Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1986/Frigg

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Jóhann Pálsson, skipstjóri:
Úr ruslakistu minninganna:

FRIGG


Árið 1933 var verið að smíða nýjan fiski-bát fyrir kaupfélagið Fram í Vestmannaeyjum hjá skipasmíðastöðinni í Djúpvík í Svíþjóð, en sú stöð smíðaði mikið af fiskiskipum fyrir íslendinga fyrr á árum. Þessi bátur var 22 tonn að stærð og var það þá algengasta stærðin af vertíðarbátum sem kallaðir voru. I honum átti að vera 65 hestafla vél. Engin siglingartæki, eins og þau sem nú eru notuð, voru þá til, aðeins smákompás, og lítið bátalogg fylgdu. Engin káeta, ekkert „bestikk", engin eldunaraðstaða á mat, aðeins smákabyssa einhólfa sem hægt var að hita á kaffi.
Í smíðasamningi var bátnum lofað tilbúnum frá skipasmíðastöð um miðjan janúar 1934.
Heimskreppan, eins og hún var alltaf nefnd, skall á okkur eins og holskefla fyrri hluta árs 1930. Það mátti segja að áhrifanna af henni gætti meira og minna fram á árið 1940. Þau voru mörg og stór sárin sem þetta heimsins mesta efnahagsöngþveiti skildi eftir sig. Þeir fátæku urðu að vísu enn þá fátækari en það var vegna hins gífurlega atvinnuleysis er þá dundi yfir, en þeir sem voru ríkir fyrir urðu Iíka fátækir. Þeir sem mest öfluðu þetta ár töpuðu mestu, næstu ár fékkst nánast ekkert verð fyrir fiskafurðir. Árin 1930-34 björguðust frá hreinni neyð vegna geysilega mikils afla.
Það hrikti í máttarstólpum byggðarlagsins og einnig þjóðarbúsins. Margir urðu gjaldþrota og þar á meðal aðalburðarásarnir í atvinnulífinu. Þá var sú gamla regla í gildi að hver sá, sem ekki gat fleytt sér áfram með sinn rekstur var gerður upp og allt sem náðist af honum tekið. Þetta voru harkalegar aðgerðir og oft óþarfar. En væri efnahagur okkar ekki betur settur nú ef þessari reglu hefði ekki alveg verið hafnað?
Öll lánastarfsemi þá miðaðist við fullkomin veð gagnvart skuldum. Þá voru skuldakóngarnir ekki búnir að uppgötva ríkisjötuna með öllum styrkjunum. Þeim hafði þá ekki heldur dottið í hug hinn óbrigðuli gengisfellingarsöngur sinn til bjargar útflutningnum, hvort sem þess var raunverulega þörf eða ekki. En hér mundi séra Sigvaldi í Manni og konu hafa sagt að best væri að hafa amen eftir efninu.
Ástandið hjá fólkinu og í öllum þjóðarbúskapnum frá 1930 var ein raunasaga sem eldri kynslóðinni er enn í fersku minni, en of langt yrði hér út í að fara. Þrátt fyrir alla erfiðleikana var að sjálfsögðu reynt að klóra í bakkann af fremsta megni. Eitt meginatriðið í þessari sjálfsbjargarviðleitni var að halda útgerðinni gangandi. Þó voru þau ekki mörg nýju skipin sem bættust í flota okkar þessi árin, a.m.k. ekki í Vestmannaeyjum. Þótti næstum stórtíðindum sæta er það bar við, þótt aðeins væri um litla báta að ræða.

Gunnar Guðjónsson

Í árslok 1933 kom að máli við mig Jónas Jónsson, þáverandi framkvæmdastjóri kaupfélagsins Fram og spurði hann mig hvort ég væri fáanlegur til að fara út með gufuskipinu Lýru strax eftir áramótin að sækja nýja bátinn sem væri verið að smíða fyrir þá. Atti ég að vera bæði stýrimaður og 2. vélstjóri þar sem ég hefði bæði prófin (að vísu þá minna skipstjórapróf). Við áttum að sækja bátinn þrír menn og kaupið var aðeins 150 kr. á mann og frí ferð. Já, það varð allt að spara. Ég var ungur þá og ævintýrið að komast út fyrir pollinn var nóg til þess að ég játaði ferðinni á stundinni. Eldri maður, Jón að nafni, sem ég þekkti ekki, var ráðinn skip-stjóri og Gunnar Guðjónsson Kirkjubæ ráðinn vélstjóri. Hann þekkti ég mjög vel.
