Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1992/Frá ritsjóra
Þetta er í 42. sinn sem Sjómannadagsblað Vestmannaeyja lítur dagsins ljós og ekki mörg þeirrar tegundar sem státað geta af jafn háum lífaldri. Fyrstu blöðin voru ekki mikil að vöxtum en síðan hefur útgáfan vaxið jafnt og þétt og í dag er vart hægt að tala um blað lengur, nær væri að tala um bók.
Nú hefur ekki hingað til verið venja að ritstjórar Sjómannadagsblaðs Vestmannaeyja taki upp á að birta greinar eða fabúlur utan þess sem þeir sjálfir skrifa af efni í blaðið, tengt sjómennsku. Hér verður þó gerð breyting á og afkvæminu fylgt úr hlaði nokkrum orðum.
Svo sem fyrr er greint er útgáfa blaðsins komin nokkuð til ára sinna og verulegar breytingar hafa orðið á efni þess og útgáfu frá því fyrsta blaðið leit dagsins ljós. Nú er umfang blaðsins orðið slíkt að ritstjóri hvers árs þarf að byrja að líta kringum sig eftir efni strax daginn eftir útkomu blaðins. Hið sama má segja um þá er starfa við auglýsingaöflun í blaðið; þeirra starf nemur ei staðar.
Margir hafa lagt hönd á plóg við útgáfu þessa blaðs frá því er það fyrst leit dagsins ljós og ritstjórar margir.
Sennilega er það styrkur Sjómannadagsblaðs Vestmannaeyja að menn hafa ekki orðið steinrunnir í ritstjórn; skipt hefur verið um slíka þegar sýnt hefur verið að blaðið tæki að hneigjast um of í ákveðna átt. Þetta er svipað og með þingmenn og aðra þá er ábyrgðarstörfum gegna; það er hollt að velja sér nýtt fólk á nokkurra ára fresti.
Sá sem þetta ritar hefur í allt stjórnað þessu riti í fimm skipti; þar af þrjú síðastliðin ár. Hann hefur haft af því nokkra ánægju og auk þess andvökunætur; svo sem eitt árið þegar ekki var einsýnt um að næðist að ljúka prentun blaðsins fyrir sjómannadag. Slíkt hefði að sjálfsögðu verið reiðarslag. Fyrir harðfylgi prentara og bókagerðarmanna tókst þó að afstýra því fári; blaðið komst heim með síðustu ferð Herjólfs fyrir sjómannadag og engir aðrir en ritstjórinn og stjórn Sjómannadagsráðs vissu um þær vítiskvalir sem sömu aðilar höfðu liðið síðustu tvo sólarhringana; kæmi blaðið út eða ekki?
Hér áðan minntist ég á að það væri styrkur þessa blaðs hve oft væri skipt um ritstjóra. Þetta er þriðja árið mitt í röð sem umsjónarmaður blaðsins og af meðfæddri hlédrægni hef ég ákveðið að það verði hið síðasta að sinni; nú sé rétt að nýir vendir fái að sópa um næstu ár.
Til að valda ekki misskilningi skal tekið fram að allt mitt samstarf við þá sem skipa Sjómannadagsráð hverju sinni hefur verið með hinum mestu ágætum, þar hefur sjaldan borið skugga á; enda mikið ágætisfólk.
Ástæða þess að ég nú kveð er tvíþætt; annars vegar eins og áður er frá greint að ég tel mig hafa verið nógu lengi að; og svo hitt að nú hefur áðurgreindur lokið sjómennskuferli sínum og telur rétt að nú taki aðrir við sem eru í nánari tengslum við lífið á bryggjunum en hann sjálfur er orðinn.
Margir hafa lagt mér lið, þau ár sem ég hef séð um útgáfu þessa blaðs; fleiri en efni standa til upp að telja. Að öðrum ólöstuðum vil ég þó nefna Guðjón Ármann Eyjólfsson, skólastjóra Stýrimannaskólans í Reykjavík og ritstjóra þessa blaðs til margra ára; allt til þess er hann flutti héðan burt 1973. Guðjón Ármann hefur ávallt haft sterkar taugar til Vestmannaeyja og þó sérstaklega til Sjómannadagsblaðs Vestmannaeyja. Þau fimm skipti sem ég hefi séð um útgáfu blaðsins hef ég aldrei þurft að ganga bónleiður til búðar hans, hafi hann verið beðinn. „Ég hef eitthvað handa þér; kannski hann pabbi líka!“ hefur jafnan verið viðkvæðið.
Ég endurtek þakkir mínar til blaðsins og útgefenda þess; þetta hefur oftlega verið strembin tíð, líkt og til sjós en eftir á að skoða ánægjuleg. En hverjum manni er, að ég held hollt að þekkja sinn vitjunartíma og ég held að minn sé kominn.
Með endurteknum þökkum fyrir að fá að taka þátt í gleðinni.
Sigurgeir Jónsson frá Þorlaugargerði