Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1992/Vélskólinn

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Vélskólinn


Veturinn 1991-1992


Kristján Jóhannesson

Gangsetning
Skólastarfið hófst með kennarafundi 29. ágúst, en daginn eftir fór fram skólasetning Framhaldsskólans. Kennsla hófst svo mánudaginn 2. september. Skólinn hefur ekki áður byrjað svona snemma, en tilgangurinn er sagður vera sá að geta lokið haustönninni fyrr. Kennsluvikur haustannarinnar eru eins og verið hefur 13 vikur og síðan bætist próftími við sem venjulega er u.þ.b. hálfur mánuður. Haustönnin er frábrugðin vorönninni að því leyti að minni frí eru meðan á henni stendur og setur það töluvert mark á skólastarfið.

Nemendur á haustönn
Á haustönn stunduðu 6 nemendur nám á 1. stigi sem veitir réttindi til vélstjórnar 220 kw aðalvélar í skipi og sem vélavörður ásamt yfirvélstjóra á skipum með allt að 750 kw aðalvél. 1. stigið (vélavarðarnámið) tekur eina önn með eðlilegum námshraða. Nemendur 1. stigs voru þessir: Borgþór Ágústsson, Guðmundur Óli Sveinsson, Jens Jóhann Bogason, Jón Berg Sigurðsson, Óskar Eggertsson og Sigurður Ó. Kristjánsson.
Annað stigið veitir réttindi til stjórnunar aðalvélar í skipi sem er allt að 750 kw, en til þess að vera yfirvélstjóri þarf áður að hafa lokið reynslutíma. Nemendur geta skráð sig beint inn í annað stigið sem tekur þá fjórar annir með eðlilegum námshraða, án þess að skrá sig í fyrsta stig. Á haustönn voru þessir 8 nemendur í 2. stigi: Guðfinnur A. Kristmannsson, Gylfi Anton Gylfason, Hjálmar Kristinn Helgason, Ívar Ísak Guðjónsson, Magnús Ingi Eggertsson, Unnar Víðir Víðisson, Vilhjálmur Bergsteinsson og Zóphónías Pálsson. Guðfinnur og Gylfi Anton luku prófum annars stigs á haustönn. Í áfangakerfinu sem margir skólar nota í dag geta nemendur verið mjög mislangt komnir í námi þó þeir hefji námið á sama tíma, þ.e. námstími fer mikið eftir námsgetu.

Nemendur Haustannar ásamt vélfræðikennurum.

Nemendur á vorönn
Vorönn hófst með afhendingu stundataflna þriðjudaginn 7. janúar og kennsla hófst daginn eftir. Það telst til tíðinda að 1. stigið var starfrækt á vorönn en það hefur ekki verið fyrr. Nemendur á fyrsta stigi voru þessir: Gunnar Oddsteinsson, Hjalti Jóhannesson, Óskar Eggertsson, Stefán Jónsson og Freyr Atlason. Óskar skipti námsefni fyrsta stigsins í tvennt, en það getur verið heppilegt fyrir þá sem hafa gert hlé á skólagöngu sinni. Einnig hélt Guðmundur Óli Sveinsson áfram námi í rafmagnsfræði. Í öðru stigi voru: Agnar Ingi Hjálmarsson, Borgþór Ágústsson, Hjálmar Kristinn Helgason, Ívar Ísak Guðjónsson, Magnús Ingi Eggertsson, Unnar Víðir Víðisson, Vilhjálmur Bergsteinsson og Zóphónías Pálsson.
Ekki liggur fyrir hversu magir ljúka prófum í vor eða hver fær vélstjóraúrið vegna þess að úrslit prófa eru ekki kunn þegar þetta er skrifað, en skólaslit eiga að vera 16. maí.

