Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1996/ Kostgangarar

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
INGA ÓSKARSDÓTTIR OG MARGO RENNER
KOSTGANGARAR


Í ritgerð þessari verður fjallað um konur sem buðu upp á fæði og aðra þjónustu fyrir sjómenn og verkamenn hér í Vestmannaeyjum á þriðja og fjórða áratug þessarar aldar. Við heimsóttum tvær konur sem báðar hafa reynslu af þessari vinnu, þær Sigríði Kristjánsdóttur og Ille Guðnason.
Sigríður Kristjánsdóttir fæddist á Eskifirði 16. júlí 1909 og ólst þar upp til 16 ára aldurs. Þá fór hún í vist til Reykjavíkur, til hjóna sem hétu Kaj Bruun og Snjólaug og var þar í fimm ár. Veturinn 1931, er hún var 22 ára, kom hún til Vestmannaeyja til þess að vinna hjá Kristjáni Linnet bæjarfógeta. Hún fór aftur heim til sín eftir þann vetur, en kom síðar aftur til Vestmannaeyja árið 1932 og vann þá fyrir Önnu Gunnlaugsson læknisfrú sem átti vefnaðarvöruverslun á þessum árum.
Árið 1935 byrjaði hún að búa á Kanastöðum með Guðmundi Guðmundssyni og bjuggu þau þar fram á haust það sama ár en fluttust síðan að Skólavegi 1, í Vöruhúsið eins og það var kallað þá. Þar höfðu þau íbúð uppi á lofti en niðri var verslun.
Sigríður eignaðist fyrsta barn sitt 4. september 1935. Guðmundur maður hennar var sjómaður og var ráðinn skipstjóri á bát sem hét Loki. Þann 19. desember 1935 drukknaði hann hérna í höfninni er hann var á leið um borð í bátinn á léttbát. Varð þá Sigríður ein að hugsa um sig og þriggja mánaða gamalt barn þeirra, Guðmund Helga.
Sigríður vildi vera sjálfstæð og ekki upp á aðra komin. Hún vildi einnig vera heima við með barnið sitt. Hún brá því á það ráð að taka kostgangara eins og þeir voru kallaðir, en þetta voru menn sem komu hér á vertíð til vinnu, bæði til sjós og lands.
Um áramótin byrjaði hún þessa nýju vinnu, það var vertíðina 1936. Hún tók kostgangara hverja einustu vertíð næstu fimm árin. Fyrstu þrjú árin bjó hún í Vöruhúsinu með eitt herbergi og eldhús og leigan var 50 krónur á mánuði. Hún hafði vanalega 12 kostgangara á hverri vertíð og sá um allan mat handa þeim, og einnig sá hún um að þvo og bæta fötin þeirra. Þegar spurt var hvaðan þessir kostgangarar komu sagði Sigríður að þeir hefðu komið af Suðurlandi, Vík í Mýrdal og frá Austur- og Vestur-Landeyjum. Á veturna var oftast lítið að gera á þeim stöðum þar sem þessir menn bjuggu, svo að þeir komu hingað til Vestmannaeyja á vertíð. Sumir voru einir og út af fyrir sig en aðrir áttu fjölskyldur sem þeir reyndu að sjá fyrir með því að koma hingað og vinna. Margir þessara kostgangara voru hjá Sigríði ár eftir ár.
Á þessum árum var kaup hjá landfólki 1 króna og 36 aurar á klukkutímann eða um 240 - 250 krónur á mánuði. Margir mennirnir, sem unnu í landi, t.d. beitningarmenn, aðgerðarmenn og fleiri, voru að vinna fyrir einn sérstakan bát og voru því á hlut hjá honum.
Sigríður fékk 70 krónur á mánuði frá hverjum manni, og fyrir þessar 70 kr. varð hún að sjá um að hver maður fengi nóg að borða og sjá bæði um þvott og viðgerðir á fötum þeirra. Hún nefndi sem dæmi að tveir kostgangarar komu til hennar eftir eina síldarvertíðina í lok september og hvor þeirra lét hana fá það sem þeir gátu á þeim tíma, eða 100 kr., sem hún átti að láta duga þangað til vertíðin byrjaði í janúar. Hún hafði sem sagt 200 kr. til að sjá fyrir þeim í þrjá mánuði.