Lýra kom til Eyja á áætlunartíma. Við fórum um borð og ferðin var hafin. Sjóferðin út var róleg fyrir okkur þar sem ekkert sérstakt gerðist, en ferðaveðrið í heild var gott. Er komið var til Bergen urðum við að bíða næsta dags, en notuðum kvöldið til skemmtunar, m.a. til ferðar upp á þeirra fræga skemmtistað, Flojen. Næsti áfangi í ferðinni var járnbrautarferð suður eftir Noregi, til Oslóar. í þessum ferðarparti kom fy rir smáatvik sem ég get ekki stillt mig um að minnast á. Yfirleitt var stoppað stutt á hverjum stað en okkur skildist, er við stoppuðum í bænum Voss, að þar yrði um dálítið stopp að ræða.
Okkur Gunnari var nú farið að þykja nóg um hreyfingarleysið í lestinni, en skipstjórinn, sem var miklu eldri en við, tók því rólega og hafði ekki áhuga á að fara út úr lestinni. Við Gunnar fórum nú þarna í skoðunarferð um næsta nágrenni við stöðina. í eina verslun fórum við og fengum okkur ávexti í nesti sem við ætluðum að gæða okkur á er við værum sestir upp í lestina. Okkur fannst við bara vera búnir að vera smástund en töldum samt rétt að fara nú beint í lestina. En viti menn, þar var þá engin lest. Jæja, hvað við hugsuðum, o, við vorum ekkert bangnir þótt hvorugur kynni orð í neinu máli að heitið gæti. Ég man að við hlógum báðir innilega og sögðum það eina sem við átti:
Strandaglópar! Engin ferð í dag meira. Nú verðum við hér í nótt. Þetta verður bara smáuppbót á ferðina. Skipstjórinn er með draslið okkar og við höfum nafnið á hótelinu í Gautaborg sem við áttum að fara fyrst á. Við vorum hinir hressustu og gerðum okkur ekki neinar rellur út af svona smámunum.
En ekki er alltaf sopið kálið þótt í ausuna sé komið. Er við höfðum fengið okkur hótelherbergi og vorum að dásama rólegheitin hér miðað við skröltandi járnbrautarlest, er barið harkalega á dyrnar. Þegar upp var lokið standa þar tveir beljakar í úníformum og segja okkur að koma með sér á lögreglustöðina, strax. Við skildum að sjálfsögðu hvorki upp né niður í þessu, áttum okkur einskis ills von.

Jón Bjarnason
Lyra.
Frigg VE 310

Þegar á stöðina kom var strax bent á mig og jökunum sagt að taka sér stöðu sinn hvorum megin við mig. Hófst nú heilmikið orðaskvaldur sem okkur Gunnari gekk ekki alltof vel að skilja. Þó var nú ekkert um það að villast að ég var hér með tekinn fastur fyrir eftirlýstan mjög hættulegan þýskan njósnara sem átti að vera í Noregi á þessum tíma. Ég fór að tína fram allt sem mér datt í hug til sönnunar því hver ég væri. Loksins var okkur leyft að fara á hótelið, en bannað að fara út og okkur sagt að við værum undir ströngu eftirliti.
Daginn eftir fengum við svo ferðaleyfi og var þá ferðinni haldið áfram suður á bóginn. Ekkert markvert skeði á þeirri leið og hittum við skipstjórann á hótelinu í Gautaborg. Þaðan fórum við svo til Djúpvíkur sem er dálítið ofar á vesturströndinni. Er þangað kom vantaði töluvert á að báturinn væri tilbúinn. Okkur leist þó vel á allan frágang bátsins og traustleika hans, enda áttum við eftir að reyna það seinna.
