Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1986/Stefán Guðlaugsson útvegsbóndi, Gerði

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Stefán
Guðlaugsson, útvegsbóndi í Gerði


Oft veitti ég þessum manni athygli á mínum fyrstu árum í Vestmannaeyjum. Mér fannst hann vera hinn dæmigerði sonur Eyjanna, rétt eins og hann hefði verið klipinn út úr berginu og meitlaður svona snilldarlega til. Það var sem brosið á veðurbörðu andliti minnti á morgunskin á Heimaey eftir stormasama nótt. Eitt sinn átti ég erindi við hann, sem mér þótti allt annað en gott. Ég fór um borð í bát hans til að segja honum frá óhappi sem henti mig. Það vildi til með þeim hætti að bátur sá er ég var að leggja að bryggju lenti utan í bát hans með þeim afleiðingum að öldustokkurinn brotnaði lítið eitt.
Er ég kom niður í lúkkarinn sátu menn að snæðingi, kjöt og kjötsúpa var á borðum. Þegar ég sagði frá þessari slysni minni færðist glettnislegt bros yfir andlit Stefáns og hann nánast skipaði með gamansemi í röddinni: „Sestu og fáðu þér súpu með okkur!"
Þarna við borðið sátu tveir synir hans. Ég vissi að þeir voru vel næmir fyrir því sem broslegt var, enda kvað við hlátur. Ég þáði súpuna og kjötið var heldur ekki látið ósnert. Þetta var ljúffeng máltíð, enda var matsveinninn enginn annar en hinn harðsnúni dugnaðarmaður, Baldvin Skæringsson. Í fyrrasumar kom ég út til Eyja. Sumri var farið að halla. Ég tók mér göngu síðla kvölds út í hina hljóðu ágústnótt, sem hvergi er eins og í Vestmannaeyjum. Það hafa víst flestir reynt að stundum tekst manni að ganga á vit gamalla ævintýra. Eg settist niður til hvíldar skammt frá þeim stað sem Gerði hafði verið.
Þá komu þessar hendingar fram í huga minn: „Hann Stefán bóndi í Gerði var stæðilegur karl". Nú læt ég þær ásamt framhaldinu fylgja þessum skrifum.

Frá vinstri: Stefán S. Stefánsson, Stefán Guðlaugsson útvegsbóndi, Stefán Geir Gunnarsson. — Mynd Gísli Grímsson

Stebbi í Gerði
Hann Stefán bóndi í Gerði
var stæðilegur karl
og stýrði Halkion.
Af teprulausum drengjum
var hann tignaður sem jarl
með táp og aflavon.
Á ferðum sýndi hann kosti hins fróma og trausta manns og fékkst ei neitt um það þótt Ránardætur lékju sér og létu skipið hans leggjast sitt á hvað. Hann guggnaði ekki hót þó að gustaði um kinn og græðir ygldi brá. Ef þreyta sótti á fætur og þynntist svefntíminn því sagði hann engum frá.
Stundum fór af gaman ef stormur ýfði leið. Þá stoðin hans var sú að eiga góða konu sem eftir honum beið með ást og von og trú.
Glettni var í svipnum er gutlaði við súð og „gulur" fyllti lest. Drengur þekkti miðin við dranga, sker og flúð og dró þar vænst og flest.
Seiglast áfram tíminn saman renna ár síst er nokkur bið. Aldinn fer í lagið sitt orkurýr og grár, þeir yngri leita á mið.
Á súðinni var timbur en seinna varð það stál er sigldi fram á mið Svona gengur lífið og sýnist vera mál að synir taki við.
Ljúfust verður hvíldin þeim sem lokið hafa raun og lækning best til þrifa. Gerði sést ei lengur það er gengið undir hraun en góðar sagnir lifa.
Hafsteinn Stefánsson.