Að sjá fyrir tólf svöngum mönnum var ekki mjög auðvelt verk við þröngan húsakost. Sigríður sagði meðal annars að hún hefði þurft að vera alveg viss um að allt væri komið á borðið og ekkert vantaði vegna þess að eldhússkáparnir voru fyrir aftan eldhúsborðið. Ef eitthvað vantaði þá varð hún að gjöra svo vel að biðja alla mennina að standa upp frá borðinu.
Á þessum tíma höfðu auðvitað allir kolaeldavélar og svo var einnig hjá Sigríði. Hún eldaði allt og bakaði á kolaeldavél. Þannig varð hún að ná í kol út í kolageymslu tvisvar á dag alla daga ársins. Sem betur fer var þó rennandi vatn í Vöruhúsinu svo að hún hafði vask í eldhúsinu, en vitanlega var þar ekki heitt vatn.
Þegar búa átti til kaffi varð hún sjálf að brenna og mala baunirnar, og gat hún aðeins búið til úr einu kílói í einu því að skúffan í kolaeldavélinni tók ekki meira. Mikill hluti af fæðinu var heimatilbúinn. T.d. gerði Sigríður alltaf sjálf kæfu, stundum keypti hún þó rúllupylsurnar en oftast gerði hún þær einnig sjálf. Slátur fékk hún alltaf sent frá móður sinni. Allt bakkelsi á heimilinu var hennar verk, t.d. allar sætar kökur, svo sem kleinur, jólakökur og allt brauð eins og hveitibrauð, flatkökur o.s.frv. Það eina sem hún keypti var rúgbrauð sem hún keypti í Magnúsarbakaríi eða Vogsabakaríi. Sigga segir að hún hafi aldrei notað smjör í mat eða bakstur, heldur notaði hún alltaf smjörlíki, enda var smjör dýrt á þessum tíma og er reyndar enn.
Annar matur var keyptur í Kaupfélaginu sem þá var til húsa í kjallaranum á Þorvaldseyri. Þar hafði hún mánaðarreikning og gat keypt út á hann egg í baksturinn, osta, súpur o.s.frv.. Mjólk var keypt frá bóndanum Guðmundi í Viðey, og varð hún að sækja hana sjálf í 5 - 10 lítra mjólkurbrúsum.
Maturinn á þessum tímum var ekki svo ólíkur matnum í dag, oft hafður fiskur, bæði soðinn og steiktur, eða búnar úr honum fiskibollur. Það var einnig haft saltkjöt, hangikjöt og hrossakjöt, en Sigríður hafði alltaf nýtt kjöt á sunnudögum. Á miðvikudögum var yfirleitt höfð kjötsúpa, saltkjöt eða eitthvað álíka. Hún hafði oft soðinn fisk í hádegismat með kartöflum, gulrótum eða rauðrófum og svo auðvitað tólg. Þetta grænmeti var líka notað í kjötsúpuna. Salt, pipar og laukur var notað til að krydda og bragðbæta steikt kjöt og sulta var alltaf notuð með. Þá var alltaf hafður grautur, líka sem eftirmatur, t.d grjónagrautur, sagógrjónagrautur með rúsínum, súpa og um helgar ávaxtagrautur með mjólk út á. Í súpurnar voru alltaf settar kanilstangir til að bragðbæta.
Sigríður sá sjómönnunum líka fyrir nesti á sjóinn og í vinnuna og tók það líka mikinn tíma. Á þessum árum var það aðeins eitt sem hægt var að framreiða um borð í bátunum og var það kaffi, allt annað varð að útbúa í nestispakka sem var settur í trékassa með hólfum, en sumir höfðu litlar emaleraðar skálar. Hafragrautur var oft settur í sultukrukkur með nestinu, sem oftast var kjötbiti, brauð, flatkaka eða skonsa, kleinur eða jólakaka eða eitthvað í þeim dúr.