Þarna þurftum við að bíða í rúman hálfan mánuð og fannst okkur vistin daufleg mjög, vorum þarna eins og upp í sveit, innilokaðir með öllu, nema hvað við reyndum að fylgjast með smíði bátsins. Loksins var þessu lokið og var farið með bátinn. sem hét nú Frigg, til staðar þar skammt frá er Marstrand heitir þar sem endanlega var gengið frá öllu og allt tekið um borð til heimsiglingar, m.a. 16 tunnur af olíu í lestina sem vandlega voru skorðaðar og neglt yfir og kringum þær svo að þær gætu ekki hreyfst, á hverju sem gengi. Hleragat var alltaf haft á afturþili í lest. Höfðum við það nú opið svo að hægt væri að komast úr vélarrúmi í lestina. Sponsgat var á hverri tunnu. Ef losa þurfti hana þá var handdæla fest á þilið við opið, frá henni lá slanga er setja mátti í hvaða tunnu sem var og önnur í olíutankana. Þannig var hægt að ná í olíu á vélina hvernig sem á stóð. Svona var hvert atriði athugað vandlega og fylgst með að ekkert vantaði, m.a. drifakkeri. í það notuðum við olíutunnu með u.þ.b. 100 lítrum af olíu í. Örsmá göt voru höfð á henni svo að brák kæmi á sjóinn. Sterkt net út-bjuggum við utan um hana og í það fest 120 faðma löngum og 5 tommu sverum kaðli. Kemur þetta seinna við sögu.
Að undirbúningi heimsiglingar loknum, er hraðað var sem mest, voru landfestar leystar og heimferð hafin. Ekki datt mér þd í hug að ég eftir 22 ár myndi sigla héðan þrisvar sinnum stærra skipi sem ég ætti einn. Allir vorum við þremenningarnir hressir og kátir. Þó vissum við það að enginn okkar kunni eiginlega neitt til matargerðar og því síður að nokkur aðstaða væri til eldunar á mat, aðeins smákabyssa. En út af slíkum smámunum tók ekki að gera sér rellu. Gunnar vélstjóri var tvímælalaust besti kokkurinn, það vissum við fyrirfram.
Með mikilli hógværð og lempni gaf hann loforð um að gera sitt besta í þessu máli. Tveir skyldu vera á vakt saman, einn í koju. Við töldum sjálfsagt að keyra vélina ekki mikið á heimleið. vorum ánægðir með um sjö mílur á klukkustund í góðu veðri.
Veður var gott er lagt var á stað og allt gekk vel. Kunnum við hið besta við bátinn og virtist okkur hann hinn besti í alla staði. Ég og Gunnar vorum á vakt er við nálguðumst Líðandisnes í Noregi. Nokkuð djúpt vorum við, en ekki þó svo að um áberandi skekkju væri að ræða. Þar á að breyta um stefnu svo að ég spurði skipstjóra um það. Gaf hann upp stefnuna: Vestur hálft strik suður. og vegalengd til Hjaltlandseyja 90 sjómílur.
Að sjálfsögðu var kompásinn réttur af í Marstrand er gengið hafði verið frá öllu um borð þar og var hann næstum skekkjulaus og alveg réttur á vestur- og norðvesturáttum. Var nú þessari uppgefnu stefnu haldið. En þegar 90 sjómílur voru komnar á loggið, eða 13 klukkutímarnir sem þessi vegalengd átti að taka, voru hvergi sjáanleg merki um land. Enn var haldið sama strik lengi. Var nú farið að ræða um að sennilega værum við vestar en við ættum að vera. Merktum við það m.a. á stefnu annarra skipa er við sáum til. Var þá byrjað að beygja hálft strik í stjórnborða og verið að smábæta við uns komin voru 3 strik. Loks er það eftir u.þ.b. tveggja sólarhringa siglingu í þokulofti og litlu skyggni, að Iítill fiskibátur kemur á bakborða við okkur og sker stefnu okkar. Við Gunnar vorum á vakt og vorum ekki lengi að verða sammála um að þessi bátur væri að koma beint frá landi. Beygðum við þá þegar í gagnstæða stefnu er hann hafði. Ekki leið langur tími þar til við grilltum í land. Var nú Jón skipstjóri vakinn og var ákveðið að fara þarna inn.
Þetta reyndist vera Kinnarhet og hafnarbærinn Fraserburgh, sunnan við Marinfjörð. Nú vorum við fyrst alvarlega mállitlir, en einhvern veginn klóruðum við okkur gegnum þetta allt saman, hjá hafnaryfirvöldum og tolli. Þá náðum við í danska ræðismanninn sem var enskur en talaði mjög vel dönsku. Þarna urðum við að fá okkur ýmislegt smávegis því að leiðin hafði Iengst verulega. Skipstjórinn vildi nú fá sjókort og af því að ég var nýbúinn að læra væri best að ég tæki að mér leiðarreikninginn það sem eftir væri heimferðarinnar.
