Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1986/Upphaf dragnótaveiða hér við Eyjar
Spjallað um og við Willum Andersen.
Undirritaður brá sér í heimsókn til þeirra sæmdarhjóna Lóu og Willums Andersens að Heiðarvegi 55 hér í bæ. Erindið var að pumpa Willum nokkuð um hans sjómannsævidaga, því að eins og öllum hér er vel kunnugt um hefur allt ævistarf hans eins og að vísu allra vormanna þessa byggðarlags, verið sjómennsku bundið frá unglingsárum til ellidaga.
Mér var boðið bæði í eldhús og stofu, hellt var á könnuna og upphófst létt spjall, kryddað með hvellum og síunglegum hlátri Lóu, þrátt fyrir silfurgrátt hárið. Og ekki var heldur laust við að ég sæi örla fyrir brandarablikum í augum Willums þegar spjallað var um gamla og góða daga. Það er nefnilega svo að þó að nú státi hér Hrekkjalómar og Hildi-brandar falla þeir alveg í skugga fyrir skipshafnargrúppum fyrri tíma en þær skipuðu oft knáir sveinar sem margir gerðu garðinn frægan sem verðandi fyrirmyndar-skipstjórar.
Á duggarabandsárum þessara manna voru landlegudansleikir oft nokkuð róstu- og tilþrifamiklir. Ég minnist þess sem peyi frá þessum árum að oftlega var spurt eftir dansiball hverjir hefðu slegist og hver hefði fylgt hverri heim. Það var ekki heiglum hent að ybbast upp á skipsfélaga þegar þeir voru saman komnir, einn fyrir alla og allir fyrir einn. Ég held að þeir hafi verið látnir óáreittir með sín einkamál.
Hér verður ekki fjallað um ævintýri þessara kappa en varðandi Willum eftir að hafa sjálfsagt róið á ýmis fjarlæg mið — brá hann sér á heimamiðin rétt yfir götuna frá Sólbakka að Kiðjabergi og hertók þar eina af heimasætunum, Guðrúnu Ágústu (Lóu) Agústsdóttur. Þau gengu í hjónaband 4. júní 1933 og hófu búskap að Kiðjabergi, húsi foreldra brúðarinnar. Þau hjónin eignuðust fimm börn, sem öll eru á lífi, og gleðjast nú í ellinni yfir nítján barnabörnum og níu barnabarnabörnum.
Þegar heim var komið að Saltabergi eftir spjallið við Willum og ég fór að glugga í rissblokkina, sá ég strax að þar voru margir áhugaverðir þættir og til þess að gera þeim viðhlítandi skil mundi það vera efni í mörg sjómannadagsblöð. Ég verð því að stikla á stóru og þess vegna verður þetta nokkuð laust í reipunum, farið úr einu í annað.
Willum fæddist að Löndum hér í Eyjum 30. september 1910. Foreldrar Jóhanna Guðjónsdóttir og Hans Peter Andersen, danskur maður, valinkunn sæmdarhjón. Árið 1919, um haustið, kaupir faðir Willums sinn fyrsta bát frá Danmörku, Skógafoss VE 236, 12-13 tonna tvístefnung, og sigldi honum hingað yfir Atlantsála hinn margfrægi skipstjórnarmaður Lúðvík N. Lúðvíksson.
Willum er þegar þetta skeður 9 ára snáði. Ólst hann upp eins og aðrir Eyjapeyjar í nánu sambandi við föður sinn, bátinn og sjóinn. Oftlega fékk hann kornungur að fara með föður sínum í róður og var jafnan drullusjóveikur, og hét því eins og ég og margir fleiri peyjar að fara aldrei oftar á sjó. En fyrir honum fór eins og flestum öðrum að þegar á land var komið og velgjan liðin hjá, varþegar farið að falast eftir næsta róðri. Já, það er furðulegt hvað hafið heillar, sem betur fer, því að þeir væru ekki margir sjómenn þessa lands ef allir gæfust upp eftir fyrstu ælu.
Árið 1927, þá 17 ára gamall, hófst svo alvöru-sjómennska Willums er hann réðst á reknet með Jakobsen, norskum manni, sem skipstjóra á 24 tonna bát og hét sá Leó, norskbyggður. Jakobsen þessi kvæntist hér konu er Kristín hét og bjuggu þau í húsinu Sæbóli við Strandveg. Hann var bæði formaður og smiður og lifrarbræðslumaður góður.
Snemma árs 1929 sótti Willum vélstjóranámskeið hér hjá Þórði Runólfssyni vélfræðingi og öðlaðist þar með vélstjóraréttindi og réðst sem slíkur til Magnúsar Jónssonar frá Sólvangi á bátinn Herjólf VE 276. Það fer ekki milli mála að þar lenti efnilegur ungur maður hjá frábærum læriföður varðandi hvers konar sjómannsstörf og formennsku. Það fór því að líkum að sama ár að hausti lauk Willum skipstjórnarprófi hjá Sigfúsi Scheving frá Heiðarhvammi.