Þeir menn sem unnu í beituskúrunum tóku annaðhvort nestið með sér eða Sigríður fór með það til þeirra kl. 10 fyrir hádegi. Hitabrúsar voru ekki til hér á þessum árum svo að hún setti kaffið í koníaksflösku og setti síðan ullarsokk utanyfir til að halda kaffinu eins heitu og mögulegt var. Mennirnir í beitningaskúrnum komu alltaf heim í hádegismat og kvöldmat, svo að í hádeginu gátu þeir tekið nestið með sér sem þeir þurftu seinnipart dagsins.
Sigríður bjó í Vöruhúsinu í þrjú ár, þá fluttist hún að Jaðri þar sem hún fékk aftur eitt herbergi og eldhús. Herbergin voru þó minni en leigan var 50 kr. á mánuði, það sama og hún borgaði fyrir íbúðina í Vöruhúsinu. Á Jaðri hafði Sigríður kostgangara í tvö ár en þá fór hún að búa með seinni manni sínum,Guðmundi Kristjánssyni, og hætti þá að taka kostgangara að sinni.
Þann 1. desember 1945 fluttust þau Guðmundur og Sigríður í nýtt hús sem þau byggðu að Faxastíg 27. Kölluðu þau húsið Blómsturvellir, en Sigríður var fædd að Blómsturvöllum á Eskifirði.
Það var svo mörgum árum seinna, eða árið 1956, sem Sigríður tók sautján færeyskar stúlkur í fæði þar sem fyrirtækið sem þær unnu hjá vildi ekki að karlar og konur borðuðu saman. Hún var því beðin að hafa þær í fæði sem hún og gerði. Það var líka mjög þröngt á heimilinu á þessum árum því að alls voru 26 manns inni á heimilinu. Hún tók kostgangara næstu ár en saga hennar verður ekki rakin lengra. Af framansögðu má sjá að þetta hefur verið erfið vinna sem öll var unnin með öðrum heimilisstörfum.
Sigríður Kristjánsdóttir og Guðmundur fluttust úr Eyjum í gosinu og býr hún nú í Kópavogi, en maður hennar, Guðmundur Kristjánsson, er látinn fyrir nokkrum árum (sjá minningargrein í Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja 1987).
Ille Guðnason fæddist í Hamborg í Þýskalandi 24. ágúst 1914. Hinn 13. desember árið 1936 fluttist hún til Íslands og þá til stuttrar dvalar. Þann 28. maí 1940 giftist hún Haraldi Guðnasyni, síðar bókaverði. Hann er fæddur 30. september 1911 í Stóru-Hildisey í Landeyjum. 7. nóvember fluttust þau hjón til Vestmannaeyja, ráðin til starfa hjá Einari Sigurðssyni, Ille í Matstofunni, en Haraldur í „Stöðina,“ lengst af sem flakari og í vinnu við byggingu Hraðfrystistöðvarinnar. Hann var líka bókavörður í bókasafni Einars Sigurðssonar nær áratug.
Ille vann aðeins stuttan tíma á matstofunni. Þar voru 30 - 50 fastagestir í mat og kaffi. Þar var rekið einskonar kaffihús og á sunnudögum var dansað.
Á þessum árum var hér setulið. Einar lagði bann við inngöngu hermanna. Alfreð Þórðarson Washington spilaði fyrir dansi á píanó vinsæl danslög þess tíma. Hann var mikill músikant. „Hann heitir Vosilos og spilar á 611 hljóðfæri“ sagði karl sem þekkti Vosa.
Á vertíð 1942 fór Ille að taka kostgangara heim til sín. Þau Haraldur bjuggu á fjórum stöðum í bænum þau ár sem þau tóku menn í fæði. Í Laufási, á Þingvöllum, í Dagsbrún og Brekastíg 20 (Hnjúk) sem þau keyptu 1953. Þrjú húsin fyrstnefndu þar sem þau leigðu fóru undir hraun. Kostgangarar voru ekki á Þingvöllum.
