Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1990/ Minning látinna

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Minning látinna

Sjómannadagurinn er hátíðisdagur þeirra sem lifibrauð sitt hafa af sjósókn. Þann dag gleðjast sjómenn hver með öðrum, auk þess sem baráttumál sjómannastéttarinnar eru til umræðu. En á sjómannadag er einnig minnst þeirra sem fallið hafa frá, bæði þeirra sem farist hafa við störf sín og eins hinna sem látist hafa að afloknum löngum vinnudegi. Með auknum áhuga og umræðu um björgunar- og öryggismál hefur stórlega fækkað dauðaslysum um borð í skipum og er það vel. Og sem betur fer er það nær liðin tíð að stórir mannskaðar verði á vetrarvertíðum eins og svo algengt var hér áður. Seint verður svo um hnúta búið að sjómennska verð hættulítið starf, eðli starfsins er slíkt að þar leynast fleiri hættur en í flestum öðrum störfum. En bættur búnaður á skipunum hefur verulega breytt því ástandi sem áður var. Í dag eru menn því sem næst hættir að tala um þær fórnir sem hafið krefjist eins og var í tísku hér áður að segja á hátíðisstundum, rétt eins og um einhverjar sjálfsagðar mannfórnir væri að ræða. Slíkt tal hljómar hjárænulega í dag og verður ekki undir það tekið. Á sjómannadegi minnumst við fallinna félaga, sýnum þeim virðingu okkar og vottum ástvinum þeirra samúð okkar. Það er hér með gert.

Bjarni Guðmundsson
F. 17. janúar 1906 - D. 24. maí 1989.

Bjarni fæddist á Glæsistöðum í Vestur-Landeyjum hinn 17. janúar 1906. Hann var sonur hjónanna Sigríðar Bjarnadóttur frá Helguvík og Guðmundar Gíslasonar frá Sigluvík. Hann var 6. barn þeirra hjóna, sem áttu 5 dætur fyrir, þegar Bjarni fæddist. Alls urðu systkinin 10, 5 stúlkur og 5 drengir. Eftirlifandi eru 4 af systkinunum. Júlíus, Ólafur, Guðný og Sigurbjörg. Bjarni ólst upp hjá foreldrum sínum við búskaparstörf. Fljótlega í æsku kom fram að hann var handlaginn við flest störf.

Um fermingaraldur gjörðist hann sjómaður á áttæringi sem gerður var út frá Landeyjasandi. Í fyrstu var ákveðið að hann fengi hálfan hlut, en eftir fyrsta róðurinn fékk hann heilan hlut fyrir fisksæld og dugnað. Fimmtán ára að aldri fór Bjarni fyrst á vertíð í Vestmannaeyjum eins og tíðkaðist með ungt fólk úr nágrannasveitum. Hann réðst til Stefáns Gíslasonar er þá bjó með fjölskyldu sinni í Ási. Stefán var formaður og meðeigandi í 8 tonna mótorbát sem hét Gústaf. Næstu vertíð réðst Bjarni í Fiskimjölsverksmiðjuna og vann þar samtals 12 vertíðir.

Á vorin fór hann jafnan heim í sveitina og vann þar að bústörfum með foreldrum sínum og systkinum. Árið 1932 hóf hann vörubílsakstur frá stöð í Reykjavík á eigin bíl, en flyst til Vestmannaeyja 1933 og hóf akstur frá Bifreiðastöð Vestmannaeyja sama ár þar sem hann starfaði í hálfa öld, eða þar til hann lét af störfum árið 1983 eftir farsælt starf. Hann var jafnan þáttakandi í þeirri miklu uppbyggingu og umbótum er fram fóru í Vestmannaeyjum eftir að hann settist þar að. Hann var einn af þeim bífreiðastjórum er fyrstir komu aftur til Eyja eftir jarðeldana 1973 og lagði sig allan fram í fyrstu við björgunarstörf og síðan við uppbyggingu sem var að mestu lokið er hann lét af störfum.

Árið 1936 kynntist Bjarni konu sinni, Jóhönnu Jakobínu Jóhannsen, þýskættaðri og gengu þau í hjónaband ári síðar eða 1937. Þau hófu búskap í Pétursey v/Hásteinsveg, húsi Halldórs Magnússonar frá Grundabrekku, en fluttu í eigið hús á Vesturvegi 25 árið 1942.
Árið 1955 fluttu þau í nýtt og glæsilegt hús er þau byggðu á Illugagötu 13 þar sem þau áttu heima til æviloka. Eiginkonu sína missti Bjarni hinn 10. janúar 1984 og var sá missir honum þungbær.
Þeim hjónum varð ekki barna auðið en þau tóku að sér 2 drengi sem þau ólu upp. Fyrst Hannes, sem kvæntur er Þorgerði Sigurvinsdóttur og eiga þau 2 dætur, Anítu og Ölmu og síðan Einar Þór, sem kvæntur er Maríu Óskarsdóttur og eiga þau 3 börn, Jóhann Bjarna, Rannveigu og Aðalstein.

Bjarni var maður trúaður þótt hann flíkaði ekki sínum tilfinningum eða hugsunum. Hann vitnaði gjarnan til æsku sinnar, þar sem hann var alinn upp við guðstrú, sálmasöng og húslestur. Bjarni var sérstaklega skapgóður og traustur vinur vina sinna. Eftir að hann hætti störfum kom hann daglega á stóðina til skrafs við gömlu félagana. Hann fylgdist mjög vel með öllum verkþáttum er unnið var við hverju sinni. Hann hafði þann háttinn á að ganga um 3 kílómetra á hverjum degi og að því loknu fór hann í sundlaugina. Þessi holla iðkun hélt honum í mjög góðu formi og léttum hreyfingum sem margir sem yngri voru öfunduðu hann af. Í sundlauginni varð hann fyrir hjartaáfalli er leiddi hann til dauða stuttu seinna. Það sama henti einnig konu hans.

Bjarni var einstaklega vel liðinn af vinnufélögum sínum og lagði jafnan sitt af mörkum til að halda uppi skemmtilegu andrúmslofti á vinnustað. Hann lagði áherslu á að líta frekar á björtu hliðar tilverunnar og ósjaldan kom hann kunningjum sínum til að hlæja með kímnigáfu sinni.
Fyrir hönd samstarfsmanna hans á Bifreiðastöð Vestmannaeyja færir undirritaður þakkir fyrir gott samstarf og frábæra þjónustu. Um leið og við kveðjum Bjarna hinstu kveðju, vottum við ástvinum hans innilegustu samúð okkar. Guð blessi minningu hans.
Magnús Guðjónsson.

Jón Tómas Markússon
F. 30. mars 1915 . D. 13. júní 1989

Mikill öndvegisdrengur, Jón Tómas Markússon fyrrum trilluskipstjóri og vélstjóri í Vestmanneyjum, er fallinn frá. Jón Markússon var einn af svipmiklu trilluköllum Vestmannaeyja um nær 20 ára skeið og þegar hann hvarf af þeim vettvangi varð stemmningin fátæklegri á heimaslóðinni við Eyjar.

