Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1985/ BSV 55 ára 1984

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
BSV 55 ára 1984


Helgi Benónysson

Bifreiðastöð Vestmannaeyja var formlega stofnuð 20. nóvember 1929 með undirskrift á lögum og starfsreglum stofnenda, sem voru eftirtaldir bifreiðastjórar:
1. Helgi Benónýsson, Vesturhúsum.
2. Gunnlaugur Gunnlaugsson. Hólagötu 11.
3. Lárus Árnason, Búastöðum.
4. Páll Erlendsson, Brekastíg 29.
5. Baldur Sigurðsson. Heiði.
6. Ólafur Guðjónsson, Stakkholti.
7. Bernótus Sigurðsson Stakkagerði.
8. Jón Þorleifsson, Sólhlíð 6.
Aðalhvatamaður að stofnuninni var Helgi Benónýsson á Vesturhúsum. Helgi var fyrsti formaður BSV og komu í hans hlut mörg vandráðin verkefni. Samþykkt var að senda Helga til Reykjavíkur og knýja á dyr olíuforstjóranna um að þeir aðstoðuðu hið nýja samvinnufélag bifreiðastjóra með húsnæði og eins að fá bensíntanka og smurolíur til útsölu á hinni nýju bifreiðastöð. Helga var vel ágengt. Honum samdist við forstjóra Skeljungs h.f. Þeir lánuðu bráðabirgðahúsnæði sem var söluskáli og var hann settur upp þar sem verslun Haraldar Eiríkssonar var síðar byggð og einnig var settur upp bensíntankur.
Á árinu 1929 var svo komið að þeir bifreiðaeigendur er veittu þjónustu með bifreiðum sínum sáu sig til knúna að sameinast og stofna samvinnufélag um rekstur bifreiða sinna er hefði það markmið, að hafa sameiginlega afgreiðslu, innheimtu og vinnumiðlun á milli félagsmanna. Það ástand, sem var upp komið, var með öllu óviðunandi. Í fyrstu voru nokkrir einstaklingar er gerðu hinni nýju bifreiðastöð erfitt fyrir. Það tók tíma að vinna sig út úr þessum vanda, en flestir er kynntu sér aðstæður bifreiðastjóra sáu að hér var um réttlætismál að ræða: Að hafa samvinnu en ekki margar grúbbur er unnu hver á móti annarri, eins og hefur áþreifanlega sýnt sig þar sem bifreiðastöðin hefur nú starfað samfellt í 55 ár.
Fyrsti stöðvarstjórinn var Bjarni Jónsson Svalbarði er síðar varð skrifstofustjóri Lifrarsamlags Vestmannaeyja. Hann er talinn hafa starfað í þrjú ár við BSV. Eftir að Bjarni hætti störfum, var Gísli Wium ráðinn stöðvarstjóri og gegndi hann því starfi til ársins 1942, að hann hóf eigin verslunarrekstur. Eins og ég áður gat um var fyrsta stöðvarhúsið bráðabirgðahúsnæði en úr því var flutt að Þingvöllum. Þar var enn fremur til húsa áfengisútsalan. Það er ekki annað vitað en allt hafi farið vel í þessu sambýli. Frá Þingvöllum var flutt að Jómsborg. Bifreiðaeigendur þurftu lítið að færa bíla sína til þar sem áður nefnd þrjú hús mynduðu hring um upphallegu bílastæðin í Jómsborg. Var bifreiðastöðin þar þangað til flutt var í nýtt húsnæði, er stöðvarstjórinn Gísli Wíum byggði 1940 og leigði bifreiðastjórum við Heiðarveginn. Það var þar sem nú er Bókabúðin.
Árið 1942 fluttust bifreiðastjórar í eigið hús sem er enn í dag þeirra samastaður, að vísu mikið uppbyggt síðan á þeirra tíð. Þegar bifreiðarstjórar fluttust í núverandi húsnæði gerðist Oddgeir Kristjánsson tónskáld stöðvarstjóri og gegndi því starfi til ársins 1957 eða í 15 ár.
Alls eru skráðir 13 stöðvarstjórar frá byrjun og eru aðeins þeir þrír nafngreindir er lengst hafa starfað. Til viðbótar þeim er áður voru nefndir eru bróðir Oddgeirs, Ólafur Kristjánsson fv. bæjarstjóri. Hann starfaði til ársins 1973 er gosið flæmdi hann frá Eyjum eftir 9 ára starf. Magnús Jónasson frá Grundarbrekku á einnig níu starfsár sem stöðvarstjóri. Hann lét af störfum 1983.
Skrá um starfandi bifreiðastjóra hefur komist hæst í 35. en er nú 22. Og eftir því sem ég hef komist næst hafa rúmlega eitthundrað bifreiðastjórar verið innritaðir sem fullgildir félagar frá stofnun. Á fyrstu starfsárum BSV voru bifreiðastjórar í Verkalýðsfélagi Vestmannaeyja. Síðar var stofnað Landssamband vörubílstjóra er bifreiðastjórar urðu aðilar að, og var þá jafnframt stofnað stéttarfélag fyrir BSV-menn sem gefið var nafnið Sjálfseignarbílstjórafélagið Ekill. Formleg inntaka í LV var 12. febrúar 1955. Er Ekill því 30 ára um þessar mundir.

