Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1986/ Einu sinni var

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Séra Kjartan Örn Sigurbjörnsson:


Einu sinni var


Ósjaldan hef ég heyrt um það talað í vetur að það sé mikil breyting við höfnina miðað við það sem áður var, þegar vertíð var og hét. Og það er ekki laust við trega og eftirsjá þegar hugsað er til baka.
Á fáum árum hefur orðið gjörbreyting á allri útgerð og vinnsluháttum. Flest er það áreiðanlega stórlega til bóta. Og margt horfið sem engin eftirsjá er í. En það er skiljanlegt að margir sakni þeirra gömlu góðu daga þegar fólk streymdi á vertíð í Eyjum og líf og fjör hvarvetna.
En það er ekki bara í landi sem breytingin hefur átt sér stað. Það er nú aldeilis munur á bátunum sem voru á síld á Siglufirði fyrir 30-40 árum og vertíðarbátum nú á því herrans ári 1986. Og aðstaðan öll fyrir sjó-mennina gjörbreytt.
Á Siglufirði var rekið Sjómannaheimili og þangað komu menn til að geta farið í bað og til að lesa blöðin og póstinn um Ieið og drukkið var kaffi og bréf skrifað heim. Já, það er stórkostleg breyting á aðstöðu sjó-manna um borð í bátum þeirra.
En hafið er það sama og enn geta verið hættur á báðar hendur og því nauðsynleg öll aðgát. Það kemur ekkert í staðinn fyrir það að hafa skilningarvitin opin og í lagi.
Það má sannarlega þakka fyrir það sem hefur verið gert og vel hefur tekist en góð tæki og góðir bátar koma aldrei í staðinn fyrir góðan áhöfn. Það hefur heldur ekki breyst að þrátt fyrir tækni og vísindi þá þarf maðurinn á Guði að halda ef hann vill halda áttum og ná heill að landi. Hvort sem við siglum í kröppum sjó eða lygnum þá þurfum við á leiðsögn að halda.
I fermingarsálmi segir: ,,haf Guðs orð fyrir leiðarstein í stafni og stýrðu síðan beint í Jesú nafni á himins hlið".
Hvort sem við vinnum í landi eða á sjó þá er það heilladrýgst að gefa gaum þeim boðskap sem varðar heill mannsins, bæði nú og um alla framtíð, alla eilífð. Eg óska sjómönnum til hamingju með daginn og velfarnaðar í starfi og lífi. Guð blessi ykkur og varðveiti frá öllu illu.
KJARTAN ÖRN.