Jón Tómas Markússon fæddist 30. mars 1915 á Sæbóli í Aðalvík. Hann sleit barnsskónum á Vestfjörðum þar sem markviss vinna, náttúrufar og kjarnmikið mannlíf markaði manninn. Móðir hans veiktist þegar hann var 14 ára gamall og dó þremur árum síðar, en þá var heimilið leyst upp og systkinin sjö fóru hvert sína leið. 5 þeirra eru enn á lífi. Jón Tómas sneri sér fljótt að sjómennsku og vann einnig ýmis störf önnur um árabil á ýmsum stöðum. Til Vestmannaeyja flutti hann 25 ára gamall og fann sér skjótt leið að áhugasviði sem hann hafði ræktað með sér og hugsað mikið um, vélavörslu og meðferð véla, því skömmu eftir að hann flutti til Eyja tók hann vélastjórapróf og upp frá því var hann vélstjóri á ýmsum bátum, traustur sjómaður og vinsæll.
Í Vestmanneyjum kynntist hann eftirlifandi eiginkonu sinni, Kjartaníu Vilhjálmsdóttur, borinni og barnfæddri Eyjastelpu. Þau eignuðust 6 börn og barnabörnin eru orðin mörg.
Jón Markússon var eins og hann átti kyn til harðduglegur og ákveðinn maður, en hann var skemmtilega listrænn í lífsmeiningu sinni og það naut sín oft vel hjá honum í rólegu fasi hans og spjalli, ekki síst í trillubúskapnum. Hann var ráðagóður þótt hann væri ekkert að trana sér fram, en það kom svo oft í ljós á þeim vettvangi sem hann vann á að menn gættu að hvað hann gerði og sáu sér leik á borði að fara að dæmi hans. Það var skemmtilegt að koma í trilluna hans og spjalla við hann. Hann tók okkur peyjunum vel. Árum síðar sá maður betur að hann var einn af þessum dæmigerðu sjálfstæðu útvegsbændum. Það var ekki bátsstærðin sem skipti máli, það voru gæðin, það var andinn í hversdagslífinu og Jón Markússon hafði næman skilning á lífsins kómidí. Hann átti vissulega mikið skap, en kunni því hóf og stundum var rósemi hans ótrúleg.

Þegar ég fór í fyrsta skipti í Súlnasker í egg skömmu eftir fermingu, fórum við með Jóni Markússyni. Okkur seinkaði um 8 tíma úr Skerinu og Jón beið. Þegar við stukkum loks um borð aftur sagði hann:
„Það er heitt kaffi á könnunni, strákar." Annað var ekki sagt og þarna fékk ég besta kaffi sem ég hef fengið um ævina, að meðtöldu úrvalskaffi í Brasilíu. Ketilkaffið hjá Jóni var einstakt. Í gosinu 1973 fluttu Jón og Kjartanía frá Eyjum og áttu ekki afturkvæmt. Hann hóf störf í Lýsi og Mjöl í Hafnarfirði og brást ekki fremur en fyrr sem góður og traustur starfsmaður. Þar vann hann til 67 ára aldurs, en þá tók hann aftur til við trillubúskapinn, stundaði grásleppu, skák og fann sig á ný í frelsi trillusjómannsins.
Það væri hægt að fara mörgum orðum um líf Jóns Markússonar, en hans stíll var fyrst og fremst meitlaður. Hann var mikill sjómaður, völundur á vélar og öllum vélum kom hann í gang þótt slasaðar væru. Honum fylgdi þrifnaður og vélarrúm hans voru rómuð fyrir það hve allt var fínpússað og í röð og reglu. Hann fór ekki hátt með áhuga sinn á tónlist en hann var liðtækur hljómlistamaður á harmonikku, orgel og gítar, sérstaklega á yngri árum. Í minningunni lifir góður drengur sem skildi eftir sig viðmiðun sem var hægt að læra af, höfðingi trillunnar þar sem víðáttan var ómæld allt um kring. Megi góður Guð gefa honum kögrað kjölfar á nýjum miðum. Eftirlifandi eiginkonu, börnum og barnabörnum votta ég innilega samúð.
Árni Johnsen.


Pétur G. Guðmundsson
F. 21. janúar 1910 - D. 24. ágúst 1989.

Pétur fæddist á Fáskrúðsfirði 21. janúar 1910. Hann var sonur hjónanna Guðmundar Erlendssonar og Bjargar Pétursdóttur, sem bæði voru frá Fáskrúðsfirði. Hann var næstelstur af fjórum systkinum. Elstur er Ottó, búsettur á Fáskrúðsfirði, kvæntur Sveinbjörgu Jóhannsdóttur. Næstur kom Pétur og síðan Guðbjörg Elín, búsett í Reykjavík og var gift Garðari Kristjánssyni sem er látinn. Yngstur var Stefán Halldór faðir minn sem lést fyrir tæpum þremur árum. Eftirlifandi kona hans er Aldís Kristjánsdóttir.
Pétur byrjaði 15 ára að stunda sjóróðra með föður sínum og Ottó bróður sínum. Árið 1942 keyptu bræðurnir þrír sér lítinn bát sem þeir gerðu út í nokkur ár. Á vetrum fór hann jafnan á vetrarvertíð í Vestmannaeyjum, eins og flestir sem bjuggu í litlum sjávarþorpum þurftu að gera á þessum árum, en snéri jafnan aftur heim á vorin til að róa á litla bátnum með bræðrum sínum. Ég minnist þess er ég var aðeins níu eða tíu ára gömul að Pétur og pabbi voru að koma af vertíð, pabbi frá Sandgerði en Pétur frú Vestmannaeyjum. Þeir hittust um borð í Esjunni á leið austur og voru þá með sinn gítarinn hvor. Pétur hafði hugsað sér að gefa mér og systur minni gítarinn saman og það hafði pabbi einnig hugsað sér að gera. Við fengum því sinn gítarinn hvor og var því mikil gleði hjá litlum stúlkum yfir að hafa eignast okkar fyrstu gítara og að geta byrjað að æfa okkur.

Árið 1951 fluttist Pétur til Vestmannaeyja og snéri sér að netagerð. Hann starfaði hjá netagerð Reykdals Jónssonar í mörg ár, fyrst í Vestmannaeyjum og síðan í Reykjavík. Þegar netagerð Reykdals Jónssonar var lögð niður fór hann að vinna hjá Alfreð Guðmundssyni við netagerð og vann þar á meðan kraftar entust.

Pétur var ókvæntur og barnlaus. Hann sameinaðist söfnuði Sjöunda dags aðventista á Íslandi árið 1941 og var staðfastur í þeirri trú til hinsta dags. Hann var mjög heilsteyptur í sinni trú og var stöðugt að undir búa sig og aðra til að vera viðbúinn að mæta Jesú í guðsríki. Alltaf áminnti hann okkur frændsystkinin sín um að það mikilvægasta í lífinu væri að undirbúa sig fyrir guðsríki, því að ganga okkar hér er aðeins undirbúningur undir það sem koma skal á hinni nýju jörð. Þannig lifði hann og þannig dó hann í þeirri trúarvissu að þegar Jesús komi aftur og kallar þá út sem sofnað hafa í trú á hann muni þeir fyrst upp rísa og gá að lifa með honum í mikilli dýrð um alla eilífð. Það er sætt að sofna í svo mikilli trú og ég veit að Pétur fær að rísa upp og búa með Jesú eins og hann þráði svo heitt. Guð sé lof fyrir slíka trú og þvílíkan frænda, hann sem var mér svo góður frændi.

Minning hans mun lifa með mér.
Ég sendi öllum ættingjum og vinum samúðarkveðjur.
Fjóla Stefánsdóttir


Sigmar Guðmundsson
F. 28. ágúst 1908 - D. 4. júlí 1989

Þegar ég heyrði lát þessa ágæta manns Sigmars Guðmundssonar fór hugur minn ósjálfrátt að blaða í dagbók lífsins. Hann staðnæmdist á blaðsíðu 1943 þegar ég kom fyrst til Vestmannaeyja, ungur Austfirðingur 21 árs, ráðinn í skiprúm.