Svo skeður það árið 1930 að Willum verður þátttakandi í fyrstu raunhæfum veiðum í snurvoð hér við land. Veiðiaðferð þessi er uppfundin í Danmörku, og kallast nú dragnót. Ég hefi varðandi upphaf þessara veiða reynt að afla skriflegra heimilda um efnið, en án árangurs, þrátt fyrir leit í skjalasafni Fiskifélags íslands og víðar. Það verður því að teljast, þangað til annað kemur í ljós, að frásögn Willums um þessar veiðar sé það fyrsta sem fært er í letur þar að lútandi.
Árið 1923 réð aflakóngurinn og athafnamaðurinn Gísli Magnússon í Skálholti til sín danskan mann, Sören að nafni, á 12 tonna tvístefnung er Ægir hét og skyldi þar með reyna snurvoðarfiskirí hér við Eyjar að danskri fyrirmynd. Þetta tókst nokkuð vel hvað aflabrögð snerti, en gallinn var sá að ekki var hægt á þessum tíma að nýta aflann hér í landi því að ekki var tæknin komin á það stig hér að framleiddur væri ís eða nokkur frystigeymsla til. Forsendan fyrir þessum veiðum varðandi nýtingu var því ekki fyrir hendi. Dugnaðarmaðurinn Gísli gleymdi samt ekki þessum möguleika og árið 1930 hófst hann handa í annað sinn og réð til formennsku á bát sinn, Ágúst VE 250, 36 lestir, sægarpinn Þorvald Guðjónsson frá Sandfelli. Með honum voru um borð stýrimaður Jón Benonýsson frá Búrfelli, síðar nafnkunnur skipstjóri og útgerðarmaður, vélstjóri Mikael Sörensen, norskur maður og hér búandi um árabil. Aðrir í áhöfninni voru Ólafur Jónsson frá Brautarholti, matsveinn, og hásetar sonur Gísla, Óskar, síðar frægur togaraskipstjóri og síldarkóngur með meiru, Björn Magnússon frá Fáskrúðsfirði, Einar Ingvarsson frá Götu hér og sögumaður minn, Willum Andersen.
Þarna var komið í gagnið snurvoðarspil og afdráttarmaskína. Veiðarfærið var þess tíma kolavoð og hamtóg, 10 rúllur á borð og hver rúlla 120 faðmar. Dregið var fyrir föstu, það er að báturinn lá við anker þegar tógin og voðin voru dregin inn í hann. Veiðar þessar hófust snemma í júnímánuði og stóð til loka ágúst. Fiskað var þann tíma hér við Eyjar og aflaðist vel. Landað var á hverjum laugardegi í Sænska frystihúsið í Reykjavík og þar þá tekinn ís til næstu ferðar, því að sjálfsögðu var aflinn ísaður í lestina. Launin hjá hásetum voru 200 krónur á mánuði og 10 aura premía fyrir hverja veidda körfu, og þóttu þetta góð kjör. Aflinn var að meginuppistöðu sólkoli og rauðspretta. Kolinn var síðan heilfrystur í Reykjavík og fluttur í trékössum á breskan markað. Þegar kominn var september var veiðisvæðið við Snæfellsnes og áfram landað í Reykjavík.
Þessi frumraun með dragnót tókst vel og lofaði góðu varðandi afkomu svo að fljótlega hófu fleiri útvegsmenn þessar veiðar með góðum árangri. Árið 1931 leggjast þessar veiðar niður að mestu leyti, en eftir að ísframleiðsla hófst hér 1932 og heilfrysting varð möguleg hleypur mikil gróska í þennan útveg, og verður dragnótin uppistaðan í sumarafla Eyjabáta hér á heimamiðum allt fram til ársins 1950.
Nú er mikið rætt og ritað um gámafisk og sýnist sitt hverjum. En þetta er ekkert nýtt fyrirbæri í útgerðarsögu Vestmannaeyja. Þessi sölumáti var mikið notaður á árum áður, að vísu ekki í gámum heldur í heimasmíðuðum trékössum og fiskurinn vel ísaður. Til gamans og fróðleiks birtist hér ljósrit af einum sölureikningi frá þessum tíma. Reikningur þessi, þótt handskrifaður sé, ber með sér nákvæmni og snyrtimennsku fyrri tíma, þó að ekki hafi verið til að dreifa rit- eða reiknivélum, að ekki sé minnst á tölvuskjái nútímans.
Það er nú orðið ljóst eins og fram kemur í upphafi þessara skrifa að þegar rýmið þrýtur í þessu blaðið er varla farið að minnast á aðalpersónuna, Willum. Ég valdi þann kostinn að gera dragnótinni nokkur skil því að Willum er sá eini sem eftir lifir af þeim mönnum sem fyrstir Íslendinga hófu veiðar í dragnót.
Frásögn af sjómannsferli Willums í stórum dráttum bíður því næstu útgáfu þessa blaðs. Verður þar frá ýmsu að segja því að hann á að baki hálfrar aldar farsæla sjómannsævi.
Hlöðver Johnsen, Saltbergi.