Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1982/Viðtal við aflakóng

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Sigurjón Óskarsson
aflakóngur Vestmannaeyja 1982:


„Með ólíkindum að fá ekki róður í Meðallandsbugtinni"


Grein: Árni Johnsen

„Vertíðin fór vel af stað, við byrjuðum vestur á Selvogsbanka 21. janúar og vorum þar í nokkra daga, fengum kropp af ufsa, en ég færði mig skjótt, þetta var ótíð og bræla og við fengum vitlaust veður þarna á Tánni og þá fór ég austur í Bugt," sagði Sigurjón óskarsson aflakóngur Vestmannaeyja og um leið aflakóngur Íslands á vetrarvertíðinni 1982, en þetta er í 9. sinn sem Sigurjón er aflakóngur Vestmannaeyja. Þar af 8 sinnum í röð. Fyrst varð Sigurjón aflakóngur 1973, en Daníel W. F. Traustason vann kónginn 1974, en síðan hefur Sigurjón haldið titlinum.

Sigurjón og Óskar stýrimaður

„Nasasjón af fiski á Síðugrunni"
„Jú, við vorum einskipa austur í Bugt um það bil eina viku," sagði Sigurjón, „það var sami bræluskíturinn, en mokveiði og reyndar besti kaflinn á vertíðinni. Við fengum um 600 tonn á þremur vikum, allt ufsa. Þetta var mun meiri ufsi en verið hefur og kom mér alveg á óvart. Þetta var gríðarlega stór fiskur."
„Þú hefur auðvitað saknað þorsksins?"
„Jú, maður saknar þorsksins ef hann lætur ekki sjá sig í aflanum. Við fengum nokkuð af þorski í Kantinum, en þegar það dróst upp, fórum við beint vestur fyrir Eyjar, en þá voru þeir farnir að fá þorsk þar. Við vorum þar í nokkra daga, fengum kropp og varla það. Suður af Eyjum fékk Hörður á Álsey gott úti í Kanti og það var rokið út með bátinn klukkan 1 um nóttina til að draga trossurnar vestan við og koma þeim út í Kant. Það var spenna í þessu, því allir voru með hugann við Kantinn í vetur eins og sýndi sig í byrjun vertíðar. Það voru reyndar fleiri en við sem gerðu þetta, þegar við komum í Kantinn voru fleiri bátar að leggja og orðið ansi þröngt um þá sem voru fyrir. Við höfðum að bora niður sjö eða átta trossum, en þegar við drógum aftur var lélegt fiskirí og það varð aldrei neitt nema þetta eina skot hjá Herði. Í helgarfríi hafði ég nasasjón af því að það væri fiskur á Síðugrunninu og í Bugtinni. Nokkru áður hafði netaeftirlitsmaður verið búinn að hringja og tilkynna að hann kæmi með í róðurinn. Ég hafði þá ákveðið brottför klukkan fjögur um nóttina, en þegar ég fékk fiskifréttirnar um kvöldið ákvað ég að fara fyrr, eða klukkan eitt, bæði var að það spáði vondu veðri og við áttum að auki langan dag fyrir höndum í að flytja trossurnar. Ég reyndi að ræsa eftirlitsmanninn um nóttina en ég náði ekki sambandi við hann og maður hefur nú alla tíð verið fremur lítið innstilltur á að þræla undir kerfinu, svo við létum slag standa og komum okkur til verka. Ég fór út að draga mínar trossur og var að því þegar varðskip kallaði mig upp og skipaði mér í land, ella væri um veiðileyfissviptingu að ræða. Við fórum í land, lönduðum aflanum og tókum kallinn um borð, Markús Guðmundsson eftirlitsmann, og héldum síðan aftur út að draga það sem eftir var í bátinn. Í síðustu trossunum voru 500-600 fiskar í trossu, allt sprelllifandi. En það var ekki aftur snúið, allar trossur komnar í bátinn, komið myrkur og ekki hægt að leggja þarna aftur.
Það ætlaði að loða lengi við eftirlitsmennina að voma yfir mér, þeir hafa komið með mér á hverri vertíð um hríð. Við fórum austur í Bugt með manninn og hann var um borð í tvo til þrjá daga og hafði ekkert við netafjöldann að athuga, þetta var allt rétt eins og venjulega."
„Við fengum lítið í Bugtinni og fórum svo vestur að Alviðru og gerðum tvo góða túra þar fyrir þorskveiðibannið. Eftir þorskveiðibannið var ég staðráðinn í að fara vestur fyrir Eyjar, en byrjaði þegar ég fór út á Holtshrauninu og Snaga og það var hvergi neinar lóðningar að finna og ekkert nema ufsi og karfi hjá þeim sem voru á færum. Hluti af Eyjabátunum fór þá vestur að Þrídröngum og Einidrang og Grindavíkurbátar og Reykjavíkurbátar sóttu þá austur að Þrídröngum, en fengu engar lóðningar á Selvogsbankasvæðinu að Þrídröngum."

