Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1980/Jómfrúarferðin og Maríufiskurinn
Jómfrúarferðin og Maríufiskurinn
Þorsteinn Þorsteinsson rafvirki er höfundur þessarar skemmtulegu greinar og er hún birt med góðfúslegu leyfi hans. Þó hvergi komi fram í greininni, hver sögupersónan sé, fer ekki hjá því að sterkur grunur falli á sjálfan höfundinn, sem er sonur Steina heitins á Sjöfninni, sem lengi var í hópi farsœlustu skipstjóra í Eyjaflotanum.
Loksins, loksins, hugsanirnar byltust í höföi drengsins. Loksins haföi hann náð því langþráða takmarki, sem flesta drengi í sjávarplássum dreymir um. Hann hafði fengið leyfi til þess að fá að fara sinn fyrsta róður. Drengurinn, sem var bæði lítill og pervisinn hafði lengi suðað í föður sínum, að fá að koma með á sjó, en fram til þessa, sennilega vegna þess hversu smár og pervisinn hann var hafði hann fram til þessa talað fyrir daufum eyrum. En nú þegar hann var á ellefta árinu hafði leyfið loks fengist.
Ýmsar fórnir hafði þetta nú kostað, en hvað var ekki á sig leggjandi til þess að fá að fara.
Jafnvel að fara umyrðalaust í ullarnærföt, sem ekki voru hans uppáhalsflíkur, þar sem hann klæjaði svo fjandi undan þeim, og hátíðlegt loforð um að steinhætta að svíkjast um að taka lýsið og fara nú að læra heima, það sem sett væri fyrir í skólanum.
Öllu þessu hafði hann lofað umyrðalaust, fengi hann að fara. Og nú var leyfið fengið. Nú skyldi hann fá að fara með næsta róður.
Skyldi ég verða sjóveikur? Skyldi ég fá að stýra? Kannski fæ ég að renna færi.
Spenningurinn heltók drenginn, og maginn fór í krampahnút. Og hver mínúta var sem klukkustund, en það er víst ekki nýtt hjá þeim sem bíða.
Drengurinn fór mjog snemma í háttinn, en sökum þess hversu spenntur hann var, gekk það seint að festa svefn. Þess vegna fannst honum, að hann væri nýsofnaður, er faðir hans ræsti hann og sagði, að ef hann ætlaði með yrði hann að drífa sig á fætur.
Strákur reif sig frammúr rúminu og dreif sig í fötin í miklu óðagoti, því síst vildi hann verða strandaglópur. En þegar fram í eldhús kom, þá var sem einhver kökkur væri í hálsinum á honum og matarlystin var engin, en hann en hann reyndi að bera sig mannalega og borða eitthvað, því hann var dauðhræddur við það, að ef faðir hans sæi hvernig honum liði, þá hætti hann við allt og skyldi hann eftir. En til þess kom ekki og haldið var til skips, en víða þurfti að koma við á leiðinni til þess að ræsa mannskapinn. Á einum stað var steini kastað í glugga og á öðrum stað var neftóbaksbauk barið þrisvar í húshorn og á þriðja staðnum var bankað gætilega í glugga, og alls staðar var það eins.
Það var eins og menn hefðu hreinlega sofið í gluggunum, svo fljótir voru þeir að gegna kalli, litu út um glugga og veifuðu. Og var þá strax haldið að næsta stað.
Svona gekk þetta þar til allir höfðu verið ræstir. Er þeir feðgar komu til skips var mannskapurinn farinn að tínast þangað og neðan úr mótorhúsinu heyrðist prímushljóð. Mótoristinn var mættur og farinn að hita glóðarhausinn. Og allt í einu kom skellur og síðan annar og síðan hver af öðrum. Vélin var komin í gang. Og að lítilli stundu liðinni skreið báturinn af stað, og í stýrishúsglugganum stóð drengurinn og horfði á bryggjuna og ljósin í bænum renna hjá.
Já loksins loksins var hann kominn af stað í sinn fyrsta róður.
Veðurútlit var gott og því ekki útlit fyrir að þeir yrðu einskipa á sjó, enda var mikið hreyfing á bátum í höfninni. Margir voru komnir af stað og aðrir að gera sig klára, og hreifst drengurinn mjög af allri þeirri ljósadýrð, er fyrir augu bar. Haldið var á hægri ferð út á Víkina, og var þar kúplað frá vélinni og beðið eftir blússinu. Því nú var róið með línu, og var þá gefið ljósmerki úr landi, þegar halda mætti af stað, og var þetta merki nefnt blúss.
