Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1986/Net h.f.

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Net hf. Vestmannaeyjum


Net hf. við Hlíðarveg

í Vestmannaeyjum, stærstu verstöð landsins, þar sem fjöldi fiskiskipa af öllum stærðum er gerður út, er þýðingarmikið að fyrir hendi sé góð þjónusta fyrir fiskiskipaflotann. Ein þessara þjónustugreina, sem er hvað mikilvægust fyrir flotann, er netagerð því að ekkert fikiskip fiskar án góðra veiðarfæra.
Hér í Eyjum hafa ávallt verið rekin fjölmörg góð netaverkstæði, sem auk þjónustu við Eyjaflotann hafa veitt mörgum skipum frá öðrum verstöð þjónustu. Eitt þessara netaverkstæða er Net hf. Það var stofnað sumarið 1963 af þeim Finnboga Ólafssyni netagerðarmeistara, Óskari Haraldssyni netagerðarmanni og Júlíusi Hallgrímssyni fyrrverandi skipsstjóra, ásamt eiginkonum þeirra. Ekki voru þeir félagar með öllu ókunnugir netagerð því að þeir Finnbogi og Óskar hófu að vinna í netum hjá Netaverk- stæðinu Nót árið 1943, en þar var yfirverk- stjóri Ingólfur Theódórsson netagerðar- meistari. Þremur árum síðar, eða 1946, keypti Ingólfur verkstæðið og nefndi það Netagerðina Ingólf hf.
Hjá því fyrirtæki störfuðu þeir Finnbogi og Óskar allt þar til þeir stofnuðu Net hf. Árið 1963 eins og áður sagði. Júlíus, mágur Óskars, hafði til fjölda ára verið til sjós en var kominn í land og vann einnig hjá Netagerð Ingólfs síðustu árin fyrir stofnun Nets hf.
Net hf. hóf starfsemi sína í Nýju-Geirseyri. Verkefni í fyrstu voru mikil svo að brátt varð Ijóst að húsnæðið yrði of lítið. Var þá hugað að nýju húsnæði og ákveðið að byggja nýtt verkstæðishús. Lóð fékkst við Hlíðarveg 5. Var bygging á 1000 fermetra verkstæði á tveimur hæðum hafin árið 1965. Ári síðar var húsnæðið tilbúið til notkunar.Í þá daga þóttu aðstæður á þessu verkstæði hinar bestu enda flest veiðarfæri meðfærileg. Nú, tuttugu árum síðar, er Net hf. enn til húsa við Hlíða-veginn, en á undanförnum árum hefur húsnæðinu verið breytt nokkuð svo að hægara sé að meðhöndla hin stærri veiðarfæri,sérstaklega loðnunætur.
Starfsmenn Nets hf. hafa einnig þjónað fiskiskipum á erlendri grund. Var það á árinu 1969 er þeir Finnbogi Ólafsson, Hallgrímur Júlíusson og Sigfús Sveinsson fóru til Ameríku en þar voru nokkrir íslenskir nótabátar við síldveiðar.Í framhaldi af þessari Ameríkuferð hófust allmikil viðskipti við aðkomubáta og hafa þau farið vaxandi. Þrátt fyrir mikil viðskipti Eyjaflotans við Net hf. vekur það athygli að mörg undanfarin ár hafa viöskipti viö aðkomubátana verið yfir 50% af veltu fyrirtækisins.

Starfslið í Net hf. á fyrstu árunum í Nýju Geirseyri. Frá vinstri: Haraldur Júlíusson, Hallgrímur Júlíusson, Þórður Sveinsson, Finnbogi Ólafsson, Sigfús Sveinsson, Friðrik Ásmundsson, Kristján Óskarsson, Júlíus Hallgrímsson, Óskar Haraldsson og Högni Magnússon