Atvikin sem urðu til þess að við Sigmar kynntumst voru margþætt. Það hafði áður verið ákveðið að ég yrði í fæði hjá bróður mínum, sem þá var nýgenginn í hjónaband og bjó með sinni ungu konu í húsi nr. 15 við Brekastíg. Þetta hús áttu þau ágætu hjón Þórunn Sveinsdóttir og Sigmar og bjuggu þau í austurhluta hússins. Þórunn var móðursystir konu bróður míns og voru þær bæði þá og alltaf mjög góðar vinkonur. Það er vissulega margs að minnast frá þessum dögum. Þó held ég að það sé efst í huga mínum hve þarna ríkti góður andi og hve mér var alltaf vel tekið á heimili þeirra Sigmars og Þórunnar. Við Sigmar náðum vel saman og urðum brátt góðir kunningjar, enda báðir að austan. Gátum við því rætt um ýmsa hluti frá æskustöðvunum.

Þótt hann væri fremur fáskiptinn og af sumum talinn dulur í skapi þá fannst mér hann vera viðræðugóður, hlýr í hugsun, orðvar og vandaður í tali og háttum.
Viðstaða mín í Eyjum varð lengri en gert var ráð fyrir í upphafi. Átti ég því þess kost að halda ágætum kunningsskap við Sigmar og hans nánasta fólk um langt árabil og tel ég mig hafa haft af því mikinn heiður.

Allir sem þekktu Sigmar vissu að hann var gæddur þeim hæfileikum sem best mega prýða íslenskan sjómann. Auk þess að kunna vel til allra þeirra verka sem unnin eru í sambandi við fiskveiðar og aflabrögð átti hann í ríkum mæli dugnað, fórnfýsi og öryggi til hugar og handa. Vil ég fullyrða að það rúm sem hann átti hátt á þriðja áratug á skipi með Óskari stjúpsyni sínum var aldrei vansetið og munu verkin hafa talað þar best um.
Þótt Sigmar væri fáskiptinn þá gat hann glaðst með glöðum á góðri stund. Hann hafði eins og margir Austfirðingar gaman af að taka í spil. Ég held að hann hafi notið þess fram á síðustu ár. Ég minnist þess að hafa séð hann með góð spil á hendi og leyndi sér þá ekki hin dulræna glettni í brosinu. Nú þegar Sigmar hefur lokið æfigöngu sinni sem náði yfir áttatíu og eitt ár, þá eru þeir eflaust margir sem vilja þakka fyrir góð samskipti á langri leið.

Að heilsast og kveðjast, það er Iífsins saga. Þannig virðist þessu ráðstafað. Þótt menn kveðji og gangi yfir til feðra sinna þá lifir sagan.
Að þessu sinni er hún hugljúf sögn um trúverðugan og vinnusaman mann sem vék sér ekki undan því trausti sem til hans var borið og tók á móti bæði gleði og sorg með einstakri prúðmennsku.

Ég vil senda börnum Sigmars mínar bestu kveðjur, þeim Erlu, Gísla og fóstursyninum Sigmari. Ég bið þeim og heimilum þeirra Guðs blessunar. Einnig þeim bræðrunum Óskari, Ingólfi og Sveini, ásamt fjölskyldum þeirra. Öllu þessu fólki þakka ég góð og hugstæð kynni.
Við leggjum af stað út í lífið leitandi, systur og bræður. Við erum dæmd til að deyja, en dómarinn stundinni ræður. Við bjástrum í biðsal dauðans og bíðum þar sólarlagsins. Ljúft er að leggjast til hvílu að lokinni vinnu dagsins.
Hafsteinn Stefánsson

Guðjón Pétur Valdason
F. 4. október 1893 - D. 17. ágúst 1989

Hann afi minn Guðjón Pétur Valdason var fæddur 4. október 1893, að Steinum Austur-Eyjafjöllum. Sonur Elínar Pétursdóttur og Valda Jónssonar.
Árið 1907 flutti afi ásamt móður sinni og fósturföður, Bergi Jónssyni, til Vestmannaeyja. Þá strax hóf hann að stunda sjómennsku, og var það starf hans næstu 65 árin. Reri hann á mörgum bátum, en lengst var hann með Kap, það happaskip. Aldrei missti hann mann eða bát í hafið, en varð þeirra gæfu aðnjótandi að bjarga mannslífum, og aðstoða báta sem voru illa staddir á hafinu. Var hann alltaf kallaður "Gaui á Kapinni".

Tvítugur kvæntist hann Margréti Símonardóttur frá Akranesi, eignuðust þau 3 börn. Það eru, Bergur Elías, Ragnhildur og Klara, en hún dó á unglingsárum. Margrét lést úr spönsku veikinni 1920. Seinni kona afa var Guðbjörg Þorsteinsdóttir frá Rauðhálsi í Mýrdal. Lifir hún mann sinn, og dvelur nú á Hraunbúðum. Þau eignuðust 4 börn, Þorstein, Martein, Bergrós og Ósk. Þorsteinn og Bergrós dóu ung.

Árið 1921 byggði afi Dyrhóla, og þar bjuggu þau alla tið. Þar var alltaf gott að koma, og margar ferðirnar voru farnar til ömmu og afa á "Dyró". Það var einn af föstu punktunum í lífinu, og amma var alltaf heima. Afi var með kindur, og mikið fannst okkur krökkunum gaman að hjálpa tíl við að heyja, gefa þeim og annað sem fylgir því að vera með fé. Alltaf leyfði afi okkur að vera með sér, og að starfi loknu fengum við mjólk og bita hjá ömmu.
Hann afi var dugnaðarforkur og sívinnandi. Í minningunni er hann stóri sterki afi, sem alla gat huggað, og allt gat lagað.

Hann lést 17. ágúst 1989, í hárri elli tæplega 96 ára gamall, á Sjúkrahúsi Vestmannaeyja, eftir nokkra sjúkrahúslegu.
Rétt áður en hann dó, sagði hann okkur systrunum frá draumi, sem hann hafði dreymt. Í draumnum var hann á snurvoð við Ellirey, og var mokveiði af ýsu. Það var glampi í augum hans, þegar hann sagði fjörlega frá þessum góða draumi. Þannig að andinn var enn að stjörfum þó að líkaminn leyfði það ekki.
Ég og fjölskylda mín, sendum ömmu og öðrum aðstandendum samúðarkveðjur. Blessuð sé minning hans.
Kristín Bergsdóttir.


Björgvin Þ. Jónsson
F. 17.mars 1914 - D. 16. júlí 1989.

Við brottför Björgvins frá Garðsstöðum af þessum heimi rifjast upp minningar frá tveim sumrum á þriðja tug aldarinnar. Þá fannst okkur unglingum tíminn standa kyrr. Við höfðum lifað fornöldina í vinnubrögðum. Fábreytt líf, kyrrð, friður og náttúrlegt umhverfi. Á þessum árum komu börnin úr Eyjum upp í Landeyjar, árvisst eins og vorfuglarnir. Þau fluttu með sér ferskan blæ úr sjávarplássinu, þar sem upp var runnin öld vélknúinna skipa og velmegunar.

Eyjakrakkarnir lærðu fljótt önnur vinnubrögð og gerðu margt gagnlegt.
Björgvin var sumargestur hjá okkur á Úlfsstöðum 1926 og 1927. Hann var ekki sérlega hár í loftinu þá, en snar í snúningum, duglegur og háttprúður. Ég minnist þess ekki að hann skipti nokkru sinni skapi. Það fór jafnan vel á með okkur Björgvin. Hann hafði margt að segja mér heimalningnum um lífið úti í Eyjum, frá klettaborginni sem blasti við okkur í Landeyjum, frá svaðilförum og ævintýrum. Hann var óþreytandi að fræða mig um leiki strákanna í fjörunni og á höfninni, hvernig þeir náðu sér stundum í skjögtbáta og lentu kannski í sjóorrustum við "óvinaliðið". Þetta hét að "fara útá". Foringinn var Ási í Bæ, sem Björgvin nefndi oftast Bæjarann, en það var sérstakt virðingarheiti. Ég hlustaði með aðdáun og lifði mig inn í þennan heim fjörulallanna.

