíma hér.
Er við hverfum heimi frá
himna dýrð við öðlumst þá.


Sighvatur Bjarnason skipstjóri Minning

Að þér stóðu sterkar ættir,
stáli vígðir, gildir þættir,
úrvalsfólk á allan hátt.
Þar sem úthafsaldan syngur,
ungur vaskur Stokkseyringur,
lærði hafsins lögmál brátt.


Formaður varstu í fremstu röðum,
framsókn þín með skrefum hröðum
er þú komst í Eyjarnar.
Eftirsóttur aflamaður,
úti á sjónum hress og glaður
þó veður gerðust válynd þar.


Erling keypti upp á Sandi
er þar hafði lent í strandi,
kominn nýr frá Köbenhavn.
Hófst þín útgerð og með honum,
aldrei brást hann þínum vonum,
honum fylgdi happ og lán.


Útgerð þín varð öll til sóma,
aflasæld og stjórn í blóma.
áttir jafnan fleyin fríð.
Brátt þér veittist sæld og sómi,
segja má að stæði ljómi
af þinni frægu formanns tíð.


Silfur hafs á síldarmiðum
sóttirðu fast, með engum griðum,
gekk þá fljótt að fylla skip.
Á mb. Minnie oft var gaman,
úrvalsmenn þar komnir saman,
þar var allt með sæmdarsvip.


Minningar ég margar geymi
meðan lifi í þessum heimi.
Á sama skipi sigldum við.
Þú varst mér sem besti bróðir,
beindir mér á gæfuslóðir
út á lífsins ævisvið.


Hugsjón þín og happaverkin
hafa sýnt oss bestu merkin,
þó að þú sért fallin frá.
Minning þín mun lengi lifa,
landi og þjóð til heilla og þrifa.
Gleðst nú sál þín Guði hjá.


Aflafrétt á vetrarvertíðinni 1944
(Víðir 5. apríl 1944.)

„Í fyrradag var ágætur afli hér, bæði á línu- og togbáta. T.d. fékk m/b Vonin, skipstjóri Guðmundur Vigfússon, um 60 smálestir af fiski (slægðum með haus) þar af um 7 smál. koli, eftir þriggja daga útivist.
Vonin fiskar í botnvörpu.“