Myndin er tekin tekin 1967 á aðalfundi. Aftari röð talið frá vinstri: Hilmar Jónasson, Magnús Guðjónsson, Guðmundur Högnason, Einar Jónsson, Magnús Ágústsson, Ari Pálsson, Adolf Sigurjónsson, Jens Ólafsson. Gústaf Sigurjónsson. Guðsteinn Þorbjörnsson, Páll Gíslason, Jón Þorleifsson, Haukur Högnason, Ármann Guðmundsson. Fremri röð frá vinstri: Daníel Guðmundsson, Sigurður Jónsson, Jóhann Gíslason, Oddgeir Kristjánsson, Andrés Guðmundsson, Engilbert Þorbjörnsson, Sigurjón Sigurðsson.
Bifreiðastöð Gísla Wium. (þar sem Bókabúðin er nú), tekin árið 1942.
Bifreiðastöð Gísla Wium. (þar sem Bókabúðin er nú), tekin árið 1942.

Á þessum merku tímamótum ætla ég að renna yfir nokkra þætti úr sögu bílastöðvarinnar sem hefur reynt meira en aðrar stöðvar hér á landi, starfað samfellt í 55 ár. Eldgosinu tókst ekki að raska samstöðukrafti bifreiðastjóra þrátt fyrir alvarlegt ástand. Á fyrstu árum bifreiðastöðvarinnar voru verkefni mjög fjölþætt. Allflestir fiskverkendur söltuðu sinn fisk og sólþurrkuðu hann á svonefndum stakkstæðum er þöktu mikil landsvæði hér áður fyrr. Þá var fiskhausum og hryggjum ekið út um tún og hraun og sólþurrkað. Oft var hér um útflutning á stórum förmum. Þá var mjög mikið um að bifreiðastjórar ækju slógi og húsdýraáburði á tún og í kálgarða. Hér mátti segja að það fylgdist að að þeir menn, er fóru í útgerð, urðu jafnframt að fara í landbúnað, eiga kýr til mjólkurgjafar handa fjölskyldu, sjómönnum og landvinnufólki sem útgerðarmenn urðu mjög oft að hafa á heimilum sínum. Það var enginn kostur að fá mjólk flutta hingað. Það varð ekki að veruleika fyrr en á sjötta áratugnum.
Ávallt hafa flutningar á efni til vegagerðar og byggingar verið stór póstur í starfi bifreiðastjóra, en eftir að sjálfstæðir aðilar hófu rekstur á steypustöðvum hér fór stór spónn úr aski bifreiðastjóra.
Þjónustubifreiðar við sjómenn á bátum og fiskiskipum hefur verið númer eitt frá öndverðu. Akstur víð fiskibátana hér áður fyrr var mjög mikill en það háði þjónustu bifreiðastjóra hve takmarkað bryggjuplássið var og urðu bátar oft að bíða lengi eftir plássi. Það var algengt að hér væru gerðir út um 70-80 línubátar. Kringum þá var jafnan mjög mikið líf og mjög mikil vinna. Akstur með síld í beitu, flutningar með bjóð fram og aftur og þá varð venjulega hamagangur er fyrsta loðnan var veidd til beitu. Allir vildu eiga kost á að fara með nýveidda loðnu á svæði er hún var ekki gengin yfir, og jafnan var þá óbrigðult að bátar fiskuðu mjög vel. Það var mjög líflegt í Eyjum er loðnubeitningin gekk yfir. Þá var venjulega beitt fram að brottför og jafnan allir tiltækir bílar í bjóðaakstri. Var stundum mjög margt fólk að fylgjast með og sjá er bátarnir voru að fara út úr höfninni þegar blússið var gefið.
Eins og hér að framan er rakið hafa allmörg verkefni bifreiðastjóra horfið ásamt vatnsdreifingunni og tilheyra nú liðinni tíð. Allt til ársins 1942 varð að lyfta undir vörubílspallana með handafli. Það reyndist oft erfitt og gat verið stórhættulegt. Jón Þorleifsson bifreiðastjóri braust í það stórvirki að kaupa vélsturtu á nýjan Ford, tveggja og hálfs tonna vörubifreið er þótti óhóflega stór. Það vakti mikla undrun þegar hann sturtaði fyrsta malarhlassinu og mölin dreifðist þannig að ekki var þörf að gera betur, en áður varð að dreifa úr hlössunum með handskóflum.

Ísleikur Jónsson.