Setið á spjalli

„Þetta var ekki öðrum megin á hund"
„Trúlega hefur ekki allt komið í loftið sem menn sáu á tækjunum sínum, en mér fannst heldur dökkt hljóðið og ákvað að fara austur. Við Svenni Valdimars ræddum saman, hann var kominn austur að Hjörleifshöfða, en það var óvenju langt af honum að vera. Ég hafði orð á því að hann hlyti að hafa dreymt vel og hann neitaði því ekki, svo ég lagði út af Alviðrunni. Þá var Ingi á Huginn að fá ágætt í trollið og þarna var Guðni á Gjafar. Ég lagði helminginn þarna og hitt austur í Bugt og Guðni gerði sama, en Svenni lagði allt þarna og það gekk upp hjá honum með ágætis veiði, en við vorum alltaf frekar út úr því. Þetta varð ekkert í Bugtinni, en Guðni fór út í kannt og fékk 100 tonna túr, var þá bæði við Alviðruna og úti í Kanti.
Það var hins vegar svo að það fór að lóða vestan við Eyjar eftir hádegi á fyrsta degi eftir páskastoppið, allt þorskur og góður fiskur. Surtsey fékk þar góð hol af rótarfiski, þótt lítið kæmi fram á mælum og Gaui á Gullberginu sagði að þetta væri ekki öðrum megin á hund, en svo kom hann með 40 tonn að landi, blessaður. En þannig er sjómennskan, það reynir hver að bjarga sjálfum sér.
Vertíðin var síðan endaslepp, fjaraði hreinlega út löngu fyrir tímann og endaði illa. Fiskurinn kom hreinlega aldrei á Inn-Kantinn austur við Eyjar og austur undir Ingólfshöfða, en það svæði hefur oft gefið vel. Það kom bara enginn þorskur í líkingu við undanfarin ár."
Raskaði jökulhlaupið vetrarvertíðinni?
,,Hvað með stöðu þorsksins?"
,,Eftir því sem ég held, þá er staðreyndin sú að það er einfaldlega orðið svona lítið eftir af þorski á miðunum. Það var lítið af smáfiski í aflanum og það er uggvænlegt og kann ekki góðri lukku að stýra hve lítið af smáfisksvæðunum var lokað og samt sem áður kom lítið af smáfiski í aflanum hjá togurunum. Þetta bendir mjög sterklega til þess að lítið sé af þorski, því ætið var nóg, það sá maður á ufsanum. Það var nóg æti austur frá og góð skilyrði fyrir ufsann og þá þorskinn líka, en ég hélt mig þar á þessari forsendu, því oft hefur verið sagt að þorskurinn komi á eftir ufsanum. Hins vegar er ekki laust við að maður láti sér detta ýmislegt í hug og ég hef verið að velta því fyrir mér hvort jökulhlaupið í vetur hafi raskað stöðunni, það kom svo mikill gróður fram í sjó með hlaupinu og í netin og hugsanlega hefur fiskurinn fælst þessa drullu. Fýlan sem fylgdi hlaupinu leiddi um allan sjó og þetta var eins og súrhey í netunum og mikil marglitta í þessu einnig, en hún er með því ófiskilegra sem maður lendir í og nánast óþarfi að leggja þar sem hún er áberandi. Það var með ólíkindum að við fengum engan róður í Meðallandsbugtinni.
Kanturinn við Gjánna gaf ágætlega um tíma, sérstaklega fyrir Sigga á Suðurey og Lýð Ægis, en þeir voru í bestu stæðunum."

Steingrímur Sigurðsson og kona hans Guðlaug Ólafsdóttir. Steingrímur var nú nýlega veitt afreksmerki hins íslenska lýðveldis úr silfri, fyrir frábœrt björgunarafrek.Afreksmerkið rná sœma hvern mann sern hœtt hefur lífi sínu eða heilsu við björgun íslenskra manna úr lífsháska. Þess má geta að aðeins einu sinni áður hefur það verið veitt Íslendingi.Til hamingju Steingrímur.

„Tíðarfarið var óvenjulegur Ruddi"
„Það var ríkjandi vestan og suðvestanátt og hún hefur alltaf verið ófiskileg. þetta var óvenjulegur ruddi. Það var blíða í verkfallinu, blíða í þorskveiðibanninu og blíða þegar búið var að taka upp netin, en annars voru það aðeins tveir dagar á allri vertíðinni sem ekki var bræludjöfull."
„Hvað um þorsveiðibannið?"
„Ég tel það vera skynsamlegt og nauðsynlegt og að öllu jöfnu á þessum árstíma, en þó tel ég ekki vera rétt að ákveða það með svo löngum fyrirvara sem gert er, það þarf að meta ástand fisksins, hrygningu og fleira og ég tel augljóst að hægt sé að framkvæma þessa verndun á mun skynsamlegri hátt en gert er."