Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1980/„Ég á nóg af öllu.“

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

,,Ég á nóg af öllu"

Rabbað við Óskar Matt um vertíðina, sjómennsku, fiskverkun og fleira.

Í eldhúsinu að Illugagötu 2. Auðvitað var Þóra með heitt á könnunni.
Það er ekki dónalegur vinnukrafturinn sem handfjatlar þorskhausana í Nöf.

Það fór sem margan hafði grunað að Sigurjón á Þórunni Sveinsdóttur myndi reynast skeinuhættur á afstaðinni vertíð. Sjöunda skiptið hlýtur hann hinn eftirsótta titil Fiskikóngur Vestmannaeyja og er vel að honum kominn. Þar sem oft er búið að hafa tal af Sigurjóni í Sjómannadagsblaðinu og hann búinn að láta hafa eftir sér að nær sé að ræða við einhverja aðra, datt okkur ekki í hug að fara að hrella hann einu sinni enn. Og þar sem einnig er búið að spjalla við a.m.k. tvo aðra um borð á síðustu árum, datt okkur í hug að leita hófanna í landi hjá þeim aðila sem hvað mest hefur af bátnum og áhöfninni að segja og ákváðum að rabba eilítið við Óskar Matthíasson.

Óskar Matt eða Óskar á Leó eins og hann er einnig oft kallaður, þekkja allir Vestmanneyingar sem komnir eru til vits og ára. Óskar er Vestmanneyingur, fæddur 22. mars 1921 og byrjaði sína sjómennsku hjá Ragnari Þorvaldssyni, síðan með Ingibergi á Auði og var síðan víða með öðrum þar til hann tók við formennsku á Glað 1944 um sumarið og var síðan með Skuldina á vetrarvertíð 1945. Sjóferðasaga Óskars verður ekki rakin hér til neinnar hlítar enda hefur það verið gert áður í þessu blaði en hann hefur alla sína tíð verið happa og aflamaður.

Við kvöddum dyra á hinu reisulega húsi Óskars og konu hans Þóru SigurjónsdótturIllugagötu 2 hinn 1. maí, einmitt þann dag sem ríkisvaldið tilkynnti að vetrarvertíð skyldi formlega lokið. Þótt Óskar væri í óðaönn að undirbúa slútt um kvöldið fyrir sitt fólk til sjós og lands, var það einkar auðsótt mál að fá að leggja fyrir hann nokkrar spurningar um vertíðina og mannlífið yfirleitt. Afraksturinn af spjalli okkar þennan frídag verkamanna fer hér á eftir.

Hver finnst þér vera aðalmunurinn á sjómennsku í dag og þegar þú byrjaðir. Það er afskaplega mikill munur á bátunum, sjáðu. Það er ógurlegur munur að róa á bátum sem eru þetta á annað hundrað tonn, tvö, þrjú hundruð og jafnvel stærri, heldur en að róa á 15-20 tonna bátum, þetta er eins og dagur og nótt. Það er ekkert hægt að líkja því saman. Og svo þegar þetta er nú orðið yfirbyggt líka. Þetta hlýtur bara að vera orðinn lúxus. Nú ég segi við strákana að ég hafi bara gert þetta fyrir þá, svo þeir þyrftu ekki að kaupa sér sjóhatta, -segir Óskar og brosir breitt,- að byggja yfir Þórunni.

Nú er Sigurjón hæstur á vertíð í sjöunda skipti. Er þetta einhver tilviljun hjá honum? Það held ég ekki, ég held það sé engin tilviljun. Þetta bara fylgir sömu mönnunum því yfirleitt eru þetta sömu mennirnir sem eru á toppnum. Og þetta kemur ekki nema með kraftmönnum, það eru alveg hreinar línur sko. Og með kraftamannskap, þetta gerir enginn einn maður, það þarf að hafa duglega menn með sér. Nú útgerðin þarf að vera í lagi líka, svo ég tali nú ekki um samheldnina. Mannskapurinn þarf að standa saman eins og ein fjölskylda, það er númer eitt.

