Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1982/ Í lífsins ólgu sjó

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Í lífsins ólgu sjó


Á hátíðisdegi sjómanna bið ég þeim blessunar Drottins og farsældar í lífi og starfi.
Á þessum degi gleðjast sjómenn og þakka allt sem vel hefur tekist, en um leið trega þeir þá sem féllu í valinn.
Mér þykir vænt um að mega ávarpa ykkur nokkrum orðum hér í sjómannadagsblaðinu.
Ég vona að þið takið því með karlmennsku að ég reyni að prédika yfir ykkur því annað betra á ég ekki í fórum mínum en fagnaðarboðskap Jesú Krists.
Við skulum heyra hvað gamalreyndur fiskimaður sagði endur fyrir löngu: ,,Og því áreiðanlegra er oss nú hið spámannleg orð, og það er rétt af yður að gefa gaum að því eins og ljósi sem skín í myrkum stað, þangað til dagur ljómar og morgunstjarna rennur upp í hjörtum yðar".
Hér talaði Símon Pétur. Og ekki eru þessi orð úr gildi fallin. Hann talar til okkar í dag. Hann segir: Gefum gaum að því orði heilagrar ritningar sem segir að í Jesú Kristi var og er lífið sem er ljós mannanna.
Gefum gaum þessu orði, lesum og íhugum þar til dagur ljómar og morgunstjarna rennur upp í hjarta þínu.
Þetta er það kennimerki sem Drottinn af kærleika sínum hefur sett fyrir augu okkar svo að við mættum bjargast úr hverri villu og háska.
Ef við höfum það fyrir augum þá höfum við fengið óbifanlega fótfestu í stormasömum heimi og öruggt leiði í lífsins ólgu sjó.
Og á þennan hátt viðheldur maðurinn sjálfstæði sínu, sjálfstœðri hugsun sem er ekki svo lítils virði á tímum þegar svo margt kallar á og gerir kröfur til mannsins.
Drottinn Guð lætur sig varða heill alls mannkyns en hann snýr sér til einstaklingsins í Jesú Kristi. Hann gerir þér tilboð og það er þitt að taka því eða hafna.
Gefðu gaum að orði hans, það er lífsins og ljóssins orð.
Það er víða myrkur í mannlegum hjörtum, ófriður og undiralda þó slétt sé á yfirborðinu. Margir sem leita hjálpar, fleiri þó sem þurfa á hjálp að halda.
En hvert skal leitað? Hvar er hjálp að fá fyrir brostið og kalið hjarta sem hefur gefist upp?
„Ég hef augu mín til fjallanna. Hvaðan kemur mér hjálp?"
Þannig spyr sálmaskáldið og hann gefur einnig svar: „Hjálp mín kemur frá Drottni, skapara himins og jarðar".
Með þessum orðum kveð ég og ítreka óskir mínar um giftu og farsæld sjómönnum til handa.
Kjartan Örn.