Fyrir nokkrum árum sagði Ási í Bæ frá þessu í einni bóka sinna "Fjaran og höfnin var mikill vettvangur okkar stráka við Strandveginn". Mest af öllu var að komast ýfir bát og róa um höfnina, "að líða ofaná þessu undarlega vatni sem kallast sjór". Og Björgvin átti heima örskammt frá höfninni. Þar hét Sjómannasund.

Annar var sá undraheimur sem Björgvin fræddi mig um, harla fáfróðan, nefnilega bíóin. Þar var önnur hetja frá og hét Harold Lloyd, töframaður með stráhatt og hornspangagleraugu. Og Björgvin sagði frá hinum ótrúlegustu dirfskubrögðum þessa fræga leikara, til dæmis þar sem hann hékk utaná háhýsum New York borgar og komst heill úr þeim hildarleik. Kannski hafa verið áhöld um hvorn Björgvin dáði meir, "Bæjarann" eða filmstjörnuna. Ég held þó, að Ási hafi haft vinninginn.
Mér fannst kaupstaðabörnin vel sett að geta séð þessi ævintýri út í hinum stóra heimi. Svo vildi þannig til að fyrstu kvikmyndina sá ég í boði Jóns á Garðstöðum, föður Björgvins, vorið 1928.
Einn sunnudag seinna sumar Björgvins í sveitinni fengum við fararleyfi austur að Paradísarhelli. Jósef, kunningi okkar á næsta bæ slóst í förina. Við vanir slarki í Affallinu þó ungir værum. Tókum daginn snemma. Fannst til um helli Hjalta þar sem hann var 2 ár í útlegð. Á heimleið lögðum við krók á hala okkar, riðum inn í Nauthúsagil. Yfir þetta djúpa og þrönga gil lá þá reyniviðartré, frægasta tré íslands, eins og vaxið út úr hamravegg, fallið fyrir löngu: fyrrum var á því tré helgi.- Svo var haldið heim að kvöldi, riðum Markarfljót beint af augum. Ferðasagan sögð og ekkert dregið undan. En það hefði ég betur látið ógert, því illa þótti ég hafa þakkað hestalánið með Nauthúsagilsferð um grýttan veg á flatjárnuðum hestum. - En þetta var stór dagur í lífi okkar unglinganna: Þrír merkisstaðir „barðir augum" eins og skáldin segja: Hellir Hjalta, Seljalandsfoss og Nauthúsagil. –

Björgvin tók vélstjórapróf. Hann var mótoristi hjá Þorvaldi Guðjónssyni, landskunnum sævíking og Grænlandsfara. Á skipi hans var jafnan einvalalið. Seinna var Björgvin vélstjóri á aflaskipi sem hann sjálfur átti hlut í nokkur ár.

Um 1960 varð höfnin starfsvettvangur Björgvins frá Garðsstöðum. Þá gerðist hann vélstjóri á hinu góða grafskipi Vestmannaey. Þar um borð hefur alla tíð verið einvalalið.
Haraldur Guðnason


Hermann Jónsson
F. 5. desember 1898 - D. 20. júní 1990

Þriðjudaginn 20. júní s.l. lést á Sjúkrahúsi Vestmannaeyja, Hermann Jónsson. Hermann var fæddur 5.desember 1898 og var því níræður er hann lést. Hermann verður öllum þeim sem kynntust honum ákaflega minnisstæður og við félagar hans í Alþýðubandalagsfélagi Vestmannaeyja stöndum í mikilli þakkarskuld við látinn heiðursmann.

Þótt Hermann væri orðinn nokkuð við aldur er fundum okkar bar fyrst saman, hreifst ég strax af eldmóði hans og atorku. Hann var sannur sósíalisti í hugsun og verki en hann var nógu víðsýnn til þess að ígrunda öll mál frá öllum hliðum áður en hann kvað upp sinn dóm. Þegar Hermann talaði í okkar hópi hlustuðu allir og það reyndist jafnan vel að fara að ráðum hans. Það var því engin tilviljun að hann hafði mótandi áhrif á skoðanir okkar félaganna.

Hermann var alla ævi afar vinnusamur og dagsverk þessarar lágvöxnu kempu var oft ótrúlega drjúgt, þótt ekkert væri honum fjær skapi en að miklast af eigin verkum.
Ég vil þakka Hermanni samfylgdina og votta aðstandendum hans og ástvinum öllum samúð.
Guðmundur Jensson.


Friðfinnur Finnsson
F. 22. desember 1901 - D. 6. september 1989

Miðvikudaginn 6. september sl. lést á sjúkrahúsi Vestmannaeyja Friðfinnur Finnsson frá Oddgeirshólum, 88 ára að aldri.
Hann fæddist 22. desember 1901 á Stóru-Borg undir Eyjafjöllum og ólst þar upp til 5 ára aldurs en flutti þaðan til Vestmannaeyja. Foreldrar hans voru hjónin Ólöf Þórðardóttir, ættuð úr V-Skaftafellsýslu, og Finnur Sigurfinnsson, úr Landeyjum. Faðir Friðfinns fórst í hinu mikla sjóslysi við Klettsnefið við Vestmannaeyjar, 16. maí 1901, þar sem 27 menn fórust, en aðeins einn bjargaðist. Systkini Friðfinns voru 13 alls. 7 voru á lífi þegar hann fæddist, en hin voru látin. Eftir þetta mikla sjóslys bjó móðir hans nokkur ár uppi á landi, en fluttist síðan til Vestmannaeyja.

Það má segja, að Friðfinnur, eða Finnur eins og hann var jafnan kallaður, sé einn af aldamótakynslóðinni í orðsins fyllstu merkingu, en þeir menn, sem fæddust um aldamótin, eru alltaf að týna tölunni, einn af öðrum.
Sú kynslóð, sem fæddist um aldamótin, hefur lifað tímana tvenna á Íslandi og hefur séð þær miklu breytingar, sem orðið hafa hér á öllum sviðum, það sem af er þessari öld, breytingar, sem enginn gat spáð fyrir um aldamótin.

Finni var komið til fósturs hjá hjónunum Sigurbjörgu Sigurðardóttur og Sigurði Sveinbjörnssyni og þar ólst hann upp ásamt bróður sínum til 24 ára aldurs og reyndust fósturforeldrar hans honum vel. Ungur maður hóf Finnur ýmis störf, sjósókn og veiddi jafnframt lunda og vann öll þau störf, sem til féllu á hverjum tíma. Hann var sjómaður um nokkurra ára skeið og þá aðallega vélstjóri.

Finnur starfaði sem kafari hjá Vestmannaeyjahöfn og víðar á landinu um 25 ára skeið, sem hann annaðist af stakri trúmennsku. Hann var gerður að heiðursfélaga hjá Kafarafélagi Íslands árið 1958.
Finnur á einna mestan heiður af því starfi, sem var unnið við dýpkun innsiglingarinnar að höfninni í Vestmannaeyjum, þannig að nú geta stór hafskip lagst þar að bryggju. Þegar það starf hófst, þá var höfnin það grunn, að 12 tonna bátar þurftu að sæta sjávarföllum. Sagt var, að þegar hans starf hófst, þá var höfnin það grunn, að 12 tonna bátarþurftu að sæta sjávarföllum. Sagt var, að þegar hans starfi við að fjarlægja grjót og kletta úr innsiglingunni var lokið, þá hafi eini kletturinn, sem var eftir í höfninni, verið kafarinn sjálfur. Fer miklum sögum af því, hvaða þrekvirki Finnur vann á þessu sviði.
Hann hóf jafnframt verslun og rak sína eigin verslun um 14 ára skeið, Eyjabúð, þar sem hann var með til sölu ýmsar útgerðarvörur og byggingavörur. Vöruúrval í verslun hans var jafnan mikið, en sonur hans, Finnbogi, tók við versluninni af föður sínum og rekur hana í dag.