Nú sækið þið á Þórunni Sveinsdóttur sjaldan háseta vestur fyrir Þjórsá, þetta eru Landeyingar, Eyfellingar og Skaftfellingar ár eftir ár. Er einhver sérstök ástæða fyrir því?

Nei það held ég ekki, en þetta er alveg rétt, þetta eru allt sveitamenn hérna ofan að eða megnið að þeim.

Er þetta betri stofn? Þetta er mjög góður stofn. Svo hefur alltaf verið mikið af Vestmanneyingum bæði hjá mér og honum líka. Góðir menn og þessir menn hafa verið ár eftir ár hjá okkur.
Ein samviskuspuming.Nú hefur þú stundað sjó í fjölda mörg ár og gengið vel. En er Sigurjón meiri fiskimaður en þú?
Já, já miklu meiri, það eru alveg hreinar línur. -Og enn hlær Óskar.
Segðu mér eitt. Nú eigið þið bátinn saman. En hefur það aldrei komið fyrir að honum hafi þótt þú orðinn heimaríkur og viljað ráða og skipa sér fyrir?
Aldrei nokkurn tíma, mér hefur aldrei dottið það í hug sko. Aldrei orðað það. Að ég færi að ráðskast með hvert hann færi eða svoleiðis nei aldrei nokkurn tíma sko.

Og ekki heldur þegar hann byrjaði?
Nei aldrei. Hann hefur oft spurt mig, bara svona hvað ég héldi, en sennilega ekkert farið eftir því. Það hugsa ég ekki.

Skipshöfnin á Þórunni Sveinsdóttur vertíðina 1980. Talið frá vinstri: Ægir Sigurðsson, Vestm. matsveinn, Halldór Þ. Jónsson Rvk. háseti, Björn Óskarsson A-Landeyjum háseti, Guðni Jónasson A-Eyjafj. háseti, Óskar Óskarsson A-Landeyjum háseti, Böðvar Sverrisson Vestm. 2. vélstj., Ólafur Kristinsson Vestm. háseti, Matthías Sveinsson Vestm., 1. vélstj., Haraldur Þ. Gunnarsson Vestm. háseti, Óskar Ólafsson Vestm. stýrim., Sigurjón Óskarsson Vestm. skipstjóri.

Þegar þú hættir til sjós, þá sest þú ekki í helgan stein, heldur snýrð þér að fiskverkun. Hvað er það sem rekur menn út í svona hluti, bæði útgerð og fiskverkun? Er þetta athafnasemi eða bara ágirnd?

Ekki náðist að smella mynd af áhöfninni á Gullberginu áður en lagt var í siglingu. En í staðinn birtum við mynd af fjórum sem verið hafa um borð frá upphafi. Að ofan Guðjón Pálsson skipstjóri og Ólafur Sigmundsson vélstjóri og að neðan Hreinn Gunnarsson og Sveinbjörn Jónsson.
....já Sigurjón er meiri fiskimaður, það eru hreinar línur
....ég held að ég hafi alltaf þénað á útgerð
....og því mega sjómenn ekki eiga frí eins og aðrir?