Meðan við stöndum í öllum þessum útréttingum kemur lögreglan og sagan frá Voss endurtekur sig. Enn er ég talinn vera þýskur njósnari, hvort það var sá sami og í Noregi vissi ég ekki. Með góðri aðstoð danska ræðismannsins þarna og þeim sönnunargögnum sem við höfðum í höndum tókst fljótlega að sannfæra Skotana um þennan skemmtilega misskilning þeirra. Þarna skoðuðum við okkur um næsta dag en héldum síðan á stað norður í Pentil. Yfir Norðursjóinn var ekki hægt að tala um vont veður, en þó sveljandi á köflum. Er við komum í Pentil, sem er sund milli Skotlands og Orkneyja, þar sem Atlantshafið streymir með miklum þunga í 6 klukkutíma niður í Norðursjó og öfugt næstu 6 tímana. Er við nú komum þar var bullandi suðurstraumur, eða á móti okkur. Svo mikil var hann að báturinn snarsnerist til baka. Gerðum við margar tilraunir en allt kom fyrir ekki. Við urðum að láta í minni pokann og bíða þar til skipti um strauminn til norðurs aftur.
Það var eins og blaði væri flett í bók. Um leið og við komum út á Atlantshafið var komið versta veður. Var stefnan nú tekin á Suðurey í Færeyjum. Eftir þreytandi ferð en slysalausa komum við til Færeyja um nótt í stórstormi, þreifandi myrkri með þoku og rigningu. Ekki var viðlit að taka landið um nóttina, en sjólagið var þarna fádæmaleiðinlegt, krossalda úr öllum áttum. Er birti sáum við land. Vorum við alveg hárréttir og var örskammt að fara inn á Trangisvogi í Suðurey.
Þarna vorum við nánast veðurtepptir í þrjá daga. Við vildum gjarnan fá sæmilegt veður því að nú var eftir af heimsiglingunni lengsti og að öllum líkindum erfiðasti kafli leiðarinnar. Veðrið frá Pentli minnti okkur á að oft eru hörð veður í febrúar á Norður-Atlantshafi.
Árla dags ákvað skipstjórinn að leggja í hann. Var þá skaplegt veður. en mjög þungur sjór og þungt í lofti. Allt var í besta lagi um borð og báturinn búinn að vinna fyllsta traust okkar. Eftir 8 tíma keyrslu brast á suðvestan fárviðri.

Ekki datt mér í hug að ég, eftir 22 ár myndi sigla héðan þrisvar sinnum stærra skipi sem ég ætti einn. Hannes lóðs í skipasmíðastöðinni í Djúpvík í Svíþjóð

Urðum við þá að hætta keyrslu og slóa upp í með hæg-ustu ferð. En þó að hægt væri að halda bátnum upp í vind og sjó hífðum við strax upp messaseglið miðskips og pinnstrekktum alla fali. Ekki mátti sleppa hendi af stýri, en reyna að andæfa vel upp í, þó að ekki sæist út fyrir bátinn vegna dimmviðris og báturinn steypti stömpum svo að stundum virtist allt ætla á hvolf. Fljótlega kvartaði Jón um þreytu, en vildi ekki fara fram í lúkar vegna veðurofsans heldur fór hann niður í vélarhúsið og lagðist þar á gólfið í þeim fötum sem hann var í (bert járngólfið). Gunnar gekk vel frá vélinni svo að ekki þurfti að vekja Jón strax aftur.
Nú leið svona u.þ.b. ein til ein og hálf klukkustund að Gunnar færi niður að aðgæta vélina. Svaf skipstjóri þá, en Gunnar sér strax að hann lá beint undir steinolíukrana sem þarna var og hafði hann einhvern veginn opnast, tankurinn sem kraninn var á var orðinn tómur og Jón allur orðinn gegnblautur í olíu hægra megin. Gunnar vakti hann strax og kom hann upp í stýrishús. Lögðum við þá mjög að honum að fara fram í lúkar og hafa fataskipti. En hann gerði ekkert úr þessu og vildi ekki fara frammí. Liðu nú nokkrir klukkutímar. Þá vildi hann loks fara í koju. Við bundum stýrið miðskips, bættum aðeins við vél og völdum lag (sléttan sjó) og studdum hann á milli okkar fram dekkið. Hann var stór og sver maður og orðinn að okkur fannst talsvert þrekaður. Ekki vildi hann enn skipta um föt. Kojur voru þröngar og erfitt að komast upp í þær. Við Gunnar tókum það ráð að kippa borðinu í lúkarnum, sem stóð á miðju gólfi, upp og skorða það fast, en bjuggum eins vel og við gátum um karlinn með mest öllum okkar kojufötum, fremst á lúkarsgólfinu.