Fyrstu fjögur árin bjuggu þau í Laufáskjallaranum, í einu herbergi og eldhúsi. Ille sagði að þarna hafi verið sólríkt og þar var gott fólk. Þessi íbúð hafði verið aflögð en þau fengu þarna leigt vegna húsnæðisvandræða á þeim tíma, og eiginlega var bannað að flytja í bæinn. Til þess að sækja vatn þurfti að fara út og inn í kjallara Laufásfólks. Skólp var „borið út“ og aska úr eldavélinni.
Kamarinn var heldur ekki mjög nálægt húsinu.
Kýr voru í Laufási og stúlkan sem mjólkaði varð veik. Ille bauðst þá til að mjólka meðan svo stæði á, en því lauk svo að hún sinnti því í tvö ár. Kýrnar voru fjórar. Sú sem best mjólkaði var dálítið stríðin og þurfti alltaf að hefta hana á afturfótum. Ille fékk tvo potta af mjólk á dag fyrir að mjólka. Það kom sér vel því þá var mikill mjólkurskortur. Það var þó ekki nóg þegar hún fór að selja fæði. Mjólkurbúð var í Gimli við Kirkjuveg, en mjólkin var oft búin þegar komið var í búðina. Stundum fékk hún hálfpott á einum stað og einn pottur var sóttur hvert kvöld upp að Gerði. Lengi fengu þau eina mjólkurflösku frá Þorbirni á Kirkjubæ því þeir Haraldur voru pólitískir vinir. Þorbjörn flutti mjólk heim til fólks í hestvagni. Þá var alltaf slatti af krökkum í fylgd með honum.
Eftir fjögur ár að Laufási fluttust Ille og Haraldur að Þingvöllum og á þeim þrem árum sem þau bjuggu þar þá tóku þau einn og einn kostgangara. Þessi íbúð var 1 -2 herbergi og eldhús. Á neðstu hæð í húsinu var matvörubúð, á miðhæðinni voru skrifstofur og á þeirri efstu var íbúðin þeirra. Í staðinn fyrir að borga leigu sá Ille um að ræsta skrifstofurnar og sá um miðstöðina í húsinu. Þarna var rennandi vatn og eldhúsvaskur. Ille sagði að á sumrin hafði hún oft notað prímus til að elda á svo hún þyrfti ekki að vesenast við kolaeldavélina.
Síðan fluttust þau að Dagsbrún í önnur þrjú ár. Þar voru þrjú herbergi og eldhús og góð geymsla á sömu hæð en það var mjög mikilvægt að hafa geymslu. Það var rennandi vatn í eldhúsinu og í kjallaranum var klósett, en þar var mikið af rottum, svo að þetta var ekki mikill lúxus. Þarna fékk Ille sína fyrstu þvottavél sem var hálfsjálfvirk, til að vinda fötin varð að setja þau á milli tveggja rúlla og handsnúa þeim síðan. Það var ekkert niðurfall svo að allt vatnið var sett í fötu og fatan borin að vaskinum og hellt í hann til að koma vatninu út. Þetta var síðan endurtekið þar til þvottavélin var tóm. Þau eignuðust líka rafmagnseldavél árið 1950. Það var ómögulegt að baka í kolaeldavélinni sem var þar svo að þau urðu að fá sér nýja.
Á þeim tíma sem Ille hafði kostgangara hafði hún 5 - 6 menn í einu og þá af sama bát. Í Laufási hafði hún skipverja af mb. Glað. Í Dagsbrún skipverja af Ófeigi elsta og þeir fylgdu þeim er þau fluttust á Brekastíg. Þessir kostgangarar komu víða að af landinu. Einn þeirra mátti kallast þjóðkunnur, Kjartan Guðjónsson undan Eyjafjöllum. Árið 1940 var Kjartan vélstjóri á mb. Kristjáni frá Sandgerði. Þeir fóru í róður 19. febrúar, velktust í hafi í 12 sólarhringa með bilaða vél, matarlausir eftir fyrsta dag. Reyndu að éta fisk og hrogn, en svo var fiskurinn í lestinni óætur. Vatnslausir eftir þrjá sólarhringa og báturinn rafmagnslaus. Vatnsleysið var verst. Kjartani, sem kunni sitthvað fyrir sér, datt í hug að búa til bruggtæki og eima sjó. Þetta tókst og þeir fengu 3-4 flöskur á sólarhring. Loks þegar hann kom á vestan var siglt af stað til lands og nauðlent við Merkines í Höfnum.
