Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1992/Tveir öfgar, eitt ljós
>
Hér skrifar maður sem aldrei hefur komið á sjó. Bara einusinni tekið sér far með skipi til meginlands Evrópu og nokkrum sinnum siglt í blíðviðri milli lands og Eyja. En þó held ég að ég fari nærri, þegar ég segi það, að eitt af því sem hvað mest einkennir starf sjómannastéttarinnar eru tveir öfgar:
- Mikil einangrun frá fólki.
- og mikil nálægð við fólk.
Sjómaðurinn upplifir löng tímabil á ári hverju, þar sem hann er langtímum saman einangraður frá ástvinum vegna vinnu sinnar, en á sama tíma lifir hann í mjög þröngu návígi við fáa menn, á skipinu eða bátnum, og verður að láta sér lynda það hvernig sem tautar og raular. Hér hlýtur að reyna verulega á sálarþrek margra sjómanna.
Fyrst vil ég tala um samskipti við ástvini. Við vitum það nefnilega ofur vel, að þegar upp verður staðið og við horfum yfir líf okkar til að meta gildi þess, þá mun stóra spurningin vera þessi: Hvernig vegnaði mér með þeim sem voru mér kærastir? Hvernig komum við fram hvert við annað? Hvaða innihald höfðu samskipti okkar; voru þau ekta eða voru þau yfirborðsleg? Hamingjan í lífinu er aldrei bara „mín hamingja“, hún hlýtur alltaf að vera “hamingja með öðrum“, hvort sem það eru maki og börn eða önnur skyldmenni og vinir. Þess vegna sýnist mér að það steðji sérstakur vandi að sjómannastéttinni í hennar hamingjuleit, ef ég má orða það svo. Sjómaðurinn, og það fólk sem leitar hamingju með honum, verður að taka sérstakt mið af aðstæðum sínum, gefa sér tíma til að hugleiða möguleikana í stöðunni og nýta vel þau tækifæri til samveru með ástvinum, sem gefast. Í þessu er það ekki magnið heldur gæðin sem mestu skipta. Gallinn er bara sá að mjög margar fjölskyldur vita ekki hvað á að gera skemmtilegt saman, loksins þegar þær koma saman. Þetta verður bara að segjast eins og það er. Það kostar mikla fyrirhöfn að skapa sér hefðir og venjur. Það tekur tíma og krefst ímyndunarafls að finna sameiginlegar leiðir í frítímanum. Hvernig væri að setjast niður með fólkinu sínu og láta hvern og einn skrifa á blað þau tíu atriði, sem honum finnst skemmtilegast að gera? Ég trúi að það yrði fróðlegt að bera saman listana, og út úr því væri svo hægt að sjá, hvar leiðirnar liggja saman og hvar ekki. Þannig mætti fækka innihaldslausum þaulsetum fyrir framan skjáinn en fjölga þeim stundum þar sem fjölskyldan nýtur þess að vera það sem hún er.
Varðandi „hinn öfgann“, návígið við skipshöfnina, hef ég minni reynslu, eins og ég gaf í skyn hér að ofan. En það hlýtur að vera undarlegt að leggja frá landi í viku túr eða meira, og vita að með þessum mönnum verð ég að lifa dagana, hvernig sem okkur kemur saman. Nú er það sem betur fer svo, að víðast er allt í stakasta lagi, menn eru samtaka og samábyrgir og allt gengur upp. Enda leggja allir sig fram um að halda öllu góðu. En þegar vandi steðjar að í samskiptum áhafnar, þá hlýtur oft að skapast óbærileg spenna um borð. Þá er til eitt óbrigðult ráð: Bænin. Bænin er okkur gefin sem leið að ljósi Guðs. Með bæn er eins og maður opni glugga og hleypi fersku lofti inn, þegar aðstæður eru kæfandi. Og þetta gildir ekki síður á heimilinu. Við það að maður nefnir, í bæn til Guðs, nafn þess sem sýnt hefur manni ójöfnuð, og biður Guð að umvefja hann kærleika sínum, þá opnast nýir möguleikar. Næst þegar maður hittir viðkomandi sér maður hann sjálfur í nýju ljósi. Kanski verður breytingin fyrst hjá manni sjálfum; sú, að maður leggur frá sér vopnin og semur frið án skilyrða. Kanski er eitthvað allt annað sem gerist. En hvað um það, spennan hverfur, vegna þess að maður hefur afhjúpað spennuna innra með sjálfum sér og afhent Guði vandann.
„Ef vér göngum í ljósinu, eins og hann (Guð) er sjálfur í ljósinu, þá höfum vér samfélag hver við annan og blóð Jesú hreinsar oss af allri synd.“ (1 Pét. l:7)
Guð gefi sjómönnum og öllum bæjarbúum hið sanna Ijós í samskipt-um sínum.