Snör handtök voru höfð á þessu því að enginn var aftur í. Okkur fannst að eftir ástæðum færi nú vel um Jón. Þó þorðum við ekki að hafa neinn eld í kabyssunni í þessum látum, það gat verið stórhættulegt, enda sannaðist það seinna.
Frá þessari stundu vorum við Gunnar tveir til allra verka. Áfram var veðrið sem kallað er snarbrjálað svo dögum skipti. Allt varð að vera tryggilega skorðað niður, neglt eða súrrað, um engan heitan mat eða drykk var að ræða. Það bjargaði okkur í mat að við áttum sinn ávaxtakassann hvor í lestinni. í þetta gátum við alltaf náð.
Við reyndum að fara á eins og tveggja tíma fresti fram í að fylgjast með skipstjóranum þannig að annar fór bundinn í kaðli en hinn gaf eftir eða tók slakann af eftir því hvort farið var eða komið. Við töldum þetta sjálf-sagðan öryggishana því að oft var næstum ófært á milli í ólögunum. Karli leið orðið verulega illa og fór versnandi, enda mikið brenndur. Seint um síðir vildi hann skipta um föt en þá var það alltof seint, komnar stórar brunablöðrur og fötin föst ofan í. Við þessar aðstæður gátum við sáralítið hjálpað honum, enn var veðrið að mestu við það sama og reynt var að slóa í áttina heim, eins og hægt var. Dáðist ég oft að því hvað báturinn varðist áföllunum vel því að sjólagið var óskaplegt. Öldurnar líktust helst himinháum fjallshryggjum þar sem báturinn varð svo óskaplega lítill og var góða stund að klífa úr öldudalnum upp á háhryggi og niður hinum megin. Á þessum geysistóru undiröldum voru svo herskarar af sundurlausum stórsjóum, sem oft gáfu heiftarleg högg og snarpar veltur á bátinn, svo að manni virtist báturinn stundum eins og í lausu lofti og það eina sem gilti var að vera snöggur að skorða sig af. Á daginn sáust oft geysilega stór brot sem virtust eins og stærstu grunnbrot. Það var víst best að leiða hugann frá því hvað mundi gerast ef þau hittu bátinn.
Í þrjá sólarhringa var ég búinn að standa við stýrið án nokkurrar hvíldar. Það var svipað hjá Gunnari. Þó gat hann aðeins blundað stund og stund. Þetta var í birtingu, ég orðinn þreyttur og syfjaður mjög. Bið ég nú Gunnar að hvíla mig dálitla stund. Hann lagði sig á vélarhússgólfið, það ætlaði ég líka að gera.
Annað pláss aftur í var ekki um að ræða. Ég var nákvæmlega búinn að leggjast út af þegar óhemjumikill hnykkur kom á bátinn. Einhvern veginn fannst mér ég kastast út og upp í síðuna hinum megin, en nú var kolniðamyrkur, ljósin höfðu slokknað og vélin stöðvast, allt rennandi blautt, greinilegan vatnsnið heyrði ég.

Frá Færeyjum

Ég fikraði mig að lúguopinu upp í stýrishús, en fékk þá ískaldan sjófoss yfir mig. Þegar ég reyndi að ýta lúgunni upp hafði ég ekki að hreyfa hana. Varð ég að bíða ótrúlega lengi eftir því að geta opnað lúguna, að mér fannst. Ég fann að báturinn valt, svo að ofansjávar var hann ennþá. Loksins hafði ég að lyfta lúgunni upp og fékk ég þá svo sannarlega það hraustlegasta steypibað sem ég hef fengið. En upp komst ég, álíka blautur og ég hefði verið dreginn beint upp úr sjónum.