Þá var hjá Ille í fæði ungur maður, sem síðar varð mikill aflaskipstjóri í Grindavík, Einar sonur Símonar á Eyri, „prýðispiltur eins og þeir voru allir þessir kostgangarar mínir“ sagði Ille
Maturinn á þessum árum var ekki mjög fjölbreyttur. Matseðillinn hjá Ille var keimlíkur matseðli Sigríðar. Fiskur var oft soðinn eða steiktur. Hún hafði oft einhvers konar súpu eða graut með. Það var líka oft steikt kjöt, búðingur o.s.frv. llle verslaði á Þingvöllum, Kaupfélaginu eða Brynjúlfsbúð.
Ille sagðist alltaf og endalaust hafa verið að baka. T.d. jólakökur, smákökur, brauð, tertur, flatkökur. Ille notaði smjörlíki í bakstur og til að steikja en á brauð notaði hún yfirleitt smjör.
Fyrir utan brauðið og sætar kökur var áleggið oftast gert heima. llle gerði slátur og rúllupylsu sjálf. Fyrir utan það að sjá um allan matinn þurfti hún líka að sjá um nestið. Hún sagði að oft hefði verið búið að útbita allt nestið, en þá breyttist veðrið skyndilega og allir voru í landi. Þá þufti að fjarlægja allt nestið úr bitakössunum og svo síðar finna til nýtt. Þegar Ille var með skipshöfnina af Ófeigi var búinn til bitakassi fyrir þrjá menn. Ille á þann kassa enn.
Stundum komu mennirnir ekki heim þegar búist var við þeim. Kannski hafði veðrið versnað og það tók lengri tíma að ná landi, eða þurfti að leita að skipi sem var saknað. Þá vakti Ille fram á nótt til að mennirnir fengju eitthvað að borða þegar þeir loksins komu heim þreyttir og slæptir.
Beitningarmennirnir voru oft á svo mikilli hraðferð að þeir gáfu sér varla tíma til að setjast niður og borða. Þeir voru stanslaust uppteknir og á þönum. Línan, sem hafði komið inn á með bátnum, var tekin upp og færð upp í skúr og svo var allt gert klárt fyrir næsta dag. Svo í kvöldmatnum þustu þeir inn, gleyptu í sig matinn og hlupu síðan af stað í beituskúrinn.
Á fyrstu árum 20. aldarinnar voru Vestmannaeyjar gullnáma Íslands þar sem mikil og góð fiskimið eru hér í kringum Eyjar. Við uppbyggingu vélbátaútvegsins hópaðist hingað fólk frá öllum landshlutum til að vinna fyrir sér og sínum. Hverja vertíð flykktist hingað margt fólk úr flestum landshlutum. Þá yfirfylltust öll heimili sem buðu upp á húsnæði fyrir þessa menn. Þeir þurftu að finna sér stað til að borða á og til að sjá um þvott og viðgerð á fötum sínum. Þetta gaf Sigríði tækifæri, eftir að fyrri maður hennar dó, að vera sjalfstæð og ein útaf fyrir sig, eða fyrir aðrar eins og Ille að vinna með manni sínum við að framfleyta fjölskyldunni og seinna að kaupa sér sitt eigið húsnæði.
Þetta tímabil var erfitt en spennandi, að vinna með mörgu fólki myrkranna á milli til að komast áfram í lífsbaráttunni. Þessar konur sáu um merkilegan hluta sögu okkar og eiga þar með stóran þátt í að skapa það þjóðfélag sem við búum við í dag.