Kennarar
Í vetur hafa þessir kennt nemendum á vélstjórnarbraut: Kristján Jóhannesson vélfræði, vélgæslu, vélfræðireikning, rafmagnsfræði, kælitækni, stýritækni og verklega vélstjórn. Karl G. Marteinsson smíðar, efnisfræði, logsuðu, rafsuðu, verklega vélstjórn. Einar Friðþjófsson byrjaði að kenna við FÍV í haust og hefur kennt ensku, íslensku og dönsku. Ólafur Týr Guðjónsson hefur kennt stærðfræði, Helga Kristín Kolbeins efnafræði og Ólafur G. Lárusson hefur kennt grunnteikningu og skyndihjálp. Skólastjóri slysavarnaskólans er Hilmar Snorrason og kennarar þar eru Höskuldur Einarsson og Halldór Almarsson. Prófdómari í verklegri vélfræði og smíðum hefur í vetur verið Guðmundur Alfreðsson vélfræðingur.

Dagbókin
Í haust mættu gömlu kennarajaxlarnir Kalli og Kristján aftur eftir að hafa verið í endurnýjun á síðasta ári. Í endaðan október var farið á Bæjarveiturnar (Rafveituna) þar sem Ólafur Guðnason útskýrði notkun varaaflsins og setti eina vél í gang (Fríðu). 31. október var vélskólanemum svo boðið að hlusta á ferðasögu Bergþórs skútustjóra á Nakka. Hann hafði lent í hinum ótrúlegustu hremmingum á leið sinni frá Mið-Ameríku til Íslands og kann vel að segja frá. Eina ferð fórum við um borð í aflaskipið Breka þar sem Sigurður Vignisson yfirvélstjóri fræddi okkur um vélarúm skipsins. Hjálmar Guðmundsson stjórnarmaður í Vélstjórafélagi Vestmannaeyja kom fyrir hönd félagsins og kynnti starfsemi þess og var sá fundur fróðlegur og er nauðsynlegur þáttur í að viðhalda tenglsum skólans og félagsins. Eftir þann fund var safnað undirskriftum allra nemenda vélskólans undir áskorun til bæjar- og skólayfirvalda um að halda áfram með byggingu verknámshússins sem byrjað var á 1988. Var undirskriftalistinn svo afhentur Guðjóni Hjörleifsssyni bæjarstjóra að viðstöddum öllum nemendum á vélstjórnarbraut. Haustönn var svo slitið 14. desember.
Vorönn hófst með afhendingu stundataflna þriðjudaginn 7. janúar og byrjaði kennsla daginn eftir. Slysavarnaskóli sjómanna kom hingað til Eyja og hélt námskeið 13. til 17. janúar og voru vélskólanemar að sjálfsögðu þar. Svokölluð opin vika var 2. til 6. mars og var þá haldið áfram með þá nýjung sem tekin var upp í fyrra að nemendur í fyrsta stigi fóru á sjó með fiskibátum til nokkurskonar starfskynningar. Vill skólinn þakka þeim aðilum sem tóku að sér að leiðbeina nemendunum.
Þann 18. mars var farið í leiðangur og ísframleiðslan hjá Eyjaís skoðuð undir leiðsögn Guðmundar Jóhannssonar og [Theodór Ólafsson|Theodórs Ólafssonar]]. Rétt fyrir páskafrí, sem var frá 13. til 23. apríl, hafði Valgeir Jónasson samband við mig og sagðist vilja gefa vélskólanum vél úr báti sínum. Bátinn hafði henn gefið til tilrauna er stuðla eiga að því að menn geti bjargað bátnum frá því að sökkva, komi gat á hann. Þáði ég vélina með þökkum og hentar hún vel til vélfræðikennslu í 30 tonna skipstjórnarnámi. Í tengslum við rafmagnsfræðikennsluna var farið um borð í Kristbjörgina og samfösun ljósavéla æfð við góðar aðstæður, en skólann sárvantar tæki til slíkra æfinga.
Ég vil að lokum lýsa yfir ánægju minni með þá þróun sem hefur orðið í fjölgun nemenda á vélstjórnarbraut síðustu ár og vona að sú þróun haldi áfram því þessi menntun er mjög góð.

Með bestu kveðjum til sjómanna.

Kristján Jóhannesson, vélfræðingur.

Eitt af nýstirnunum í viðskiptalífi Hull, Íslendingurinn Pétur Björnsson, í uppáhaldsstellingu sinni við skrifborðið..