í stýrishúsinu var ljótt um að litast. Gunnar stóð á gólfinu og hélt um stýrið. Um hálsinn var hann með einn gluggakarminn úr stýrishúsinu. Allur var hann blóðugur og allsstaðar stóðu glerbrotin í gluggakarminum meira og minna inn í hálsinn á honum. Mitt fyrsta verk var að plokka glerbrotin úr hálsi Gunnars og losa hann við gluggakarminn. Úr skyrtunni sinni varð hann að fara, hana reif ég í ræmur og vafði utanum hálsinn á honum. Sem betur fór voru þessir skurðir ekki mjög djúpir, en ljótt var það við fyrstu sýn. Nú var í mörg horn að líta. Vélin stopp, báturinn með nokkur tonn af sjó í sér, allir gluggar í stýrishúsi í maski. Stýrishúsið hafði skekkst í brotsjónum og gátum við ekki opnað það.
Gunnar var smár vexti og holdskarpur, en hörkutól hið mesta. Ekki létum við þetta trufla störf okkar en tróðum okkur út um gluggagötin og komum út rekakkerinu sem áður var lýst. Dáðumst við að hvað báturinn lá vel í kaplinum. Þá fórum við niður í lúkar til Jóns. Þeirri aðkomu er vart hægt að lýsa, en segja mátti að það sem áður var neðst væri nú efst, kabyssan í méli, draslið um allt og skipstjórinn hálfkaffærður í drasli. Hreiðruðum við um hann í mesta flýti, og fórum nú að pumpa sjónum úr bátnum. Þá slitnaði sveri kapallinn eins og tvinni og söng í um leið. Þarna var sú von úti. Það var mikið og vont verk að dæla sjónum en loksins var það samt búið. Fórum við þá í vélarrúmið. Þar var verkun líka ljót, sjór hafði gusast upp um allt, spænir og spýtukubbar höfðu flotið upp úr sogunum. Vorum við í marga tíma að fá vélina til að snúast aftur.
Þegar það nauðsynlegasta var komið í bráðabirgðalag voru áreiðanlega tveir menn þreyttir. Heldur dró líka úr veðrinu á þessum tíma. Lagði ég mig þá dálitla stund niðri í vél.
Á ýmsu gekk með veðrið næstu daga. Ýmist var hörkuveður eða dúraði á milli. Mátti þó segja að alltaf væri vont veður allan tímann upp undir ísland, suðvestan vindátt var ríkjandi á hafinu og lítið hægt að keyra fyrr en landið fór að nálgast. Ég fullyrði að langmestan hluta leiðarinnar frá Færeyjum til Vestmannaeyja keyrðum við aldrei rétt strik, nema fyrst og síðast. Alltaf varð að reikna með drift frá stefnu vegna veðurs, mismunandi mikið, hálft strik, eitt og upp í þrjú strik. Eitt lagði ég áherslu á að vera ekki of austarlega á stefnunni, minnugur hinna mörgu stranda á Söndunum frá Vík og austur. Oft urðum við að taka inn loggið á andófi eða slói vegna hættu á að fá það í skrúfu bátsins.
ÖU siglingin á þessum kafla var auðvitað mest ágiskun eða það sem maður taldi líklegast á hverjum tíma sólarhringsins. Þó vissum við stundum harla lítið um réttan tíma, nema mun á nóttu og degi.
Eftir að lúkarsborðið var tekið upp var hvergi hægt að breiða úr sjókortinu. Negldi ég það því upp á vegg í lúkarnum. Reyndar hafði ég í báðum höfnunum sett út stefnur og vegalengdir og við þetta studdist ég, hver sólarhringur var færður inn á stefnuna eftir minni og ágiskun þegar ástæður leyfðu.
Líðan skipstjórans olli okkur verulegum áhyggjum. Það fór ekki framhjá okkur að smám saman dró af honum, þó að hann reyndi að harka af sér er við vorum hjá honum. Að sumu leyti sátum við allir við sama borð, engin hlýja var til í bátnum. Vorum við tveir alltaf meira og minna blautir. Það mátti segja að enginn matur væri borðaður frá Færeyjum til Eyja (aðeins biti og biti í einu), aldrei hægt að fá sér volgan sopa til hressingar, hvernig sem maður var á sig kominn. Það fannst okkur einna verst.
En þrátt fyrir alla erfiðleika lögðum við kapp á að mjakast í áttina heim og undir það síðasta á siglingunni fór veðrið þó batnandi og kom það sér vel.