Já er það ekki ágirnd? Ég held það,- segir Óskar og brosir við. Ég held það sé bara helvítis ágirnd og ekkert annað. En það er hundleiðinlegt að standa í þessum andskota, hundleiðinlegt.
Eina samviskuspurningu í viðbót. Nú hefur alltaf gengið vel hjá þér. Er hægt að þéna á útgerð?
Eftir nokkra þögn kemur svarið: -Ég held að ég hafi alltaf þénað á útgerð, alla tíð, ég held það. Það hefur kannski verið bókhaldslega hægt með afskriftum að segja að það hafi verið tap en raunverulega held ég að ég hafi alltaf þénað. Hitt er annað mál að það þarf að reka útgerð myndarlega, það þarf að reka þetta allt myndarlega, því allir reyna að kroppa af þessu eins og hægt er. Og það þarf að halda vel við, oft spyrna á móti ýmsu. Það eru alveg hreinar línur sko.
Er auðveldara að gera út núna en fyrir svo sem tuttugu árum?
Jáh, það er nú það. Þetta er orðið svo ofboðslega dýrt í dag og vextirnir orðnir svo miklir á þessu að það ræður enginn við þetta. Það er hoplaust að fara út í þetta. Ég tel það. Til dæmis að ætla að láta byggja nýjan bát núna, það er algerlega hoplaust.
Vertíðin er búin að vera góð í vetur. Bjóst þú við svona góðri vertíð?
Ég hef aldrei verið að spekúlera í því. Ég hef bara horft fram á veginn með björtum augum og aldrei spekúlerað neitt í slíku.

En þú ert ánægður með þessa vertíð? Já, já, ég er ánægður með hana. Mjög ánægður. Og ég vil meina að það sé meiri fiskur núna en nokkurn tíma áður. Við getum bara litið á hlutina eins og þeir eru. Við gátum verið að skrölta frá áramótum og fram til 15. maí, var kannski verið að rembast við að halda titlinum, en þarna munar bara 25 dögum. Það eru teknir núna tíu bestu dagarnir af vertíðinni, þeim er kippt í burtu. Maður fékk mikið á þessum dögum hér áður, um páskana, kom kannski með 60-70 tonn inn. Nú er þetta bara allt annað. En þú sérð það núna, að Sigurjón er kominn í tæp 1200 og einn er líklega kominn í 1500 tonn í Þorlákshöfn. Jú Sæbjörgin komst reyndar í 1650 tonn um árið, en ég tel að það sé meiri fiskur núna. Og algerlega nýtt eins og í vetur, í febrúar, hugsaðu þér, Valdimar Sveinsson er að koma úr kantinum með 50 tonn, þetta hefur ekki þekkst fyrr.
Hvert er þá þitt álit á þeim stöðvunum sem gerðar voru í vetur, fyrst um páskana og svo núna í lok apríl? Á þetta rétt á sér?
Ég segi að þetta sé engin vitleysa. Það getur nú verið af því ég er orðinn verkandi líka. Fyrst og fremst er komið með mjög lélegt hráefni eins og við vitum, það var verið að koma með fjögurra nátta fisk og þetta var handónýtt helvíti. Svo er þetta unnið í helgidaga- og næturvinnu, svo ég álít bara rétt að gera þetta. Og því mega sjómenn ekki alveg eins hafa frí eins og aðrir? Það hafa allir frí. En þessir menn þurfa endilega að djöfla sér út eins og andskotinn. Eins og á jólunum. Ég vil algerlega banna að fara á sjó bæði á bátum og togurum á jólunum, alveg hreinar línur.
Hvað segirðu þá um daginn í dag (1. maí). Nú segir í samningum að ekki skuli verið á sjó, en ráðuneytið gefur út reglugerð um að togveiðar séu leyfðar á ákveðnu svæði frá 1. maí og nú er vitað mál að samningar eru brotnir víða vegna þess að menn vilja vera fyrstir á staðinn. Hvað á að gera í svona málum?
Ég segi að það eigi að leyfa mönnum að róa 1. maí. Ég tel hann ekkert okkar dag, hann er dagur þess fólks sem vinnur í landi, við eigum sjómannadaginn. En svo eru skiptar skoðanir á þessu. Og mér finnst það helvíti hart að sumir skuli geta verið að sleikja miðin þama austur við Ingólfshöfða 1. maí, bátar sem eru yfir 160 tonn en þeir minni mega ekki hreyfa sig.
Hvernig er þinn vinnudagur, nú eftir að þú ert kominn í land?
Ja ég er alltaf kominn upp kl. hálf átta á morgnana og kominn niður í hús á hverjum einasta morgni kl. 8 og er þar þangað til hætt er að vinna, eða einhvers staðar nálægt húsinu. Það eru alveg hreinar línur að það sem ég rek, því kem ég nálægt. Þannig mun ég hafa það. Og um leið og ég hætti sjálfur að geta staðið í þessu þá vil ég hætta þessu helvítis drasli.
Nú hef ég það einhvern veginn á tilfinningunni að þú munir hreint ekkert hætta strax og sennilega ekki fyrr en þú verður borinn beint upp í kirkju úr saltbingnum niðri í Nöf. Þú ert að verða sextugur. Ertu með einhver áform um að halda áfram í svo og svo mörg ár í viðbót og setjast þá í helgan stein?
Nei, en maður bara veit það Sigurgeir, að maður getur átt svona fimm til tíu ár eftir og það er ekki langur tími. Og maður á nóg af öllu og þarf ekkert að vera að þessu.
Þú ert sem sagt meira að þessu í dag vegna þess að þú átt eitthvað eftir?
Já, maður er hraustur og allt svoleiðis. En hitt er annað mál að maður á að hætta áður en maður drepur sig á þessu helvítis drasli. Það finnst mér.

