Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1986/Ljóð

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Ljóð eftir
Guðjón Weihe


Hvern varðar?
Meðan vínið mannsins hjarta gleður og máninn sendir fölvað skin um láð, í Herjólfsdalnum eitt og annað skeður sem aldrei verður nokkurs staðar skráð. Hvern varðar um þótt deyi rónaræfill, rökkurhulan mörgum er svo blíð? Og hvað er þreyttum þægilegri svæfill en þúfukollur upp í grænni hlíð?
Það er margt sem kvenmanns hjörtu kætir, kvöldin eru veiðitímabil. Og þegar náttar draumsýn meyju mætir, mikið er þá gott að vera til.
Meðan bálsins logar sálir leiða að lautu þar sem allt er kyrrt og hljótt, hvern varðar um þó kona geri greiða góðum vini þessa ágústnótt?
Og hvern varðar um þá glóðir dalsins dvína og dimmir skuggar nætur halda vörð, að Eyjakarlar eiginkonum týna og aðrar konur fylla þeirra skörð?
Guðjón Weihe 7. júlí 1985

Fyrirboði
Dögun, burtu farðu frá mér færðu öðrum yndis gnótt.
Ég þrái fuglinn sem að flaug hér fyrir gluggann minn í nótt.

Tunglið lýsti á litlar fjaðrir, lítið nef og augu skær.
Söngva hljóðin engir aðrir eiga svona hrein og tær.

Mér virtist sem hann væri að segja: Viltu fylgja mér á leið,
þangað sem að dagar deyja og draumar hylla þagnareið.

0, ég þrái fugli að fylgja freista mín þau huldulönd,
þar sem aldrei brotnar bylgja, í bláma sé ég þessa strönd.

Þú árdags fagur rauði roði reyndu nú að skilja það,
að þessi fugl var fyrirboði fagurs lífs á öðrum stað.

Því bið ég aftur: Farðu frá mér, ég falla vil í svefninn rótt.
Ég þrái fuglinn sem að flaug hér fyrir gluggann minn í nótt.
Guðjón Weihe 30. nóvember 1983

Vetrarnótt
Ó, vetrarnátta húmið hljótt
sem hylur Eyjasundið.
Allt þér verður allt of fljótt
einhvern veginn bundið.
Þú vestur roðans væna glit
vefur úða þéttum
og æ þú gefur gráan lit
grundu, sæ og klettum.
O, vetrarnótt, ó, vetrarnótt

vafurlogans móðir.
Þú allt of fljótt, já allt of fljótt
felur aftans glóðir.

Af þínum völdum blikna blóm
í besta skrúða sínum.
Þau lesa kaldan dauða dóm
úr daggartárum þínum.
Já, döggin hefur dauða leitt
að dalarósum kærum,
því tárin verða eitt og eitt
að ísaperlum tærum.
Guðjón Weihe 16. júní 1984

Út við sund og eyjar
Út við sund og eyjar
ómar hlátur skær.
Á fjallamenn og meyjar
munarblossa slær.

Stjörnubjartur himinn logar — lýsir grund
leiftri slær á báru við Suðureyjarsund.

Er dvína dagsins ómar
og dofnar sólarglóð,
kvöldsins hörpuhljómar
heilla dreng og fljóð.

Stjörnubjartur himinn logar — lýsir grund
leiftri slær á báru við Suðureyjarsund.

Aftanblærinn eykur
ágústnætur fjör.
Nú er lífið leikur
og lund í gleði ör.

Stjörnubjartur himinn logar — lýsir grund
leiftri slær á báru við Suðureyjarsund.
Guðjón Weihe 1. september 1985