Finnur var framkvæmdastjóri hjá Hraðfrystistöð Vestmannaeyja um 7 ára skeið en lét af þeim störfum, þegar hann varð sjötugur og sinnti þeim störfum af kostgæfni og trúmennsku eins og öðru sem hann tók sér fyrir hendur.
Þrátt fyrir þessi miklu störf, þá var hann jafnframt mikill félagsmálamaður. Hann var einlægur trúmaður og vann mikið starf á sviði trúmála. Hann var í sóknarnefnd Landakirkju í 25 ár og síðustu 10 árin sem formaður og safnaðarfulltrúi í 3 ár þar á eftir. Hann hafði frumkvæði að því að reist var hið sögufræga hlið að kirkjugarðinum, sem er landsmönnum flestum í fersku minni við eldgosið og þær áletranir, sem eru á því hliði og lýstu upp Eyjarnar meðan á eldgosinu stóð.

Hann var jafnframt mikill stúkumaður og starfaði þar að hinum ýmsu málefnum á vegum stúkunnar. Hann flutti til Reykjavíkur 1973, eftir eldgosið og var nýfluttur aftur til Vestmannaeyja, þegar kallið kom, en hann hafði búið á Kleppsvegi í Reykjavík og kunnað þar vel við sig hin seinustu ár.

Friðfinnur verður flestum, sem honum kynntust, eftirminnilegur fyrir það, hversu áhugasamur hann var um menn og málefni. Hann hafði eindregnar skoðanir á hlutunum og hafði áhuga á að berjast fyrir þeim málum. sem hann trúði á enda harðduglegur maður.
Hann hafði mjög gaman að ræða um menn og málefni líðandi stundar og fylgdist vel með öllum fréttum fram undir það síðasta.

Hann var kvæntur Ástu Sigurðardóttir, frá Nýja- Kastala á Stokkseyri, en þau kvæntust 16. október 1926 og höfðu því verið gift í 52 ár. Þau eignuðust tvo syni, Jóhann og Finnboga, sem báðir eru búsettir í Vestmannaeyjum.
Ég og fjölskylda mín viljum að leiðarlokum senda Ástu og öðrum ástvinum Finns okkar bestu samúðarkveðjur og biðjum Guð að blessa þau í missi þeirra.
Sigurður Einarsson

Sigurjón Guðjónsson
F. 6. febrúar 1909 - D. 24. september 1989.

Afi fæddist 6. febrúar 1909 að Raufarfelli undir Eyjafjöllum, foreldrar hans voru Ingveldur Jónsdóttir ættuð frá Lambafelli og Guðjón Tómasson frá Selkoti. Systkini hans voru 13 að tölu, og eru tvær systur hans á lífi í dag, þær Ragnhildur á Rauðafelli og Anna í Eystriskógum. Faðir hans lést þegar hann var ungur og mundi hann óljóst eftir honum, var því oft erfitt heimilishaldið þar sem börnin voru mörg, en mamma hans var harðdugleg og barðist áfram með með aðstoð eldri barna. Hann sagði mér stundum sögur af því þegar hann var að reyna afla matar til heimilisins sem strákur, t.d. með því að komast að hjá formönnum báta sem reru til fiskjar frá Landeyjasandi, ef einhver honum eldri forfallaðist.
Hlutur erfiðisins var síðan fiskur sem hann aflaði til heimilisins, seinni árin sem hann bjó á Raufarfelli hafði hann fast pláss. Einnig fór hann tvisvar á vertíð til Eyja á meðan hann bjó að Raufarfelli. Þetta ætla ég að hafi verið upphaf að vinnusemi hans sem gerði hann bæði eftirsóttan til starfa vegna dugnaðar og ósérhlífni, og góðan félaga þeirra sem með honum unnu.

Fyrstu árin eftir að hann flytur til Vestmannaeyja rær hann á mótorbátnum Ver VE. Hann hefur síðan störf hjá Hraðfrystistöð Vestmannaeyja árið 1945 og vinnur þar þar til að eldgosið byrjaði 1973. Á meðan hann vann í Hraðfrystistöðinni vann hann nokkur sumur hjá Pósti og síma og með Valtý Snæbjörnssyni byggingameistara. Hann hóf störf hjá Viðlagasjóði þegar hér hófst hreinsun bæjarins eftir gos, og var það honum mikið kappsmál að geta tekið þátt í því að koma bænum í sem fegurst horf. Til marks um það , þá var við hús hans gjóskulag upp á miðja glugga sem hann handmokaði í hjólbörum út á götu til að girðingar og blóm á lóðinni yrðu síður fyrir skemmdum. Eftir gos hóf hann síðan störf hjá Pósti og síma og starfar þar, þar til hann hættir störfum 76 ára.

Afi giftist Sigurbjörgu Jónsdóttur 18. desember 1938, en hún fæddist 24. maí 1910 að Efri-Holtum Vestur-Eyjafjöllum, en flyst síðan með fjölskyldu sinni að Ásólfsskála og ólst þar upp. Eftir að þau giftu sig flytjast þau til Vestmannaeyja og hafa búið þar mjög svo hamingjusamlegu lífi, að undanskildu einu ári sem við fjölskyldan bjuggum í Kópavogi meðan á gosi stóð. Börn þeirra eru Erna Sigurjónsdóttir gift Sigurði Magnússyni og Guðjón Ingi Sigurjónsson. Barnabörn eru þrjú og barnabarnabörn þrjú.
Fyrstu árin sem þau búa í Eyjum leigja þau sér húsnæði í Steinum, en 1946 byrja þau að byggja Hólagötu 10, og flytja þangað ári seinna 1947, var þá margt ógert í húsinu sem afi kláraði síðan á næstu árum, en afi var mjög handlaginn þó hann lærði aldrei neina iðn. Í kjallara sem hann hafði undir húsinu útbjó hann ríkulega af hinum nauðsynlegustu verkfærum, og þaðan komu mörg góð stykkin.

Á stundu sem þessari er margs að minnast um góðan mann, sem manni finnst hafa verið tekin allt of fljótt þó árin hafi verið orðin áttatíu. Afi veiktist fyrst fyrir sjö mánuðum og var það í fyrsta skipti á hans ævi sem hann þurfti að liggja í rúminu vegna veikinda. Oft fann ég það á honum og sérstaklega þegar við vorum að fara þær ferðir til Reykjavíkur sem hann þurfti að fara vegna þessara veikinda, að hann var ekki sáttur við þetta hlutskipti, það var svo margt sem hann átti ógert, en aldrei heyrði ég hann kvarta við nokkurn mann. Afi hafði einstaklega gott skap til að bera, og minnist ég þess ekki að hafa séð hann skipta skapi þó eitthvað hafi aflaga farið.

Honum leið alltaf best í Vestmannaeyjum og helst heima hjá ömmu á Hólagötu 10. Ég minnist sérstaklega þeirra mörgu stunda sem við áttum saman úti í kartöflugarði, en ræktun kartaflna var hans aðaláhugamál í frístundum yfir sumarið, en kartöflugarðar hjá honum voru sérstaklega vel hirtir og uppskeran oftast í samræmi við það. Á meðan á minni skólagöngu stóð aðstoðaði hann mig á ýmsan hátt, og einnig eftir að ég stofnaði heimili, ef hann vissi að til stóð að fara að mála eða laga eitthvað þá var hann alltaf búinn að bjóða aðstoð sína. Margar ferðirnar er ég búinn að fara með stelpurnar mínar í heimsókn á Hólagötuna og alltaf var okkur jafn vel tekið, þó oft hafi fyrirgangur í þeim verið mikill. Að kveðja afa sem stóð mér svo nærri er erfitt, vonandi læknar tíminn þau sár því missir okkar allra er mikill. Ömmu minni vil ég votta mína dýpstu samúð.
Sigurjón Pálsson.


