Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1993/Síðasta sjókonan
Þessi yfirskrift var á grein eftir Þórð Gíslason sem ég las í Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja frá 1986 þar sem hann segir frá því að Katrín Unadóttir hafi róið til fiskjar á áraskipi frá Eyjafjallasandi um aldamótin.
Þá er í Sjómannadagsblaðinu frá 1987 grein eftir Harald Guðnason þar sem hann segir frá því að Ísey Skaftadóttir hafi róið til fiskjar úr Reynishverfi 1928. Í sömu grein er í heimild frá Einari Einarssyni á Skammadalshóli um að Ísey og önnur kona, Þórunn Magnúsdóttir, hafi róið nokkra róðra úr Reynishverfi þessa vertíð.
Nú er það síður en svo að ég sé að kasta rýrð á þessar konur því það var mjög óvanalegt að konur reru á áraskipum enda ekki á færi nema mestu dugnaðarforka. En þetta rifjaði upp fyrir mér gamlar minningar.
Foreldrar mínir bjuggu á Fornusöndum undir Eyjafjöllum á fyrstu búskaparárum sínum. Faðir minn, Guðjón Einarsson, var formaður á áraskipi sem hann átti ásamt öðrum. Því var róið út frá Eyjafjallasandi á vertíðum þegar gaf á sjó, ásamt, að ég held, þremur öðrum skipum. Við krakkarnir vorum ólöt við að fara í sandinn þegar eitthvað var verið við sjó.
Jón Eyjólfsson í Moldnúp var formaður á einu skipinu. Einu sinni var ég í sandi þegar þeir komu úr róðri. Þegar Jón í Moldnúp var lentur kom Anna dóttir hans neðan frá skipi, labbandi með skinnklæðin sín undir hendinni og fór uppá kamb. Mig minnti að hún hafi róið til fiskjar með föður sínum. Svo ég fór að leita að heimildum og fékk það upp að Anna hefði skrifað ævisögu föður síns, „Gengin spor“. Ég gat náð í bókina. Þar kemur fram að hún reri hjá honum í þrjár vertíðir og hefur ábyggilega ekki látið sitt eftir liggja.
Jón í Moldnúp hætti að vera með bát 1930 - 1931 og það hefur verið veturna þar á undan sem Anna reri hjá honum. Svo það er ekki ósennilegt að hún hafi verið síðasta sjókonan í Rangárvallasýslu, þó ég hafi nú ekki sannanir fyrir því.
Nú var ég ekki svo nákunnug Önnu að ég geti gefið neina tæmandi mynd af henni. Við fluttumst út í Landeyjar vorið 1931. Það var svo alvanalegt að Fjallamenn gistu hjá okkur. Því þá voru samgöngur með allt öðrum hætti en síðar varð.
Anna í Moldnúp var á Laugarvatni veturinn 1931 - 1932 og svo í Reykjavík í nokkra vetur þar á eftir til að afla sér meiri menntunar. Það var vanalegt að hún gisti hér í Berjanesi þegar hún var að fara á milli, sérstaklega um hátíðar. Hún var sérstæður persónuleiki. Svo að hún er eiginlega ógleymanleg. Hún var vel gefin, dugleg og framúrskarandi kjarkmikil að koma sér áfram. En efnahagurinn hefur oft sniðið henni of þröngan stakk. Faðir hennar missti konuna á besta aldri frá þremur börnum, en bjó áfram með hjálp systur sinnar, móður og svo barna sinna. Anna gerði það sem hún gat að hjálpa honum. Og eftir að hún fór að leita sér menntunar vann hún alltaf á sumrin heima. Náttúrlega án þess að ætlast til launa. Svo þetta voru allt að því óyfirstíganlegir erfiðleikar. En mikillar þekkingar hefur hún samt aflað sér.
Seinna þegar hún var farin að stunda vinnu lét hún eftir sér að ferðast og sjá sig um, bæði innanlands, til Ameríku og Evrópulanda, og hefur notið þess í ríkum mæli.
Ég las bók sem hún skrifaði um eitthvað af þessum ferðum sínum. Hún heitir „Fjósakona fer út í heim“. Þá fannst mér eins og hún Anna í Moldnúp væri lifandi komin. Orðalagið var bara hennar. Svo hef ég ekki fleiri orð um þetta.
Pálína Guðjónsdóttir
Berjanesi