Drengurinn fylltist miklum spenningi og starði í þá átt, sem honum var sagt að merkisins væri að vænta og virtist hann ekki vera einn um þá spennu, því þeir sem eldri voru virtust ekki síður spenntir. Var þetta um margt líkt því sem veðhlaup eða kappakstur væri í undirbúningi.
Var þetta mjög fögur sjón fyrir óvön augu og eflaust fleiri, að sjá þarna bát við bát uppljómaðan og svo speglunina frá þeim í rennisléttum sjónum.
Og þar kom blússið og breyttist þá hægagangshljóð bátanna í trylltan vélargný og allt fór á ys og þys.
Allir settu á fulla ferð á svipstundu og takmarkið var hjá öllum, að ná fyrstir á bestu fiskimiðin. Sumir fóru vestur fyrir aðrir suður með og enn aðrir beint austur. Og mátti það furðulegt teljast, að ekki skyldu verða árekstrar, þar sem þvílíkur bátafjöldi var, sem hélt af stað á sama augnablikinu á fullri ferð. Æsilegt var þetta, en einhvern veginn óskiljanlegt, fyrir drenginn, slampaðist þetta allt saman og brátt gisnaði bátaþvagan eftir því sem leiðir skildust.
Drengurinn var alveg hugfanginn og átti engin orð til að lýsa tilfinningum sínum og þögull stóð hann í stýrishúsglugganum og horfði á Eyjarnar og ljósin þar fjarlægjast meir og meir. Þeir héldu í austur, fyrir sunnan Bjarnarey, og heyrði drengurinn föður sinn eitthvað vera að tala um opinn foss og beið þess nú spenntur að sjá þennan foss, sem um var talað. Er hér var komið við sögu spurði faðir hans hann hvort hann vildi ekki leggja sig og samþykkti hann það, eftir smá fortölur og loforði um að hann yrði vakinn áður en byrjað yrði að leggja línuna.
Að því loforði fengnu hvarf hann í koju, viss um að hann mundi alls ekki sofna, en að lítilli stundu liðinni höfðu hreyfingar bátsins og reglubundið vélarhljóðið svæft hann. Það næsta, sem hann skynjaði var það að faðir hans vakti hann og sagði að nú yrði farið að leggja.
Það fyrsta sem drengurinn gerði er upp kom var að líta í kring um sig og hvernig sem hann rýndi í morgunskímunni þá sá hann engan foss. Hvar er fossinn spurði hann föður sinn og vonbrigða gætti í röddinni. Hvaða foss vinur, sagði faðir hans, sem eflaust hafði annað að hugsa. Þú varst að tala um opinn foss áður en ég fór að sofa, sagði strákur. Þá hló faðir hans og skýrði það fyrir honum, að þetta væri nafn á fiskimiði og væri fossinn, sem við væri miðað á þurru landi, og héti hann Skógafoss. Voru þetta drengnum talsverð vonbrigði, því hann hafði ímyndað sér allt annað.
Var nú línan lögð og fylgdist drengurinn með fullur áhuga hvernig beitustamparnir voru hver af öðrum bornir aftur að lagningskallinum, endar hnýttir saman og hvernig línan á fleygiferð rann í sjóinn. Förum við nú heim, spurði drengurinn. Nei, nei, sagði faðir hans, nú látum við reka og bíðum þess að fiskurinn bíti á. Má ég þá ekki renna færi, sagði drengurinn. Jú jú, en fyrst ætla ég að kippa að hinum enda línunnar, því þar byrjum við að draga. Er þangað var komið, gerði faðir drengsins færið klárt og sagði, að nú skyldu þeir renna, og sýndi honum hvernig hann ætti að bera sig að.
Jæja nú skaltu sýna hvað þú getur, ég ætla frammí og fá mér kaffi. Ef þú verður var, þá skaltu bara kalla á mig og ég skal þá hjálpa þér, ef með þarf. Ekki er að orðlengja það að drengurinn hóf skakið hinn vonbesti og ætlaði sér mikið. Og allt í einu er kippt í færið og svo aftur. Drengnum brá svo mikið, að það lá við að hann missti það úr höndum sér, en svo tók hann sig á og byrjaði að draga, en kippirnir voru svo miklir og færið svo þungt, að hann varð bara hálfsmeykur og þá var ekki að því að spyrja, hann hrópaði á föður sinn. Hann er á! Hann er á! Með þvílíkum hljóðum, að megnið af mannskapnum hljóp á dekk og hélt að eitthvað væri að. En þegar upp kom, þá sáu þeir hvers kyns var. Þarna voru ýmsir, sem vildu fá að hjálpa til og þreifuðu færið og sögðu að þetta væri örugg-lega lúða, það væri alveg pott þétt eftir kippunum að dæma. Hann væri ekki aldeilis lánlaus drengurinn, að setja í lúðu svona í fyrsta skipti sem hann renndi færi. Þetta yrði aldeilis kvennamaður, að fá lúðu sem Maríufisk.