Ármann Friðríksson
F. 21.nóvember 1914. D. 11. nóvember 1989.

Laugardaginn 11. nóvember sl. lést hinn landskunni aflaskipstjóri og útgerðarmaður Ármann Friðriksson. Allir sem komnir eru á miðjan aldur muna eftir Ármanni á „Helgu”, sem um árabil bar af í aflabrögðum, sérstaklega á síldveiðum en einnig á bolfiskveiðum.

Sjómennskuferil sinn hóf hann mjög ungur að árum. Strax um 10 ára aldur byrjaði hann að róa með föður sínum Friðriki Jónssyni, skipstjóra, kunnum aflamanni í Vestmannaeyjum á sinni tíð. Almenna sjómennsku hóf hann upp úr fermingu og stundaði hana af einstakri atorku í rösk 40 ár, þar af hartnær 35 ár sem formaður og skipstjóri. Hann eignaðist sitt fyrsta skip 24 ára að aldri. Árið 1943, sama árið og hann og fjölskylda hans flytjast til Reykjavíkur frá Eyjum, byggir hann og bróðir hans, Brynjólfur Kristinn, nýtt skip sem hlaut nafnið „Friðrik Jónsson", 50 tonna tréskip. Árið 1947 stofnar hann ásamt Sveini heitnum Benediktssyni útgerðarfyrirtækið Ingimund hf. og festir þar kaup á fyrstu Helgunni, „Helgu” RE-49, einum af hinum svokölluðu Svíþjóðarbátum. Þetta skip átti eftir að reynast hið mesta happafley og fékk á sig þjóðsagnablæ á þessum árum, frá 1947-1960. Árið 1958 kaupir Ármann hlut Sveins í Ingimundi hf. og rekur fyrirtækið ásamt fjölskyldu sinni. Nú er skammt stórra högga á milli, ný „Helga” RE-49 er keypt 1961 og árið 1967 er „Helga U” RE-373 keypt og á lóð fyrirtækisins við Súðavog er reist myndarleg verkunarstöð fyrir saltfisk, skreið, síldarsöltun og rækjuvinnslu. Í lok starfsferils síns kaupir fyrirtæki hans enn eina Helguna, „Helgu U” RE-373, sem kom til landsins í október 1988, eitt glæsilegasta loðnu- og togskip þjóðarinnar.

Af framansögðu má sjá, að Ármann fékk miklu áorkað á sviði útgerðar og fiskvinnlu. Hann var ekki aðeins aflamaður og laginn skipstjórnandi, heldur og ekki síður traustur og áreiðanlegur í öllum viðskiptum og naut góðs orðs, hvar sem hann fór. Hann var ráðdeildarmaður í öllu, sem sneri að rekstrinum, fór vel með, fjárfesti af varkárni, skilamaður í þess orðs bestu merkingu. Með öðrum orðum, sannur fulltrúi gamla skólans.

Ármann fæddist 21. nóvember 1914 í Vestmannaeyjum, sonur hjónanna Sigurínu Katrínar Brynjólfsdóttur, f. 7.maí 1984 á Vigdísarvöllum í Grindavíkurhreppi, og Friðriks Jónssonar, útvegsbónda, f. 7. desember 1868 að Eyjarhólum í Mýrdal, V-Skaftafellssýslu. Ármann var þriðji elstur 7 systkina, 2 eldri bræður og 4 yngri systra. Á lífi eru systurnar Klara, Ólafía og Sigurína.

Ármann kvæntist Ragnhildi Eyjólfsdóttur hinn 13. janúar 1940 og eignaðist með henni 3 börn, eina stúlku og tvo drengi. Þau eru: Helga, gift Sigurði Ólafssyni, Eyjólfur Agnar, kvæntur Ólafíu Sveinsdóttur, og Ármann, sambyliskona hans er Sjöfn Haraldsdóttir. Barnabörn Ármanns og Ragnhildar eru 10.

Hinn 3. maí 1984 missti Ármann konu sína, Ragnhildi, og var hún honum og börnunum sínum mikill harmdauði. Ármann var félagslega sinnaður, þó svo hann skipaði sér ekki í forystusveit í þeim félögum, sem hann starfaði í. Hann var meðlimur í Útvegsmannafélagi Reykjavíkur og sat alla aðalfundi LÍÚ frá því hann kom í land. Auk þess sat hann mörg Fiskiþing Fiskifélags íslands. Þá var hann meðlimur Oddfellowreglunnar og gekk í hana 1943.
Eftirlifandi eiginkona Ármanns er Rósa Aðalheiður Georgsdóttir.
Undirritaður vottar eftirlifandi eiginkonu Ármanns og aðstandendum fyllstu samúð sína.
Blessuð sé minning Ármanns Friðrikssonar.
Hallgrímur Þorsteinsson.


Guðjón Ingibergsson
F. 25. ágúst 1928 - D. 16. nóvember 1989.

Ég er dapur í huga þegar ég rita nokkur minnisorð um frænda minn og vin Guðjón Ingibergsson sjómann. Hann byrjaði sjómennsku 12 ára í Vestmannaeyjum þar sem hann fæddist en þegar hann varð eldri fór hann á togara og var á ýmsum togurum, en undir það síðasta var hann með eigin trilluútgerð, mest sér til gamans.
Guðjón var í mínum huga sérstæður maður og mjög til minnis. Hann var afrendur að afli og kunni vel að meta kraftamenn og hafði gaman af að segja kraftasögur en ég trúi því að sjálfur hafi hann verið meira heljarmenni en nokkur þeirra hraustmenna sem hann sagði svo vel frá. Guðjón fór vel með afl sitt.

Ég kynntist þessu hraustmenni á heimili foreldra minna á Bergstaðastæti 30. Ég var þá lítill snáði þegar hann sat með mig í kjöltu og sagði mér sögur. Eg veit að kynni mín af honum og afli hans réði því að ég byrjaði að stunda lyftingar á unga aldri og stunda enn.
Guðjón var ljóðelskur og mat mest Davíð Stefánsson og kunni flest ljóða hans og flutti þau gjarnan á sérstæðan og kraftmikinn hátt.
Guðjón Ingibergsson varð bráðkvaddur á sjó. Hann var einn á trillu sinni þegar kallið kom og báran við kinnung bátsins söng honum síðustu kveðju frá hafinu.
Ögmundur Árnason.


Sveinbjörn Kristinsson
F. 4. október 1932 - D. 7.desember 1989.

Hann Svenni vinur okkar er dáinn, fyrir aldur fram. Svenni, eins og hann var kallaður, flutti hingað til Vestmannaeyja fyrir þremur árum, svo við fengum einungis að njóta samvista við hann þessi þrjú ár, en allan þann tíma starfaði hann sem kokkur á Frigg Ve 41, og var vel liðinn af öllum. En það þurfti ekki að þekkja Svenna í langan tíma til að sjá að þar fór öðlingsmaður. Já, hann var einstakur, það skein frá honum kurteisi, góðmennska, tryggð, fórnfýsi og skapgæska. Á mettíma eignaðist hann íbúð hér og fallegt heimili, enda einn af fáum skipverjum sem aldrei tók sér aukafrí af sjónum, þó elstur væri um borð.

