Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1993/Vélstjórabraut FMV 1992-1993
Haustönn FMV hófst 2. september. Á vélstjórnarbraut hófu nám sem hér segir: Á 1. stigi sjö nemendur en á 2. stigi mættu aftur til leiks sex nemendur frá námsárinu á undan. 1. stig vélstjórnarbrautar eða vélavarðarnám, eins og það er kallað líka, veitir réttindi til vélstjórnar 220 kw aðalvélar í skipi og sem vélarvörður með yfirvélstjóra á skipum allt að 750 kw aðalvél.
Vélavarðarnámið tekur eina önn og luku fimm af sjö nemendum því þessa önnina, að undanskildu slysavarnanámskeiði sjómanna sem þeir tóku fyrstu vikuna eftir áramót.
Þeir sem luku vélavarðanámi voru: Arnar Andersen, Guðjón E. Sveinsson, Hjörleifur Þórðarsson, Valdimar H. Pétursson og Viktor Reynisson.
Á 2. stigi hófu nám eins og fyrr segir sex nemendur frá vetrinum á undan. Þessir nemendur eru ekki allir jafnlangt komnir með 2. stigið enda býður áfangakerfið upp á að menn fari á þeim hraða í gegnum skólann sem hentar hverjum og einum.
2. stigið veitir réttindi til að stjórna aðalvél í skipi sem er allt að 750 kw en til að geta verið yfirvélstjóri þarf að öðlast reynslutíma.
Nemendur á 2. stigi haustannar voru: Hjálmar Helgason, Jens Jóhann Bogason, Magnús Ingi Eggertsson, Stefán Jónsson, Hjalti Jóhannesson og Agnar Ingi Hjálmarsson.
Farið var í heimsókn í Eyjaís og Fiskiðjuna til að skoða kælitæki og vélbúnað tengdum þeim.
VORÖNNIN
Vorönnin hófst 7. janúar. Það hefur á síðustu árum yfirleitt ekki náðst þátttaka í 1. stigið eftir áramót. En framhald var á 2. stigi og bættust nú við tveir úr vélaverðinum frá haustönn, þeir Hjörleifur Þórðarsson og Guðjón E. Sveinsson. Einnig kom einn nemandi frá Ísafirði sem ekki hafði verið hér áður, Jóhann Þorvaldsson, og annar sem ekki hafði verið á haustönn kom nú inn til að ljúka því en það var Unnar Víðisson. Nemendafjöldinn var þannig níu í upphafi annar.
Í annari viku vorannar fóru á slysavarnaskóla sjómanna þeir er höfðu verið á 1. stigi um haustið. Seinna námskeið slysavarnaskólans var hér vikunni á eftir og áttu þeir vélstjórnarnemendur, sem ekki höfðu setið fyrra námskeið, tök á að sækja það hér.
Slysavarnarskólinn er haldinn með Stýrimannaskólanum og hefur hann fengið aðstöðu í Básum til afnota fyrir starfsemina. Þessar vikur ollu skiljanlega röskun á venjulegri kennslu en eru engu að síður nauðsynlegur þáttur í námi vélstjóra.
NÁMSKEIÐ í HERMINUM Á AKUREYRI
Annarstarfið hefur verið hefðbundið að öllu leyti nema því að í starfsvikunni fór fimm manna hópur nemenda sem lengst eru komnir ásamt kennara á fjögurra daga námskeið í vélarrúmsherminn í Verkmenntaskólanum á Akureyri. Ekki er nokkur vafi á því að nemendur hafa mjög gott af þessu námskeiði. Þarna eru öll hugsanleg kerfi tengd herminum og strákarnir látnir leita uppi bilanir í kerfunum. Einnig er þarna fullkomin rafmagnsstafla með samfösunarbúnaði og fá þeir æfingu í samfösun á henni.
Einnig var farið um borð í nýja Herjólf í verkfallinu og vélbúnaður allur skoðaður og þá sérstaklega hinar fullkomnu skilvindur sem þar eru og eru þær fyrstu sinnar tegundar hér á landi.
Ekki er hægt annað en að öfundast út í þá aðstöðu sem vélstjórnarbrautin býr við á Akureyri, miðað við þær aðstæður sem við búum við hér í Eyjum. En með tilkomu nýs verkmenntahúss hér sem halda á áfram með nú í sumar verður vonandi vel hlúð að allri verkmenntun hér í Eyjum.