Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1994/Gakktu til skips

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Séra Bjarni Karlsson:

,,Gakktu til skips og skinnklæddu þig í Jesú nafni!"

Með þessum og viðlíka orðum kölluðu formenn til skips á öldinni sem leið. Og þegar skipið var sett fram bað formaður og háseta ,,að standa að í Jesú nafni“. Alkunna er einnig að sjóferðarbæn var tíðkuð á hverju íslensku fleyi allt fram til þess er vélar komu í bátana, svo sem lesa má í riti Sigfúsar M. Johnsen um sögu Vestmannaeyja (fyrra bindi, bls. 187). Stundum er sagt að bænamálið hafi týnst í vélargnýinn og má kannski segja að svo sé.
En hvað er bæn? Hvers virði mun hún hafa verið, sjóferðarbænin, þeim sem hana iðkuðu?
Bæn er einkum tvennt. Hún er samfélag við Guð og hún er líka samfélag við menn. Sennilega er það nú svo að þótt ómurinn af hinni sameiginlegu sjóferðarbæn hafi drukknað í drunum öflugra véla, þá stígur vísast enn hið þögla bænamál upp frá hverjum íslenskum bát og skipi. Bænamálið er ekki týnt, en samt höfum við farið með það í felur af einhverjum ástæðum.
Hefur þú tekið eftir því hve ríka áherslu við leggjum á það að vera sjálfum okkur nóg, um tæki og tól, til hvers sem gera þarf? Jafnvel þótt maðurinn í næsta húsi eigi ágæta sláttuvél, þá kemur þér ekki til hugar að bjóða honum afnot af bílskúrnum þínum til að þrífa bílinn sinn gegn afnotum af sláttuvélinni hans. Nei, þess í stað aurar þú saman fyrir nýrri sláttuvél á meðan hann reynir að sigta á uppstytturnar til að bóna bílinn sinn. Tækin gera okkur kleift að skulda engum neitt (nema bönkunum að sjálfsögðu), vera sjálfstæð gagnvart sem flestum og ekki upp á neinn komin.
Hér áður, þegar tækniæðið hafði ekki runnið á okkur enn, urðu menn að standa saman um ákveðna þætti. Bátum var ýtt úr vör með samstilltu átaki og róið í takt. Húsmæður höfðu með sér vöruskipti á mjólk, eggjum og öðrum nauðþurftum. Húsbyggingar, jarðarbætur, heyskapur - í stuttu máli öll lífsafkoma fólks - valt á góðri samstöðu og skipulagðri samvinnu í ríkari mæli en nú gerist almennt þörf.
Sambæn er eðlileg þeim sem hvort eð er eru samherjar í lífsglímunni. Samstillt bæn skerpir vitundina um að við erum háð hvert öðru og öll í sameiningu háð honum sem hefur skapað okkur. Og hér held ég að segja megi að við höfum látið glepjast af leið.
Í hugum svo margra okkar er bænin bara samtal við Guð, en ekki samfélag við menn. Við höfum viljað trúa því að við séum ekki háð samferðarmönnum okkar. Við höfum keypt okkur tæki og tól til að sannfæra okkur um sjálfstæði okkar. Frystikistan, fjarstýrði bílskúrshurðaropnarinn, sláttuvélin, verkfærasettið, þrýstihurðaopnarinn, allt undirstrikar þetta að við getum sko bjargað okkur án afskipta annarra, erum ekki upp á neinn komin. Og um leið gerist það að við getum ómögulega litið á bænalífið sem nauðsynlegt samfélag við menn. Ég á bara mínar bænir sjálfur og frysti minn fisk líka sjálfur. Og það kemur engum við hverju ég trúi og hvernig mér líður, ekki frekar en nágrannanum kemur við hvað ég geymi í minni persónulegu frystikistu.
En þegar við tileinkum okkur þetta einstrengingslega viðhorf til bænar og trúariðkana, þá er býsna hætt við að trúin í hjartanu taki að líkjast brauðunum í frystinum. Frosið brauð er ekki til reiðu. Þú getur ekki gripið til þess. Og þannig fer fyrir svo mörgum sem ekki ræktar trúarsamfélagið við Guð og menn, að þegar á reynir er trúin ekki til reiðu og bænin liggur frosin í hjartanu.

Bænin má aldrei bresta þig.
Búin er freisting ýmislig.
Þá líf og sál er
lúð og þjáð lykill er hún að
drottins náð.

Það eflir mann til bæna að hugleiða það hve miklu máli samferðarmennirnir í raun skipta mann. Skipshöfnin er dæmi um hóp manna sem undir öllum kringumstæðum verða að standa saman og vera samhuga í hverju verki. Á sjó getur enginn sagt „ég bara vinn hérna!“ Vegna þess að þú ert þarna líka og skipsfélaginn sömuleiðis og þú veist ekki hvenær að því kemur að líf þitt eða einhvers hinna kann að velta á þeirri samstöðu og kærleika sem með ykkur ríkir. Því hvet ég þig, ágæti sjómaður, að þú gerir það að venju þinni að biðja fyrir skipsfélögum þínum, hafi það ekki þegar verið vani þinn. Og þá kann svo að fara, ef margir eiga bænamálið í hjarta sínu, að sjóferðarbænin verði endurvakin á meðal áhafnarinnar allrar. Og um leið sú blessunarríka samstaða sem af sambæninni sprettur og dafnar. Trúi ég að fátt, ef nokkuð, yrði heilladrýgra einni áhöfn.
Bjarni Karlsson

Sjómannadagsblað Vestmannaeyja