Fyrir u.þ.b. tveimur mánuðum fórum við tólf saman út til Amsterdam og það var yndislegur tími, og þá sá ég það enn og aftur, hve dásamlegan mann Sveinn hafði að geyma, þar kynnist ég vini mínum Svenna enn betur og átti yndislegar stundir með honum, þar var hann alltaf reiðubúinn til að rétta hjálparhönd, spjalla og vera með í öllu.

Ég minnist sérstaklega orða hans, þar sem hann sagði að sjaldan, og langt væri síðan honum hefði liðið svona vel og eða haft það svona gott, eins og eftir að hann kom til Eyja og helst sæi hann eftir að hafa ekki komið miklu fyrr. En ég svaraði því að nægur væri tíminn, hann væri jú á besta aldri ennþá. En svona er lífið, snögglega var hann tekinn á brott og sendur yfir móðuna miklu, öllum að óvöru. Með þessum fátæklegu línum langar mig og fjölskyldu minni að þakka Svenna fyrir að hafa fengið að kynnast honum, fyrir ógleymanlegar stundir og fyrir trúnaðinn og vinskapinn sem hann sýndi mér og ég mun geyma vel.

Svenni bar veikindi sín í hljóði og það sést best á því að aðeins þremur dögum fyrir aðgerðina hringdi hann í mig fullur bjartsýni og rólegur eins og honum var lagið. Ekki grunaði mig þá að þetta yrði í síðasta skipti sem ég heyrði í honum. En einhver tilgangur hlýtur að vera með þessu öllu, og trúi ég að sökum þess hve einstakur maður Svenni var hafi æðri máttarvöld þurft á honum að halda og kallað hann til sín þess vegna.
Ég og fjölskylda mín kveðjum Svenna vin okkar með söknuði og vottum dóttur hans og hennar fjölskyldu, auk sona hans og annarra aðstandenda, okkar dýpstu samúð og biðjum Guð að gefa þeim styrk í þessari miklu sorg. Svenna er djúpt saknað.
Far þú í friði, friður Guðs þig blessi, hafðu þökk fyrir allt og allt (V.Br)
Guðbjörg Guðfinnssdóttir og fjölskylda.


Einar Jónsson frá Skála.
F. 26. október 1914 . D. 24. febrúar 1990

Einar andaðist í Borgarspítalanum, laugardaginn 24. feb. sl. eftir langvarandi og þung veikindi. Naut hann umhyggju og hjúkrunar Ástu eiginkonu sinnar, sona og tengdadætra og heimahlynningar. Við andlát Einars er hart höggvið að eiginkonu hans, sem nú á rösku misseri horfir á eftir bróður sínum, mági og svila yfir móðuna miklu.

Ásta er vel af Guði gerð og tekur hún þessari reynslu sterk í sinni barnatrú og á mátt frelsarans Jesú Krists. Ég var barn að aldri, þegar móðir mín leiddi mig í heimili Árna og Jónu í Garðsauka í Vestmannaeyjum. Þar sá ég þá bræður Einar og Pál í fyrsta sinni. Einar var þá vetrarvertíð, á Gissuri hvíta VE, sem Árni átti hlut í og gerði út með sameignarmönnum sínum. Formaður var Alexander Gíslason frá Langagerði í Hvolhreppi. Kunnur sjósóknari og aflamaður á sinni tíð, löngu kenndur við Landamót í Eyjum. Í mannskaðaveðrinu 1. mars 1942, stórviðri, með snjókomu og dimmviðri, bjargaði hann Guðjóni Þorkelssyni frá Sandprýði og skipshöfn hans af vb. Blika, sem fengið hafði áfall og var að sökkva. Guðjón sagði mér persónulega, að hann hafi aldrei verið sami maður eftir á . Þennan vetur reri Einar á Óðni VE 317 með Guðjóni Jónssyni frá Heiði. Í sjóferðabók Einars kemur fram að hann hefur stundað sjó um 40 ára bil og alla tíð með aflakóngum og á skipum, sem náðu toppafla. Ég þekkti til að Einar, sem háseti, stóð ávallt í streði og hörkuvinnu. Lét hann engan bilbug á sér finna. Hann var með margkrýndum aflakóngi, Jóhanni Pálssyni, Sighvati Bjarnasyni, Guðmundi Vigfússyni og Páli Ingibergssyni á Reyni VE 15, einu glæsilegasta fleyi Eyjaflotans á sinni tíð. Sem gefur að skilja fékk Einar góðan hlut og var vel bjargálna maður.
Mikið gæfuspor gekk hann, er hann á gamlársdag 1940 giftist Ástu Steingrímsdóttur Magnússonar frá Miðhúsum í Eyjum. Reistu þau hjón sér vandað steinhús við Helgafellsbraut 6 og fluttu inn í það árið 1954. Húsið stendur ekki langt frá Eldfelli, en stóð af sér allar hrinur eldgossins og geymir vel þá sem búa þar. Einar og Ásta eignuðust tvo syni og gáfu þeim gott veganesti til lífsins. Þeir Hermann og Arnar gengu menntaveginn og tóku kennarapróf og Arnar stúdentspróf. Hermann er kennari og ritstjóri í Vestmanneyjum og býr á Breiðabólstað, kvæntur Guðbjörgu Ósk Jónsdóttur og eiga þau tvær dætur. Arnar er skólastjóri í Húnavallaskóla, kvæntur Margréti Jóhannsdóttur frá Akureyri og eiga þau einn son og tvær dætur. Báða þekki ég sem sóma- og reglumenn.

Við gosið 23.janúar 1973 varð mikil röskun á heimilishögum Ástu og Einars. Þau fóru frá Eyjum og fluttu til Akureyrar, en þar bjó þá Arnar sonur þeirra. Einar hóf störf í Stjörnuapóteki, sem lagermaður. Þar keyptu þau sér viðlagahús og bjuggu þar í nærri 14 ár. Einar undi hag sínum á Akureyri. Starfaði þarna við aðalgötu bæjarins. Kom ég þar ávallt á heimili þeirra, sem ilmaði af myndarskap og samstæðu þeirra hjóna. Við lögaldur Einars fluttu þau hjón til Reykjavíkur og bjuggu í eigin íbúð við Háaleitisbraut í Reykjavík. Þar fann maður sig ávallt heima.

Einar var sonur Jóns Pálssonar bónda í Ásólfskála og konu hans Þorbjargar Bjarnadóttur. Eignuðust þau 13 börn. Af þeim lifa Einar þau Páll, Ingibjörg, Sigurbjörg og Sigurlaug. Nú við leiðarlok er mikill heiðursmaður kvaddur og blessa ég áratuga kynni, sem aldrei féll skuggi á.
Einar J. Gíslason.


Engilbert Jóhannsson
F. 26. júlí 1905 - D. 8. janúar 1990.

Engilbert var fæddur að Brekku í Vestmannaeyjum, og hér ól hann allan sinn aldur. Foreldrar hans voru hjónin Kristín Árnadóttir og Jóhann Jónsson. Þau eignuðust 12 börn og komust 9 til fullorðinsára. Jóhann á Brekku var útgerðarmaður og húsasmiður og hjá honum lærði Engilbert húsasmíði en einnig stundaði hann sjómennsku á yngri árum.

Árið 1946 stofnaði Engilbert, ásamt félögum sínum, Smið h/f sem varð öflugt fyrirtæki og starfaði af miklum krafti fram að eldgosi 1973. Eftir það vann hann hjá Erlendi Péturssyni allt þar til hann lét af störfum. Ungur kvæntist hann Margréti Sigurðardóttur og eignuðust þau eina dóttur, Erlu sem býr í Garðabæ. Þau slitu samvistum. En á gamlársdag 1958 kvæntist hann Öddu Magnúsdóttur frá Siglufirði. Þau eignuðust einn son, Friðþjóf Örn en á heimili þeirra ólst einnig upp Sandra, dóttir Öddu og Mary, systurdóttir Engilbers. Þá ólst þar einnig upp ísleifur, sonur Söndru.