Gosárið, 1973, fluttist starfsemin á meginlandið og um tíma var verkstæðið rekið bæði í Reykjavík og Keflavík. Árið eftir, eða 1974, var starfsemin aftur komin í sitt fyrra horf við Hlíðaveginn og verkstæðunum á meginlandinu lokað. Allt frá upphafi hefur Net hf. veitt alhliða veiðarfæraþjónustu. Meginhluti verkefna fyrirtækisins hefur þó verið nótaviðgerðir og nótauppsetning. Á fyrstu árum fyrirtækisins voru það síldar-og þorsknætur en hin síðari ár hafa loðnunætur verið allsráðandi. Má segja að vinna við viðgerðir á loðnunótum dreifist yfir allt árið, enda eiga flestir loðnubátar tvær loðnunætur, vetrarnót og sumarnót. Af 48 loðnuveiðiskipum eru 8 í föstum viðskiptum við Net hf. Þeir eru Eyjabátarnir Gullberg og Huginn, sem hafa verið í viðskiptum frá upphafi, Ketlavíkurbátarnir Örn og Erling, Grindavíkurbátarnir Albert og Þórshamar og Austfirðingarnir Hilmir og Hilmir II. Einnig hafa verkefni við trollviðgerðir og trolluppsetning verið nokkur frá upphafi. Aftur á móti hefur vinna við þorskanet minnkað á verkstæðum, enda færst í vaxandi mæli til útgerðanna sjálfra.
Rekstur Nets hf. hefur frá upphafi gengið nokkuð vel enda hafa verkefni ávallt verið næg. Þó má segja að visst erfiðleikatímabil hafi skapast þegar loðnuveiðar voru bannaðar um tveggja ára skeið fyrir nokkrum árum. Þá voru fastráðnir starfsmenn um 10-12 talsins, og til þess að ekki þyrfti að koma til uppsagna var leitað nýrra verkefna um skeið.

Núverandi starfslið Nets hf. Fremri röð frá vinstri: Árni Þór Gunnarsson, Hallgrímur Júlíusson, Jóhann B. Georgsson og Sigbjörn Þór Óskarsson. Aftari röð frá vinstri: Hörður Óskarsson, Finnbogi Ólafsson, Haraldur Óskarsson, Marteinn Guðjónsson, Júlíus Hallgrímsson, Sigfús Sveinsson og Haraldur Júlíusson

Það hefur oft verið sagt að dýrmætasti auður hvers fyrirtækis sé starfsmenn þess. Hjá Net hefur frá upphafi starfað fjöldi úrvalsnetagerðarmanna og eiga sumir þeirra Iangan starfsaldur að baki. Auk stofnendanna má nefna Þórð Gíslason, Óskar Jónsson, Bjarna Jónsson, Sigfús Sveinsson sem hefur starfað hjá Net frá stofnun, Martein Guðjónsson og Jóhann B. Georgsson. Einnig hafa tveir synir Júlíusar, þeir Haraldur og Hallgrímur, unnið í fyrirtækinu um langt skeið. Það sama má reyndar segja um elsta son Óskars, Harald. Síðar hóf yngsti sonur Óskars, Sigbjörn Þór, störf hjá Net. Þannig hafa starfsmenn. ungir sem aldnir, starfað saman sem ein stór fjölskylda og hefur starfsandi ávallt verið góður. Af fyrrnefndum starfsmönnum hafa fimm Iokið námi í netagerð hjá Net hf., en alls hafa þeir Finnbogi, Óskar og Júlíus útskrifað sex netagerðarsveina. Nokkur þáttaskil urðu hjá Net á síðast ári, en í ágúst fell frá einn stofnendanna, Óskar Haraldsson. Hafði Óskar þá starfað við netagerð í 42 ár. Í nóvember urðu síðan eigendaskipti á fyrirtækinu. Finnbogi, Júlíus og Ásta Haraldsdóttir, ekkja Óskars heitins, seldu þá öll sín hlutabréf. Kaupendur voru þrír starfsmenn Nets sem fyrr voru nefndir, þeir Hallgrímur Júlíusson, Haraldur Júlíusson og Haraldur Óskarsson, ásamt Herði Óskarssyni viðskiptafræðingi sem er bróðir Haraldar.
Þannig má segja að Net hf. sé komið í eigu næstu kynslóðar netagerðarmanna sem væntanlega munu halda merki stofnendanna á lofti, en Net hf. hefur nú verið starfrækt í 23 ár.
Hörður Óskarsson