Loks var það fyrri part dags að ég taldi að við ættum að vera komnir vegalengdina þvert af Vestmannaeyjum. Var þá beygt á stjórnborða. Skyggni var þá sæmilegt, hæg vestanátt en þungur sjór. Eftir u.þ.b. klukkutíma keyrslu sáum við land og viti menn, þetta voru reyndar sjálfar Vestmannaeyjar sem við stefndum beint á. Þetta var sjálfsagt einstök tilviljun eftir það sem á undan var gengið, en mikil var gleði okkar er við nú loks sáum fyrir endann á þessari ferð. Er við sögðum skipstjóra tíðindin lifnaði hann allur við. Hann bað okkur að fara í töskuna sína og ná þar í ákavítisflösku sem hann lumaði á. Eina landtökuskál sagði hann því að nú væru allar þrautir að baki. Reyndar átti hann tvær og gaf okkur þær báðar, sagðist ekki þurfa á slíku að halda á næstunni og værum við best að þeim komnir.

Einhver sá bátinn er hann nálgaðist Eyjar og sá að hann hafði flagg uppi, en það drógum við strax upp er við þekktum landið. Þetta flaug um bæinn eins og eldur í sinu. Það var lengi talað um að aldrei hefði verið annar eins mannfjöldi á bryggju til að taka á móti einum bát og þarna var. Ástæðan var vafalaust sú að báturinn var talinn hafa farist í hafi á heimleið. Það sem studdi skoðun manna á þessu var aðallega tvennt: það var komið á níunda sólarhringinn frá því að við fórum frá Færeyjum, en það var mjög langt fram yfir eðlilegan tíma og nítján dagar frá því við fórum frá Svíþjóð. Hitt atriðið var að tvö af skipum Eimskipafélagsins voru á þessari sömu leið á sama tíma og við, en þau höfðu alltaf verið að gefa upp brjálað veður eða 12 vindstig að staðaldri. Það var þetta sem menn óttuðust að báturinn gæti aldrei afborið.
Það fyrsta sem hafist var handa um var að ná Jóni skipstjóra upp úr bát og koma honum á Sjúkrahúsið. Var hann mjög mikið brenndur og lá þar lengi en náði sér þó. Ekki beit þetta neitt að ráði á okkur Gunnar og byrjuðum við báðir á vetrarvertíð eftir nokkra daga. Þó fannst mér eins og allt væri á hreyfingu í kringum mig fyrst eftir að ég kom í land, en það hvarf er ég hafði sofið vel út og hvílt mig eftir þessa slarksömu ferð.
Þar sem Frigg lá þarna við bryggjuna kostaði hún 27.000 krónur íslenskar. Ekki þætti það nú mikið í dag. Þetta reyndist í alla staði hinn besti bátur, var gerður út frá Eyjum í mörg ár og fiskaðist mjög mikið á hann, uns hann var seldur burt vegna þess hvað hann þótti orðinn lítill.
Við Gunnar vorum aldavinir eftir þessa ferð, en að þrem árum liðnum var hann allur. Vorum við þá báðir skipstjórar, báðir á sjó skammt hvor frá öðrum, en hann fórst með skipi sínu og allri áhöfn í fárviðri. Með honum fórst bróðir hans, ungur maður og efnilegur, en öldruð móðir þeirra hafði þá orðið að sjá á eftir fjórum sonum sínum í sjóinn. Allt voru þetta harðduglegir myndarmenn sem mikill mannskaði var að fyrir bæjarfélagið og þjóðfélagið. En að hverjum var harðast kveðinn söknuðurinn, var það ekki móðurinni eða eiginkonunni? Það var oft ótrúlegt þrek sem þær sýndu þá konurnar í þeim sáru sorgum er sjóslysin ollu. Það er von mín að ekki líði langur tími þar til að þjóðin öll sameinist í að reisa þessum hetjum okkar það veglegasta minnismerki sem við eigum um liðna tíð og komandi, á veglegasta stað þjóðarinnar.
Þessi saga er sjálfsagt ekkert meiri eða merkilegri en margar aðrar uppsiglingarsögur eldri ára væru ef þær hefðu verið festar á blað. Það hefði sennilega verið best að hún væri óskráð og heyrði fortíðinni einni til eins og mennirnir frá þessum tíma eru flestir gleymdir þjóðinni og þeirra hlutverk í uppbyggingu hennar einskis metið.
En nóg um það, og hér er þá best að hafa botn í stuttri sögu.
Jóhann Pálsson skipstjóri