Árið 1958 varð enn stór bylting er kranar voru settir á bíla sem gátu híft þunga hluti og eins mokað á sig sjálfir. Á því sviði varð Daníel Guðmundsson brautryðjandi í Vestmannaeyjum. Er þetta nú stór þáttur í starfi bifreiðastjóra. Vatnsþjónustan var oft mjög erfið þegar litið er til baka. Er næstum ótrúlegt hvað menn gátu afrekað með frumstæðum tækjum. Inni í Dal var í fyrstunni aðeins handdæla sem notuð var til að dæla í vatnstankana og síðan varð að láta vatnið renna dælulaust í húsbrunna, báta og skip. Ég fullyrði að fáir bifreiðastjórar fengjust í dag til að sækja vatn inn í Dal í óveðri og náttmyrkri eins og oft var hér áður fyrr.
Það er rétt að það komi hér fram að unglingar sóttu mikið eftir því í þá daga að fá að sitja í vatnsbílum og dæla með handdælunni. Það létti á hjá mörgum bílstjóranum. Á seinni árum komu svo bensíndælur er léttu mjög þjónustuna sem jókst jafnt og þétt. Vatnsleysið var oft mjög tilfinnanlegt og bar jafnan mjög mikið á því á stórhátíðum. Oft fylgdi pöntunum að ekki væri hægt að þvo úr barnableium, eða ekki væri hægt að hella upp á kaffikönnuna. Þá voru bændur oft illa settir er ekki gátu brynnt kúnum í fjósum. Úr þessu var jafnan reynt að bæta þrátt fyrir hve takmarkað vatnsbólin gáfu af sér. Oft var brugðið á það ráð að fá flutningaskip, er hingað áttu leið, til að koma með vatn sem síðan var dælt á bíltankana.
Á tímamótum sem þessum verður manni tamt að líta til baka og finnst næstum ótrúlegt að ekki skuli vera nema 65 ár frá því að fyrstu bifreiðarnar komu á land í Vestmannaeyjum. Ósjálfrátt verður manni hugsað, hvernig menn gátu gjört stór mannvirki áður en bíllinn kom. Ég lagði þessa spurningu eitt sinn fyrir mann, er hafði byggt stórt og vandað hús, hvort ekki hefði verið erfitt að flytja byggingarefnið áður en bílinn kom til sögunnar. Hann svaraði á þá leið að flest heimili hefðu átt handvagna og svo hefðu nokkrir þjónustu með hestvögnum. Á þeim fóru fram allir þungaflutningar og hefðu feðgarnir frá Uppsölum, þeir Sigmundur og Finnur, komið mikið inní þá þjónustu. „Þeir fluttu allt byggingarefnið fyrir mig, timbur, sement, sand og möl. Það gekk allt mjög vel. Maður þekkti ekki annað betra“, sagði gamli maðurinn.
Þegar ég rifja upp sögu BSV er mér ljóst að brautryðjendur mínir hafa séð langt fram í tímann. Það sem við bifreiðastjórar höfum að leiðarljósi fyrir okkur enn í dag er það er þeir mótuðu sem stofnuðu Bifreiðastöð Vestmannaeyja fyrir 55 árum. Stöðvarlög þeirra og starfsreglur hafa sýnt og sannað tilverurétt sinn í gegnum liðin ár. Ég fullyrði að allir þeir félagar og starfsmenn, sem komið hafa við þjónustustörf á BSV fyrr og síðar, eiga stóran þátt í þeirri farsælu byggð sem er nú í Vestmannaeyjum.
Á þessum tímamótum finnst mér rétt, þar sem ég hef nú verið beðinn að rifja upp þætti úr starfi og sögu BSV fyrir Sjómannadagsblaðið, að geta hér tveggja elstu bifreiðastjóranna er náð hafa að starfa samfellt í rúm 50 ár og vafalaust er stærsti hlutinn þjónusta við sjómenn og með afurðir þeirra. Þessir félagar eru Jens Ólafsson Brekastíg 29, er jafnan hefur ekið bílum skrásettum V-28. Jens hóf akstur 1931 og á 54 ár að baki. Bjarni Guðmundsson lllugagötu 13, V-50. Bjarni hóf akstur árið 1933 en hætti störfum er hann hafði náð 50 ára starfsaldri. Þessir félagar hafa verið farsælir í starfi, traustir og góðir bifreiðastjórar. Þeir hafa gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir félagssamtök bifreiðastjóra á liðnum árum. Þeir félagar muna tímana tvenna er þeir líta yfir farinn veg, og gera samanburð á vörubílum er þeir hófu akstur á fyrir hálfri öld og þeim er þjónustan er veitt á í dag.

LOKAORÐ
Eins og að framan er getið hafa allflest starfssvið breyst og mörg þurrkast alveg út er voru aðalverkefni fram á fimmta áratuginn - en tilheyra nú liðinni tíð. Ég vona að saga Bifreiðastöðvar Vestmannaeyja sé ekki á enda skráð, heldur aðeins staldrað við til að minnast þess sem liðið er.
Það ber að þakka öllum er þátt hafa tekið í störfum BSV frá stofnun til þessa dags með þeirri ósk að nafn BSV eigi eftir að lifa um mörg ókomin ár í þjónustu Vestmanneyinga.
Magnús Guðjónsson