Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1993/Skólaslit Stýrimannaskólans 1992
Skólaslit árið 1992 voru haldin í Básum hinn 16. maí. Úr 1. stigi útskrifuðust 13 nemendur. Hæstu einkunn hlaut Guðmundur Jón Valgeirsson, 9,37, annar varð Jarl Sigurgeirsson með meðaleinkunn 9,31 og þriðji Hörður Sævaldsson 8,88. Allir frá Vestmannaeyjum.
Úr 2. stigi luku 15 nemendur prófum. Hæstur varð Martin H. Avery, Ástralíumaður, búsettur hér í Eyjum, meðaleinkunn 9,26. Martin stundar nú nám í 3. stigi Stýrimannaskólans í Reykjavík.
Annar Guðmundur P. Tómasson 9,25. Guðmundur er héðan úr Eyjum. Þriðji Ágúst Ó. Ómarsson Skagaströnd með 9,21.
Á þessu skólaári er skólinn kominn aftur á gamla staðinn sinn að Vesturvegi 38. Allir sem hlut eiga að máli eru ánægðir með það. Þar er rýmra og að mörgu leyti þægilegra. Okkur leið vel í tíu ár í húsnæði Framhaldsskólans og vorum þar í návist góðs fólks sem þar starfar.
Á þessu ári eignaðist skólinn fiskveiði- og siglingahermi, frábært tæki, sem hefur reynst vel á þessu fyrsta skólaári. Þar eru saman komin öll nýjustu siglinga- og fiskveiðitækin. Þetta er eins og stjórnpallur í nýtísku fiskiskipi. Tölva stjórnar þessu öllu eins og um raunveruleg störf úti á sjó væri að ræða. Alþingi veitti 6 milljónir króna til þessara tækjakaupa og Landssamband Íslenskra Útvegsmanna gaf 1 milljón króna til að ljúka dæminu.
Þórður Rafn Sigurðsson útgerðarmaður og formaður skólanefndar gaf skólanum skjárita (plotter) sem er hægt að tengja inn á radar. Þar kemur radarmyndin fram hverju sinni. Þetta tæki munum við tengja við herminn. Einnig gaf Þórður Rafn fisksjá. Það var R. G. Swainson frá fyrirtækinu Swimulation í Hull í Englandi sem hannaði herminn og setti hann upp.
Bræðurnir Guðmundur og Sigurður Lýðssynir í Reykjavík gáfu skólanum nýlega alla árganga Sjómannablaðsins Víkings frá upphafi 1939, einnig Sjómanninn, sem var forveri Víkingsins, og gömul eintök af Sjómannadagsblaði Reykjavíkur. Faðir þeirra, Lýður Guðmundsson sem var lengi loftskeytamaður á strandferðaskipunum, átti þetta safn. Guðmundur er vélstjóri og Sigurður rafeindavirki hjá Hafrannsóknarstofnun.
Núna hvílir skuggi á hversu fáir nemendur eru í 1. stigi, eða aðeins fimm. Helstu ástæður teljum við vera eftirfarandi: Fjöldi nemenda í skipstjórnarnámi undanfarin ár, skipstjórnarnám víða á landinu að undanförnu og almennur samdráttur í þjóðfélaginu. Fleira mætti nefna. Vonandi þróast mál til betri vegar sem fyrst.
Á sjómannadegi óska ég sjómönnum og fjölskyldum þeirra til hamingju með daginn og óska þeim gæfu og blessunar alla daga bæði á sjó og landi.