Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1987/Ísey sjókona úr Mýrdal

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Ísey, sjókona úr Mýrdal


Ísey og Sigmundur með frumburðinn Heiðmund.

Flestir eldri Eyjamenn vita, eða vissu, að Katrín Unadóttir (1878-1950) var síðasta sjókonan sem reri frá Söndunum í Rangárvallasýslu eða frá Fjallasandi. Um Katrínu var þáttur í þessu blaði í fyrra.
Hitt vita líklega færri, að hér býr enn kona, sem reri á opnu skipi úr Mýrdal fyrir nær 60 árum, frú Ísey Skaptadóttir, sem lengi bjó á Vestmannabraut 25. — f bókinni Sjósókn sunnlenskra kvenna, eftir Þórunni Magnúsdóttur segir: ,,Ísey Skaptadóttir er búsett í Vestmanna-eyjum. Hún er fædd 1911 á Fossi í Mýrdal, en alin upp í Suður-Götum. Hún reri á Frið, áttæringi sem Einar Brandsson var með. Nokkra róðra úr Reynishverfi árið 1928. ísey átti þá heima í Görðum ..."
(Heimild: Einar H. Einarsson, bóndi og fræðimaður í Skammdalshóli).
Frú Ísey var spurð um þessa sjósókn hennar veturinn 1928, þegar hún var sautján ára. Hún sagðist hafa róið nokkra róðra á Svan, sem mundi hafa verið áttæringur. Formaðurinn var frændi hennar Jón Gíslason, bóndi í Norður Götum. Ísey sagði, að sér hefði þótt skemmtileg tilbreyting að fara til sjós. Þó hefði hún ekki verið alveg laus við sjóveiki. Hún kvaðst muna það vel, að hún gaf gamalli konu fyrsta fiskinn sem dró á færið sitt. Sá fiskur er nefndur Maríufiskur sunnanlands.
Vegna þess að Þórunn nafngreinir annað skip og annan formann en Ísey, var haft samband við Einar H. Einarsson í Skammadalshóli. Hann segir um þetta: ,,Þær munu báðar segja rétt frá, en hvorug segja nema hálfan sannleika, hefur þar orðið einhver niðurfelling hjá Þórunni.
Á vertíð 1928 var haldið út tveimur stórum áttæringum úr Reynishverfi, „Friður", sem Einar Brandsson var formaður á og „Svanur" sem Jón Gíslason var formaður á. Þegar róðrar hófust rerum við Ísey nokkra róðra á Frið, en fljótlega voru þar tekin þorskanet sem aðalveiðarfæri og varð þá til lítils fyrir hálfdrætting að vera þar um borð, því þá var siður að unglingar yrðu a.m.k. sinn fyrsta vetur að vera hálfdrættingar. — Svo Ísey mun þá hafa farið á Svan til Jóns föðurbróður síns."
Þess má geta, að Einar er frændi íseyjar og voru þau skólasystkin í barnaskóla. Raunvísindadeild Háskólans gaf út rit eftir Einar um Eldgosið á Heimaey 1973 (Rv. 1975). Efni þessa rits, tvö hefti, er dagbækur og skýrslur um aflestur af skjálftamæli á bæ Einars og um áhrif flúors frá gosinu á gróður á svæðinu frá Eystri-Rangá að Mýrdalssandi.

Ísey og Sigmundur með Róbert á milli sín. Aftantil standa bræðurnir, Arnar, Heiðmundur og Ingólfur.

Einar hefur nú ritað greinargóðan þátt um báða formenn Íseyjar Skaptadóttur, sem birtist hér á eftir. —Ísey, fædd, 13. mars 1911 á Suður Fossi. Foreldrar hennar voru Margrét Jónsdóttir, 1877 og Skapti Gíslason. Var hjá foreldrum sínum til 1912 og fór þá að Suður Götum og var þar til 1925. Fór þá vinnukona að Görðum 1925 og var þar til 1934. ísey giftist 1934 Sigurmundi Runólfssyni (1904-1974). Sigurmundur var Stokkseyringur, af kunnri ættsjósóknara. Hann kom fyrst til Eyja 1920 til vertíðarstarfa. — Sigurmundur var um það bil hálfa öld starfsmaður útgerðar Halkions, sá um uppsetningu veiðarfæra og fleira. Vann öll sín störf af trúmennsku og dugnaði segir í eftirmælum um Sigurmund. Á sumrin vann Sigurmundur oft að múrverki eða verkstjórn.
Börn þeirra Íseyjar: Heiðmundur stórkaupmaður, Sólólfur, dó ungbarn, Ingólfur trésmíðameistari, Arnar forstjóri, Guðjón Róbert trésmíðameistari.
Haraldur Guðnason