Drengurinn sem var orðinn hinn roggnasti af öllu umtalinu, vildi ekki fyrir nokkurn mun sleppa færinu við nokkurn mann, hann vildi draga sinn Maríufisk sjálfur. Og smá saman hafði hann að mjaka því upp, en svitalaust var það ekki, og upp kom fiskurinn, en ekki reyndist það vera lúða, heldur var það ýsa, húkkuð um bakuggann og þar var komin skýringin á því hversu spretthörð hún hafði verið. Og aftur renndi strákur færinu, og varla hafði það snert botn, er hressilega var í það kippt og hófst nú sami leikurinn, nema hvað nú var svo af strák dregið, að hann þáði hjálp við að draga færið síðustu faðmana, og viti menn, nú var það lúða, þótt ekki væri hún stór. Ekkert varð úr því, að oftar væri rennt, því nú var kominn tími til að draga línuna, enda var drengurinn hæst ánægður með sinn hlut.
Var nú farið að draga línuna og fylgdist drengurinn með af vakandi áhuga, en þegar líða tók á dráttinn fóru hreyfingar bátsins að hafa áhrif á maga drengsins og þá fannst honum ekki lengur gaman að vera á sjó og endaði það með því að hann varð að færa sjávarguðinum Neptúnusi sína fyrstu fórn. Faðir drengsins, sem fylgst hafði vel með því sem var að gerast sagði, að nú skyldi hann herða sig upp og drífa sig á dekk, og blóðga alla þá fiska, sem hann réði við. Reyndist það hið besta meðal sem hægt var að fá við sjóveikinni, því þegar drengurinn fór að keppast við að blóðga, þá steingleymdi hann sjóveikinni.
Loks kom að því að drætti var lokið og var þá allt gert klárt til heimferðar. Fór þá drengurinn aftur upp í stýrishús, en þó með dálitlum kvíða því nú óttaðist hann að verða sjóveikur aftur. En faðir hans setti strax undir þann leka, því um leið og drengurinn kom, sagði hann honum að taka við stýrinu, því nú yrði hann að stýra heim. Við þetta lyftist heldur betur brúnin á strák. Þar með fannst honum, sem allar sínar óskir væru uppfylltar. Gaf faðir hans honum upp stefnuna og stýrði síðan strákur heim í krákustígum eins og viðvaninga er vandi. Er inn á Víkina kom sagði faðir hans að nú væri best að hann tæki við sem hann og gerði og var drengurinn mjög sáttur við það. Ekki er að orðlengja það að bátnum var lagt að bryggju og aflanum landað. En tveir voru þeir fiskar sem ekki fóru með. Voru það Maríufiskurinn og lúðan, sem voru í sérflokki og í sérstakri gæslu drengsins.
Er aflanum hafði verið landað og gengið hafði verið frá öllu um borð, var báturinn færður á ból og að því loknu héldu þeir feðgar heim.
Og hreykinn var drengurinn, er hann heilsaði móður sinnu og sýndi henni Maríufiskinn og lúðuna og sagðist hafa veitt þá sjálfur. Kyssti hún drenginn sinn og spurði hverjum hann ætlaði að gefa Maríufiskinn, því það er gamall siður, að gefa sinn fyrsta fisk til kirkjunnar eða einhvers þurfandi. Sagðist drengurinn ætla að gefa fiskinn gamalli konu, sem bjó ein í nágrenninu og voru foreldrar hans því mjög fylgjandi. En lúðuna ætti mamma að fá.
Að því búnu fór drengurinn með ýsuna til gömlu konunnar og gaf henni. Er hún vissi að þetta var Maríufiskur drengsins varð hún hálf klökk, kyssti drenginn og kjassaði og bað honum blessunar og heilla um ókomna ævi.
Er drengurinn hafði lokið erindinu hélt hann heim og var heldur rogginn, því nú fannst honum hann vera fullgildur sjómaður.