Þau hjón bjuggu lengst af að Illugagötu 15 sem þau byggðu en síðustu þrjú árin bjuggu þau að Eyjahrauni 3. Engilbert var drengur góður og ljúfmenni, geðprúður og vel látinn af öllum sem hann þekktu.


Sigurvin Brynjólfsson
F. 24. júlí 1951 - D. 20. mars 1990.

Á tímum nútímatækni, tímum nýrra, stórra, velbúinna skipa, tímum þar sem björgunartæki líta dagsins ljós svo til daglega, verður okkur líklega sjaldnar hugsað til þess hverjar hættur fylgja sjómannsstarfinu. Það er svo freistandi að hugsa með sjálfum sér: Flotinn er svo vel búinn í dag að það getur ekkert gerst. Svo allt í einu erum við minnt á hve hverfult lánið er, sá er við hittum glaðan og reifan á bryggjunni í gær, er ekki lengur á meðal okkar. Það minnir okkur enn á að sjómennska er hættulegt starf, hefur ávallt verið það og verður það. Það minnir okkur líka á að halda vöku okkar.
Þegar Sjöstjarnan VE fórst, hinn 20. mars í vetur, komust fimm skipverjar af, einn drukknaði, Sigurvin Brynjólfsson. Sigurvin heitinn var Reykvíkingur, byrjaði sína sjómennsku ungur að árum og hafði ýmsu kynnst í því starfi. Hann var nokkurn tíma á farskipum en þegar á leið hallaði hann sér að starfi fiskimannsins sem varð hans aðalstarf þar til yfir lauk. Til Eyja kom hann fyrst í gosinu 1973 en fluttist hingað alkominn fyrir þremur árum. Hér starfaði hann við ýmis störf, bæði til lands en þó aðallega til sjós. Hann reri bæði á togurum og bátum héðan, m.a. Gjafari og Vestmannaey en lengst af þó á Sjöstjörnunni þar sem hann hafði verið í meira en ár og undi þar vel sínum hag.

Ég kynntist Sigurvin fyrst fyrir tæpum tveimur árum og þótt við yrðum aldrei nánir vinir, þróaðist með okkur kunningsskapur. Aldrei man ég öðru vísi eftir honum en kátum og hressum, bjartsýnum á Iífið og tilveruna þótt oft blési á móti. Sigurvin átti við sjúkdóm að stríða, sjúkdóm sem gert hafði honum lífið leitt og nær gengið frá honum. En með þrautseigju og hjálp Guðs og góðra manna tókst honum að sigrast á erfiðleikunum og lifa eðlilegu lífi með þann sjúkdóm sem hann sjálfur vissi að hann yrði ekki læknaður af. Þá fyrst, er hann gerði sér það ljóst, fannst honum hann vera tilbúinn að takast á við lífið á nýjan leik, hasla sér völl með hinum. Sigurvin átti eitt hjónaband að baki. Sonur hans, Brynjólfur 18 ára gamall, var honum kær og var oft hjá föður sínum hér í Eyjum. Á síðasta ári kynntist hann stúlku hér í Eyjum, Þorbjörgu Einarsdóttur og höfðu þau hafið sambúð, full af trú og von á framtíðina. Þá kom kallið.

Þótt ég hafi hvorki þekkt Sigurvin lengi né mikið er ég þakklátur fyrir þau kynni. Hann var góður drengur, ávallt reiðubúinn að rétta hjálparhönd ef til hans var leitað og eftir því var leitað oftar en margan kynni að gruna. Þorbjörgu, Einari og öðrum ástvinum sendi ég samúðarkveðjur.
Sigurgeir Jónsson.


Ólafur Markús Guðjónsson
F. 12. nóvember 1918 - D. 28. apríl 1990.

Ólafur var fæddur í Súðavík en fluttist barnungur með foreldrum sínum, Guðjóni D. Brynjólfssyni og Guðrúnu Jónsdóttur til Ísafjarðar þar sem hann ólst upp. Faðir hans var sjómaður, ungur fór Ólafur til sjós og sjómennska varð ævistarf hans. Hann var bæði á bátum og togurum um áratuga skeið. Hann var traustur starfsmaður, það sem einkenndi hann umfram annað var heiðarleiki, vinnusemi og hirðusemi. Það var veganesti hans á lífsins göngu.
Árið 1947 kvæntist hann Svövu Guðmundsdóttur og áttu þau heimili á Ísafirði. Þau eignuðust tvö börn, Sonju og Gunnlaug en ólu einnig upp dótturdóttur sína, Mörtu. Vegna veikinda árið 1968 varð Ólafur að hægja á ferðinni en eftir að hann kom hingað til Eyja vann hann áfram við sjómennsku og útgerð hjá Gunnlaugi syni sínum. Sjómennska hafði verið ævistarf hans og var áhugamál hans allt til hinstu stundar. Alla tíð var hann mikill Ísfirðingur og átti góðar minningar þaðan en hér í Eyjum undi hann einnig hag sínum vel.
Hin síðari árin gafst honum góður tími til að sinna öðru áhugamáli, bókalestri, og þá var hann áhugasamastur um þjóðlegan fróðleik. Ólafur var barngóður og börn og bækur voru það sem stóð hjarta hans næst. Hann var fastur fyrir þegar því var að skipta og ekki allra en hlýr og traustur þeim sem næstir honum stóðu og sérstaklega þeim sem minnimáttar voru.


Hans Ólafsson
F. 4.október 1933 - D. 13. maí 1990

Þrettánda maí siðastliðinn lést á Landakotsspítala Hans Ólafsson vélstjóri.
Haddi eins og hann var alltaf kallaður fæddist í Reykjavík, en fluttist með foreldrum sínum tveggja ára til Vestmannaeyja þar sem hann átti heima allt til 1973 að hann hraktist upp á land eins og aðrir Vestmannaeyingar og átti ekki afturkvæmt nema sem gestur.
Haddi var sonur þeirra hjóna Helgu Hansdóttur og Ólafs Ólafssonar og voru þau hjón kennd við Hvanneyri og föður hans þekktu allir sem Óla á Létti.
Haddi var elstur af fimm systkinum og ólst upp eins og flestir Eyjapeyjar með annan fótinn á bryggjunni og hinn um borð í bátunum. Síðan er hann náði því að komast með báða fætur um borð var það á m/b Veigu á síldveiðum í Hvalfirði. Eftir það var Haddi til sjós mestan starfsaldur sinn í Eyjum. Hann lærði vélstjórn í Eyjum og vann sem slíkur í fjölda ára, en gaf sér tíma til að læra vélvirkjun hjá Völundi h/f.

Ég man eftir Hadda sem vélstjóra á Ísleifi IV og síðast á Árna í Görðum og farnaðist honum ávallt vel í því starfi. Haddi kvæntist 31.12. 1954 Rögnu Einarsdóttir og varð þeim tveggja barna auðið. Helgu Rósu og Einars Vignis.
Þau hjónin byggðu sér hús á Boðaslóð 13 og bjuggu þar til 1973, en upp frá því bjuggu þau í Hafnarfirði.

Haddi kom á hverju ári til Eyja og stundum oftar enda voru Eyjarnar honum ástfólgnar. Hann var alltaf og fyrst og síðast Vestmannaeyingur.

Haddi minn, systir þín saknar góðs bróður, ég sakna góðs vinar og mágs og börnin okkar sakna góðs frænda. En þó veit ég að söknuður konu þinnar og barna ykkar er miklu meiri og bið ég Guð að styrkja þau í sorg sinni. Haddi minn, Guð blessi minningu þina og megi hann leiða þig að þeirri strönd sem við komum öll til með að nema fyrr eða síðar.
S. D. S.