Þig vantar sem sagt ekki fyrir salti í grautinn, það er ekki þess vegna sem þú ert að þessu?
Nei, ég á nóg af öllu.
Nú er út af ykkur hjónunum kominn einhver ágætasti fiskimannakynstofn sem sögur fara af. Er þetta frá þér eða henni Þóru komið, þessir hæfileikar?
Ætli það sé ekki bara frá báðum ha'? Ég hugsa það. En sjómannseðlið er nú sennilega meira komið frá mér, ég veit ekki um mikið af slíku blóði í hennar ætt.
Er það eitthvað Óskar frá þessari vertíð sem nú er lokið sem þér er sérlega minnistætt eða hugleikið?
Það er eitt sérstakt við þessa vertíð í vetur. Við höfum ekki kynnst því fyrr hér að netabátur kæmi með yfir 100 tonn að landi, öðru vísi en hann væri þá að fiska í sig. Ég man eftir að hann Binni komst í eitthvað rúm 80 tonn austan úr bugt fyrstu dagana í maí og Sigurjón komst í eitthvað svipað fyrir þremur fjórum árum, en þetta finnst mér merkilegt, að koma með yfir 100 tonna róður. Og þetta er dregið í einni lotu
Náttúrulega er þetta sumt tvídregið, eitthvað af trossunum. Og þetta er mikil vinna fyrir mannskapinn. En þeir mega líka vita að þeir geta sofið báðar leiðir og það er 8 til 9 tíma stím. Og þér er óhætt að segja körlunum að ég vorkenni þeim ekki neitt, það eru alveg hreinar línur, -segir Óskar og brosir sínu breiðasta. Maður hafði ekki þennan svefn hér áður fyrr, ekki á heímamiðum. Þá var oft farið um leið og búið var að landa og baujan tekin í myrkri. Ég held það séu hreinar línur að þetta er langtum rólegra. Og þó þeir fái að standa kannski upp í sólarhring, meðan á þessu stendur, þá vorkenni ég þeim ekki neitt. Þeir fá góða hvíld á stímunum.

Og þar með ákváðum við Óskar að hætta formlegum samræðum fyrir Sjómannadagsblaðið. En niðri beið Þóra með kaffi og pönnukökur og þar varið haldið áfram að spjalla um þessa hluti og aðra. Og það var góðri stundu seinna sem ég loks kvaddi þessi dugmiklu og geðþekku hjón sem með sínum eigin dugnaði rifu sig upp úr fátækt og allsleysi í það að eiga eins og þau segja bæði, nóg af öllu.
-SJ.

Og ekki á þessi hvað sístan þátt í hvað veiðarfærin eru aflasæl. Sveinbjörn Snæbjörnsson sér um að hver hlutur sé á sínum stað.