Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1979/Einstakur mórall um borð
Það fór sem margan hafði grunað, að Sigurjón á Þórunni myndi enn á ný verða á toppinum á vertíðinni. Lengi hefur það verið hefð að hafa smá spjall við fiskikónginn, en í hitteðfyrra kvað Sigurjón upp úr með það, að það væri nóg búið að tala við sig í bili og sjálfsagt allir orðnir hundleiðir á sér. Þá var rabbað við Matthías vélstjóra og í ár þykir okkur ekki nema sjálfsagt að ræða við þann, sem sumir segja, að allt um borð grundvallist á, eða kokkinn. Þórunn Sveinsdóttir var nýkominn úr siglingu, þegar við bönkuðum upp á og að sjálfsögðu vat trekktur upp sá öndvegisdrykkur Elefant yfir spjallinu.
Ægir Sigurðsson matsveinn er fæddur hér í Eyjum 10. ágúst 1945 sonur hjónanna Sigurðar Jónssonar frá Engey og konu hans Kristborgar Jónsdóttur frá Hornafirði og var æskuheimili hans að Brekku við Faxastíg.
Hvenœr byrjaðir þú til sjós?
13 ára á gamla Björgvin með pabba. Við vorum á humartrolli og ég var ráðinn kokkur upp á hálfan hlut. Þar hlaut maður eldskírnina í kokkaríinu. Sjóveikur?
Ekki svo mjög, aðeins í byrjun. Áhuginn var svo mikill, að maður mátti ekkert vera að því að vera sjóveikur.
Hefurðu alltaf verið í eldamennskunni?
Nei, háseti af og til en líklega lengur kokkur. Ég er líka búinn að reyna öll veiðarfæri nema reknetin, þeim hef ég aldrei komið nálægt.
Og lengi búinn að vera á Þórunni?
Já, ég er búinn að vera þar um borð, síðan hún kom hingað að einu ári undanskildu. Svo var ég reyndar búinn að vera með Óskari á Leó nokkuð lengi áður. Líklega ein 10 ár, sem ég hef verið hjá þeirri útgerð.
Ertu eitthvað lœrður í matreiðslu?
Nei, ekki nema það, sem konan og mamma hafa kennt mér. En Ögmundur tók mann í tíma á Björgvin, hann var útlærður kokkur og kenndi mér marga hluti,
Er ekki aðstaðan önnur á nýju skipunum miðað við það sem gerðist á þeim gömlu?
Jú, biddu fyrir þér, þetta er allt annað líf og hreinasti lúxus miðað við gömlu lúkarana með olíuvél og tilheyrandi. Því er ekki saman að jafna.
Þú vinnur alltaf á dekkinu líka?
Já, ég fer yfirleitt alltaf á dekkið, þegar ég kemst. Maður verður að fá einhverja hreyfingu og engin ástæða til að hanga aðgerðarlaus, ef þörf er fyrir mann uppi á dekki. Það verður líka miklu skemmtilegri mórall um borð, ef allir hjálpast að við vinnuna. Enda er alveg einstakur mórall um borð í Þórunni.
Hvernig er að vera með Sigurjóni?
Það er mjög gott, bara alveg yndislegt. Hann er bara eins og einn af okkur strákunum og hægt að tala við hann eins og jafningja sinn. Þar er sko ekkert mikilmennskubrjálæði.
Hvernig var þessi vertíð?
Hún var góð, mjög góð, sennilega einhver albesta vertíðin okkar til þessa. Við fiskuðum vel yfir þúsund tonn, ef siglingartúrinn er meðtalinn og fengum þennan afla á skömmum tíma, þannig að útkoman er ágæt.
Hefurðu stundað einhverja aðra vinnu en sjómennsku?
Ekki svo talist geti. Maður er búinn að vera á sjó frá 13 ára aldri, hefur jú komið fyrir, að maður hefur skroppið í stöð milli úthalda en aldrei nema skamman tíma.
Víst er maður oft að hugsa um að fara í land, en alltaf er maður kominn út á sjó á nýjan leik. Það má segja, að fjölskyldulífið fari að miklu leyti forgörðum hjá sjómönnum og þyrfti vissulega að fjölga frídögum. Mér finnst ekkert athugavert við það, að sjómenn fengju frí um hverja helgi eins og annað fólk. Nú svo er alltaf verið að tala um að friða fiskinn meira, það ætti að koma vel heim og saman við fjölgun á fríum. Að vísu myndu launin e.t.v. minnka en þó er það ekki víst, friðunin gæti alveg jafnað það upp.
Eru launakjör sjómanna réttlát?
Nei, ekki miðað við það, hve langan vinnutíma þarf til að hafa það gott. Það má segja, að á toppskipum eins og hjá okkur sé útkoman ágæt, en við skulum heldur ekki gleyma því, að það er gífurleg vinna sem liggur að baki fiskiríi yfir 1000 tonn. Svo má ekki einblína á toppana, eins og yfirleitt er gert, þeir eru áreiðanlega margir, sem ekki hafa riðið feitum hesti frá þessari vertíð og það er ábyggilega lítið gaman að eiga að lifa af tryggingunni eins og verðlagið er í dag.
Hvernig er mataræðinu háttað hjá þér?
Yfirleitt er ég með fisk í hádeginu og þá ýmist steiktan eða soðinn, en aftur kjötmáltíð á kvöldin. Mér finnst sjálfsagt að nota fiskinn eins og hægt er, hann er gott hráefni og að auki ókeypis.
Eru menn matvandir um borð í Þórunni?
Nei, það er ekki hægt að segja. Það hefur raunar komið fyrir, að einn og einn hefur verið með röfl í upphafi vertíðar, en þá hefur sá hinn sami verið tekinn í karphúsið og ekki borið meira á því.
Hver er þinn uppáhaldsmatur?
Ja, það veit ég ekki. Mér finnst allur matur góður, sé hann vel eldaður og framreiddur.
Og þar með látum við lokið spjallinu við Ægi Sigurðsson. Hann býr að Herjólfsgötu 5, en það hús keypti hann 1969 og hefur búið sér þar hlýlegt heimili ásamt konu sinni Jennýju Ásgeirsdóttur frá Reykjavík og eiga þau tvö börn. Við óskum Ægi og Skipsfélögum hans á Þórunni Sveinsdóttur til hamingju með daginn og það að vera enn eina vertíðina aflahæstir í Vestmannaeyjum.