Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1993/Hærra minn Guð til þín
Þegar ég var að safna að mér efni og upplýsingum um Skipasögu Jóns í Bólstaðarhlíð rakst ég á langt og skemmtilegt viðtal við Jón sem Halldóra G. Sigurðardóttir tók og birtist í Fiskifréttum hinn 3. júní 1988. Í Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja 1992, þegar hálf öld var liðin frá hinum miklu sjóslysum sem urðu í Vestmannaeyjum hinn 1. mars 1942, rakti ég sögu slysanna og minntist þeirra sem fórust. Í þessu viðtali Halldóru skráir hún eftir Jóni merkan fyrirburð sem ég hefi ekki heyrt um áður. Mér finnst frásögnin hvergi betur geymd en í Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja og tek mér það bessaleyfi að senda hana. G.Á.E.
„1. mars árið 1942 var mikill sorgardagur í Vestmannaeyjum en þann dag fórust fjórir bátar: Þuríður formaður VE-233, Ófeigur VE-217, Bliki VE-143 og Aldan VE-25. Mannbjörg varð hjá tveimur síðast töldu bátunum. Bátarnir voru á línu þessa vertíð og þennan morgun sem aðra byrjuðu beitningarmennirnir á Þuríði formanni að beita kl. fimm. Umræddan dag voru þeir búnir snemma að beita, veður var vont og leiðinlegt í sjóinn. Þegar þeir höfðu lokið störfum sínum heyrðu þeir skyndilega að sungið var: „Hærra minn Guð til þín.“ — Þetta heyrðu þeir skýrt og greinilega en söngur þessi barst þeim til eyrna á sama tíma og talið er að Þuríður formaður hafi farist. Ekki töldu menn að söngurinn bærist frá áhöfninni heldur einhverju öðru sem ekki væri hægt að skýra. Áhöfnin taldi fimm menn, en síðar þennan dag fórst Ófeigur einnig með allri áhöfn — fjórum mönnum.“